03.07.2023 07:22

Japanstogararnir. / 1307. Arnar HU 1 TFUM.

Skuttogarinn Arnar HU 1 var smíðaður hjá Narasaki Zosen K.K. í Muroran á Hokkaido eyju í Japan árið 1973 fyrir Skagstrending h.f á Skagaströnd. 462 brl. 2.000 ha. Niigata vél, 1.471 Kw. 47,10 x 9,52 x 5,50 m. Smíðanúmer 834. Kom til heimahafnar sinnar, Skagastrandar hinn 15 október árið 1973. Fyrsti skipstjóri var Guðjón E. Sigtryggson og vélstjóri var Kjartan R.P. Kjartansson.
 

Arnar HU 1 í heimahöfn.                                   (C) Ljósmyndasafn Skagastrandar.




                                                   Arnar HU 1


15. október s. l. kom skuttogarinn Arnar HU 1 til heimahafnar sinnar, Skagastrandar, frá Japan. Arnar er smíðaður hjá Narasaki skipasmíðastöðinni og var 6. skuttogarinn, sem þar var smíðaður fyrir Íslendinga, en 4 voru smíðaðir hjá Niigata. Þetta var því tíundi og jafnframt sá síðasti af japönsku skuttogurunum, sem samið var um á sínum tíma. Skipið er eign Skagstrendings h.f. Lýsing á Vestmannaey VE í 4. tbl. Ægis 1973 á við þetta skip í öllum meginatriðum, en hér verður getið helstu frávika. Fiskmóttökulúga framan við skutrennu opnast upp og jafnframt er vökvaútbúnaður á skutrennuhliði. Búnaður á vinnuþilfari var settur niður eftir að skipið kom til landsins, en á vinnuþilfari eru aðgerðarborð, færibönd til flutnings á fiski og 2 stk. Simfisk þvottaker. Fremst á vinnuþilfari er ísklefi um 14 m3 að stærð, en engin ísvél er í skipinu. Engir lifrargeymar eru í skipinu, en við það stækkar lestarrými um ca. 13 m3 . Lestin er öll gerð fyrir kassa, en slíkt fyrirkomulag er einnig í Páli Pálssyni ÍS, en í hinum japönsku togurunum er uppstilling í 1/3 hluta lestar. Af tækjum í brú, til viðbótar þeim, sem lýst er í 4. tbl., eru togmælar frá Tokyo Keiki og asdiktæki, Furuno FH-203. Ýmsar fyrirkomulagsbreytingar hafa verið gerðar m. a. í vélarúmi, eldhúsi og á brú skipsins, sem hefur verið stækkuð og settir fleiri og stærri gluggar á hana. Skipstjóri á Arnari HU er Guðjón E. Sigtryggsson, og 1. vélstjóri Kjartan R. P. Kjartansson. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Sveinn Ingólfsson.

Ægir. 18 tbl. 15 október 1973.

Flettingar í dag: 1882
Gestir í dag: 116
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1192284
Samtals gestir: 83672
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:39:31