Togari Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar, Júní GK 345 og fjær á myndinni er Venus GK 519 sem fyrst var í eigu h.f. Belgaum í Hafnarfirði, liggja hér báðir við legufæri í Hafnarfjarðarhöfn. Myndin er sennilega tekin árið 1956, að haustinu og jafnvel stuttu áður en Venus slitnaði upp og rak upp í vestari hafnargarðinn í ofsaveðri hinn 30 nóvember það ár. Eftir það var togarinn talinn ónýtur og seldur í brotajárn. Gufuketillinn úr Venusi endaði svo í hinni nýju síldarbræðslu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað sem byggð var á árunum 1957-58. Það var ekki óalgeng sjón á árunum upp úr 1960, að sjá togara sem hafði verið lagt inn á Kleppsvíkinni í Reykjavík og lágu þeir þar sumir hverjir árum saman áður en þeir voru svo seldir fyrir slikk eða í brotajárn. Sannarlega illa farið með góð og falleg skip. Þar var að mestu leiti rekstrarvanda um að kenna og einnig mjög erfitt að manna þá, en á þessum árum var síldarævintýrið síðara í fullum gangi og sóttust sjómenn þá frekar eftir því að fara á síldarbát, því það gaf mun meira af sér.
|
Venus GK 519 fjær og Júní GK 345 í bólum sínum í Hafnarfjarðarhöfn. Ljósmyndari óþekktur.
|
Nýsköpunartogarinn Júní GK 345 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1951 fyrir Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. Hét Höfrungur á smíðatíma. 732 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 56,80 x 9,21 x 4,60 m. Smíðanúmer 735. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar hinn 13 mars sama ár. Togarinn var seldur í júní árið 1964, Evengelos J. Stathakis & Sons í Piraeus í Grikklandi, hét þá Koutouriaris S. lll. Ný vél (1971) 1.630 ha. Werkspoor díesel vél. Selt 1984, Korali NE Atlantic Fishing Co í Piraeus í Grikklandi, hét þá Nikolaos lll. Skipið var selt 1994, Al. Samali & Co í Conakry í Gíneu. Talið ónýtt og og tekið af skrá árið 2002. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
|
Botnvörpungurinn Venus GK 519 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1929 fyrir Hlutafélagið Belgaum í Hafnarfirði. 415 brl. 700 ha. 3 þennslu gufuvél. 43,58 x 7,66 x 4,30 m. Smíðanúmer 533. Skipið var selt 27 febrúar 1937, Hlutafélaginu Venusi í Hafnarfirði. Togarinn slitnaði úr bóli í Hafnarfjarðarhöfn í ofsaveðri 30 nóvember 1956 og rak upp í vestari hafnargarðinn og sökk þar. Skipið var talið ónýtt og selt í brotajárn í mars árið 1962. Gufuketillinn úr Venusi var seldur Síldarvinnslunni h/f í Neskaupstað árið 1957-58 sem notaði hann í hinni nýbyggðu síldarbræðslu sinni. Sú síldarbræðsla eyðilagðist í snjóflóði 20 desember 1974, en gufuketillinn stendur enn á grunni gömlu verksmiðjunnar. (C) Guðbjartur Ásgeirsson. Úr safni Óttars Guðmundssonar.
|
Gufuketillinn úr Venusi GK 519 á grunni gömlu síldarbræðslunnar í Neskaupstað sem eyðilagðist í snjóflóði 20 desember árið 1974. Ketillinn er nú hluti af minningarreit um þá starfsmenn Síldarvinnslunnar sem látist hafa af slysförum í gegn um tíðina. (C) Elín Anna Hermannsdóttir. |
|
|
|
Skrifað af Þórhalli S Gjöveraa.