29.08.2019 19:53

L. v. Pétursey RE 277. LPPK. / TFXE.

Línuveiðarinn Pétursey RE 277 var smíðaður í Moss í Noregi árið 1903. Stál. 103 brl. 230 ha. 2 þennslu gufuvél. Eigandi var Othar Ellingsen útgerðar og kaupmaður í Reykjavík frá árinu 1927. Hann keypti skipið á uppboði í Þórshöfn í Færeyjum í desember sama ár. Hét áður Batalder KG 363 og var í eigu J.O.J.F. Joensen í Klaksvík í Færeyjum frá árinu 1925. Var áður gert út frá Noregi, kannski sama nafn. Selt Vilhelm Jónssyni, Guðmundi Guðjónssyni og Albert Guðjónssyni í Reykjavík, sama nafn og númer. Selt 1 desember 1932, Samvinnufélaginu Erni í Hafnarfirði, hét þá Örn GK 5. Skipið fórst að talið er út af Mánáreyjum 8 ágúst árið 1936 með allri áhöfn, 19 mönnum. 
Aldrei fékkst nein vitneskja um með hvaða hætti línuveiðarinn Örn GK 5 fórst. Talið var ólíklegt að veður hefði orðið honum að tjóni, en hallast að því að jafnvel ketilsprenging hefði orðið í skipinu og það sokkið á svipstundu, en það verður aldrei vitað til fulls hvað varð skipinu að grandi.


Pétursey RE 277 í Reykjavíkurhöfn.                                                        Ljósmyndari óþekktur.

            Lóða og síldveiðiskip

Samkvæmt tilkynningu frá Færeyjum verður e.s. "Batalder" að líkindum seldur mjög ódýrt á uppboði þann 2. janúar næstkomandi. Nánari upplýsingar gefur O. Ellingsen.

Morgunblaðið. 20 desember 1927.

 Lóða- og síldveiðagufuskip til sölu

E.s. ,,BATALDER , sem jeg hefi nýlega keypt frá Færeyjum, fæst keyptur nú þegar. Stærð skipsins 105 tonn brutto. Stærð vjelar 230 h. Skipið hefir, umfram vanalegan útbúnað: ;
Vjel til ljósaframleiðslu,
íshús,
Gufulínuspil.
Allt fyrirkomulag hið heppilegasta, eftir því sem hjer 'útheimtist, svo breytingar eru óhugsanlegar. Botn skipsins var hreinsaður og málaður í Færeyjum, og reyndist hann, samkvæmt skýrslu skoðunarmanna, óskemdur. Frekari upplýsingar fást hjá undirrituðum, sem tekur við tilboðum í skipið til 20. þ. m. 0. Ellingsen .
N B. Allir þeir mörgu, sem hafa beðið mig að selja ekki skipið fyrr en jeg hefði látið þá vita, eru beðnir að gera sig ánægða með þessa tilkynningu.

Morgunblaðið. 11 mars 1928.


E.s. Batalder KG 363 í Klaksvík í Færeyjum.                                       (C) www. Vagaskip.dk

  Línuveiðarinn » Örn « GK 5 ferst

Línuveiðarinn »Örn« stundaði síldveiðar fyrir Norðurlandi í sumar og enginn vissi annað en, að allt væri í lagi á skipinu, ekkert heyrst um, að það hefði áður verið á grunni fyrir norðan, og viðgerð hafði skipið nýlega fengið. Kom það því eins og þruma úr lofti, þegar þær fréttir bárust gegnum útvarpið, að menn hefðu séð skipið á siglingu, sunnudagsmorgunin 9. ágúst og síðar hefði enginn séð það og ekkert af því fréttst. Er þess var saknað, var leit hafin bæði á sjó og eftir fjörum, þar sem líklegast þótti, að skipsmenn hefðu lent í vörpubátunum, undir Tjörnesi eða inn í Axarfirði, því álandsvindur var þar um þær mundir, sem skipið hvarf. En svo kom varðskipið Ægir, sem þátt tók í leitinni, með annan bátinn og skömmu síðar fann finnskt móðurskip, Petsamo, hinn og voru báðir mannlausir. Þá var öll von úti og leitinni hætt. Það var hinn 11. ágúst. Fjöldi skipa tók þátt í leitinni; allt sem fannst var björgunarhringur og koddi á reki, vestur af Mánareyjum. Hvarf skipsins er leyndardómur og enginn getur komið fram með rétta skýringu um, hver sé orsök hvarfsins. Getgátur um ketilsprengingu, eða hrottalega ásiglingu, sem leyna á, geta vart komið til mála, vegna þess, að þegar slíkt á sér stað, þá losnar ætíð svo mikið af við úr skipum, að það verður áberandi á sjónum og í þessu tilfelli, myndi hinum mörgu leitarskipum, varla hafa skotist yfir það, ei heldur þeim, sem um fjörurnar fóru. Rannsókn á hvarfi þessu, gæti leitt eitthvað í ljós, ef hafin væri. Það er gert í öðrum löndum, þegar eins stendur á og hér, þótt enginn geti mætt, sem veit hið rétta. Öll skipshöfnin fórst með »Örn«, 19 að tölu,
Skipið var smíðað úr stáli, í Moss í Noregi, fyrir 33 árum og kom fyrst hingað til lands um 1927 og hét skipið þá »Batalder«. Keypti 0. Ellingsen heitinn, það frá Færeyjum og seldi síðar þrem bræðrum í Reykjavik, sem skírðu það um og nefndu »Pétursey«. Núverandi eigendur voru Samvinnufélagið Ernir í Hafnarfirði. Þeir breyttu nafni skipsins og nefndu »Örn«; reyndist það happaskip í þeirra höndum. Þeir sem drukknuðu við slys þetta, eru eftirtaldir menn:
Úr Reykjavík:
Ólafur V. Bjarnason, skipstjóri, 60 ára, Frakkastíg 26, kvæntur og átti uppkomin börn.
Steinn Ásbjörnsson, stýrimaður, 28 ára, Rauðará við Hverfisgötu, ókvæntur.
Eggert Ólafsson, 1. vélstjóri, 27 ára, Grettisgötu 79, kvæntur en barnlaus.
Frá Hafnarfirði:
Guðmundur Guðmundsson, nótabassi, 57 ára, Gunnarssundi 3. Hann var kvæntur og átti 2 börn innan við fermingu og 3 uppkomin.
Skúli Sveinsson, 2. vélstjóri, 34 ára, Brekkustíg 25. Hann var kvæntur en barnlaus.
Guðmundur Albertsson, matsveinn, 23 ára, Vesturbraut 22, kvæntur og átti eitt barn.
Sigurður Sveinsson, háseti 53 ára, Hverfisgötu 7, kvæntur og átti eitt barn innan við fermingu. Þorsteinn Guðmundsson, háseti, 40 ára, Merkurgötu 14, kvæntur og átti 1 barn.
 Jón Bjarnason, háseti, 37 ára, Selvogsgötu 16 B. Kvæntur og átti 3 börn í ómegð.

Ægir. 8 tbl. 1 ágúst 1936.


Flettingar í dag: 609
Gestir í dag: 41
Flettingar í gær: 146
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 207309
Samtals gestir: 5908
Tölur uppfærðar: 17.8.2022 16:03:20