05.07.2023 05:37
B.v. Apríl RE 151 LBMT.
Botnvörpungurinn Apríl RE 151 var smíðaður hjá Smith‘s Dock Co. Ltd. South Bank í Middlesbrough í Englandi árið 1912 fyrir Fiskiveiðahlutafélagið Ísland (Jes Zimsen og fl.) í Reykjavík. 293,23 brl. 510 ha. 3 þennslu gufuvél. 41,16 x 7,14 x 3,80 m. Smíðanúmer 519. Hjalti Jónsson (Eldeyjar-Hjalti) var fyrsti skipstjóri á Apríl og 1 stýrimaður var Þorgrímur Sigurðsson, seinna skipstjóri á Jarlinum frá Ísafirði. Vélstjóri var Ólafur Jónsson. Apríl mun hafa verið vandað að allri smíð og talið gott sjóskip. Held að það hafi verið fiskað ágætlega á því. Í þriðju veiðiferð Hjalta á Apríl, var hann tekinn í landhelgi af varðskipinu Islands Falk (Valurinn) inni á Breiðafirði. Afli og veiðarfæri gerð upptæk, sem þeir keyptu svo aftur á lítið fé, og fengu 1.000 kr sekt. Haustið 1914 ákvað Hjalti að halda til veiða á Grænlandsmið á Apríl. Lítið varð ágengt í þessari ferð vegna mikils ísreks og kolaforði skipsins á þrotum, svo haldið var heim á leið. Mun þetta vera fyrsta ferð Íslensks fiskiskips til veiða á Grænlandsmiðum. Hjalti hætti skipstjórn á Apríl stuttu eftir þessa ferð, og við skipstjórn tók Þorsteinn Þorsteinsson í Bakkabúð. Skipið var selt haustið 1917, Franska flotanum og hét þar Sapajou. Komst í eigu H. Véron et Compagnie í La Rochelle í Frakklandi hinn 7 maí 1919, eftir að togari sem þeir áttu hafði farist í þjónustu flotans. Fékk þá nafn togarans sem fórst, Poitou LR 2345. Seldur 1938, Association Rochelaise de Peche á Vapeur í La Rochelle. Árið 1939 er togarinn aftur tekinn í þjónustu franska flotans, sama nafn en skráningarnúmer AD 216. Skilað til eigenda í Toulon í Frakklandi í október 1940. Togarinn var hertekinn 8 nóvember 1942 af Bandaríska tundurspillinum Bristol út af Fedhala í Marokko við innrás Bandamanna í Norður-Afríku. Togaranum var sökkt með tundurskeyti af þýska kafbátnum U 432 út af El Jadida í Marokko hinn 17 desember árið 1942.
Það var ein nýlunda við smíði þessa skips út í South Bank, sem þó heyrði ekki til útbúnaðar þess, en það var svokallað „harmoníum“, (lítið orgel). Grípum niður í Sögu Eldeyjar-Hjalta sem skrifuð var af Guðmundi G Hagalín;, Það var oft að fólk kom að heimsækja Hjalta, þegar hann lá í höfn á Íslandi, og var þá tíðum gleðskapur á ferðum. Stundum var sungið, og þótti svo vöntun, að ekki skyldi vera við höndina hljóðfæri, ef einhver var viðstaddur, sem kunni að spila. „ Ég vil gjarnan fá lítið harmoníum í skipstjóraherbergið, mælti Hjalti svo einu sinni við herra Reed, yfirverkfræðinginn (hjá Smith‘s Dock)
Það getið þér fengið. Hvað dýrt ? O, svona 10 pund. Ég spila ekkert sjálfur, en mér þykir gaman, að hægt sé að grípa þarna í hljóðfæri, þegar svo ber í höfn. Ég kaupi þetta fyrir mína eigin peninga. Það er nú ekki sérlega gott hljóðfæri sem fæst fyrir 10 pund, mælti herra Reed. Nógu gott, mælti Hjalti. Það er nú allt svo vandað í þessu skipi, og það er það fyrsta, sem við smíðum fyrir Íslendinga, svo mér er illa við að setja eitthvert hljóðfærisgargan í káetuna. O, ég kæri mig ekki um betra, mælti Hjalti, og vil ekki spandera meira í það en 10 pundum.“ En sá varð endirinn, að yfirverkfræðingurinn keypti stórt og allvandað orgel í skipið, og þurfti að taka í sundur dyraumbúnað til þess að koma því niður í káetuna. En ekki fékk Hjalti að borga umrótið, og ekki var um það að ræða, að honum liðist að greiða meira fyrir orgelið en 10 pund. Það mun þó minnst hafa kostað 30-40 pund.“
Ekki veit ég til þess að orgel hafi verið í íslensku fiskiskipi fyrr eða síðar, en fullyrði ekki um það.
Hvað svo varð um orgelið, veit ég ekki. Kannski var það selt með skipinu haustið 1917 til Frakklands.
Heimildir: Saga Eldeyjar-Hjalta. Guðmundur G Hagalín 1974.
Birgir Þórisson.
![]() |
B.v. Apríl RE 151 á siglingu. Ljósmyndari óþekktur. |
„Apríl“
Nýr botnvörpungur til »Íslandsfjelagsins«
Hjalti Jónsson skipstjóri kom í fyrrakvöld frá Englandi á nýsmíðuðu botnvörpuskipi, sem „íslandsfjelagið" á og hefur látið byggja þar. Skipið heitir „Apríl" og er bygt í Smiths Dock í Middelsbrough. Hefur Hjalti skipstjóri verið þar til eftirlits síðan seint í júní í sumar. Skipið er hið fegursta útlits, mjög sterkbygt og vandað að allri gerð og með nýtísku-útbúnaði í hverju einu, rafmagnsljósum o. s. frv. Stærðin er 295,19 tonn brt., en 109,76 ntó. Lengd á kjöl 135 fet. Stærðin yfir höfuð lík og á Thorsteinsons-botnvörpungunum, „Baldri “ og „Braga". Skipið hefur kostað, með öllum útbúnaði til veiða, um 165 þús. kr. Það var 4 sólarhringa á leið hingað frá Blyth, sem er skamt frá Hull. Út til veiða fer það á morgun og verða á því um 20 manns fyrst um sinn. Skipstjórinn verður Hjalti Jónsson, en stýrimaður Þorgrímur Sigurðsson og vjelameistari Ólafur Jónsson á Laugalandi. Eigendur skipsins, Jes Zimsen konsúll og fjelagar hans, buðu ýmsum til að skoða það í gær, blaðamönnum o. fl., og var þar glatt á hjalla meðan á því stóð.
Í káetu skipstjóra, undir stjórnpalli, er meðal annars harmóníum, fastgert þar og fylgir skipinu. Eldra skip „íslands“-fjalagsins, „Mars", hefur verið í aðgerð í Englandi síðan í júní og er væntanlegt hingað í næstu viku. Það er keypt fyrir 6 árum og var þá 6 ára gamalt. Nú á það verða eins og nýtt í annað sinn; sagt að viðgerðin kosti 50—60 þús. kr. Svo er botnvörpungaútgerðin útgjaldafrek. En hún gefur mikið í aðra hönd og er nú sú atvinnugrein hjer, sem vænlegust er til gróða og mest er á að byggja. Þess er óskandi, að „Íslandsfjelagið“ verði heppið með þetta nýja skip sitt, svo að „Maí" þess renni sem fyrst upp, því svo á sjálfsagt næsta skipið að heita. Um botnvörpuskipaveiðarnar hjer yfirleitt nú er annars það að segja, að afli hefur verið tregur síðustu mánuðina hjá þeim, sem stundað hafa þorskveiði. En meiri hlutinn hefur verið á síldveiðum fyrir norðan, á Siglufirði, nú um tíma og er árangurinn af þeirri veiði sagður sæmilega góður, þrátt fyrir lágt verð á síldinni, en hún fer nú að mestu leyti í verksmiðjurnar á Siglufirði.
Lögrétta. 28 ágúst 1912.
![]() |
||
Skipasmíðastöð Smith's Dock Co Ltd út í South Bank um 1920.
|
Botnvörpungurinn Apríl sektaður
Í gær um miðjan dag kom botnvörpungurinn Apríl hingað til þess að láta sekta sig fyrir ólöglegar veiðar í landhelgi. Valurinn hafði tekið hann fyrir utan Ólafsvík í landhelgi og falið Hjalta skipstjóra að fara með kæruna hingað, var hann sektaður um 1000 kr. og veiðarfæri gerð upptæk.
Ísafold. 6 nóvember 1912.
![]() |
Poitou LR 2345. Úr safni Birgis Þórissonar. |
![]() |
B.v. Apríl RE 151 í Reykjavíkurhöfn. Mynd á gömlu póstkorti. |
Seldir botnvörpungar
Núna í vikunni fullréðst um sölu 10 íslenzku botnvörpunganna til Frakklands. Kaupandi er stjórnin frakkneska. Undanþágu til þess að mega selja skipin hefir íslenzka stjórnin veitt og bundið ýmsum skilyrðum m. a. þeim, að nota féð til að uppyngja fiskiflotann að jafnmiklu leyti sem nú er hann skertur, þegar að loknu stríðinu. Þessi skip eru seld: Baldur, Bragi, Apríl, Maí, Eggert Ólafsson, Earl Herford, Jarlinn, Þór, Ingólfur Arnarson og Þorsteinn Ingólfsson. Söluverðið upp og niður 4—500,000 krónur. Þetta skipa-sölumál er eitt þeirra mála, sem naumast er rétt að gera að opinberu máli um þessar mundir og teljum vér því til engis að ræða það frekara að sinni.
Ísafold. 62 tbl. 29 september 1917.