30.06.2023 18:49

Japanstogararnir. / 1280. Rauðinúpur ÞH 160 TFSJ.

Skuttogarinn Rauðinúpur ÞH 160 var smíðaður hjá Niigata Engineering Co Ltd í Niigata á Honshu eyju í Japan árið 1973 fyrir Jökul h.f. á Raufarhöfn. 461 brl. 2.000 ha. Niigata vél, 1.471 Kw. 47,03 x 9,52 x 5,50 m. Smíðanúmer 1163. Kom til heimahafnar á Raufarhöfn hinn 5 apríl árið 1973. Fyrsti skipstjóri var Hörður Guðjónsson og 1 vélstjóri Ágúst Geirsson.
 

Rauðinúpur ÞH 160 í heimahöfn.                                        (C) Raufarhöfn.net
 




                                     Rauðinúpur ÞH 160

5. apríl kom til landsins fimmti skuttogarinn, sem smíðaður er fyrir Íslendinga í Japan og ber hann nafnið Rauðinúpur ÞH 160 og er eign Jökuls h/f Raufarhöfn. Skuttogarinn er smíðaður hjá Niigata skipasmíðastöðinni. Rauðinúpur er í öllum meginatriðum eins og Vestmannaey (4. tbl. 1973), en nokkur atriði eru frábrugðin. Fyrirkomulag á vinnuþilfari er með öðrum hætti. Frá fiskmóttöku að þvottavél, sem staðsett er rétt aftan við lestarlúgu, eru tvö færibönd, og liggur annað færibandið beint uppi af hinu. Til hliðar við þessi færibönd eru aðgerðarborð og stíur fyrir fisk. Neðra færibandið skilar fiski að aðgerðarborðum, en eftir aðgerð fer fiskurinn eftir efra færibandinu, sem skilar fiskinum inn í þvottavél. Frá þvottavél fer fiskurinn síðan niður í lest. Engir lifrargeymar eru í skipinu og stækkar lestarrýmið þar af leiðandi. Ennfremur er í skipinu asdictæki frá Furuno, sem er ekki í Vestmannaey. Skipstjóri á Rauðanúpi ÞH er Hörður Guðjónsson og 1. vélstjóri Ágúst Geirsson. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Ólafur Kjartansson. Ægir óskar eigendum svo og skipshöfn til hamingju með hið glæsilega skip.

Ægir. 15 maí 1973.

Flettingar í dag: 1882
Gestir í dag: 116
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1192284
Samtals gestir: 83672
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:39:31