01.10.2022 19:03
Breski togarinn City of London GY 188 strandar við Klapparvík.
Það var hinn 27 janúar árið 1909 að breskur togari, City of London GY 188, sigldi inn á Reykjavíkurhöfn og lagðist við ankeri á höfninni. Togari þessi var þá nýkominn til landsins og ekki hafið veiðar enn. Um miðjan dag er veður versnaði og gerði suðvestan hvassviðri þá slitnaði hann upp og rak á land í klettana við Klapparvör. Töluverðar skemmdir urðu á togaranum, m.a. komu nokkur göt á botn hans. Björgunarskipið Geir náði togaranum á flot nokkrum dögum síðar. Geir var þá nýlega kominn til landsins og var þetta fyrsta björgun hans hér við land.
Grimsbytogarinn City of London GY 188 var smíðaður hjá Edwards Brothers (Howdon) í North Shield‘s í Englandi árið 1897 fyrir Hagerup, Doughty & Co Ltd í Grimsby. 226 brl. 71 nt. 400 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð hjá North-Eastern Marine Engineering Co Ltd í Wallsend. 129,6 x 22,6 x 10,8 ft. (ensk) Smíðanúmer 536. Í apríl 1906 er togarinn í eigu Consolidated Steam Fishing & Ice Co Ltd í Grimsby. 1913 er hann í eigu Thomas W Ward Ltd í Sheffield. Í ágúst 1916 er togarinn í eigu Robert D Clarke í Grimsby og fær þá skráningarnúmerið GY 955. Togarinn var seldur til Spánar í september árið 1920.
Það má geta þess hér að Klapparstígur í Reykjavík dregur nafn sitt að klöppunum, Klapparvík og vörinni þar sem margir Reykvíkingar drógu áraskip sín á land. Bærinn Klöpp stóð þarna rétt vestan við klappirnar að ég held og var hann rifinn stuttu eftir að British Petrolium (BP), reisti sína olíustöð á uppfyllingu þarna á klöppunum árið 1929.
![]() |
Grimsbytogarinn City of London GY 188 á strandstað í Klapparvík. Mynd úr safni mínu. |
Skipstrand
Aðfaranóttina 28. þ. m. rak enskt botnvörpuveiðagufuskip, er lá hér á höfninni upp í klettana við Klapparvör, og komu göt á það, svo sjór féll inn. Liggur það þar enn, og er óvíst hvort því verður náð út. Skipið heitir „City of London" og er frá Grimsby.
Þjóðviljinn + Þjóðviljinn ungi. 3-4 tbl. 31 janúar 1909.
![]() |
||
City of London á strandstað í Klapparvík. (C) Söfart Historiet.dk.
|