15.04.2024 17:06

728. Rán ÍS 51. TFKW.

Vélbáturinn Rán ÍS 51 var byggður í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar h.f. á Ísafirði árið 1958 fyrir Rán h.f. (Helgi Björnsson og fl.) í Hnífsdal. Eik. 58,25 brl. 22 nettó. 280 ha. Mannheim vél. 21,41 x 5,40 x 2,21 m. Smíðanúmer 30. Skipaskrárnúmer 728. Frá 22 október 1965 var báturinn í eigu Hafbjargar h.f. (Helgi Ibsen og Vilhjálmur Guðjónsson) á Akranesi, hét þá Rán AK 304. Ný vél (1974) 350 ha. Caterpillar vél. Var í eigu Ármanns Stefánssonar á Akranesi frá 25 apríl 1975, hét þá Rán AK 34. Endurmældur í september 1975, mældist þá 58 brl. Frá 3 júní 1983 voru eigendur bátsins Ármann Stefánsson og Símonía Ellen Þórarinsdóttir á Akranesi, sama nafn og númer. Frá 7 nóvember 1986 í eigu Útvegsmiðstöðvarinnar h.f. í Keflavík, hét þá Rán KE 37. Helgi Grétar Helgason í Reykjavík er eigandi frá 18 maí 1988, fékk þá nafnið Rán BA 57 með heimahöfn á Patreksfirði. Báturinn var tekinn af skrá 27 október árið 1988 og endaði síðar á áramótabrennu í Njarðvík árið 1990.

Vélbáturinn Rán ÍS 51 í prufusiglingu á Ísafjarðardjúpi.     Ljósmyndari óþekktur.
Rán ÍS 51 sjósett á Ísafirði vorið 1958.                         Ljósmyndari óþekktur.


                Nýr Hnífsdalsbátur

Um miðjan maí var lokið í Skipasmíðastöð M. Bernharðsson h.f. á Ísafirði, smíði á nýjum vélbát, sem heitir Rán Í.S. 51, og eru eigendur hans samnefnt hlutafélag í Hnífsdal, en framkvæmdastjóri þess er Helgi Björnsson. Rán er um 60 br. smálestir, byggður úr eik, með 300 ha. Mannheimvél. Báturinn er búinn öllum fullkomnustu siglingartækjum, þar á meðal radar. Rán er 30. báturinn sem er byggður í skipasmíðastöð M. Bemharðssonar, hið glæsilegasta skip. Skipstjóri er Jóakim Hjartarson. Rán er leigður yfir síldarvertíðina til síldarleitar.

Vesturland. 27 júní 1958.

Rán AK 34.                                                                                      (C) Snorri Snorrason.
Rán BA 57 í Reykjavíkurhöfn. Þarna er stutt í endalokin.     (C) Bjarni Veturliðason.
Rán AK 304. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra í Byggðasafninu að Görðum á Akranesi.

      Rausnarleg gjöf á Byggðasafnið að Görðum

Þann 3. janúar 2015 afhentu ættingjar Helga Ibsen Byggðasafninu líkan af bátnum Rán 304 til minningar um Helga Ibsen.  Helgi Ingólfur Ibsen fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 8. september 1928, hann lést á Sjúkrahúsi Akraness 28. ágúst 2004.
Árið 1965 stofnuðu Helgi og Vilhjálmur Guðjónsson útgerðarfyrirtækið Hafbjörgu hf. á Akranesi. Eitt fyrsta verk þeirra félaga var að fara vestur til Hnífsdals og festa kaup á skipi sem hét Rán ÍS 51. Báturinn var smíðaður í skipasmíðastöð Marselíusar á Ísafirði 1958.
Helgi og Vilhjálmur ráku útgerð og fiskvinnslu með myndarbrag, þeir áttu Rán AK 304 í 10 ár og reyndist hún þeim vel. Árið 1975 seldu þeir Ármanni Stefánssyni bátinn, síðari eigendur voru Útvegsmiðstöðin í Keflavík (1986) og Helgi Grétar Helgason (1988). Ránin var úrelduð haustið 1988 fyrir Fanney SH. Það var sérstakt við þennan bát að hann hét aldrei annað en Rán þrátt fyrir eigendaskipti, en nafnið Rán merkir alda.
Endalok Ránarinnar urðu þau að báturinn var brenndur á áramótabrennu í Njarðvík árið 1990, þá var rafkerfi og stýrishús orðið lélegt en skrokkurinn var í góðu lagi. Ránin var alla tíð mikið happafley.

Grímur Karlsson módelsmiður í Reykjanesbæ smíðaði líkanið af Ráninni í tilefni af 70 ára afmæli Helga Ibsen.

Af vefsíðu Safnasvæðisins á Akranesi.

 

Flettingar í dag: 170
Gestir í dag: 60
Flettingar í gær: 2133
Gestir í gær: 252
Samtals flettingar: 1051353
Samtals gestir: 75973
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:19:32