10.07.2023 20:43
B.v. Marz RE 114. LBJW.
Botnvörpungurinn Marz RE 114 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Hull í Englandi árið 1900 fyrir Pickering & Haldane´s Steam Trawling Co Ltd í Hull, hét Seagull H 494. 225 brl. 430 ha 3 þennslu gufuvél. 125 x 22 x 12 ensk fet. Smíðanúmer 252. Seldur Fiskiveiðahlutafélaginu Ísland (Jes Zimsen og fl.) í Reykjavík í febrúar 1907. Hét þá Marz RE 114 og kom til landsins, 3 mars 1907, en hét sínu fyrra nafni fyrst um sinn hér á landi. Togarinn strandaði við Gerðahólma hjá Garði á Reykjanesi, 26 október árið 1916. Áhöfnin bjargaðist á land en togarinn eyðilagðist á strandstað.
Þann 26 október árið 1916 strandaði Marz RE 114 við Gerðahólma, skammt frá Garði á Reykjanesi. Veður var fremur slæmt er skipið strandaði, en greiðlega gekk þó að bjarga áhöfninni á land. Um björgun skipsins var hins vegar strax vonlítið, þar sem það brotnaði mikið við strandið og nóttina eftir var einnig mikið brim á strandstaðnum og þá barst skipið enn hærra upp. Björgunarskipið Geir var sent á staðinn, en hafði þar aðeins skamma viðdvöl, þar sem skipstjóri þess taldi með öllu þýðingarlaust að reyna björgun. Hins vegar tókst að bjarga nokkru af búnaði skipsins.
B.v. Mars RE 114 var eitt kunnasta aflaskip íslenska togaraflotans á þessum tíma. Var skipið í eigu Íslandsfélagsins í Reykjavík frá árinu 1907. Hét áður Seagull H 494 og mun hafa borið það nafn hér við land í fyrstu. Hjalti Jónsson (Eldeyjar-Hjalti) var lengi skipstjóri á Marz, en síðar tók annar þekktur sægarpur, Þorsteinn í Þórshamri við stjórn skipsins.
Seagull H 494 var kunnur togari hérna áður en Eldeyjar-Hjalti keypti skipið því hann var tekinn nokkrum sinnum fyrir ólöglegar veiðar. Marz og Snorri Sturluson RE 134 voru systurskip. Þetta var nokkuð vinsæl teikning og voru meðal annars smíðaðir nokkrir togarar af þessari gerði fyrir útgerðarmenn í Boulogne í Frakklandi. Þeir voru gerðir út á salt við Ísland.
Það fer greinilega tvennum sögum af strandinu. Sögusagnir gengu um að þeir hafi togað í strand í ölæði. Bannið var skollið á, en sagan segir að þeir hafi dregið skútu áleiðis til Reykjavíkur um daginn og fengið áfengi að launum. Síðan var stefnan sett út, með trollið í eftirdragi, og ekki slegið af fyrr en skipið stóð á grunni. Þá hafi áhöfnin farið í bátinn og róið í land. Ljósinn sáust úr landi uns fjaraði út. Þá valt skipið á hliðina út af flösini. Ekkert er minnst á brim eða þess háttar í þessari frásögn sem er ættuð frá heimamanni í Garðinum.
Skipstjórar á Mars voru Eldeyjar-Hjalti til ársloka 1910; Þórarinn Olgeirsson 1911 og fram á haust 1912. Þorsteinn Þorsteinsson (kenndur fyrst við Bakkabúð, en hann missti hana í gjaldþroti 1910, síðar kenndur við Þórshamar sem hann keypti 1917 þegar hann var búinn að ná sér upp á togara-skipstjórn. Þorsteinn tók við Apríl þegar Eldeyjar-Hjalti fór í land í upphafi fyrri heimstyrjaldarinnar, en stýrimaðurinn; Ingvar Benediktsson tók þá við Marsinum og var með hann þangað til að hann strandaði honum haustið 1916.
Heimild að stórum hluta : Birgir Þórisson.
![]() |
B.v. Marz RE 114 á Reykjavíkurhöfn, sennilega árið 1915-16. (C) Karl Christian Nielsen. |
B.v. Marz RE 114
Nýr botnvörpungur, sem Íslendingar eiga, er nýkominn hingað. Skipið heitir nú Marz, en hefir áður heitið Seagull, og hefir stundað veiðar hér við land að undanförnu. Hlutafélag á skipið. Mestir hluthafar eru Jes Zimsen konsúll, formaður félagsins, Björn Guðmundsson kaupmaður og Hjalti Jónsson formaður á skipinu. Þeir eiga þar 8ooo kr. hver. Nýtt hafði skipið kostað 131.400 kr. En nú var það keypt fyrir 88.200 kr., mjög vel út búið að veiðarfærum og áhöldum öllum. Á skipinu verða um 20 manns, alt Íslendingar, nema 2 enskir botnvörpumenn og 3 danskir menn, vélstjórar og kyndari. Hjalti Jónsson hefir annast kaupin í Hull og kom með skipið hingað. Það er talið einkar vænt skip, og nú hefir verið svo við það gert, að það er eins og nýtt.
Fjallkonan. 10 tbl. 8 mars 1907.
![]() |
||
B.v. Marz RE 114. Mynd á gömlu póstkorti.
|
Marz strandaður
Sú fregn barst Höfuðstaðnum í morgun að botnvörpungurinn Marz væri strandaður á Garðsskaga. Vér náðum tali af skipstjóranum sem sagði að þeir hefðu strandað kl. 2 í nótt framundan Gerðum. Ekkert varð að mönnunum og skipið er lítið eða ekkert brotið, því það er fremur gott í sjóinn. Vonandi nær björgunarskipið Geir skipinu út í dag.
Höfuðstaðurinn. 27 október 1916.
![]() |
||||
Marz RE 114 á strandstað við Gerðahólma. (C) Handel & Söfart Museet.dk.
|
Marz brotinn
Í gærkvöld komu flestir mennirnir af Marz sunnan að með vélbát, skipstjóri og stýrimaður urðu eftir. Skipshöfnin segir þannig frá , að slysið hafi borið svo brátt að, að menn hafi með naumindum bjargast, sumir nær klæðalausir og skipsskjöl náðust engin. Höfðu þeir búið sig til Englandsferðar og höfðu talsvert af peningum meðferðis, en mistu þá og föt sín. Eru þeir nú illa staddir, atvinnulausir og allslausir, svo að segja. Marz liggur nú á skerinu brotinn mjög og fullur af sjó, er hann talinn ónýtur orðinn, þó fer Geir að líkindum þangað einhvern daginn til að líta eftir, að minsta kosti. Hvað skyldi það dragast lengi, að nauðsynleg sjómerki, ljósdufl eða hringingardufl, verði sett niður á þessum slóðum, þar sem vitans gætir ekki? Hefði nokkuð verið að veðri, myndi skipshöfnin öll hafa farist þarna. Þess er vert að geta, að skipshöfnin fékk hinar mannúðlegustu viðtökur í Gerðum í Garði.
Höfuðstaðurinn. 30 október 1916.