20.07.2023 09:08
1296. Saga l. TFHJ.
Flutningaskipið Saga var smíðuð hjá Oskarshamns Mekaniska Verkstads A/B í Oskarshamn í Svíþjóð árið 1963. 1.270 brl. 845 nettó. 1.400 ha. Deutz vél. 71,64 x 11,02 x 5,70 m. Smíðanúmer 382. Skipið hét fyrst Bore X og var í eigu Angfartygs Aktiebolaget Bore í Turku í Finnlandi til ársins 1971, er það var selt Haapakosken Tehdas Oy í Turku í Finnlandi, hét þá Borina. Selt í maí 1973, Sjóleiðum h.f (Sigurður Markússon og fl.) í Reykjavík, fékk þá nafnið Saga. Skipið flutti aðallega saltfisk frá Íslandi til Portúgals og Miðjarðarhafslanda., og flutti svo heim, salt, stykkjavörur og heila farma. Einnig var Saga í flutningum á milli hafna erlendis. Var einnig í flutningum á loðnumjöli til erlendra hafna. Skipið var selt 14 mars árið 1977, Bakadache Wafic í Beirút í Líbanon, hét þá Madimar. Einhverjir af eigendunum munu hafa verið frá Panama. Skipið strandaði 18 mars árið 1981 um 65 sjómílur suður af hafnarborginni Port Súdan í Súdan í Rauðahafi. Var þá á leið frá Constanta í Rúmeníu fullestað vörum til Assab í Eritréu í Austur-Afríku. Áhöfnin bjargaðist en skipið eyðilagðist á strandstað.
![]() |
Flutningaskipið Saga l á siglingu. Ljósmynd í minni eigu. |
Flutningaskipið Saga bætist í íslenska flotann
Flutningaskipið Saga kom til Iandsins fyrir nokkrum dögum, en skip þetta hefur hlutafélagið Sjóleiðir keypt frá Finnlandi. Skipið er um 1860 rúmlestir, eða af svipaðri stærð og Múlafoss og Írafoss, smíðað í Svíþjóð árið 1963. Skipstjóri er Sigurður Markússom, sem áður var hjá Skipaútgerð ríkisins og einnig rak olíuskipið Dagstjörnuna um þriggja ára skeið. Auk hans eru í stjórn Sjóleiða hf. þeir Jóhannes Markússon, flugstjóri, og Halldór Jónsson, loftskeytamaður. Skipið var keypt frá Finnlandi og var kaupverðið um 50 milljónir króna. Skipið var afhent hinum nýju eigendum fyrir rúmum mánuði og fyrst flutti skipið mjólkurvörur frá Rotterdam til Pireus, en tók síðan saltfarm frá Túnis til Íslands. Héðan mun skipið flytja saltfiisk til Portúgals. Allar vélar skipsins eru af Deutz-gerð. Skipið er sérstaklega styrkt til siglinga í ís. Það er búið tveimur lyftikrönum og var gert fyrir alla almenna flutninga, en með sérbúnaði fyrir bílaflutninga. 10—11 manna áhöfn verður á skipinu.
Morgunblaðið. 8 maí 1973.
![]() |
Flutningaskipið Bore X. Ljósmyndari óþekktur. |
Flutningaskipið Saga selt úr landi
Gengið hefur verið frá sölu á flutningaskipinu Sögu úr landi og verður skipið selt til Beirút í Líbanon, og eiga hinir nýju eigendur skipsins að taka við því í Rotterdam síðast í febrúarmánuði. Fyrirtækið Sjóleiðir hf. keypti Sögu fyrir fjórum árum og Sigurður Markússon, einn aðaleigandi Sjóleiða og skipstjóri á Sögu, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að sala skipsins hefði átt sér nokkurn aðdraganda. Þó svo að búið væri að selja Sögu úr landi, væri ekki þar með sagt, að Sjóleiðir hættu rekstri flutningaskips. Allt eins gæti komið til greina að kaupa annað skip síðar meir og þá nýtizkulegra. Saga er um þessar mundir að lesta loðnumjöl á Austfjörðum, þaðan siglir skipið síðan til Gdynia í Póllandi með farminn og frá Gdynia til Rotterdam, þar sem það verður afhent.
Morgunblaðið. 10 febrúar 1977.