09.07.2023 13:22

Breski togarinn Lord Plender FD 59 staðinn að ólöglegum veiðum á Breiðafirði.

Það var aðfaranótt 29 ágúst árið 1958 að varðskipið Þór, undir stjórn Eiríks Kristóferssonar, kom að breska togaranun Lord Plender frá Fleetwood, þar sem hann var að veiðum innan 4 mílna landhelginnar suður af Látrabjargi. Hafði togarinn legið þar í vari og var kominn með fullfermi en ætlaði þó að bæta á úr einu hali eða svo, áður en hann sigldi út. Hann var að vísu ekki að toga þá, en Þórsmenn sáu að hann var með vírana í togblökkunum, en lét reka til þess að villa varðskipsmönnum sýn. Hafði skipstjóri þá látið höggva á vírana. Lord Plender gerði enga tilraun til undankomu, svo Þórsmenn mönnuðu bát og réru til hans. Var skipstjóri beðinn að koma yfir í Þór, og hlýddi hann því tafarlaust. Sáu Þórsmenn þá greinilega að varpan hafði verið höggvin frá, voru vírarnir sundur rétt framan við togvinduna, en togblökkin lá úti og blokkarkefan var lokuð. Skipstjórinn, George Harrison að nafni, var hinn prúðasti, viðurkenndi orðalaust brot sitt og véfengdi í engu mælingar Þórs. Eiríkur skipherra tilkynnti honum þá að siglt yrði til Reykjavíkur. Þegar Þór renndi með Lord Plender upp að bryggju í Reykjavík um fimmleytið þennan sama dag, var þar fyrir múgur og margmenni. Fregnin um töku togarans hafði vakið mikla athygli landsmanna.

Togarinn Lord Plender FD 59 var síðasti breski togarinn sem tekinn var innan 4 mílna landhelginnar. Tveimur dögum síðar var landhelgin færð út í 12 sjómílur, eða hinn 1 september 1958. Sunnudaginn 31 ágúst 1958 var mikil eftirvænting um land allt vegna hinnar stóru stundar, sem var að renna upp:, Ísland var að heimta rétt sinn, að víkka landnám sitt til lífsframfærslu þjóðarinnar og tryggja samtíð og framtíð réttlátan grundvöll til sjálfstæðis. En þessari eftirvæntingu fylgdi nokkur órósemi, jafnvel uggur um óhöpp eða slys í vörninni fyrir rétti þjóðarinnar gagnvart herveldi gráu fyrir járnum, sem í 550 ár hafði oft og tíðum tekið sér húsbóndaréttinn með valdi, bæði á miðunum og á byggðu bóli.

Heimild: Landhelgisbókin. Gunnar M Magnúss 1959.
 

Varðskipið Þór að koma með Lord Plender til hafnar í Reykjavík.  Mynd úr safni mínu.




    Varðskipið Þór stóð brezkan togara að
          ólöglegum veiðum á Breiðafirði

Í fyrrinótt tók varðskipið Þór brezka togarann Lord Plender er hann var að veiðum á Breiðafirði innan fiskveiðitakmarkanna. Hafði hann legið þar í vari nærri fullfermdur, en ætlaði að taka eitt hal enn áður en heim skyldi haldið. Er Þór kom að, á réttu andartaki, sá skipstjórinn þann kost vænstan að höggva á vírana svo veiðarfærin liggja nú á hafsbotni. Skipstjórinn, George Harrisson, viðurkenndi orðalaust sekt sína og var í alla staði hinn prúðasti. Réttarhöldum í málinu var frestað kl 9,30 í gærkvöldi, en halda áfram í dag. Kl. rúmlega 4 í gærdag kom varðskipið Þór með brezka togarann hingað til Reykjavíkur og hafði þá safnazt saman allmikill mannfjöldi til að taka á móti togaranum og þar á meðal allir Þeir erlendu blaða- og sjónvarpsmenn, sem hér eru staddir. Er þetta sögulegur atburður þar sem við því má búast að þetta sé síðasti brezki togarinn, sem tekinn er að ólöglegum veiðtim innan gömlu fiskveiðilandhelginnar.
Um sexleytið hófust réttarhöld í máli þessu, sem fram fóru í bæjarþingsalnum í Hegningarhúsinu. Þar voru að sjálfsögðu mættir erlendu blaðamennirnir og fylgdust þeir af áhuga með yfirheyrzlunum, sem stóðu yfir þar til kl. hálf tíu í gærkvöldi, Yfirheyrzlunum mun haldið áfram í dag og fullvíst má telja að dómur í málinu falli einnig í dag. Fréttamaður Þjóðviljans fylgdist um stund með réttarhöldunum og bar skipherrann á Þór, Eiríkur Kristófersson fyrst vitni í málinu. Sagðist honum svo frá m. a. að þegar þeir hafi komið að togaranum hafi hann verið með siglinga- og togljós ásamt dekkljósum, en þegar þeir hafi orðið varðskipsins varir, slökktu þeir flest ljósin. Engin tilraun var gerð af hálfu Bretanna til að komast undan, og viðurkenndi brezki skipstjórinn sekt sína orðalaust. Hann þáði ekki boð skipstjórans á Þór, að hann mætti bíða þar til dagbjart yrði svo hann gæti tekið staðarákvörðun sjálfur.
Brezki skipstjórinn kom síðan fyrir réttinn og hafði ekkert við framburð skipstjórans á Þór að athuga. Hann sagði svo frá, að hann hafi verið að veiðum í þrjá daga í grennd við Látrabjarg og síðan siglt í var vegna óveðurs. Eftir að hann hafði legið í vari í 24 stundir, um 2 mílur undan Rauðasandi, hafi hann siglt í klukkustund, en síðan byrjað að toga. Hann kvaðst ekki hafa tekið staðarákvörðun þegar hann byrjaði að toga. Þegar að Þór hefði komið varð honum ljóst að hann var innan fiskveiðitakmarkanna. Hann hjó á togvírana skömmu síðar. Hann viðurkenndi, að skipherrann á Þór hefði boðið honum að taka hornamælingar og sagðist ekki hafa þegið það, enda véfengdi hann ekki að hann væri innan fiskveiðilandhelginnar. Það er því engum blöðum um að fletta, að brezki skipstjórinn mun verða dæmdur fyrir landhelgisbrot.

Þjóðviljinn. 30 ágúst 1958.
 

Varðskipið Þór lll var smíðaður hjá Aalborg Wærft A/S í Álaborg í Danmörku árið 1951 fyrir Ríkissjóð Íslands. 693 brl. 184 nettó. 2 x 1.600 ha. Crossley díesel vélar. 57,49 x 9,48 x 4,68 m. Smíðanúmer 107. Skipinu var lagt vegna tíðra vélarbilana í því árið 1982. Þór var síðan seldur Slysavarnafélagi Íslands árið 1985 og notað þar sem þjálfunar og skólaskip. Árið 1998 var skipið notað sem veitingahús í Reykjavíkurhöfn. Var að lokum notað sem sviðsmynd í kvikmyndinni „Reykjavík whale watching Massacre“ Þór var síðan rifinn í Reykjavík í júnímánuði árið 2012.
Þór tók þátt í öllum þorskastríðunum, 4 mílur 1952, 12 mílur 1958, 50 mílur 1972 og 200 mílur 1975.      Ljósmyndari óþekktur.
 

Togarinn Lord Plender FD 59 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1933 fyrir Pickering & Haldane‘s Steam Trawling Co Ltd í Hull, hét fyrst Lord Plender H 517. 398 brl. 650 ha. 3 þennslu gufuvél. 151 x 26 x 14 ensk ft. Smíðanúmer 1117. Frá 30 janúar 1946 var togarinn í eigu Hull Ice Co Ltd í Hull, hét þá Lord Plender H 191. 16 nóvember sama ár var hann kominn í eigu Lord Line Ltd í Hull. Frá 17 apríl 1950 var hann í eigu Associated Fisheries Trawling Co Ltd í Hull. Frá 13 nóvember 1956 var togarinn í eigu Wyre Trawlers Ltd í Fleetwood, hét þá Lord Plender FD 59. Seldur í brotajárn til Haulbowline Industries Ltd, Passage West Co í Cork í Englandi og rifinn þar í febrúar árið 1963.       Mynd úr safni mínu.




                                      Hlaut 74.000 króna sekt

Laust fyrir hádegi í gær var í sakadómi Reykjavíkur kveðinn upp dómur í máli George Harrison skipstjóra á brezka togaranum Lord Plender, sem tekinn var að ólöglegum botnvörpuveiðum á Breiðafirði aðfaranótt föstudagsins, 4 sjómílur innan fiskveiðitakmarkanna. Var skipstjórinn dæmdur í 74 þús. króna sekt til Landhelgissjóðs Íslands og til vara í sjö mánaða varðhald, verði sektin ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins. Allur afli og veiðarfæri voru gerð upptæk og skipstjórinn dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með eru talin 1500 kr. málsvarnarlaun verjanda, Lárusar Fjeldsted, hrl. Harrison skipstjóri ákvað strax í gær að áfrýja dómnum, sem kveðinn var upp af Þórði Björnssyni settum sakadómara og meðdómsmönnum Jónasi Jónassyni og Pétri Björnssyni skipstjórum.

Þjóðviljinn. 31 ágúst 1958.

Flettingar í dag: 1882
Gestir í dag: 116
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1192284
Samtals gestir: 83672
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:39:31