Færslur: 2016 Desember
31.12.2016 14:02
Áramótabrenna í Neskaupstað 1999.
Óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og takk fyrir samfylgdina
hér á síðunni á árinu sem er að líða.Kærar kveðjur til ykkar allra.
30.12.2016 11:09
1686. Valbjörn ÍS 307. TFAW.
29.12.2016 13:44
166. Guðmundur Þorlákur RE 45. TFLP.
166. Pétur Ingjaldsson RE 378. (C) Hafsteinn Jóhannsson.
Netadræsur úr togaratrolli urðu þess valdandi í fyrrinótt að
90 tonna bátur, Lundi VE 110, varð stjórnlaus í brimgarðinum í
Vestmannaeyjahöfn þegar stór trolldræsa fór í skrúfu skipsins, en þá var hið
versta veður, 10 vinstig á austan. Bátinn rak upp í hafnargarðinn og er talin
mikil mildi að enginn af áhöfninni fórst, en einn maður sem féll fyrir borð,
náðist aftur. Talið er mögulegt að áhöfn brezks togara, sem sigldi frá Eyjum í
fyrrakvöld, hafi hent trolldræsum í sjóinn þarna. Lundi er talinn ónýtur. Skipstjóri
á Lunda er Sigurgeir Ólafsson og var 8 manna áhöfn á bátnum. Um kl. 3.30 í
fyrrinótt var Lundi að sigla út úr höfninni í Vestmannaeyjum í róður, en vindur
var þá 10 vindstig af austri og allimikill sjór. Siglingin út úr höfninni í
Eyjum er beint í austur.
Skipti engum togum þegar báturinn var kominn skammt út fyrir hafnargarðinn að
vél skipsins stöðvaðist, þegar togaratrolldræsurnar fóru í skrúfu skipsins. Rak
bátinn þá stjórnlaust upp í suðurhafnargarðinn, sem er fjær Heimakletti.
Þrisvar sinnum skellti brimið Lunda upp á garðinn miðjan og í einu slíku broti
tók einn skipverja út, Anton Einar Óskarsson, en það varð honum til bjargar, að
hann náði taki á netadruslum sem flutu upp fastar í skrúfu skipsins og tókst
skipsfélögum hans að ná honum um borð án þess honum yrði meint af. Brimið bar
bátinn með hafnargarðinum að innsiglingunni og skrallaði hann eftir garðinum og
síðan inn fyrir í höfnina undan veðrinu. Var hann þá kominn að því að sökkva.
Allir skipverjar fóru strax í björgunarvesti þegar netin fóru í skrúfuna, en
ekki var viðlit að fara í björgunarbát eða komast í land eins og sjólagið var
þarna við hafnargarðinn, enda svartamyrkur og úthafsaldan ekki létt þegar hún
skellur þarna í 10 vindstigum. Eins og fyrr segir er báturinn talinn ónýtur.
Lóðsinn í Eyjum var strax kallaður út og kom hann Lunda að bryggju áður en hann
sökk. Var strax hafizt handa við að dæla úr bátnum og í gær var hann tekinn í
slipp. Kjölur skipsins er allur undan, þilfarið gengið upp og báturinn er allur
skakkur og skældur, svo að hann er að öllum líkindum ónýtur. Í gærmorgun fóru
hafnsögubátarnir í Eyjum út fyrir hafnargarðana að leita að frekari netadruslum
og fundu þeir fleiri dræsur af sömu gerð.
Veður var farið að stillast og náðu þeir
netadræsunum. Bátar sem sigldu úr höfninni í gær þorðu ekki annað en að hafa
mann frammi í stafni á útstíminu og kom það sér vel a.m.k. hjá einum bátnum,
því að hann fékk dræsu í sinni stefnu, en skipverjinn, sem stóð í pusinu frammi
á gat sagt til um hana. Menn velta þvi fyrir sér hvernig standi á því að svo
margar togaranetadræsur reki þarna á sama tíma, en talið er mögulegt að brezkur
togari, sem sigldi út frá Eyjum í fyrrakvöld, hafi hent trolldræsunum fyrir
borð. Þegar brezki togarinn lá í Vestmannaeyjahöfn voru skipverjar að slá upp
fyrir nýju trolli og var mikið af netadræsum á dekkinu. Troll togara er gert úr
miklu grófara garni en bátatroll og allar dræsurnar sem fundust við
innsiglinguna í Vestmannaeyjahöfn voru úr togaratrolli. Skipstjórinn á Lunda,
Sigurgeir Ólafsson, og bankastjóri Útvegsbankans í Eyjum, Ólafur Helgason
hófust handa um það strax í gær að reyna að fá leigðan netabát í stað Lunda, en
það hafði ekki tekizt í gærkvöldi.
Morgunblaðið. 11 apríl 1972.
28.12.2016 17:24
Gamalt áraskip.
Báturinn heitir Ólafur Skagfjörð og er áttæringur, smíðaður
í Flatey á Breiðafirði á árunum 1875-80. Ólafur Kristjánsson Skagfjörð
(1851-1887) verslunarstjóri í Flatey, stóð fyrir samskotum til að smíða þennan
bát handa Sigurði Jónssyni, aflasælum formanni sem kallaður var "stormur".
Bátur Sigurðar hafði brotnað á ís og hann hafði ekki ráð á nýjum bát.
Samskotin fengu svo góðar undirtektir að Sigurður fékk þennan bát sem hann
skírði eftir Skagfjörð verslunarstjóra í þakklætisskyni. Sigurði aflaðist hinsvegar
ekki vel á Ólafi og seldi hann Pétri Guðmundssyni frá Brennu, reyndum og
heppnum aflamanni sem réri frá Austurkleif. Veturinn 1911 lenti Pétur í miklum
hremmingum á bátnum þegar norðan áhlaup skall á honum á Svöðumiði en skipið
náði landi í Skarðsvík.
Pétur aflaði jafnan vel á Ólafi. Þegar Pétur flutti frá Hellissandi, seldi hann
Haraldi Guðmundssyni skipið. Haraldur var síðasti eigandi þess og afkomendur
hans afhentu safninu það. Róið var á Ólafi fram á 7. Áratuginn, síðast frá
Rifi.
Heimild: Sjóminjasafnið á Hellissandi.
27.12.2016 09:43
1598. Örvar HU 21. TFUR.
Nýr og
glæsilegur togari
Hlaut nafnið
Örvar HU 21
Laugardaginn 31. okt. s.l. var sjósettur nýr skuttogari hjá
Slippstöðinni h/f á Akureyri, fyrir Skagstrending h/f á Skagaströnd. Hlaut hann
nafnið ÖRVAR HU-21. Togarinn er 50,5 metrar á lengd, með 2400 ha. Wickman
aðalvél. Hann er útbúinn með flökunarvél, roðflettingarvél og frystitækjum svo
hægt er að vinna allan afla um borð. Útbúnaður þessi var settur í skipið vegna
þess að mjög hefur dregist að hefja framkvæmdir við nýtt frystihús á
Skagaströnd, sem átti að vera tilbúið um svipað leyti og togarinn. Skipstjóri á
hinu nýja skipi verður Guðjón Sigtryggsson sem verið hefur skipstjóri á
skuttogara félagsins Arnari HU-1 frá upphafi. Fyrsti vélstjóri á Örvari er
ráðinn Magnús Sigurðsson sem einnig hefur starfað um nokkurt skeið hjá
fyrirtækinu.
Á laugardagsmorguninn snemma, flykktust Skagstrendingar til Akureyrar að vera
viðstaddir sjósetningu skipsins. Mun láta nærri að um 30% hluthafa félagsins
hafi mætt við þessa athöfn. Þá var og mættur Hjörleifur Guttormsson
iðnaðarráðherra sem fór nokkrum orðum um endurnýjun skipastólsins um leið og
hann óskaði Skagstrendingum til hamingju með þetta ágæta skip. Að skírn og
sjósetningu lokinni bauð Slippstöðin h/f gestum til veglegrar veislu í
Sjálfstæðishúsinu. Þar afhenti stjórnarformaður Slippstöðvarinnar h/f, Stefán Reykjalín,
frú Halldóru Þorláksdóttur, sem gaf skipinu nafn, veglegt gullarmband, sem á
var greipt nafn skipsins og einkennisstafir. Frú Halldóra er kona Guðjóns
Sigtryggssonar skipstjóra.
Feykir. 6 nóvember 1981.
Örvar HU 21
7 apríl s.l. bættist nýr skuttogari við fiskiskipastól
landsmanna er Örvar HU-21 kom til heimahafnar sinnar, Skagastrandar, í fyrsta
sinn. Örvar er smíðaður hjá Slippstöðinni h/f á Akureyri og er smíðanúmer 64. Þetta er sjötti skuttogarinn,
sem Smíðaður er hjá stöðinni, en áður hefur hún afhent; Guðmund Jónsson GK (nú
Breki VE), Óskar Magnússon AK, Björgúlf EA, Sigurbjörgu ÓF og Kolbeinsey ÞH. Tvö fyrsttöldu skipin eru jafnframt búin
til nótaveiða. Skipð, sem er hannað hjá stöðinni, er ný hönnun, en byggir að
verulegu leyti á síðustu nýsmíði Slippstöðvarinnar, Kolbeinsey ÞH-10.
Helstu breytingar á smíði og
fyrirkomulagi eru: Smíðalengd aukin um 2.75 m; dýpt að þilförum aukin um 4 cm;
Í stað þilfarshúsa meðfram síðum á efra þilfari, undir hvalbaksþilfari, og
opins gangs á milli fyrir bobbingarennur, er lokað rými á fremri hluta efra
þilfars, undir hvalbaksþilfari; Í stað reisnar undir brú er íbúðarhæð; og
breytt fyrirkomulag á togþilfari (ekki tveggja-vörpu fyrirkomulag) og í íbúðum.
Örvar HU hefur sérstöðu í íslenzka skuttogaraflotanum hvað varðar
vinnsluþilfar, en í skipinu er búnaður til vinnslu og frystingar á flökum, og
er hann fyrsta fiskiskipið hérlendis
þannig búið. Fiskvinnslutækin eru frá Baader og frystitækin frá Kværner Kulde
A/S. Eigandi Örvars HU er Skagstrendingur h/f á Skagaströnd, en það fyrirtæki á
fyrir skuttogarann Arnar HU, sem smíðaður var í Japan árið 1973. Skipstjóri á
Örvari HU er Guðjón Sigtryggsson, 1 vélstjóri er Magnús Sigurðsson.
Framkvæmdastjóri útgerðar er Sveinn Ingólfsson.
Ægir. 5 tbl. 1 maí 1982.
Leist ekki á
frystinguna fyrst
Viðtal við
Guðjón Ebba Sigtryggsson skipstjóra
Margir hafa orðið til þess að gagnrýna einmitt frystitogara
fyrir að nýta ekki aflann nógu vel og koma ekki með allan afla að landi. Hverju
svarar frumkvöðull veiða á frystitogurum þeirri gagnrýni? "Það eru til nákvæmar
skýrslur af Örvari og Arnari frá því veiðar á frystingu hófust. Það kom
eftirlitsmaður um borð eftir hvern einasta túr og tók út það sem við höfðum
fryst af undirmálsfiski. Stundum var hluti af því dæmt upp í stærra en oftast
var það í lagi. Við vorum allir af vilja gerðir til að nýta allan afla sem
kemur um borð." Það var í apríl 1982 sem Örvar HU, fyrsti frystitogari
íslendinga, kom til heimahafnar á Skagaströnd og hélt fljótlega til veiða.
Hvernig var fyrsti túrinn? "Ég var nú ekki hrifinn af þessu í fyrstu. Mér óx
þetta töluvert í augum en lét slag standa. Allir útreikningar sýndu að þetta
væri hægt og ég held að Örvar hafi alltaf verið hagkvæmt skip. Hitt er svo
annað mál að það var upphaflega ekki gert ráð fyrir að við afköstuðum nema 8-10
tonnum af flökum á dag en þau fóru fljótlega upp í 14-15 tonn og svo upp undir
20 tonn á dag. Í fyrsta túrnum fórum við í grálúðu, lentum í mikilli veiði og
lágum mestan hluta sólarhringsins í aðgerð, toguðum ekki mjög mikið.
Byrjunarerfiðleikarnir voru miklir og álagið gífurlegt á áhöfnina. Ég man eftir
því að bátsmaðurinn hjá mér, ákaflega samviskusamur maður og duglegur, var
fjórum kílóum léttari eftir túrinn og var hann þó ekki stór fyrir. Okkur fannst
mjög erfitt að liggja í aðgerð meðan aðrir togarar mokuðu fiskinum upp í
flottrollinu. Fyrstu mánuðina voru menn afar óhressir og sumir hættu jafnvel.
En þetta hefði aldrei tekist nema vegna þess að við vorum með þrautþjálfaða og
vana áhöfn. Þorsteinn Már Baldvinsson, sem er einn eigenda Samherja, kom með
okkur í fyrsta túrinn en hann var ráðgjafi útgerðarinnar við þessar breytingar.
Við sáum fljótlega að sá skurður á flökunum sem frystihússérfræðingarnar vildu
að við beittum tafði okkur gífurlega svo við breyttum því og ákváðum að bjóða
fiskinn unninn á þennan hátt. Þetta skipti sköpum og fljótlega jukust afköstin
mjög mikið. En fyrsta árið á þessum veiðum var erfitt.
Ægir. 5 tbl. 1 maí 1996.
Örvar HU
seldur Rússum
Skagstrendingur hf. á Skagaströnd
hefur selt togarann Örvar HU-21 til rússneskra aðila og er kaupandinn Permina
Shipping. Skipið hélt úr höfn á Akureyri í gær undir stjórn nýrra eigenda og
fer á miðin í Barentshafi en þar hafa kaupendur drjúgan kvóta til ráðstöfunar.
Örvar var eitt af þeim skipum íslenska flotans þar sem fiskur var fyrst
sjófrystur um borð.
Morgunblaðið. 24 október 1997.
26.12.2016 11:01
453. Gísli Gunnarsson SH 5.
25.12.2016 11:49
B. v. Þórólfur RE 134. LCJH / TFOC.
Halaveðrið
mikla
Togararnir
Þeir koma allir inn meira og minna brotnir. Á sumum hafa
yfirmenn staðið 15 tíma samfleytt á stjórnpalli.
Þórólfur
Fremur lítið hafði orðið að á því skipi, loftskeytastengurnar
þó brotnað og bátarnir laskast.
Morgunblaðið. 11 febrúar 1925.
Þórólfur
varð fyrir áfalli.
Missti báða
bátana, og bátadekkið brotnaði.
Togarinn Þórólfur, eign Kveldúlfs h.f. varð fyrir áfalli í
grend við Vestmannaeyjar í ofsaveðrinu á föstudagskvöldið. Reið ólag yfir
skipið og missti það báða bátana og bátadekkið brotnaði. Skipið lagðast á
hliðina við áfallið og urðu skipverjar að moka til í því frá því klukkan 11 um
morguninn og þar til kl. 7 morguninn eftir, til þess að rétta það að fullu við.
Engan mann sakaði. Skipið kom á Reykjavíkurhöfn síðdegis í gær.
Alþýðublaðið. 19 desember 1948.
24.12.2016 10:23
Reykjavíkurhöfn á vetrarsólkvörfum.
Óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári
Hafið það ávallt sem allra best yfir hátíðirnar
Bestu jólakveðjur til ykkar.
22.12.2016 00:45
Nonni NK 86.
21.12.2016 00:36
2413. Guðrún Gísladóttir KE 15. TFGL.
Guðrún
Gísladóttir KE 15 sökk við strendur Noregs
Gerð var tilraun til að koma skipinu á flot á þriðjudagskvöld sem ekki tókst og sökk það í morgunsárið næsta dag.Fyrir utan síldina hafði togarinn um 300 tonn af hráolíu og 2 tonn af smurolíu innanborðs og óttast norsk yfirvöld mjög mengun af þessum sökum. Hefur útgerðin lofað að hreinsa olíu úr flakinu sem fyrst.
Héldu að skipinu myndi hvolfa
af skerinu
Guðrún Gísladóttir KE 15 var dýrasta og fullkomnasta fiskiskip íslenska fiskiskipaflotans. Skipið var smíðað til veiða og vinnslu á uppsjávarfiski og frystingar um borð. Í skipinu var 7200 hestafla aðalvél. Guðrún Gísladóttir KE er hönnuð af Skipatækni ehf. Skipið var rétt rúmlega 70 metra langt skip og 14 metra breitt. Fjórar Baader vélar voru á millidekki. Þá var búnaður til að slógdraga og hausa, sannkallaðar fjölnota vélar eins og margt annað í skipinu. Einnig voru tveir sjálfvirkir frystar sem gátu fryst allt að 180 tonnum á sólarhring. Frystilestar voru 1300 rúmmetrar og fjórir RSW kælitankar samtals 800 rúmmetrar að ógleymdri ísvél sem getur útbúið 30 tonn á sólarhring. Vinnslulína skipsins var sú fullkomnasta sem völ var á og í raun einsdæmi. Sjálfvirknin var mikil og eingöngu fjórir menn unnu við framleiðslulínuna sem var stjórnað af iðntölvu. Guðrún Gísladóttir KE var tryggð fyrir rúma tvo milljarða íslenskra króna og skipsskaðinn er stærsta einstaka tjón sem íslenskt tryggingafélag þarf að bæta. Þá eru ekki taldar með tryggingar á veiðarfærum og afla en skipið var á leið í land með síldarflök að verðmæti um 100 milljónir króna.
Guðrún Gísladóttir KE var á landleið til Leknes í Norður Noregi með 870 tonn af frystum síldarflökum þennan örlagaríka morgun um miðjan júní. Kristinn segir í samtali við Víkurfréttir að skipið var að vera komið í gegnum sund syðst í Lófóteyjaklasanum þegar það steytti á óþekktu skeri og strandar undan bænum Ballstad. Guðrún Gísladóttir var að koma af síldveiðum úr lögsögu Jan Mayen með 870 tonn af frystum síldarflökum. Vinnslu afurða um borð hafði lokið kl. 03 um nóttina og mannskapurinn var að þrífa skipið þegar ósköpin gengu yfir.
Hvernig gerðist þetta?
Þetta var ekki mikið högg, eins og keyrt væri á vegg. Skipið vípraði hins vegar stafnana á milli og tilfinningin var óþægileg. Mönnum var strax ljóst hvað væri að gerast og neyðaráætlun var þegar sett í gang um borð í skipinu".
Kristinn sagði að skipið þegar hafa hallað mikið. Þeir sem voru í koju vöknuðu við lætin þegar skipið strandaði og mannskapurinn var kominn upp í brú með það sama. Skipið hallaði um 45 gráður á skerinu að sögn Kristins var mannskapurinn mjög rólegur um borð.
Við óttuðumst þó strax að skipinu gæti hvolft af skerinu miðað við hvað það hallaði mikið. Vegna þess var allt kapp lagt á að komast sem fyrst frá borði. Við vorum tuttugu um borð og fórum allir í flotgalla í brúnni. Fimmtán fóru í sjóinn bakborðsmegin og fimm á stjórnborða. Áður höfðu björgunarbátar verið sjósettir og allir komust mjög fljótt í bátana og enginn blotnaði alvarlega".
Kristinn sagði skipið hafa staðið á skerinu að framan og þar hafi komið rúmlega metra löng rifa á skipið og sjór flætt í astikrými og í rými hjá frystivélum fremst í skipinu. Engin sjór hafi verið aftan til í skipinu, og þar flaut skipið. Þannig voru 11,5 faðmar niður á botn við skut skipsins.
Áhöfn Guðrúnar Gísladóttur var búin að yfirgefa skipið á 7-8 mínútum. Strandið er tilkynnt til norsku strandgæzlunnar kl. 08:45 að íslenskum tíma og greint er frá því í útvarpi á Íslandi í fréttatíma kl. 09:00. Það eru áhöfn Guðrúnar Gísladóttur KE mjög ósátt við. "Sérstaklega í ljósti þess að þá erum við ennþá í björgunarbátum á sjónum við skipið og okkur var ekki bjargað fyrr en hálftíma síðar en norskt björgunarskip er að bjarga okkur á tímabilinu 09:30 til 10:00 að íslenskum tíma", segir Kristinn og segist vita til þess að nokkur dæmi séu um það að eiginkonur skipverja hafi fyrst heyrt af slysinu í útvarpi og í hafi þá ekki vitað um afdrif sinna manna.
Guðrún Gísladóttir KE var að koma úr sinni sjöundu veiðiferð þegar ósköpin gengu yfir. Eins og áður hefur komið fram hallaði skipið strax mikið og óttuðust menn í fyrstu að skipinu myndi hvolfa af skerinu. Þegar menn könnuðu aðsæður um borð í skipinu á kvöldflóðinu var enginn sjór kominn upp á millidekk þess og menn voru því vongóðir um að það tækist að bjarga því. "Skipið rétti sig alveg á flóðinu um kvöldið og menn voru mjög vongóðir. Þá voru hins vegar ekki til staðar dráttarskip sem gátu ráðið við Guðrúnu Gísladóttur KE. Skipið var um 3000 tonn og á staðinn var kominn dráttarbátur með 17 tonna dráttargetu.
Það var síðan tveimur tímum fyrir morgunflóðið sem skipið fór að sökkva að aftan og Guðrún Gísladóttir KE var sokkin á tíu mínútum," sagði Kristinn þegar hann lýsti atburðarásinni fyrir blaðamanni. Kristinn segir það ekki vitað hvers vegna skipið sökk, miðað við skemmdirnar á skrokk skipsins.
Það að skipið hafi sokkið var mikið áfall fyrir mannskapinn í landi, enda menn fullir bjartsýni á að björgun tækist vel. Sjórinn á slysstað var líka sem heiðartjörn og það var ekki í hugum manna að svona færi.
Áhöfnin tapaði miklu af persónulegum munum við skipsskaðann. Menn fóru frá borði í gallabuxum og bol og skildu allt annað eftir í vistarverum skipsins. Þannig eiga áhafnarmeðlimir sjálfir engar myndir frá vettvangi slyssins aðrar en þær sem birst hafa í norskum blöðum. Allar myndavélar áhafnarmeðlima voru um borð í hinu strandaða skipi. Þá voru einnig fjölmargir aðrir persónulegir munir um borð, enda algengt að sjómenn hafi með sér persónulega muni þegar haldið er í langan tíma frá heimahögum.
Kristinn sagði norsku björgunarskipin vel búin og aðstaða um borð verið til fyrirmyndar. Þannig hafi skipbrotsmenn fengið inniskó og þurrar peysur um borð og minnsta mál að henda blautum fötum í þvottavélar og þurrkara. Svo þegar komið var í land hafi verið látið opna verslanir fyrir þá þannig að hægt væri að kaupa skó og annan fatnað.
Mikill meirihluti áhafnar Guðrúnar Gísladóttur KE hefur farið á námskeið í Slysavarnaskóla Sjómanna og sagði Kristinn þá reynslu hafa komið sér vel þegar yfirgefa þurfti skipið. Mönnum var brugðið við þær aðstæður sem menn stóðu frammi fyrir en Kristinn sagði áfallið hafa komið eftirá og sérstaklega þegar mönnum var ljóst að skipið hafi sokkið á nokkrum mínútum.
Við sjópróf kom fram að skerið, sem Guðrún Gísladóttir KE steytti á og sökk við í Lófót, var ekki merkt inn á sjókort. Skipstjórinn sagði við sjópróf í Noregi að hann hefði verið í góðri trú um að hann væri að sigla á réttri slóð þegar skip hans strandaði. Sjóprófin voru haldin í bænum Svolvær í Lófót og hófust þau á því að Sturla Einarsson greindi frá því hvað hefði gerst. Sturla sagðist hann hafa undirbúið siglinguna eftir bestu getu innan norska skerjagarðsins til bæjarins Leknes þar sem landa átti 870 tonnum af síldarflökum. Þetta var í annað sinn á örfáum vikum sem Sturla sigldi skipinu þangað en í þetta sinn var ný leið valin.
Sturla sagðist við sjóprófin hafa kannað sjókort gaumgæfilega og rætt við hafsögumenn á Lófótsvæðinu áður en hann ákvað leiðina sem farið skyldi. Hann sagðist hafa verið ákveðinn í að fara hvergi um svæði þar sem dýpi undir kili skipsins fullfermdu væri minna en 14 metrar og taldi skipið á slíkri siglingaleið þegar það strandaði. Þá var Guðrún Gísladóttir á um 6 sjómílna ferð.
Sturla lagði fram sjókort máli sínu til stuðnings í sjóréttinum og kom fram í norskum fjölmiðlum að framburður hans hafi verið mjög trúverðugur og að fas hans hefði borið vitni um að þar færi rólyndur og þaulvanur skipstjórnarmaður.
Þegar þetta er skrifað er ennþá óljóst hvað tekur við hjá þeim 40 sjómönnum sem misstu vinnu sína við skipsskaðann. Það voru tvær 20 manna áhafnir á Guðrúnu Gísladóttur KE, enda skipið í raun fullkomin verksmiðja sem átti aldrei að stoppa.
Guðrún Gísladóttir KE 15 var dýrasta og fullkomnasta fiskiskip sem smíðað hefur
verið fyrir íslenska fiskiskipaflotann. Svona skip liggja ekki á lausu og eru í
raun ekki til í heiminum í dag. "Guðrún Gísladóttir KE var algjör hafborg og
mikill söknuðu af þessu skipi," sagði Kristinn Pálsson í samtali við
Víkurfréttir. Krisinn var þess heiðurs aðnjótandi að sækja skipið nýtt til Kína
á síðasta ári og sigla með því um 10.000 sjómílna leið til Íslands og þurfti
meðal annars að fara um tvær hættulegustu siglingarleiðir heimsins, þar sem
sjórán og jafnvel morð á sjómönnum eru algeng. Eftir að hafa sloppið
áfallalaust í gegnum þær slóðir kom mönnum ekki til hugar að tæpu ári síðar
ætti þetta rúmlega tveggja milljarða króna skip eftir að liggja á hafsbotni við
Norður Noreg.
Viðtal við Kristinn Pálsson matsvein í Víkurfréttum
frá 2002.
20.12.2016 00:13
1829. Máni ÁR 70.
19.12.2016 00:26
B. v. Eiríkur rauði RE 23. LBND.
Eiríkur
rauði strandar við Kúðaós.
Seint í fyrra kvöld fjekk Geir Thorsteinsson, útgerðarmaður,
loftskeyti frá skipstjóranum á togaranum Eiríki rauða, þar sem skipstjórinn
skýrði frá því, að skipið væri strandað, en vissi ekki glöggt hvar, sennilega á
Mýratanga, vestan við Kúðaós. Varðskipið Óðinn, sem var staddur við
Vestmannaeyjar, náði einnig loftskeytum frá Eiríki rauða og fór strax austur á
strandstaðinn. Óðinn kom á strandstaðinn kl. 3 í fyrrinótt. Hann var í stöðugu
skeytasambandi við togarann. Þegar birti í gærmorgun sáu skipverjar á Óðni menn
í fjörunni, og þeir sáu einnig menn um borð í togaranum. Vegna brims gat Óðinn
ekkert samband haft við togarann, nema gegn um loftskeytin meðan þau voru í
lagi. Þegar leið fram á morgun (gærmorgun) sápu skipsmenn á Óðni menn á
togaranum hópast fram á hvalbakinn og um sama leyti voru dregin upp flögg á
togaranum, sem gáfu til kynna að nú yfirgæfu mennirnir skipið. Nokkru síðar sáu
skipverjar á Óðni marga menn uppi í fjöru, einnig hesta, og mennirnir dreifðu
sjer um fjöruna.
Þetta eru einu fregnirnar er borist höfðu af strandinu í gærkvöldi.
Eins og
sjest á fregnunum, höfðu skipsmenn á Óðni ekki getað náð tali af skipsmönnum á
togaranum og þeir höfðu ekkert samband við menn úr landi. Skipsmenn á Óðni
vissu því ekki hvernig skipverjar úr togaranum björguðust á land og ekki hvort
allir hefðu bjargast, eða hvort nokkurt slys hefði orðið. Nánari fregnir af
þessu öllu geta fyrst komið hingað í dag.
Í skeytinu frá skipstjóranum á Eiríki rauða, segir, að hann haldi að þeir hafi strandað
á Mýratanga, vestan við Kúðaós. En eftir þeim upplýsingum, sem Mbl. fjekk í gær
frá Vík í Mýrdal, er sennilegra að strandið sje austan við Kúðaós. Maður hafði
komið til Víkur í gær, austan úr Álftaveri, og sagði hann frá því, að þeir
Álftveringar hefðu sjeð merki þess í fyrrakvöld, að eitthvað var að hjá skipi við
sandana, en þeir álitu það vera fyrir austan
Kúðaós, á Meðallandsfjörum.
Enda er þetta sennilegra, þar eð í gærkvöldi hafði
enginn sendimaður komið til Víkur til þess að tilkynna sýslumanni strandið.
Hafi strandið orðið fyrir vestan Kúðaós, þá hefði sendimaður átt að vera kominn
til Víkur seinnipartinn í gær, en sje strandið fyrir austan ósinn, þá var ekki
hægt að búast við sendimanni fyrri en seint í gærkvöldi eða fyrripartinn í dag.
Eiríkur rauði var nýtt skip, smíðaður
1925 í Selby í Englandi. Hann var með stærstu togurum hjer, 144.84 fet á lengd
og var 412 smál. brúttó, 174 smál. nettó. Skipið var vátryggt hjá Samtryggingu
íslenskra botnvörpuskipa. Skipstjóri var Guðmundur Sveinsson. Skipið var að
koma frá Englandi, fullfermt af kolum.
Morgunblaðið. 4 mars 1927.
18.12.2016 11:05
2031. Hópsnes GK 77. TFBE.
Hópsnes GK
77
Ægir. 1 apríl 1990.
17.12.2016 11:47
B. v. Walpole RE 239. LCJM / TFZC.
Togarinn
Walpole rekst á klett og sekkur
Skipshöfnin
heil á húfi
Allt í einu rakst skipið á klett, með því afli, að gat kom á, og fossaði sjór inn í lúgarinn, sem fylltist svo ört, að hásetar, sem þar voru, urðu að flýja þaðan samstundis. Gátu þeir lítið eitt tekið með sjer upp úr lúgarnum. Skipið seig strax frá skerinu, því að aðdjúpt var þarna , einir 30 metrar í botn. Var reynt að hefta leka skipsins og dæla það. En jafnframt skyldi reynt að sigla því til hafnar eða grunns. En brátt varð það skipverjum ljóst, að við ekkert varð ráðið, og myndi togarinn skammt eiga eftir ofansjávar. Því var leitað til björgunarbátanna , og fóru skipverjar í þá. Liðu um 20 mínútur frá því áreksturinn varð, og þangað til Walpole sökk. Var togarinn þá kominn út af Vöðlavík.
Er gert ráð fyrir, að sjór hafi komist strax í skipið framan við skilrúm það, sem er framan við lúgarinn, sennilegt að skilrúmið hafi laskast við áreksturinn. Sjór kom og strax í framlest skipsins. Þó skipverjar yrðu að flýja lúgarinn í dauðans ofboði, og hafa sennilega ekki allir getað tekið með sér föt sín þaðan, voru þeir allir alklæddir er í björgunarbátana kom, munu hafa getað fengið föt hjá þeim skipverjum, sem höfðust við aftar í skipinu. Dimmviðri var á, en sjógangur ekki mikill. Reru skipbrotsmenn inn að Karlsskála, en þar fengu þeir trillubáta, er drógu þá inn á Eskifjörð. Walpole var byggður í Englandi 1914, var 301 tonn að stærð. Hingað var hann keyptur árið 1920, en fjelagið sem átti hann, keypti hann árið 1923. Skipstjóri á Walpole var Ársæll Jóhannesson frá Eyrarbakka.
Morgunblaðið 18 september 1934.
16.12.2016 11:50
122. Ingvar Guðjónsson EA 18. TFJS.
Ingvar
Guðjónsson EA 18
Í morgun sigldi hér í höfn, fánum skrýtt, eitt glæsilegasta
skip íslenzka fiskiskipaflotans, Ingvar Guðjónsson. Skipið er 186 smálestir,
byggt í Svíþjóð og búið öllum nýjustu tækjum. Vistarverur skipverja eru allar
hinar ákjósanlegustu. Í skipinu er hydroliskt botnvörpuspil, sem er það fyrsta
þeirrar gerðar, er kemur hingað til lands. Ingvar Guðjónsson er stærsta skip,
sem siglt hefur gegnum Gautakanal, frá Wetter til Wener. Skipið kemur hingað á
60 ára fæðingarafmæli Ingvars heitins Guðjónssonar, er það heitir eftir.
Í morgun kom hingað til Siglufjarðar nýtt og glæsilegt fiskiskip. Skipið heitir
Ingvar Guðjónsson og er eign hlutafélagsins Hervör. Það er í alla staði hið
vandaðasta, byggt í Sviþjóð í skipasmíðastöðinni Rödesunds Bátvard Karlsborg.
Það er búið 600 ha. Polar Diesel aflvél. auk þess er 60 ha. vél, sem knýr spil
skipsins og 30 ha. ljósavél. Vistaverur skipverja eru allar hinar ákjósanlegustu.
Frammi í skipinu er hásetaklefi fyrir 12 menn, en afturí er káeta fyrir 4 menn
og tveir klefar, annar fyrir stýrimann, en hinn fyrir vélstjóra. Undir
stjórnklefa skipsins er íbúð skipstjóra, auk matsals og eldhúss. Allar
íbúðirnar eru innréttaðar með maghony. Skipið er hitað upp með olíukyndingu, en
í öllum vistarverum er renanndi heitt og kalt vatn. Einnig er í skipinu
baðklefi.
Samningar um smíði skipsins voru undirritaðir 27. júní 1946 og átti það að
afhendast í fyrrahaust. Miklar tafir urðu þó á afhendingu skipsins, svo að það
kemur nú um 8 mánuðum seinna til landsins en til var ætlazt. Barði Barðason skipstjóri
hefur um skeið dvalizt úti og séð um smíði skipsins. Eigandi þess er h.f.
Hervör, en Ingvar heitinn Guðjónsson var stofnandi þess ásamt Barða Barðasyni.
Það kostar nú fullsmíðað um 1 milljón króna.
Í Ingvari Guðjónssyni er svo nefnt hydroliskt trollspil, sem er ný tegund af
dragnótaspilum, og er þetta það fyrsta, er hingað kemur til lands, en þau eru
framleidd í Englandi. Þessi tegund spila er talin sérstaklega hagkvæm og
kraftmikil. Spilið í Ingvari lyftir t.d. 12 tonnum.
Frá Svíþjóð hélt skipið til Bergen í Noregi, en þar tók það nýja fullkomna
nótabáta og annan nauðsynlegan útbúnað. Frá Bergen og hingað til Siglufjarðar
var skipið rúma 3 sólarhringa og gekk að meðaltali 10 mílur, en í reynsluför
gekk skipið rúmar 11 mílur. Það reyndist í alla staði vel á leiðinni til
landsins og lætur skipstjórinn hið bezta af því.
Ingvar Guðjónsson er fullbúinn til síldveiða og mun hefja þær eftir 2 til 3
daga. Skipstjóri verður hinn kunni aflamaður, Barði Barðason, sem lengst af
hefur verið skipstjóri á Gunnvör, sem er eign sama félags.
Siglfirðingur. 17 júlí 1948.
Eldur í
Ingvari Guðjónssyni SK 99
Skipið
mannlaust er eldur kom upp
Klukkan 5,35 í gærmorgun var Slökkvilið Hafnarfjarðar kvatt
að m.b. Ingvari Guðjónssyni SK 99, er lá
við syðri hafnargarðinn í Hafnarfirði. Er slökkviliðið kom að skipinu var mikið
reykkóf í vélarrúmi, svo að ekki sá handa sinna skil, og lagði reykinn um
afturhluta skipsins. Eldurinn marg gaus upp aftur, en ógerningur reyndist lengi
vel að fara niður í vélarrúmið, unnu slökkviliðsmennirnir þó með reykgrímum.
Slökkvistarfið tók alls rúmar 2 klukkustundir, og urðu miklar skemmdir í
vélarrúminu. Vaktmaður frá Olíustöðinni á Hvaleyrarholti, er var á verði við
olíuskipið Stapafell er lá við olíubryggjuna skammt frá, varð þess var að
óvenjumikinn reyk lagði frá Ingvari Guðjónssyni, og gerði hann slökkviliðinu
aðvart. Enginn maður var þá um borð í Ingvari, en ljósavél skipsins var í
gangi. Eigendur m.b. Ingvars Guðjónssonar eru Haraldur Jónsson og Jón G.
Hafdal, báðir úr Hafnarfirði.
Alþýðublaðið. 28 mars 1968.
Ingvar
Guðjónsson útgerðarmaður
Það er ánægjuleg tilviljun, að m.s. Ingvar Guðjónsson skyldi
koma á 60 ára fæðingarafmæli hins mikla athafnamanns, Ingvars heitins
Guðjónssonar, sem er stofnandi fyrirtækis þess, er byggja lét skipið, ásamt
Barða Barðasyni. Ingvar Guðjónsson var fæddur 17. júlí 1888 að Neðra-Vatnshorni
í Húnavatnssýslu, sonur hjónanna Guðjóns Helgasonar, síðar fiskimatsmanns og
Kritsínar Árnadóttur. Sökum fátæktar foreldra, varð Ingvar að fara úr
foreldrahúsum fljótlega eftir að hann komst á legg, og upp frá því að bjargast
af eigin rammleik. Mun hann oft hafa orðið að heyja harða lífsbaráttu árin
1894-1905. Sjómennska Ingvars hófst veturinn 1905 með því, að hann fór
fótgangandi úr Húnavatnssýslu og suður í Hafnir, og réði sig þar til sjóróðra.
Upp frá því var sjómennska hans aðalstarf til ársins 1920.
Fyrstu kynni sín af síld og síldveiðum mun Ingvar hafa hlotið sumarið 1910.
Réðst hann þá ásamt vestfirzkum sjómönnum til norsks skipstjóra, Saxe að nafni.
Hugðist Saxe stunda síldveiðar með landnót við Kúvík í Reykjafirði. Dvöldu
leiðangursmenn þar frá júlíbyrjun þar til í september. Reiknað var með ca 3000
tunna sumarveiði, en veiðin varð ca. 30 tunnur. Kaupið, sem Saxe lofaði að
greiða var kr. 35,00 pr. mánuð og auk þess 10 aura premiu af hverri uppsaltaðri
tunnu Heildarþjónusta fiskimanna varð því ca. 70 kr. yfir sumarið, sem
Norðmaðurinn gleymdi svo að greiða í vertíðarlok. Þessi viðskipti Ingvars við
Norðmanninn og síldina mun hafa reynzt honum góður skóli. Formennsku hóf Ingvar
1911 á m.b. Hafliða, sem Helgi Hafliðason á Siglufirði átti, og lánaðist honum
formennskan vel. Eftir það var Ingvar oftast formaður eða skipstjóri á sínum
eigin skipum, eða annarra, allt til ársins 1920. Góður aflamaður var Ingvar
talinn og mun ætíð hafa verið í hópi þeirra fengsælustu, mundi hann á
nútímavísu vera kallaður góður og greindur fiskimaður.
Árið 1916 hóf Ingvar útgerð með því að láta byggja skipið Ingibjörgu í félagi
við Ásgeir Pétursson. Árin 1922 til 1936 mun útgerð Ingvars hafa verið
umfangsmest. Gerði hann þau árin út 6 til 9 skip og báta árlega, er hann átti
sjálfur, fyrir utan leiguskip. Síldarsöltun og síldverzlun hóf Ingvar árið 1920
og rak til dauðadags eða í 23 ár. Megin hluta þessa tímabils var hann
langsamlega stærsti síldarsaltandi og síldarútflytjandi hérlendis.
Alls mun hann hafa látið salta yfir þetta tímabil allt að 400.000 tn. Vart munu
skiptar skoðanir um það, að Ingvar hafi verið einn ötulasti og glöggskygnasti
maður, sem fengizt hefur við síldarframleiðslu. Þótt hugur Ingvars bindist
einkum að sjónum, hafði hann einnig áhuga á landbúnaðarmálum. Árið 1927 keypti
hann jörðina Kaupang í Eyjafirði, bætti hana mikið og hugðist hefja þar búskap
á fardögum 1944, en entist ekki aldur. Mun fyrir honum hafa vakað, að sýna
bændum landsins, að hægt væri að búa hallalaust á sæmilegu jarðnæði. Með
Ingvari Guðjónssyni hneig í valinn einhver merkasti athafnamaður landsins. Í
dag sigldi í höfn, eitt glæsilegasta skip íslenzka fiskiskipaflotans, sem ber
nafn hins kunna framtaksmanns. Það er von og trú, að hið glæsta skip muni í
góðra höndum halda nafni Ingvars á lofti, með þeim hætti, sem hann mundi
sjálfur sennilega helzt hafa kosið.
Siglfirðingur. 17 júlí 1948.
- 1
- 2