27.07.2023 15:48
B.v. Clementína ÍS 450. LBJF / TFGC.
Botnvörpungurinn Clementína ÍS 450 var smíðaður hjá Smith's Dock Co. Ltd. (South Bank) í Middlesbrough á Englandi árið 1913. 453 brl. 700 ha. 3 þennslu gufuvél. 49,61 x 7,91 x 3,33 m. Smíðanúmer 548. Hét fyrst La Rosita B 280 og var smíðaður fyrir Victor Fourny í Boulogne í Frakklandi. Skipið var selt 1921, Soc. Francaise de Pécheries á Vapeur (Boulogne) í Boulogne í Frakklandi, sama nafn. Selt 1923, Christiaens V. & Bourgain A. í Boulogne í Frakklandi, sama nafn áfram. Skipið var selt sennilega í janúar 1925, h/f Kakala (Proppé bræðrum) á Þingeyri, skipið hét Clementína ÍS 450. Skipið var selt 29 október 1927, h/f Heimi (Þórður og Tryggvi Ólafssynir og fl.) í Reykjavík, skipið hét Barðinn RE 274. Togarinn strandaði á skerinu Þjóti út af Akranesi 21 ágúst árið 1931. Áhöfnin, 10 menn, var bjargað um borð í hafnsögubátinn Magna frá Reykjavík. Skipið eyðilagðist á strandstað. Barðinn var einn stærsti togari Íslendinga á þessum tíma og var talið traust og gott sjóskip.
Það voru Proppé-bræður sem keyptu skipið í ársbyrjun 1925. (Þorsteinn Þorsteinsson í Þórshamri sótti það til Frakklands og var með það fyrst í stað.) Það kom í mars 1925. Proppé-bræður voru þá með umsvifamestu útgerðar- fiskkaupmönnum landsins. Þeir höfðu keypt Grams-verslanir Milljónafélagsins á Þingeyri og Snæfellsnesi. Anton Proppé sat á Þingeyri og Jón A Proppé í Ólafsvík, Carl var aðalforstjóri í Reykjavík en Ólafur var bæði Alþingismaður V-Ísfirðinga og mikið í fisksölu til Spánar. Þeir bræður voru aðal-eigendur Akurgerðis í Hafnarfirði sem gerði út togarann Walpole. Það var því mikill völlur á þeim þegar þeir keyptu skipið, sem þeir fengu á góðu verði, en reyndar lánaði Hambros-banki í Lundúnum rúmlega allt kaupverðið.
En þetta voru umbrotaár. Eftir mikinn uppgang á pappírnum frá stofnun firmans Bræðurnir Proppé kom gengishækkunin 1925. Þeir urðu óvænt gjaldþrota 1926, en þeir höfðu séð að hverju stefndi og reyndu að koma Clementínu undan. Þeir og mágur þeirra Páll Stefánsson frá Þverá tilkynntu í ársbyrjun 1926 um fjórföldun hlutafjár útgerðarfyrirtækisins Hf. Kakali á Þingeyri, og átti að heita að það hefði keypt Clementínu. Þessi bókhaldsbrella virkaði ekki og var skipið að lokum selt á uppboði haustið 1927 til Hf. Heimis, sem var stofnað til að kaupa skipið.
Skipið var í nokkru reiðileysi frá hausti 1926 til hausts 1927. Hambros-banki átti í raun skipið vegna veðs umfram raunvirði, en líka hvíldu miklar sjóveðskröfur á því.
1926 var mikil lægð í togaraútgerð og í ársbyrjun 1927 leigðu Verkamannafélagið Hlíf í Hafnarfirði skipið af þrotabúinu í félagi við Þórarinn Egilsson útgerðarmann, til að bæta atvinnuástandið í bænum. Þetta varð fyrsti vísirinn að Bæjarútgerð Hafnarfjarðar.
Þegar skipið kom var það með frönsku fyrirkomulagi. Ekkert bátaþilfar var á því. Bátarnir héngu í davíðum aftan við strompinn. (Ein mynd er til frá Guðbjarti af því svona). Haustið 1925 var skipið endurbætt mikið í Reykjavík. Þá var sett á það bátaþilfar. Efsta myndin er af skipinu eftir þá breytingu. Það er enn með hvítan brúarvæng að frönskum sið.
Nýbúið var að "klassa" skipið þegar það strandaði. Aðaleigendur Hf. Heimis voru bræðurnir Þórður og Tryggvi Ólafssynir, kolakaupmenn í Reykjavík. Þeir voru afar fúlir út í skipstjórann fyrir klaufaskapinn, sem stafaði af því að hús sem samkvæmt gamalli hafnarleiðsögubók átti að vera gult hafði verið málað.
Heimildir að mestu frá Birgi Þórissyni.
![]() |
B.v. Clementína ÍS 450 með trollið á síðunni. (C) Guðbjartur Ásgeirsson. |
Clementína ÍS 450
Togari sá, er Proppébræður hafa keypt í Frakklandi, er væntanlegur hingað í dag eða í fyrramálið frá Englandi. Skipstjórinn er og verður á honum Þorsteinn Þorsteinsson í Þórshamri.
Morgunblaðið. 20 mars 1925.
![]() |
||
B.v. Barðinn RE 274. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
|
Barðinn strandar fram undan Akranesi
Um hádegi í gær, var togarinn „Barðinn " á leið utan úr Flóa og inn á Akranes, til þess að taka þar fiskilóðs. Rjett framan við Akranesvitann, á svonefndum Þjóta, tók togarinn niðri, og komst hvergi. Þetta var laust eftir hádegi. Var það rjett um háflóð. Skipstjóri sendi þegar skeyti til Þórðar Ólafssonar kaupmanns, sem annast afgreiðslu togarans, og segir hvernig komið var. Bað skipstjóri þess, að dráttarbáturinn „Magni " yrði sendur sem fyrst til þess að ná togaranum út af skerinu. Tveim tímum seinna fjekk Þórður skeyti um það frá togaranum, að kominn væri leki að skipinu, og ekki væri hægt að dæla úr því. Um kl. 6 var Magni kominn á vettvang til þess að athuga á hvern hátt togaranum yrði helst náð út með flóðinu um miðnætti. Togarinn Gyllir fór upp eftir nokkuru seinna, til þess að verða til aðstoðar ef með þyrfti. Kunnugir menn á Akranesi, er Þórður Ólafsson átti símtal við, töldu allar líkur til þess, að Barðinn myndi nást út þarna . Við stefni hans var 7 faðma dýpi, en afturhlutinn lá á klettinum. Togarinn sást vel hjeðan úr Reykjavík, og var auðsjeð hjeðan kl. um 6 í gærkveldi, að hann hallaðist mikið og bar hátt á honum á skerinu. Togarinn er vátryggður hjá Sjóvátryggingarfjelagi Íslands.
Morgunblaðið. 22 ágúst 1931.
![]() |
||
B. v. Barðinn RE 274 sokkinn á strandstað. Ljósmyndari óþekktur.
|
Barðinn, vonlítið að hann náist út
Í blaðinu í gær var frá því skýrt að tvö skip voru í fyrrakvöld komin á vettvang til þess að reyna að bjarga Barðanum af Þjótnum, hafnarbáturinn Magni og togarinn „Gyllir." Er hafnarbáturinn Magni kom að Þjótnum kl. að ganga sjö á föstudagskvöld, voru skipverjar af Barðanum allir í skipsbátunum, og höfðu verið það um hríð, því þá var togarinn farinn að hallast svo mikið á skerinu, og kominn svo mikill sjór í hann, að búast mátti við því, að hann kynni að sökkva skyndilega. Var nú tekið til óspiltra málanna að dæla úr togaranum. Tókst þá að dæla úr lestarrúminu, en Magni hafði ekki við að dæla úr vjelarrúminu. Um miðnætti á laugardagsnótt var gerð tilraun til þess að draga togarann af skerinu. Var sín dráttartaugin sett í hvort skipið, Magna og Gyllir. En Barðinn bifaðist ekki. Aftari helmingur Barðans var á skerinu, en framendinn stóð fram af því. Er hætt var tilraunum þessum, var haldið áfram að dæla úr skipinu. En nú höfðu dælurnar ekki við, skipið fylltist af sjó, og varð þá svo fram þungt, að klukkan að ganga þrjú um nóttina, stakkst það fram af skerinu, svo stefni þess stendur í botni, en afturendann upp úr sjó. Gyllir snéri nú til Reykjavíkur, en Magni kom ekki fyrr en kl. 8 í gærmorgun, og þá með skipshöfn Barðans, nems skipstjóra og vjelstjóra. Þeir komu síðar með vjelbát. Er skipverjar af Barðanum fóru í bátana, tóku þeir allan farangur sinn með sjer. En veiðarfæri skipsins voru ekki tekin, sakir þess, að allir bjuggust þá við því, að skipið næðist út. Sker þetta, Þjóturinn, sem Barðinn strandaði á, er, að sögn 3 klettahnjótar, svo sem mótorbátslengd hver. Á skeri þessu brýtur alltaf, nema þegar sjór er ládauður, eins og hann var í þetta sinn. Barðinn var smíðaður í Englandi árið 1913; 416 smálestir að Stærð. Eigendur h.f. Heimir hjer í Reykjavík. Með veiðarfærum og afla var skipið vátrygt fyrir kr. 270.000. Farið hefir verið fram á, að Ægir kæmi á vettvang í dag, til þess að athugað yrði enn hvort nokkur von sje til þess að ná skipinu út.
Morgunblaðið. 23 ágúst 1931.