Færslur: 2017 Janúar
16.01.2017 00:10
B. v. Gerpir NK 106 kemur til heimahafnar.
Þann 12. janúar árið 1957 fékk Bæjarútgerð Neskaupstaðar
afhentan nýjan togara í skipasmíðastöðinni A. G. Weser Werk Seebeck í
Bremerhaven í Þýskalandi. Skipið fékk nafnið Gerpir og kom það til heimahafnar
í Neskaupstað fjórum dögum síðar, þann 16. janúar. Nýr og glæsilegur togari,
búinn bestu tækni þessa tíma, var sannarlega tilefni til fagnaðar í
útgerðarbænum Neskaupstað og þangað voru komnir alþingismenn á borð við Eystein
Jónsson, Hannibal Valdimarsson og Lúðvík Jósepsson til að vera viðstaddir
skipakomuna. En skugga bar á því réttum hálfum mánuði áður strandaði annar
togari bæjarútgerðarinnar, Goðanes, í mynni Skálafjarðar í Færeyjum og þar
fórst skipstjórinn, Pétur Hafstein Sigurðsson. Þetta var mikið áfall fyrir
Norðfjörð og bættist við annað áfall tveimur árum áður þegar togarinn Egill
rauði fórst í strandi við Grænuhlíð en þar fórust fimm af skipverjunum. Það
ríkti því bæði gleði og sorg þessa janúardaga á Norðfirði. Öllum var ljóst að
Gerpir var mikið skip á íslenskan mælikvarða þessara ára. Þetta var fyrsti
togarinn sem smíðaður var í Þýskalandi eftir heimsstyrjöldina síðari en
Þjóðverjar og Bretar þóttu standa fremstir skipasmiða í heiminum. Allar
frumteikningar og verklýsingar af skipinu voru gerðar af Skipa og vélaeftirliti
Gísla Jónssonar í Reykjavík en Gerpir var að vélbúnaði og hvað fyrirkomulag
varðaði mjög svipaður og togararnir Þorkell Máni og Gylfi sem byggðir voru í
Englandi fimm árum áður.
Gerpir NK 106 við komuna til Neskaupstaðar 16 janúar 1957. (C) Sigurjón Kristjánsson.
Hinn nýi og glæsilegi togari Norðfirðinga m/s Gerpir kom til Neskaupstaðar 16. jan. sl. Smíði hans var ákveðin nokkrum dögum eftir að b/v Egill rauði fórst í janúar 1955. Að forgöngu Lúðvíks Jósepssonar núverandi sjávarútvegsmálaráðherra sameinuðust allir stjórnmálaflokkar S.-Múlasýslu um þetta mikla átak í atvinnumálum staðarins, og voru í byggingarstjórn hins nýja togara valdir þeir Lúðvík Jósepsson frá Sósíalistaflokknum, Axel Tuliníusson frá Sjálfstæðisflokknum, Ármann Eiríksson frá Framsóknarflokknum og Oddur A. Sigurjónsson frá Alþýðuflokknum. Fulltrúar byggingarstjórnar fóru skömmu síðar til Þýzkalands ásamt Gísla Jónssyni forstj. og Erlingi Þorkelssyni vélfræðingi, en þeir voru ráðunautar Norðfirðinga um togarakaupin. 1 maí 1955 var samningur um smíði togarans undirritaður hjá hinni heimsþekktu togarabyggingarstöð A. G. Weser/werk, Seebeck, Bremerhaven, Botnvörpuskipið Gerpir, NK 106, er stærsta og fullkomnasta skip íslenzka fiskveiðiflotans og í tölu fullkomnustu togveiðiskipa, sem byggð hafa verið.
130. Gerpir NK 106 í Reykjavíkurhöfn 30 mars árið 1957. (C) Björn Björnsson.
Ýmsar nýjungar eru í skipinu, sem ekki eru í öðrum fiskiskipum og íbúðir
skipverja rúmbetri og vandaðri en áður hefur sézt í fiskiskipum. Gerpir er 804
rúmlestir að stærð. Skipið er 185 fet á lengd, 32 fet á breidd og 17 feta
djúpt. Í skipinu eru hvílur fyrir 42 menn. Íbúðir fyrir 26 eru frammí. Eru þar
aðallega tveggja og þriggja manna herbergi og tvö sex manna, sem notuð verða,
þegar skipið er á veiðum í salt. Þar er ennfremur sérstakt þurrkherbergi fyrir
sjóklæði og þvott skipverja, snyrtiherbergi með nokkrum handlaugum, speglum og
litlum baðkerum fyrir fótaþvott, en slíkt er mikilvægt fyrir menn, sem mikið
eru í þungum gúmmístígvélum við störf. Í þessum hluta skipsins er einnig
setustofa, þar sem menn geta setið við spil, lestur, eða hlustað á útvarp. Allar
eru íbúðir skipverja vistlegar og klæddar Ijósum við. Aflvél skipsins er
dieselvél af M.A.N. gerð.
Orka hennar er 1470 hestöfl með 275 snúninga á mínútu. Rafmagn skipsins er
framleitt með þremur þýzkum dieselvélum, tvær eru 126 hestöfl, en ein 60 hestöfl.
Rafalar eru 80 og 60 kílóvött. Togvinda er rafknúin af 275 hestafla mótor, sem
knúinn er 220 kílóvatta rafli, sem tengdur er aðalvél. Á stjórnpalli eru
fullkomin siglingatæki. Þar er fullkomin ensk ratsjá, fisksjá, miðunarstöð og
svo gyro-áttaviti og sjálfstýring, sem ekki mun vera til í öðrum íslenzkum
fiskiskipum. Símakerfi er um allt skipið.
Gerpir NK 106 í smíðum hjá A.G. Weser Werk Seebeck árið 1956. Ljósmyndari Óþekktur.
Fiskilest skipsins er 19 þúsund rúmfet að stærð. Fremst er 40 rúmmetra geymsla
fyrir góðfisk. Er sú lest útbúin þannig í sambandi við frystitæki, að í henni
má hafa 24 stiga frost. En í öllum hinum lestunum er einnig kæliútbúnaður undir
þilfarinu. Geymist fiskurinn mun betur í kældum lestum en ókældum, einkum að
sumarlagi, þegar sigla þarf langar leiðir með afla. Frystiútbúnaður þessi er
einfaldur í meðförum og hafa vélstjórar skipsins umsjón með tækjunum. Lestirnar
eru innréttaðar svipað og algengt er í togurum. Skilrúm eru úr venjulegum
lestarborðum en lestirnar sjálfar að nokkru klæddar alúmíníum, svo auðveldara
sé að hirða þær og halda hreinum. Þilfarið er slétt stafna á milli, en ekki
brotið, eins og algengast er á eldri togurum okkar, smíðuðum í Englandi. Hafa
skipin frekast viljað brotna um samskeytin og er þetta byggingarlag talið
sterkara. Þilfarinu hallar líka minna en á mörgum hinna eldri togara og skapar
það þægilegri aðstöðu til vinnu á þilfari.
Mannhæðarhá skjólborð eru frá hvalbak aftur á móts við togvindu og hlífir það
skipverjum fyrir ágjöf, þegar verið er við vinnu á þilfari.
Meðfram gangi er slá til að geyma á hin
stóru og þungu vörpuflotholt, sem eru úr járni. Sitja þau þar kyrr, þótt
veltingur sé á siglingu og brjóta þá ekki upp steypu við öldustökk í ganginum,
eins og oft vill verða þegar flotholtin, eða "bobbingarnir", eins og það
heitir um borð í togara, berjast laus í ganginum.
Togaranum gefið nafn. Ljósmyndari óþekktur.
Ein af mikilvægustu
breytingunum sem á þessu skipi eru frá þeim eldri er innbyggður gangur í
vélarreisn, sem nær frá stjórnpalli og aftur eftir skipinu, og þurfa því
skipverjar sem fara milli borðsalsins eða skipverjaklefa afturí ekki að fara út
á dekk eða út í ganginn, eins og á hinum eldri skipum. Gangur þessi er því, auk
þess að vera til mikilla þæginda, stórkostelgur öryggisútbúnaður í skipinu, þar
eð ferðir skipverja í göngunum hafa oft reynzt að vera hinar hættulegustu.
Gangur þessi er að allra sjómanna dómi stórkostleg framför frá því sem verið
hefur. Eins og áður segir er skipið búið gíróáttavita með sjálfstýrisútbúnaði
og ér eini íslenzki togarinn sem búinn er þeim tækjum. Tæki þessi eru til
mikilla bóta og talið er að þau geti m. a. í langsiglingum sparað allmikið í
olíukostnaði. Þá er í skipinu símakerfi með 8 línum, og sérstakt símatæki
frammi í skipinu og annað aftur í borðsal, auk síma hjá helztu yfirmönnum
skipsins. Í eldhúsi er rafmagnseldavél og rafmagnspottur, en horfið frá gömlu
olíukyndingarvélinni sem er í eldri togurunum.
Skipið er búið tveim alúmíníum björgunarbátum, sem komið er fyrir á þann hátt
að miklu auðveldara á að vera að koma bátunum í sjóinn en verið hefur á eldri
skipum. Þá er skipið búið gúmbjörgunarbátum. Ýmsar fleiri breytingar hafa verið
gerðar á þessu skipi frá því sem var á eldri togurunum, má m. a. nefna það að
togrúllur eru útbúnar með kúlulegum í stað hinnar einföldu fóðringaraðferðar
sem verið hefur. Það er einróma álit þeirra sem skoðað hafa togarann að allur
frágangur á smíði skipsins sé hinn bezti og meira í hann lagt en áður hefur
þekkzt hér á íslensku togurum. Leynir það sér ekki að þýzka skipasmíðastöðin,
er mikinn áhuga hafði á því að fá að byggja togara fyrir Íslendinga, hefur lagt
sig fram um að gera verkið sem bezt úr garði, og sýna þar með Íslendingum
handbragð sitt og að Þjóðverjar smíði ekki lakari skip en Englendingar.
Togaranum Gerpi NK 106 hleypt af stokkunum. Ljósmyndari óþekktur.
Strax í upphafi skipakaupanna var skipaeftirlit Gísla Jónssonar og Erlings
Þorkelssonar ráðið til að hafa eftirlit með smíði skipsins og vera Norðfirðingum
til ráðuneytis um allt er skipakaupin varðaði. Eins og áður er sagt fóru þeir
Gísli Jónsson og Erlingur Þorkelsson út til Þýzkalands og sömdu þar með
Norðfirðingum um smíði skipsins. Það eru orð þeirra Norðfirðinga að þeir Gísli
og Erlingur hafi staðið með miklum ágætum í sínu starfi og gætt hagsmuna
kaupenda á þann hátt sem bezt verður á kosið, enda er skipaeftirlit þeirra
gjörkunnugt togarabyggingum af mikilli reynslu. Mun Erlingur Þorkelsson vera sá
íslendingur, sem mesta kunnugleika hefur á vélum og útbúnaði íslenskra togara,
enda var hann úti í Bretlandi sem eftirlitsmaður með smíðí nýsköpunartogaranna
32 á sínum tíma og síðar.
Í reynsluför reyndist ganghraði Gerpis 13,8 sjómílur. Á leiðinni heim reyndist
hann hið bezta og er það álit skipstjóra og skipshafnar að hann sé hið bezta
sjóskip. Á m/s Gerpi starfar vaskleg skipshöfn og vekur það sérstaka athygli,
að skipstjóri og stýrimenn eru allir ungir menn innan við þrítugt.
Magnús Gíslason skipstjóri er 29 ára, hann var áður skipstjóri á Goðanesinu, en
lét af því starfi á sl. hausti. Hann er bróðir Bjarna, sem er skipstjóri á b/ v
Austfirðingi. Eru þeir bræður Vestfirðingar úr Önundarfirði. Fyrsti stýrimaður
er Birgir Sigurðsson frá Neskaupstað, 2. stýrimaður Guðmundur Jónsson, 1.
vélstj. Hjörtur Kristjánsson, 2. vélstj. Magnús Hermannsson og bátsmaður,
Herbert Benjamínsson, Neskaupstað og loftskeytamaður er Ragnar Sigurðsson,
Neskaupstað.
B.v. Gerpir á ytri höfninni í Reykjavík 30 mars árið 1957. (C) Björn Björnsson.
Í ársriti Der Deutschen Fischwirtschaft 1957 er mjög ýtarleg grein um m/s
Gerpir og nákvæm lýsing af skipinu og segir þar m. a.: Vélar þær sem gerðar
hafa verið kröfur um í þetta skip eru talsvert frábrugðnar því, sem þekkjast í
þýzkum dieselvélarskipum. Þegar Íslendingar endurnýjuðu togaraflota sinn eftir
styrjöldina létu þeir byggja í Englandi dieseltogara með nýju fyrirkomulagi,
sem virðist hafa gefið þeim góða raun, þar sem þetta og annað skip, sem samið
hefur verið um smíði á, eru með sama fyrirkomulagi. Munu þýzkir togaraeigendur
veita þessu sérstaka athygli. Útbúnað þann er hér um ræðir létu þeir Gísli og
Erlingur gera, sem áður var óþekkt, að taka orku til togvindu beint af aðalvél
skipsins. Einnig tóku þeir upp þá nýbreytni á eimtogurunum, sem ekki hafði áður
verið á fiskiskipum, að nota rafdælur í stað eimdælna, er sparar mjög olíu.
Sjómannablaðið Víkingur. 1 febrúar 1957.
.
Nýfundnalandsveðrið
1959
Gerpir
kominn heim úr harðsóttri veiðiför
Síðastliðinn föstudag, um kl. 18, kom togarinn Gerpir heim
til Neskaupstaðar úr veiðiför á Nýfundnalandsmið. Skipið fór frá Reykjavík þann
28. janúar, eftir vélaraðgerð, og var því alls 17 daga í veiðiförinni. Fréttaritari
Mbl. átti tal við Birgi Sigurðsson í Neskaupsstað, sem var skipstjóri á Gerpi
að þessu sinni, en er annars 1. stýrimaður á skipinu, og spurði hann frétta af
ferðinni, sem var allviðburðarík. Laugardaginn 31. janúar, kl. tæplega 6 um
morguninn, hafði skipið siglt um 540 sjómílur frá Reykjavík og var statt 280
sjómílur frá Hvarfi á Grænlandi. Myrkur var á og stormur 9-10 vindstig á móti,
og var aðeins sigld hálf ferð. Kom þá brotsjór á skipið stjórnborðsmegin og
braut 5 glugga í stýrishúsinu, en brúna hálffyllti af sjó. Skipstjórinn var að
koma út úr íbúð sinni, þegar sjórinn fossaði inn í brúna, og stóð hann í sjó
upp í háls fyrr en varði. Skipstjórinn óð gegnum sjóinn að vélsímanum og setti
á "stanz", síðan á fulla ferð áfram og sneri jafnframt undan veðrinu.
Sjórinn braut ýmislegt í brúnni, m. a. hurð í dyrum á ganginum aftur í skipið.
Ratsjáin lyftist af sæti sínu og slitnaði úr tengingum, gíróáttavitinn
skemmdist, og einnig bilaði dýptarmælirinn. Áður en birti og hægt var að
rannsaka tjónið til fulls, taldi skipstjórinn sennilegast, að Gerpir yrði að
snúa við heimleiðis. Skemmdirnar reyndust hins vegar ekki eins miklar og búast
mátti við. Yfirbygging sjálf var óbrotin, seguláttavitar heilir, og
loftskeytamaðurinn taldi sig mundu geta komið dýptarmælinum í gangfært lag.
Ákvað skipstjórinn þá, í samráði við áhöfnina alla, að halda áfram á miðin.
Vann nú skipshöfnin að því að þétta brúargluggana, og síðan var haldið áfram.
Loftskeytamaðurinn, Björn Ólafsson, reyndist vanda sínum vaxinn og kom öllum
tækjum skipsins í lag, þannig að þau dugðu svo til alla leiðina heim. Telur
skipstjórinn það mjög vel að verið af loftskeytamanninum við þau skilyrði, sem
eru um borð.
Gerpir NK í Nýfundnalandsveðrinu. Skipverjar að berja ísinn af skipinu. (C) Magnús Hermannsson.
Aðfaranótt miðvikudagsins 4. þ. m. kom Gerpir á hin svonefndu "syðstu
karfamið", á 50,27 brgr. Hafði hann fengið 7- 10 vindstiga veður á móti
alla leið. Á meðan verið var að veiðum á miðunum var veður mjög sæmilegt og
gott nema fyrsta daginn. Afli var mikill af góðum karfa, og þurfti yfirleitt
ekki að toga nema fáeinar mínútur. Sprengdu þeir oft netið, ef togað var
örlítið of lengi. Tvisvar kom það fyrir, að allur belgurinn rifnaði frá, en
skipinu var lagt að honum í bæði skiptin. Fengust 5 pokar í annað skiptið, en 3
í hitt. Um kl. 18 á laugardaginn 7. febrúar var síðasta trollið tekið inn. Var
þó í ráði að taka eitt tog enn, því að lestarnar voru ekki alveg fullar. En þá skall
skyndilega á þá óveðrið eins og hendi væri veifað. Var það ofsarok af
norðnorðvestri með 10-12 gráða frosti og byl og sjávarhitinn fór 1% gráðu undir
frostmark. Rokið stóð beint af Nýfundnalandi, og fréttu skipverjar af
margvíslegu tjóni þar í landi af völdum þess.
Jafnskjótt og veðrið skall á, var farið að "gera sjóklárt", og kl. 23:15
var lagt af stað heimleiðis. Var fyrst siglt beint undan veðrinu, sem nú hafði
snúizt til norðvesturs, en það svarar til, að tekin hafi verið stefna frá
miðunum á Pentlandsfjörð, sundið milli Skotlands og Orkneyja. Var siglt í þessa
stefnu á hægri ferð, stundum með stöðvaða vél ,um 130 sjómílna leið, en þá var
tekin stefna á Vestmannaeyjar. Gerpir var þá fyrir löngu kominn í hlýjan sjó og
frostlaust veður, en hins vegar hélzt veðurofsinn 10-15 vindstig í tvo
sólarhringa. Þá fór veðrið einn sólarhring niður í 7 vindstig, en fór svo
vernsandi á nýjan leik, er nálgaðist Ísland. Þrátt fyrir veðrið og hina löngu
leið, sem Gerpir fór, var skipið aðeins 5 sólarhringa og 19 klst. frá miðunum
til Neskaupstaðar, en það er ekki miklu meira en meðalsiglingatími þessa leið.
Ísinn barinn af rá og reyða skipsins. Búið er að negla fyrir þá glugga í brúnni sem brotnuðu í brotinu sem togarinn varð fyrir suður af Hvarfi á Grænlandi. (C) Magnús Hermannsson.
Herbert
Benjamínsson bátsmaður var viðstaddur þegar fréttaritarinn talaði við skipstjórann.
Rómuðu þeir báðir afburðasjóhæfni Gerpis í þessu stórviðri, ekki sízt á
undanhaldi. Þeir töldu, að straumband frá Hvarfi hafi valdið því, að skipið
fékk á sig hnútinn á vesturleið. Elzti skipverjinn á Gerpi er Sigurður Jónsson,
en hann er á 75. aldursári og hefur stundað sjó yfir hálfa öld, lengst af verið
skipstjóri, og oft fengið hörð veður. Telur Sigurður þetta með allra verstu
veðrum, sem hann hefur lent í á sinni sjómannstíð. Ekkert taldi hann sig samt
hafa á móti því að fara aftur á sömu slóðir, ef skipið héldi þangað nú. Það
verður þó ekki að þessu sinni, því að Gerpir mun fara á veiðar á heimamiðum,
þegar löndun og viðgerð er lokið.
Annar matsveinn á Gerpi er tvítug stúlka, Jóhanna Jóhannsdóttir. Ekki kvaðst
hún hafa verið vitund hrædd í þessari volksömu sjóferð, en hún hefur áður verið
um tíma á skipinu og eina vertíð kokkur á síldarbát. "En strákarnir sögðu bara,
að ég væri svo vitlaus, að ég vissi ekki, hvað um væri að vera", segir
Jóhanna. Henni líkar starfið vel og skipverjum við frammistöðu hennar. Mun hún
verða áfram á skipinu "og nú verð ég að
fara að hugsa um kostinn í næsta túr", segir hún og kveður fréttaritarann.
Norðfirðingar fagna skipi og skipverjum, heimkomnum úr erfiðri för, og þykir
skipstjóri og áhöfn hafa unnið afrek, sem krefst mikils þreks, og skipið reynst
vel við slæm skilyrði.
Morgunblaðið. 17 febrúar 1959.
Gerpir seldur
Júpíter hf í Reykjavík
Sl. föstudag samþykkti bæjarstjórn Neskaupstaðar einróma að
selja Gerpi togara bæjarútgerðarinnar þar og er Júpiter hf., togaraútgerð
Tryggva Ófeigssonar í Reykjavík, kaupandi skipsins. Söluverð er 20 milljónir
250 þús. krónur. Afhending skipsins fór fram hér í Reykjavík í fyrradag.
Skipstjóri mun verða hinn kunni aflamaður Bjarni Ingimarsson. Gerpir er einn af
stærstu togurum íslenzka flotans, 804 lestir og er talinn mjög gott sjóskip
Hann kom hingað til lands í janúar árið 1957. Gerpir var smíðaður i Bremerhaven
1956. Útgerð skipsins gekk illa í vetur og varð skipið að liggja í tvo mánuði
vegna manneklu. Með sölu Gerpis er Bæjarútgerð Neskaupstaðar lögð niður, að
minnsta kosti um stundarsakir.
Morgunblaðið. 14 júlí 1960.
15.01.2017 11:30
2 m. kt. Stjernö. LBNW.
Halldór
Friðriksson skipstjóri
Breiðfirðingar hafa löngum þótt dugandi sjómenn, enda er
lífsskilyrðum þeirra háttað þannig, þegar í bernsku, að sjóferðir og siglingar
móta öðru fremur viðhorf þeirra til verkefna fullorðinsáranna. Ber mannvalið
þess vott meðal íslenzkra sjómanna, er þaðan hafa komið, að hin frumstæðu kynni
þeirra af erfiðleikum sjólífsins, áhættum þess og öryggisleysis, hafa þroskað
og eflt með þeim staðgóða þekkingu á dutlungum Ægis og hinum áleitnu dætrum
hans.
Halldór Friðriksson skipstjóri er einn slíkra manna, fæddur í Bjarneyjum
á Breiðafirði, 14. marz 1871. Árið 1895 fór hann á Stýrimannaskólann í
Reykjavík og lauk prófi þaðan vorið 1897. Árið 1899 tók Halldór við skipstjórn
á þilskipinu "Stjernö" frá Reykjavík, en með það skip var hann til ársins
1901. Kom þegar í Ijós á þessum fyrstu skipstjórnarárum hans, að hann var
gæddur þeim hæfileikum í ríkum mæli, sem breiðfirzkum sægörpum hafa helzt verið
taldir til gildis og vænlegastir hafa þótt til brautargengis í baráttunni við
Ægi. Með alúð sinni og einurð vann hann sér traust þeirra og virðingu, sem
undir stjórn hans voru settir, þó að oft þætti kenna í áformum hans meira
ofurkapps en forsjár, þegar færi gafst á að reyna fangbrögð við hin tröllauknu
máttarvöld lofts og lagar og "láta gamminn geysa". Frá þessum byrjunarárum
hans sem skipstjóra má geta eftirfarandi atviks, er gerðist um borð í
"Stjernö" árið 1900. Dag nokkurn á vetrarvertíðinni var skipið statt í
Eyrarbakkabugt og var þar austan rok með stórhríð og frosthörku. Laust fyrir
miðnætti um nóttina rifnaði "lyið" frá stórseglinu, allt frá gaffalhnokka
og niður að bómu. "Lyið" er, sem kunnugt er, einskonar jaðarband á seglin,
sterkur kaðall, sem saumaður er umhverfis það til styrktar faldinum. Brugðið
var við í skyndi, til þess að afstýra frekari skemmdum, seglið fellt og
ráðstafanir gerðar til viðgerðar á því þegar í stað.
En viðgerðarstarfinu
miðaði hægt, því að ekki var um borð í skipinu nema einn viðgerðarhanzki og
varð Halldór því að annast saumaskapinn að mestu leyti einn. Kennir hugkvæmni
hans og handlægni ekki sízt í því, hve vel þetta tókst, enda hlaut hann fyrir
verkið lofsyrði þeirra og aðdáun, sem fullnaðarviðgerð önnuðust á seglinu,
eftir heimkomuna til Reykjavíkur. Til þess að seglið yrði nothæft, varð að
falda það til bráðabirgða, með einhverju móti, en auðvitað voru ekki skilyrði
til þess, eins og á stóð að þessu sinni, að framkvæma slíka vinnu á venjulegan
hátt. Tók Halldór það því til bragðs, að vefja segljaðrinum utan um
"lyið", sem rifnað hafði frá segldúknum, eins og fyrr er getið, og sauma síðan
hvort tveggja, "lyið" og segljaðarinn, rambyggilega saman. Má nærri geta,
hver þrekraun hefir verið að leysa verk þetta af hendi á skjóllausu þilfarinu,
í frosti og ágjöf, með ömurlegt skammdegismyrkrið, geigvænlegt og ógnandi
umhverfis sig á allar hliðar. Ljóstýran, sem notuð var til að lýsa honum við
vinnuna, var skipverjunum, er gættu hennar ósvikið skapraunaefni, því að vegna
ofviðrisins og særoksins var alltaf öðru hvoru að slokkna á henni, og var það
sízt til að bæta vinnuskilyrðin eða flýta viðgerðinni. Loks var þó þrekraunin
unnin og seglinu komið fyrir aftur á venjulegan hátt. Má vafalaust gera ráð
fyrir, að Halldór hafi ekki dregið lengi að taka út laun þessarar erfiðisnætur
á þann hátt, sem honum var geðþekkastur og gefa höfuðskepnunum kost á að reyna
árangur viðgerðarinnar til þrautar í þeirri keppni.
Sjómannablaðið Víkingur. 1 júlí 1940.
14.01.2017 10:18
2 m. sk. Grána. LBCG.
Seglskipið
Grána
Seglskipið Grána. Líkan af skipinu í Duushúsi í Keflavík. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
Upphaflega munu hinir eyfirsku bændur hafa ætlað að nota byrðing skipsins til húsagerðar, en með stofnun Gránufélagsins 1869, varð skipið eign þess og gert haffært að nýju. Helstu hvatamenn að stofnun félagsins voru séra Arnljótur Ólafsson á Bægisá, Einar Ásmundsson í Nesi og Tryggvi Gunnarsson í Laufási. Mun sá síðastnefndi hafa staðið að viðgerð skipsins í félagi við fleiri norðlenska bátasmiði. Grána kom svo aftur til Akureyrar þann 13. júní, ári síðar eða 1871, fullhlaðinn vörum frá Kaupmannahöfn. Næstu árin var skipið svo í förum milli verslunarstaða Gránufélagsins Norðan og Austanlands og útlanda. Fór Grána venjulegast tvær til þrjár ferðir milli landa yfir sumartímann, en var erlendis yfir vetrarmánuðina. Þau lönd sem vitað er um að skipið sigldi til voru: Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Skotland, England og Holland. Þá gerði Petersen tilraun til síldveiða með Gránu á Eyjafirði sumarið 1884. Afdrif Gránu urðu þau að skipið strandaði á leið til Liverpool með saltfiskfarm þann 17. október 1896. Rak skipið stjórnlaust að landi í ofsaveðri, skammt frá bóndabæ á eynni Lewis, þar sem Mangursta heitir á Suðureyjum. Húsfreyjan var ein heima á bænum er strandið bar að, en hún aðstoðaði við björgun skipverja með því að festa línu sem þeir létu reka í land frá skipinu. Þannig urðu sögulok fiskiskútunnar frá Dunkerque, skipsins sem varð með svo einkennilegum hætti nátengt verslunarsögu okkar síðari hluta nítjándu aldar og um leið sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Grána hafði þótt óvenju happasæl og fljót í ferðum að þeirra tíðar hætti. Hefur þar eflaust ráðið mestu um úrvals skipstjórn og gifta þeirra feðga, fyrst J. P. Petersen og síðar sonar hans, Lauritz Petersen. Sá síðarnefndi var í þjónustu Gránufélagsins í nær aldarfjórðung og síðast á seglskipinu Rósu, sem félagið átti um tíma. Rósa var einnig upphaflega frönsk fiskiskúta, smíðuð í Dunkerque árið 1863, 148 brúttó- rúmlestir að stærð. Tryggvi Gunnarsson keypti hana á strandstað í Fáskrúðsfirði 1878. Lauritz Petersen skipstjóri á báðum þessum skipum var sæmdur riddarakrossi Fálkaorðunnar árið 1928 fyrir störf sín í þágu íslendinga.
Sjómannablaðið Víkingur. 1 október 1982.
Eftir Guðmund Sæmundsson.
2 m. sk. Grána. Líkan í Duushúsi í Keflavík. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
Grána
strandar
Hér fer á eftir úrdráttur úr bréfi sem Lauritz Petersen
skrifaði Chr. Havsteen, kaupstjóra hjá Gránufélaginu um strand Gránu og birtist
í blaðinu Austra á Seyðisfirði 9. demember 1896:
Suðureyjum, 23. október 1896. Þér munið
hafa fengið að vita það hjá stórkaupm. F. Holme, að nú er gamla Grána strönduð,
sem er hið mesta sorgarefni, því mér þótti undur vænt um skipið, en þakka þó
Guði fyrir, að hann frelsaði mig og alla skipshöfnina úr þessum mikla
lífsháska, er ég skal nú leyfa mér að skýra yður nokkuð nákvæmar frá. Snemma á
laugardagsmorguninn þann 17. október sneri vindurinn sér og kom á norðan, er
varð bráðlega að fullkomnu hvassviðri með ákaflega háum brotsjóum af
norðvestri. Klukkan hálf átta brotnaði bugspjótið efst, og urðum við að höggva
það frá okkur, svo að skipið brotnaði eigi að framan. Klukkan sex um kvöldið
fengum við hinn voðalega brotsjó yfir okkur, er limlesti alveg veslings Gránu
og sópaði öllu á stjórnborða yfir borð, eftir að hafa brotið það og bramlað,
brotið borðstokkinn á tveim stöðum og brotið stýrishúsið. Þá brotnaði líka
alveg borðstokkurinn á bakborða, tók út báða bátana og matarílátin öll þeim
megin, og fjórar tunnur af saltfiski, sem ég átti sjálfur. Þá fyllti káetuna og
hásetarúmið alveg af sjó. Stórseglsbómuna braut í sundur, en segl rifnaði til
agna og sömuleiðis stagfokkan og fleiri segl, er við reyndum að setja upp,
táðust í sundur í ofviðrinu svo gamla skinnið hallaðist nú svo mikið, að
ljósberafjölin öðru megin var niður í sjónum. Og nú verð ég að játa það, að þá
ætlaði ég engum okkar líf, er vorum um borð, og bað þá mína síðustu bæn (er ég
hélt að mundi verða) til hins algóða himnaföðursins fyrir mér og vesalings
konunni minni og börnunum mínu smáu. En þá rak skipið á land, úr öllum þessum
ósköpum, og við héldum allir lífi. Þegar hinn voðalegi brotsjór reið yfir
skipið, fékk ég mikið högg á lífið, svo ég gat varla staðið og er enn lasinn,
en mest þjáir mig svefnleysi og sorg yfir að hafa misst mitt kæra skip, mína
kæru "Gömlu Gránu" sem ég hafði siglt með í sautján ár, og má aldrei hugsa
svo til, að mér vökni eigi um augu. Við erum hér á lélegri bóndabæ en almennt
gjörist á Íslandi, sem allur lekur, streymir yfir okkur, en fólkið vill allt
fyrir okkur gjöra, sem það getur, og er ógn gott við okkur, en er hrætt um að
ég ætli ekki að frískast, sem ég vona þó að verði með guðs náð, svo að konan
mín og hin ungu börn mín verði eigi forstöðulaus, og fyrir þá von þakka ég
góðum guði. Ég veit það að Grána var ekki eins heppin í siglingum í ár og
vanalega, en ég get hvorki kennt mér um það eða strand hennar, ég hefi góða
samvisku yfir því, að hafa gjört skyldu mína sem skipstjóri á gömlu "Kæru
Gránu". Ég vil nú leyfa mér að biðja yður herra kaupstjóri, að skrifa mér
um það aftur, hvort ég get haft von um að fá atvinnu hjá Gránufélaginu
eftirleiðis, þó ég viti að ég hafi verið svona óheppinn í ár. Yðar skuldbundinn
vin, Lauritz Petersen.
Bréf þetta er birt hér vegna þess að það lýsir áþreifanlega þeim bágu kjörum og
erfiðleikum skipstjórnarmanna seglskipatímabilsins. Það reyndi á þolinmæði og
þrautseigju þessara manna í bar- áttunni við hafið og hættur þess. En það voru
þessir brautryðjendur sem lögðu þó grundvöllinn að því sem síðar varð í
verslunar og siglingamálum okkar Íslendinga. Sem fyrr greinir, starfaði Lauritz
Petersen áfram hjá Gránufélaginu lengi eftir þetta við góðan orðstír og danska
ríkið heiðraði fátæka bændafólkið á eynni Lewis með að senda því forkunnarfagra
klukku, áletraða í björgunarlaun.
Sjómannablaðið Víkingur. 1 október 1982.
Eftir Guðmund Sæmundsson.
13.01.2017 10:37
13. Happasæll KE 94. TFMZ.
V.b. Árni
Þorkelsson hætt kominn
Um kl. hálf sex síðdegis, miðvikudaginn 18. des. 1963, hélt
v.b. Árni Þorkelsson KE 46 úr Keflavíkurhöfn, til síldveiða með hringnót. Siglt
var í NV af V frá Garðskaga, u.þ.b. tuttugu sjómílur til hafs. Vegna veðurs var
látið reka um kvöldið og nóttina. En um kl. sex að morgni fimmtudagsins 19.
des., var kastað. Fengust 1500 til 2000 tunnur. Þegar nokkrum sinnum hafði
verið háfað úr nótinni, sprakk gúmslanga í kraftblökkinni. Varð af því hálftíma
töf vegna lagfæringa. Þar sem búið var að herpa nótina saman, var ekki hægt að
hleypa síldinni niður úr nótinni. Festu skipverjar nótina síðan út á
stjórnborða og tóku að háfa inn stjórnborðsmegin.
Er inn voru komnar um 400 til
450 tunnur, tók báturinn að hallast mjög. Meðan á viðgerð stóð, drapst mikið af
síldinni í nótinni, og lagðist hún nú í nótina af fullum þunga. Dró hún því
bátinn með sér. Gaf nú skipstjóri, Sævald Pálsson, fyrirmæli um að skera á
síðubönd nótarinnar. Var það gert. Sjálfur reyndi skipstjóri, að skera nótina
frá kraftblökkinni. Var einn skipverja honum til aðstoðar. Lagðist skipverjinn
fram á blökkina, en féll í sjóinn, vegna hins mikla halla á bátnum. Náðist hann
strax. Var hallinn orðinn svo mikill á bátnum, að sjór flaut í lestina. Lúkarnum
var þá lokað, svo sjór rynni þar ekki inn. Einnig var öllu lokað aftur.
Skipstjóri gerði nú tilraun til að rétta bátinn, með því að bakka honum upp,
sem kallað er. Um leið kallaði hann á aðstoð annarra skipa sem ekki voru mjög
langt undan. Ekki báru tilraunir skipstjóra árangur. Halli bátsins var þá orðinn
60-70 gráður. Skömmu síðar fór áhöfnin í gúmbát. Dreif nú að báta, sem heyrðu
kallið frá Árna Þorkelssyni. Fyrstur kom Mummi II. Fór áhöfn Árna Þorkelssonar
yfir í hann. Um svipað leyti bar að Hafstein Jóhannsson, froskmann á
Eldingunni.
Var kl. Þá um niu að morgni og enn aldimmt. Með Hafsteini var
unglingspiltur um borð í Eldingunni. Lónuðu þeir fyrst umhverfis hinn sökkvandi
bát og héldu síðan að Mumma II. Spurði Hafsteinn hvort hann ætti að bjarga
bátnum. Að nokkrum tíma liðnum kom jáyrði við því. Hélt Hafsteinn síðan að Árna
Þorkelssyni, og var halli bátsins þá orðinn enn meiri, en er Eldinguna bar
fyrst að. Var lunningin í kafi og sjór kominn í lúkar. Lestarkarmurinn á kafi
og lestin full af sjó. Hafsteinn klæddist nú froskmannabúningi sínum og stakk
sér til sunds. Nærstaddir bátar lýstu upp svæðið umhverfis bátinn og vél Árna
Þorkelssonar var í gangi. Hóf Hafsteinn að skera nótina frá bátnum með stórri
sveðju. Byrjaði hann á að skera nótina frá að innanverðu við kraftblökkina.
Varð þó frá að hverfa, þar eð kraftblökkin lagðist í sjó í kvikum, en um leið
gat Hafsteinn flækst í nótinni. Skar Hafsteinn síðan nótina í sundur að
utanverðu við blökkina. Stðast synti hann fram með bátnum og skar í sundur
nótarteininn frá pokabómunni. Um leið losnaði nótin frá bátnum og hann réttist
við.
Því næst fór Hafsteinn um borð í Árna Þorkelsson og lokaði hurðinni að
hvalbaknum frammi á bátnum. Skömmu síðar renndi Mummi II upp að Árna
Þorkelssyni, og Sævald Pálsson, skipstjóri, stökk um borð. Lest bátsins var
þá full af síld og sjó. Nokkur sjór var undir gólfi í vélarhúsi. Komst sjórinn
í rafmagnstöflu og rafmótor er hallinn varð mestur á bátnum. Aðalvélin var þó
alltaf í gangi. Sjórinn hafði runnið úr lest um leiðslur inn í vélarrúm. Sjór
komst einnig í káetu og stýrishús. Mummi II, var alveg við hliðina á Árna
Þorkelssyni. Var nú línu kastað úr Mumma yfir í Árna og náði Hafsteinn henni.
Dró hann síðan stýrimann og vélstjóra í gúmbátnum yfir í Árna Þorkelsson. Tógi
var nú komið á milli bátanna og togaði Mummi í það. Við það réttist Árni
Þorkelsson. Síðan sleppti Mummi tóginu. Gerðist þetta á ellefta tímanum
árdegis. Siðan sigldu þeir skipstjóri, stýrimaður og vélstjóri Árna til
Keflavíkur. Þangað var komið um kl. eitt eftir hádegi. Aðrir af áhöfninni fóru
úr Mumma yfir í Maríu Júlíu, sem flutti þá til Sandgerðis. Það réði trúlega
mestu við björgun Árna Þorkelssonar, að veður var skikkanlegt, að visu SV-kaldi
og nokkur sjór. Hins vegar mátti lítið út af bera, svo menn og skip týndust
ekki. Enginn annar en Hafsteinn gat bjargað bátnum við þær aðstæður sem þarna
voru. Þarna voru þó margir bátar og auk þess varðskip, sem engan kafara hafði
innanborðs.
Ef veður hefði versnað meðan á björgun stóð hefði báturinn trúlega
sokkið. Síðar kom í Ijós, að vatnsþétt skilrúm á milli lestar og aftur og
framskips, björguðu bátnum. Þar sem nokkur síld var í lestinni, hefðu
tréskilrúm brostið um leið og sjór fór að renna niður í lestina og síldin komst
á hreyfingu við velting bátsins. Síðar krafðist Hafsteinn Jóhannsson, 3,5
milljóna króna í björgunarlaun. En upphæðin var u.þ.b. helmingur af matsverði
skips og afla. Hafsteinn byggði kröfu sína á, að hann hefði lagt sig í
stórhættu við björgunina, er aðrir gátu ekkert gert. Undirréttur tók undir
þessa kröfu, taldi að hér væri um algjöra björgun að ræða. Hafsteinn hefði lagt
sig í lífshættu úti á rúmsjó í náttmyrkri, en sýnt mikið snarræði og dugnað.
Enda gat báturinn sokkið þá og þegar meðan á björgun stóð. Bátur og afli var
mtinn á sjö milljónir króna. Undirréttur dæmdi Hafsteini 800 þúsund krónur í
björgunarlaun, en Hæstiréttur lækkaði þau í 500 þúsund auk vaxta. Árni
Þorkelsson var stálbátur, 101 lest, smíðaður í Austur-Þýskalandi 1961. Eigandi
Helgi Eyjólfsson o.fl. í Keflavik.
Faxi. 1 desember 1987.
12.01.2017 11:16
601. Dröfn RE 135. TFKH.
Nýtt og vandað
skip til Keflavíkur
Ingiber
Ólafsson GK 35
Þann 8. júlí í sumar kom til Keflavíkur nýtt og glæsilegt
fiskiskip, smíðað í skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar á Ísafirði og mun
það vera 36. skipið, sem hans ágæta og þarfa fyrirtæki sendir frá sér. Þetta
nýja skip, sem ber nafnið Ingiber Ólafsson GK 35, er 83 smálestir að stærð, með
500 hestafla Caterpillar dieselvél og gengur 11 mílur. Báturinn er einnig með
Caterpillar ljósavél og búinn öllum beztu og fullkomnustu öryggis og
fiskileitartækjum, sem völ er á, s.s. radar, dýptarmælum, ljós-miðunarstöð,
talstöð, fisksjá, færanlegum stjórntækjum vélar, vökvastýri og fleiri tækjum
til þæginda og öryggis. Eigendur bátsins eru þeir bræðurnir Jón og Óskar
Ingiberssynir og heitir báturinn eftir föður þeirra, sem um langt skeið var hér
í fremstu röð sjósóknara og mikill afla og happamaður. Skipstjóri á þessum nýja
farkosti, Óskar, hefir erft dugnaðinn og sjómannshæfileikann frá föður sínum,
enda þekktur aflakóngur í Keflavík. M.b. Ingiber Ólafsson er traustbyggt og
vandað skip, enda er skipasmíðastöð Marsclíusar löngu landskunn fyrir vandaða
vinnu. Báturinn fór strax norður á síldveiðar og þó hann kæmi þangað í seinna
lagi, veiddi hann tæp 9 þúsund mál og tunnur og spáir sú byrjun góðu um framtíð
skips og útgerðar.
Faxi. 8 tbl. Október 1961.
Sjöstjarnan
VE 92 ferst
5 björguðust
en eins er saknað
Fimm skipverjar björguðust, en eins er saknað, eftir að
Sjöstjarnan VE 92 fórst skammt austur af Heimaey um kl. 10 í gærmorgun.
Skipverjarnir fimm hröktust í 3 klukkustundir í gúmmíbjörgunarbátnum í
aftakaveðri áður en þeim var bjargað um borð í hafnsögubátinn Lóðsinn VE. Hann
fann þá fyrir vestan Eyjar um kl. 13 í gær eftir að merkjasendingar höfðu
borist um gervihnetti frá björgunarbátnum, en það var Cargoluxflugvél í 18
þúsund feta hæð eftir flugtak frá Keflavíkurflugvelli sem heyrði fyrst
neyðarmerkin og lét Flugstjórn í Reykjavík vita. Einnig komu boð frá
öryggisstöðvum í Frakklandi og Noregi.
Við vorum þrír niðri í lúkarnum frammí þegar báturinn fékk á sig brotsjó sem
lagði hann skyndilega á hliðina," sagði Þráinn Sigurðsson stýrimaður á
Sjöstjörnunni í samtali við Morgunblaðið. "Við fórum úr höfn rétt fyrir klukkan
7 í morgun, en ég hafði mig ekki í koju, það var eitthvað sem kom í veg fyrir
það. Júgóslavneskur skipverji, Sambo Bach, var einnig á fótum, en matsveinninn,
sem er saknað, var í koju. Ég hef lent í því áður að vera á bát sem fór á
hliðina undan brotsjó, en pabbi náði að keyra hann upp. Haraldur skipstjóri
reyndi það sama um leið og báturinn lagðist, en þegar ég heyrði að hann var að
keyra vélina upp, reið annar brotsjór yfir og báturinn lagðist dauður. Þá
hrópaði ég, drífum okkur upp, drífum okkur upp. Við óðum að stiganum, sjórinn
var farinn að fossa niður, en ég sá matsveininn ekki fara úr kojunni. Við Sambo
náðum að krækja saman höndum og leiðast, en áður en við ruddumst upp á móti
fossandi sjónum náðum við að draga að okkur loft. Það var einhver ótrúlegur
kraftur sem kom í okkur og það var hreinlega eins og við værum dregnir upp. Við
vorum svo lánsamir að lúkarsdyrnar voru opnar, því líklega hefði orðið erfitt
að opna dyrnar á móti þrýstingnum. Við náðum að krafla okkur í gegn um sjóinn,
líklega þriggja metra dýpi, og þegar við komum úr kafinu náðum við taki á
lunningunni sem maraði þá í kafi. Þá sá ég að Haraldur Traustason var kominn út
úr stýrishúsinu og var byrjaður að losa gúmmíbjörgunarbátinn. Við vorum ekki
byrjaðir að draga þegar slysið varð," sagði Þráinn, "en að undanförnu
höfum við verið átta á bátnum. Einn var í fríi en var á leið til Eyja með
Herjólfi þegar verið var að bjarga okkur og annar, sem hefur verið með Haraldi
skipstjóra í þrjú ár, hætti í gærkvöldi og réð sig á togara. Þegar við Sambo
vorum komnir úr kafinu náðum við að fikra okkur eftir lunningunni og aftur á
þar sem Haraldur skipstjóri var ásamt Haraldi syni sínum og Sverri
Guðmundssyni. Haraldur skipstjóri náði að losa björgunarbátinn og opna hann handvirkt,
en þar sem við stóðum fimm utan á stýrishúsinu var hvalbakurinn kominn í kaf,
en við sáum aldrei til matsveinsins og það var hrikalegt að geta ekkert gert,
báturinn að sökkva, brjálað veður og í miklu hasti urðum við að skera uppblásna
björgunarbátinn lausan, því afturmastrið var að lenda ofan á honum. Skömmu
seinna skaut hinum björgunarbátnum upp, en við náðum honum aldrei til okkar.
Þegar frammastrið var alveg komið í sjó sagði Haraldur skipstjóri okkur að
drífa okkur um borð í gúmmíbjörgunarbátinn og hann fór síðastur okkar aftur á
frá borði. Skömmu eftir að við vorum komnir í björgunarbátinn gangsettum við
neyðarsendinn, það tók okkur dálitla stund því við kunnum ekki á hann, en það
er stórkostlegt að hafa þessi tæki og að stöðvar víða um heim skuli vera á
vaktinni. Við urðum þó að setja rekakkeri út áður til þess að stilla bátinn.
Okkur var nokkuð kalt í bátnum og þurftum mikið að ausa en eftir þriggja tíma
hrakninga bjargaði Lóðsinn okkur."
Maðurinn sem fórst hét Sigurvin Brynjólfsson og var matsveinn á bátnum.
Morgunblaðið. 21 mars 1990.
11.01.2017 10:50
B. v. Njörður RE 36. LCJD / TFEC.
Tveir
togarar seldir sem brotajárn
Tveir hinna gömlu togara, sem legið hafa fyrir festum um
langt skeið og grotnað niður, hafa verið keyptir með það fyrir augum að selja
þá sem brotajárn til útlanda. Þetta eru togarinn Baldur, sem legið hefur inni á
Kleppssundi og Haukanes, sem var suður í Hafnarfirði. Guðmundur Kolka o. fl.
hafa keypt skipin og eru þau nú komin hingað inn á Reykjavíkurhöfn, en þangað
voru þau dregin
fyrir skemmstu. Það mun vera í ráði að setja í togarana brotajárn eins og þeir
geta borið, en síðan mun dráttarbátur koma hingað og sækja þá en Baldur og
Haukanes munu fara til uppbræðslu í Belgíu.
Morgunblaðið. 13 febrúar 1952.
Haukanes sem
höggva átti upp í Belgíu
sökk út af Grindavík
Á sunnudaginn kom leki að togaranum Haukanesi, sem þýzkur
dráttarbátur var á leið með til Belgíu, þar sem höggva átti togarann upp. Í
gærkvöldi sökk togarinn út af Grindavík. Tveim mönnum, sem á honum voru, var
bjargað.
Dráttarbáturinn lagði af stað héðan frá Reykjavík á föstudaginn var. Togarinn
Haukanes var bundinn aftan í dráttarbátinn sjálfan, en í skut togarans var
bundinn togarinn Baldur, sem einnig átti að höggva upp. Á sunnudaginn milli
klukkan 4 og 5 urðu þýzku eftirlitsmennirnir tveir, er voru um borð í
Haukanesinu, þess varir, að skipið var farið að leka. Þá var dráttarbáturinn
kominn skammt suðvestur fyrir
Vestmannaeyjar. Þar mun þá hafa verið slæmt sjóveður. Skipstjórinn á
dráttarbátnum snéri þá við. Mun hann hafa gert sér vonir um að ná til
Reykjavikur, þar eð lekinn að skipinu virtist ekki vera mikill. í gærkvöldi um
klukkan níu, var Haukanesið að því komið að sökkva. Ekki talið forsvaranlegt að
mennirnir tveir sem í voru, væru þar öllu lengur. Þá var dráttarbáturinn aðeins
um 5 sjómílur út af Grindavík. Björgunarskipið Sæbjörg og mb. Ársæll Sigurðsson
fóru út frá Grindavík, mönnunum tveim á Haukanesi til bjargar. Sú björgun tókst
giftusamlega. Mun Sæbjörg hafa lagt svo að hinu sökkvandi skipi, að mennirnir
tveir stukku yfir í björgunarskipið.
Nokkru fyrir klukkan 11 í gærkvöldi, er blaðið síðast frétti af skipinu, maraði
Haukanes í vatnsskorpunni. Ekki höfðu þá borizt fregnir um hvernig togaranum
Baldri hafði reitt af, en talið var víst að höggvið mundi verða á vír þann sem
úr stefni hans lá yfir í Haukanesið. Tveir eftirlitsmenn voru um borð í Baldri.
Þar sem Haukanes maraði í kafi í gærkvöldi, var mjög lítill vindur.
Morgunblaðið. 4 mars 1952.
Haukanes
var enn á floti í gærkvöldi
Óvíst hvort
björgun tekst
Togarinn Haukanes, sem talið var að sökkva myndi þá og þegar
í fyrrakvöld, vegna leka, var enn á floti í gærkvöldi. Þá lagði dráttarbáturinn
frá landi með togarann í eftirdragi, en í Grindavík var þá verið að undirbúa
hjálparleiðangur út í hið sökkvandi skip. Við það varð að hætta.
Í fyrrakvöld er Þjóðverjarnir tveir yfirgáfu skipið eftir fyrirskipun frá
skipstjóranum á dráttarbátnum, var mikill sjór kominn í lúkarinn. Var hætta
talin á, að hið vatnsþétta skilrúm milli lestar og lúkarsins myndi springa
undan vatnsþunganum. Í gærmorgun er Grindvíkingar sáu til skipanna, voru þau
skammt undan landi og Haukanesið til að sjá álíka sigið að framan og væri það
með fullfermi síldar, það er að segja, að sjór rann yfir þilfarið. í gærdag var
hér í Reykjavík skipulagður nokkur viðbúnaður til björgunar skipinu. Send var á
vegum Kristjáns Gíslasonar kraftmikil dæla, sem talið er víst að dælt hefði
öllum sjónum úr lúkarnum á skömmum tíma. Átti að senda bát frá Grindavík með
dæluna.
Þá var dráttarbáturinn aðeins um 2 sjómílur frá landi með Haukanesið og Baldur.
En í þann mund og báturinn, sem með dæluna ætlaði, var að leggja af stað, sást
úr landi að dráttarbáturinn var lagður af stað með togarann austur með landinu.
Var þá ákveðið að hætta við björgunaráformin, enda tilgangslaust að elta
dráttarbátinn uppi.
Skömmu fyrir myrkur hvarf
dráttarbáturinn mönnum í Grindavík sjónum. Gizkað er á að
dráttarbátsskipstjórinn muni ætla sér að fara til Vestrnannaeyja. Þrátt fyrir
tilraunir til að hafa talstöðvasamband við skipstjórann, en þær hafa ekki
tekizt, er mönnum með öllu ókunnugt um, hvað hinn þýzki skipstjóri
dráttarbátsins hyggst gera ,en veðurspá er ekki hagstæð. Haukanes, sem er
nokkurs konar "Flying Enterprise" án Carlsens, hefur öll sjóhæfnisvottorð
í lagi. Hið sama er að segja um togarann Baldur, hann fékk sjóhæfnisvottorð til
þessarar hinztu farar yfir hafið.
Morgunblaðið. 5 mars 1952.
Dráttarbáturinn
kom með togarann í nótt
Um miðnætti í nótt er leið, var von á þýzka dráttarbátnum með
togarana Haukanes og Baldur til hafnar í Vestmannaeyjum. Þýzki dráttarbáturinn
hefur með eigin dælum dælt sjónum úr lúkarnum. Hér mun eiga að fara fram
athugun á leka þeim, er að skipinu kom, hvort um bilun sé að ræða, eða hvort
sjórinn hafi komizt í skipið gegnum ankerisfestargatið, "klussið", eins og
sjómenn kalla það.
Morgunblaðið. 6 mars 1952.
10.01.2017 11:48
1042. Vörður ÞH 4. TFOQ.
Vörður ÞH 4.
Nýr bátur, Vörður ÞH 4, kom til Akureyrar á fimmtudaginn.
Skipið er 248 brúttólestir, vel búið og hið myndarlegasta, með 800 hestafla
Listervél. Eigandi er Gjögur h.f. á Grenivík. Vörður er smíðaður í Hommelvik í
Noregi.
Dagur. 29 apríl 1967.
09.01.2017 08:02
585. Hrönn SH 149. TFSV.
Það var það síðasta sem heyrðist frá Hrönn
"Magnús komdu strax" var neyðarkallið, sem skipverjar á
Magnúsi NK 72 heyrðu frá vélbátnum Hrönn frá Eskifirði, sem fórst á
Reyðarfirði, skammt innan við Vattarnes, síðastliðið mánudagskvöld, en síðan
rofnaði sambandið. Fimm skipverja á Hrönn er saknað, en lík þess sjötta,
Stefáns V. Guðmundssonar, fannst um hádegisbil á þriðjudag.
Það var klukkan 22,55 á mánudagskvöld, sem neyðarkallið frá Hrönn SH 149
heyrðist og hafði Guðmundur Stefánsson skipstjóri á Magnúsi þegar samband við
Nesradíó og kallaði út aðstoð. Klukkan 23.15 var Magnús kominn á staðinn, þar
sem talið er að Hrönn hafi farist, en þar fundust aðeins 3 netabelgir bundnir
saman, 2 bjarghringir og knippi af netaflotum. Skipstjórinn á Magnúsi hafði séð
til Hrannar í ratsjánni skömmu áður en neyðarkallið var sent út. Er hann leit
aftur í ratsjána sá hann ekki til skipsins og telur að 2 til 4 mínútur hafi
liðið á mill. Ábúendur á Vattarnesi sáu er Hrönn sigldi fyrir Vattarnesið, en
er Nesradíó tilkynnti þeim um skip í nauð klukkan 23.04 sáu þeir ekki til skipsins.
Hvasst var og stóð vindurinn út fjörðinn, en bjart yfir og ekki sjórok.
Leitarmenn sem komnir voru á staðinn um miðnætti þurftu að leita við erfiðar
aðstæður. Leit stendur enn yfir bæði af sjó og landi og hefur mikill fjöldi
tekið þátt í leitinni. Stefán V. Guðmundsson, stýrimaður, var fæddur 9. 6.
1927. Hann var til heimilis að Bakkastíg 9a á Eskifirði. Stefán lætur eftir sig
aldraða móður.
ÞEIRRA ER SAKNAÐ:
Jóhannes Steinsson, skipstjóri, fæddur
16. 9. 1935, Túngötu 6, Eskifirði. Kvæntur og á 2 börn. Eiríkur Sævar
Bjarnason, véstjóri, fæddur 28. 2. 1942, Bakkastíg 5, Eskifirði. Kvæntur og á 2
börn. Gunnar Hafdal Ingvarsson, fæddur 18. 3.1929. Er frá Dölum í
Hjaltastaðaþinghá, en hefur unnið á Eskifirði undanfarin ár. Ókvæntur. Kjartan
Grétar Ólafsson, fæddur 5.12.1947, Túngötu 5, Eskifirði, ókvæntur, en býr hjá
foreldrum. Sveinn Guðni Eiríksson, fæddur 6. 8. 1942, Fossgötu 3, Eskifirði,
Ókvæntur, býr í foreldrahúsum.
Morgunblaðið. 3 maí 1979.
Hrönn hvarf
af ratsjánni á 2-4 mínútum
Rætt við
Guðmund Stefánsson skipstjóra á Magnúsi NK 72
Orðin komu mjög slitrótt, það var mikið brak í tækinu og
setningarnar voru höggnar í sundur, en við vorum þrír í brúnni og allir sammála
um að skipstjórinn á Hrönn hefði sagt; Magnús komdu strax, sagði Guðmundur
Stefánsson skipstjóri á Magnúsi NK 72 m.a. í samtali við Morgunblaðið í gær.
Magnús NK heyrði neyðarkall frá Eskifjarðarbátnum Hrönn SH 149 klukkan 22.55 á
mánudagskvöld. Var þá aðeins um 20 mínútna sigling á milli bátanna en er Magnús
kom á staðinn, þar sem talið er að Hrönn hafi verið er neyðarkallið var sent
út, fundust aðeins lóðabelgir, bjarghringir og netaflot.
Við vorum að koma af miðunum við Hrollaugseyjar, en Hrönn frá Breiðdalsvík,
sagði Guðmundur Stefánsson. Við höfðum samflot þar til komið var í mynni
Reyðarfjarðar, en þá skildu leiðir. Það var mjög hvasst, en við fórum grunnt og
það var ekki mikill sjór. Þegar við á Magnúsi vorum komnir um 4 mílur norður
fyrir Vattarnestangann kíkti ég niður í ratsjána og sá hvar Hrönn var. Mér
fannst henni miða eðlilega inn fjörðinn. Skömmu síðar heyrði ég kallað á bylgju
6 á örbylgjutækinu, en þá bylgju nota bátarnir mikið. Eftir að við höfðum heyrt
kallað "Magnús komdu strax", slitnaði sambandið. Ég þekkti rödd Jóhannesar
skipstjóra og vissi ekki um annað skip þarna nærri okkur, þannig að þetta gat
ekki verið annað en Hrönn.
Við snerum um leið við og ég leit aftur í ratsjána. Þá hafa verið liðnar 2-4
mínútur frá því að ég kíkti í hana í fyrra skiptið. Í þetta skiptið sá ég
ekkert, þar sem báturinn átti að vera, um 3 mílur innan við Vattarnestangann.
Ég ákvað þá strax að kalla út í gegnum Nesradíó. Við fórum eins nálægt tanganum
og við þorðum, en vindur var sterkur út Reyðarfjörð. Ég þóttist vita nákvæmlega
hvar Hrönn átti að vera, en við höfðum ekki farið nema innan við mílu þegar við
komum að fyrsta rekinu úr bátnum, bjarghringjum og lóðabelgjum og síðan fundum
við netaflot. Ég er viss um að ef gúmbátur hefði verið ofansjávar þá hefðum við
fundið hann, en við keyrðum beint á rekstefnuna út fjörðinn. Ég og Jóhannes
skipstjóri á Hrönn höfðum rabbað saman alla leiðina frá Kambanesi. Hann hafði
sagt áður en leiðir skildu að það yrði baks hjá sér inn fjörðinn. Ég sagði
honum að ég myndi hafa samband við hann þegar hann kæmi inn á fjörðinn til að
sjá hvernig honum gengi á móti. Það var það síðasta, sem við töluðum saman.
Síðan heyrðum við neyðarkallið. Viðbrögð voru undur fljót hjá bátum á Eskifirði
og Reyðarfirði og við skipulögðum þegar leit. Varðskipið Týr, bátar og skip af
fjörðunum komu síðar á vettvang. Svæðið var spannað frá Brökum, skerjum úti af
Vattarnestanganum, á reklínu suður af Skrúðnum, sagði Guðmundur Stefánsson
skipstjóri á Magnúsi NK, en þess má geta að hann er frá Karlsskála, sem er
norðanvert við Reyðarfjörðinn.
Morgunblaðið. 3 maí 1979.
Eskfirðingar
harmi slegnir
Á Ellefta tímanum mánudagskvöldið 30. apríl sendi
vélbáturinn Hrönn SH 149 frá Eskifirði frá sér neyðarkall og hjálparbeiðni og
var þá staddur um 2 sjómílur innan við Vattarnes, sem er yzt í Reyðarfirði að
sunnanverðu. Veður var mjög vont, norðanstormur og sex stiga frost. Það var
vélskipið Magnús frá Neskaupstað, sem heyrði neyðarkallið, en Magnús og Hrönn höfðu
verið samskipa norður með Austfjörðum, en leiðir skildu er Hrönnin hélt inn
Reyðarfjörðinn. Skipverjar á Magnúsi héldu þegar á staðinn, sem Hrönn var á, en
það var um 15-20 mínútna sigling. Jafnframt var tilkynnt um atburði til
Loftskeytastöðvarinnar í Neskaupstað. Er að var komið sáu þeir einungis lausa
hluti á floti, netabelgi og ýmislegt netadót. Björgunarsveitir SVFÍ frá
Eskifirði, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði héldu þegar út í Vattarnes. Þær voru komnar
þangað um miðnætti og hófu þegar leit, en Vattarnesbændur hófu leit um leið og
þeim barst tilkynningin um slysið.
Þá héldu öll skip Eskfirðinga, sem heima voru, þegar til leitar ásamt skipum
Reyðfirðinga, Gunnari og Snæfugli, varðskipinu Tý, Arnarborg frá Dalvík, Ólafi
Magnússyni EA, Gullver frá Seyðisfirði og fleiri skipum auk Magnúsar NK. Munu
níu skip hafa leitað um nóttina og allan 1. maí og skipin verið 14 talsins
þegar þau voru flest. Þá hóf flugvél landhelgisgæzlunnar, TF SYN, leit strax
með birtingu þá um morguninn. Ýmislegt brak rak yzt á Vattarnestangann og inn í
krikann norðan við nesið. Leitað hefur verið stanzlaust síðan, bæði úr landi og
á sjó og hafa björgunarsveitir Slysavarnafélagsins á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík
einnig tekið þátt í leitinni. Á Hrönn voru sex menn og var skipið að koma frá
Breiðdalsvík, en þar hafði afli verið lagður upp að undanförnu. Sjöundi
skipverjinn, sem var úr Reykjavík, fór í land á Breiðdalsvík þar eð hann var
með bíl þar og ætlaði að aka suður til Reykjavíkur. Hann heitir Ólafur
Halldórsson.
Lík eins skipverjans, Stefáns V. Guðmundssonar, fannst um hádegisbilið á
þriðjudag um hálfa mílu suðvestan við Skrúð. Það var skipstjórinn á Votabergi
SU 14, Friðrik Rósmundsson, og hans menn sem fundu líkið. Yfirstjórn
björgunaraðgerða, hafði Skúli Magnússon, formaður björgunarsveitarinnar á
Eskifirði með höndum og var stjórnstöðin í íþróttahúsinu á Eskifirði. Hér eru
menn harmi slegnir vegna þess hörmulega atburðar, að skip skuli farast svona
inni á firðinum. Verður sjálfsagt erfitt að geta sér til um hvað komið hafi
fyrir. Eigendur Hrannar voru þeir Jóhannes Steinsson skipstjóri, Eiríkur
Bjarnason vélstjóri og Stefán Guðmundsson stýrimaður. Hrönn var keypt til
Eskifjarðar frá Ólafsvík fyrir réttu ári. Baturinn var úr eik, smíðaður á Akureyri
1956, og var 41 tonn að stærð.
Morgunblaðið. 3 maí 1979.
Held ég hafi
einfaldlega ekki verið feigur
segir Ólafur
Halldórsson, sem fór í land á Breiðdalsvík er Hrönn lagði af stað áleiðis til
heimahafnar
Mér varð eðlilega mjög hverft við að heyra þessar hörmulegu
fréttir, en þegar ég hugsa um það, þá held ég að ég hafi einfaldlega ekki verið
feigur, sagði Ólafur Halldórsson, tvítugur Garðbæingur, sem fór af vélbátnum
Hrönn frá Eskifirði á Breiðdalsvík, áður en báturinn lagði af stað áleiðis til
heimahafnar síðdegis á mánudag. ólafur hafði verið á Hrönn í um þrjá mánuði,
fyrst við beitningu er báturinn var á línu, en síðan á netunum. Ég var lengi
vel að hugsa um að vera á bátnum í hálfan mánuð í viðbót, var svona á báðum
áttum, segir Ólafur. Svo skyndilega ákvað ég að fara af á Breiðdalsvík og aka
suður, en ég hafði keypt mér bíl á Breiðdalsvík. Ég þurfti reyndar nauðsynlega
að fara til Eskifjarðar og fá ökuskírteini hjá sýslumanninum, en hætti við það
og keyrði skírteinislaus suður. Ég stoppaði á Kirkjubæjarklaustri á
suðurleiðinni vegna ófærðar á Söndunum og hringdi þá í kærustuna. Hún sagði mér
hvað hafði gerzt. Síðan fékk ég nákvæmar fréttir um slysið og ég þarf víst ekki
að segja hversu mjög mér brá. Vertíðin hafði gengið ágætlega og á netunum vorum
við á útilegu. Það var sama hvar við vorum, við vorum alltaf minnsti bátur og
lentum oft í vondum veðrum, en allt gekk mjög vel. Þeir voru að tala um að fara
strax á netaveiðar við Langanes á Hrönninni og ég var að hugsa um að fara með
þeim, en hætti við á síðustu stundu. Ég veit ekki hvað ég geri á næstunni, en
ætli ég fari ekki á sjóinn fljótlega aftur sagði Ólafur Halldórsson að lokum.
Morgunblaðið. 3 maí 1979.
08.01.2017 09:46
749. Freydís ÍS 74. TFNR.
07.01.2017 10:56
Björn Jörundsson EA 626.
mannbjörg
varð
Um klukkan hálf fjögur í gær sökk vélbáturinn Björn
Jörundsson frá Ólafsvík við Öndverðames. Hafði komið að honum mikill og bráður
leki, svo að tvær skipshafnir höfðu ekki undan að ausa, svo að þær yfirgáfu
bátinn, og sökk hann skyndilega skammri stundu síðar.
Á
sunnudaginn var lögðu
Ólafsvíkurbátarnir Björn Jörundsson og Egill lóðir sínar; suður af
Snæfellsnesi. Voru þeir með 32 bjóð hvor. Er þeir ætluðu að fara að draga
línuna, voru lóðirnar horfnar, ásamt öllu tilheyrandi, og mun annaðhvort straumur hafa dregið þær niður
í álinn eða togarar dregið þær burt í gærmorgun. Fóru bátarnir að leita að
lóðunum, en fundu ekkert.
Um klukkan hálf þrjú í gær voru báðir bátarnir á heimleið, og var Björn
Jörundsson þá um eina mílu út af Öndverðarnesi, á hægri ferð. Urðu skipverjar
þess þá skyndilega varir, að sjór fossaði inn í bátinn að framan. Var planki
sprunginn frá stefni undir sjó. Fyrir snarræði vélamanns tókst að keyra bátinn
upp undir nesið í lygnari sjó, en þar stöðvaðist vélin, vegna þess, hve mikill
sjór var kominn í bátinn.
Egill var dálítið á eftir Birni Jörundssyni, og tókst skipverjum strax að ná
sambandi við hann gegnum talstöð bátsins. Kom Egill á vettvang eftir tíu mínútur,
og reyndu nú báðar skipshafnirnar að ausa Björn Jörundsson, en höfðu ekki
undan. Vélbáturinn Víkingur frá Ólafsvík kom einnig á vettvang.
Það var þegar ljóst, að ekki var annars kostur en yfirgefa Björn Jörundsson, og
fóru skipverjar allir yfir í Egil. Ætluðu þeir að freista þess að draga Björn
Jörundsson til hafnar, ef hann kynni að fljóta svo lengi. En eftir örskamma
stund sökk hann skyndlega. Þá var klukkan um hálf-fjögur. Var það sérstakt lán,
að hér skyldi ekki verða stórslys, því að báturinn hefði farizt með allri
áhöfn, ef Egill hefði ekki komið svo skjótt á vettvang sem raun varð, þar sem
landtakan framundan var ekki annað en klettar.
Björn Jörundsson var 27 smálestir, smíðaður á Akureyri 1939. Eigandi bátsins
var Viglundur Jónsson í Ólafsvík, en skipstjóri á bátnum í fjarveru eigandans,
sem ætlaði til Noregs á vegum Fiskifélags íslands á fimmtudaginn kemur, var
Guðlaugur Guðmundsson í Ólafsvík. Skipstjóri á Agli, einnig 27 lesta bát, er
Guðmundur Jensson í Ólafsvík. Hér hefir orðið stórkostlegt tjón, bæði fyrir
eigendur og Ólafsvík í heild, og munu margir menn missa atvinnu af þessum
sökum, en framleiðsla dragast saman, þótt allir þakki hamingjunni, að ekki fór
ver.
Tíminn. 20 febrúar 1951.
06.01.2017 12:16
2266. Helga Björg HU 7. TFLA / TFNX.
Helga Björg
HU 7
Í haust festi Skagstrendingur h/f kaup á grænlenskum 500 tonna
rækjufrystitogara, sem fer á veiðar í næstu viku sem Helga Björg HU 7. Í
staðinn tókst félaginu loks að selja gamla Arnar til Samherja hf. á Akureyri,
en Arnar þessi hefur verið á söluskrá frá því að nýi Arnar kom til sögunnar. Á
meðan ekkert gekk í sölumálunum, var hann m.a. hafður í ýmsum
úthafsveiðitilraunum með litlum árangri. Að einhverju leyti kemur Helga Björg
til með að sjá rækjuvinnslu Hólaness fyrir hráefni til vinnslu. Auk rússneska
frystitogarans og grænlenska rækjufrystitogarans, mun Skagstrendingur eftir sem
áður gera út frystitogarann Örvar. Skagstrendingur er með um sex þúsund tonna þorskígildiskvóta
og Hólanes er með 450 tonn, sem rækjutogarinn fái að nýta.
Morgunblaðið. 14 janúar 1996.
Rannsóknarskipið
Neptune EA 41
Næg verkefni eru framundan fyrir rannsóknarskip
fyrirtækisins Neptune ehf. á Akureyri. Það fyrsta hefur verið í Eystrasalti
síðan í haust, breytingar á öðru, togaranum Harðbak, eru að hefjast í Slippnum
á Akureyri og framkvæmdastjóri Neptune útilokar ekki að fleiri skip bætist í
flota fyrirtækisins. Rannsóknarskipið Neptune EA 41, er komið til heimahafnar
eftir fyrstu útiveruna en það hefur síðan í haust unnið að verkefninu
Nordstream, fyrir samnefnt fyrirtæki, sem er í meirihlutaeigu rússneska
orkurisans Gazprom. Hlé hefur verið gert á því nú vegna þess að Eystrasaltið er
ísilagt eins og er en Neptune heldur aftur utan undir vor. Nordstream undirbýr
lagningu einhverrar stærstu gasleiðslu sem um getur, frá rússnesku borginni
Vyborg, sem er rétt norðan St. Pétursborgar innst í Kirjálabotni, til
Greifswald í Þýskalandi.
Langmest af því gasi sem Gazprom selur til landa í vesturhluta Evrópu er flutt
um leiðslu í gegnum Úkraínu en ýmis vandkvæði hafa verið á þeim flutningum eins
og fram hefur komið í fréttum síðustu mánuði. Skipverjar á Neptune hafa unnið
við skoðun sjávarbotnsins; vitað er að þar eru mörg skipsflök og gamlar
sprengjur og komast þarf að því hvernig best er að losna við þá aðskotahluti
áður en leiðslan verður lögð. Breytingum á Harðbak verður lokið í byrjun maí í
vor og fer skipið þá strax frá Akureyri til starfa erlendis. Ágúst Guðmundsson,
framkvæmdastjóri Neptune, segist ekki geta greint frá því strax hvar fyrsta
verkefnið verður.
Morgunblaðið. 27 febrúar 2009.
05.01.2017 12:14
Gufubáturinn Elín. LCDW.
Gufubáturinn
Elín
Miklar hafa oss borizt kvartanir um hana, en þó mest um
ólipurleik og rustaskap formanns og bryta, og ráðum vjer vinsamlega
útgerðarmanninum það heilræði, að láta þá ekki stæla þá sömu á "Laura", og
sízt með þvi að reiða hnefana og viðhafa sjóarahótanir við farþega, hvað lítill
meiningar munur sem yrði, því kunna Iandar vorir illa, því hjer hafa þeir land
undir fæti, þó ekki sjeu, kaupfjelagsmenn. (Það er kunnugt að "Elín" gerði
fyrst ókeypisferð með þá). Vjer höfum ekki verið um borð í "Elínu" síðan í
Kaupmannahöfn.
Reykvíkingur. 1 ágúst 1893.
Eldeyjarför
Árið 1894 er frá því sagt, að flóabáturinn "Elín", sem
hét í höfuðið á landshöfðingja frúnni, hefði farið þrjár ferðir austur í Vík og
komið við í Eyjum, Stokkseyri og Eyrarbakka. Seint í maí var "Elín" á
vesturleið og kom við í Eyjum. Bræðurnir Stefán og Ágúst í Ási tóku sér far með
"Elínu" og Hjalti Jónsson. Höfðu þeir léttbát með í förinni. Þeir fóru af
skipinu við Eldey. Hófst þá hin fræga Eldeyjarganga.
Fylkir. Jólablað 1970.
Gufubáturinn
Elín strandaður
Hana sleit upp á Straumfirði laugardagsmorguninn 21. þ.
mánaðar í útsunnanveðri, bar þar á stein við Búðarey, kom gat á bumbinn á bakborða
skammt fyrir neðan sjávarborð og sprakk töluvert út frá á tvær hendur. Troðið var
upp í gatið og losnaði báturinn aptur af steininum með aðfallinu um kveldið,
hjelzt við fyrir akkerum nóttina eptir, en á sunnudagsmorguninn í ofsahviðu
biluðu þau og misstu hald og varð þá að hleypa bátnum á land innst í Straurnfjarðarvognum,
þar sem grjótlaust er, en djúpur leir. Liggur hann þar fastur og mun naumast
geta losnað fyr en stórstreymt verður aptur, ef hann losnar nokkurn tíma, enda
líklegra, að hann verði að strandi fyrir fullt og allt hvort sem er.
Vafalaust
tekið fyrir allar ferðir hans framar í haust, hvernig sem fer. Það er í
kolastíunni, sem gatið kom á, og því illt að komast fyrir, hvort meira hefir að
orðið, svo sem að máttarbönd sjeu í sundur, fyr en kolunum er rutt frá, en þó
hugðu skipverjar það vera á 2 stöðum, og mun ekki verða við það gert hjer, þó
gatið hefði mátt bæta.
Skipskrokkurinn er allur af járni, bæði
máttarbönd og annað. Báturinn var búinn að athafna sig á Straumfirði á föstudaginn,
hafði tekið þar nokkra farþega og var
kominn af stað áleiðis
inn í Borgarnes, en varð að snúa aptur við skerin út af Straumfirði vegna ósjóar
og myrkurs. Lá síðan þar inni á legunni um nóttina við akkeri og 2 landfestar.
Bilaði sú, sem áveðurs var, um morguninn eptir, þannig, að jarðfast bjarg, er
henni var brugðið um, sprakk og losnaði eða hefir verið áður sprungið, en svigrúm
ekkert fyrir bátinn og hann jafnharðan kominn upp í urðina hinum megin; legan
er örmjó, lítið meira en skipslengd. Fjöldi farþega beið bátsins í Borgarnesi
og eru nú komnir hingað, landveg og sjóveg, á flutningum yfir firðina, og sumt
af Akranesi.
Ísafold. 25 september 1895.
Þótti
óhentugt skip
Gufubáturinn "Elín" þótti jafnan óhentugur til ferða um
flóann, fremur slæmur í sjó að leggja, og skýlislaus fyrir farþega, svo að
margir voru sáróánægðir með hann, en nú er vonandi, að gufubátur sá, sem kemur
í stað "Elínar", fullnægi betur kröfum tímans.
Þjóðviljinn ungi. 12 október 1895.
04.01.2017 20:03
1038. Álftafell SU 101. TFYL.
03.01.2017 14:17
303. Auðbjörg NK 66.
Jakob
Jakobsson skipstjóri
"Það sem einkenndi
föður minn sem sjómann var fyrst og fremst það að hann leit á sjóinn og bátinn
sem sitt vinnusvæði. Hann var aldrei neitt að flýta sér í land eins og ýmsir
aðrir starfsbræður hans. Ég held að þetta viðhorf hans hafi mótast þegar hann
var á skútunum, en á þeim var alltaf litið svo á að það væri landið sem væri
hættulegt. Þeir sem ávallt höfðu verið á veikbyggðum smábátum, höfðu hinsvegar
tilhneigingu í þá átt að hugsa um það í hverjum róðri að koma sér í land sem
fyrst. í þeirra huga stafaði ógnin frá hafinu. Það er sem sagt staðreynd að
faðir minn var ekki eins landbundinn og aðrir sjómenn eystra og hann var alltaf
í sínu besta skapi út á sjó."
Jakob Jakobsson
fiskifræðingur um föður sinn Jakob Jakobsson skipstjóra og útgerðarmann í
Neskaupstað.
Sjómannadagsblað
Neskaupstaðar
02.01.2017 09:13
B. v. Goðanes NK 105 ferst við Færeyjar.
Er hér var komið björgunarstarfinu báðu Goðanesmenn um að björgun skipbrotsmanna yrði hraðað svo sem föng væru á. Skipið væri að því komið að liðast í sundur undir ólögunum. Báðu Goðanesmenn og um að Færeyingarnir reyndu að koma nær hinu strandaða skipi á trillubátum, sem komnir voru, og vera til taks ef með þyrfti. Var björgunarstarfinu síðan enn haldið áfram. Hálftíma síðar, eða um það bil voru 18 skipbrotsmenn komnir yfir i Rok, og því enn sex menn eftir á flakinu.
Voru skipbrotsmenn nú fluttir í land á Austurey, en þar er Skálafjörður, ekki í Sandey, eins og hermt var í blaðinu í gær. Þaðan voru þeir fluttir til Þórshafnar, sem er ekki löng ferð. Voru þeir þangað komnir um klukkan 10 í gærmorgun.
Í Þórshöfn, þar sem fréttaritari Ríkisútvarpsins átti tal við 1. stýrimann á Goðanesi, Halldór Halldórsson, sagði Halldór m.a., að hann hafi verið meðal þeirra sex, er voru á skipsflakinu er það sökk og hann hafi séð það síðast til skipstjórans unga, Péturs Hafsteins, að hann var að hjálpa tveim skipsmönnum að komast í björgunarstólinn, en þá var það sem flakið valt út af skerinu og sökk skyndilega.
Hinn ungi skipstjóri, Pétur Hafsteinn, átti heima þar í bænum. Hann var sonur Sigurðar Bjarnasonar og konu hans Guðlaugar Jónsdóttur, sem bæði eru komin á efri ár. Einnig lætur hann eftir sig unnustu sína, Elísabetu Kristinsdóttur, sem einnig er Norðfirðingur, og áttu þau eitt barn á öðru ári, sem skírt var á jólunum.
Skipstjórinn á Færeyska skipinu, Vesturhavið Blíða, Jakob Andreas Vang sagði frá því stuttu síðar að skerin sem Goðanes strandaði á og hétu Flesjar, væru einu skerin í öllum firðinum og væru þau nokkuð úr siglingaleið. Sagði hann þau ekki koma fram í ratsjá nema í logni, og því engin von til þess að þau sæjust þannig kvöldið sem Goðanes strandaði. Kom þessi vitneskja heim og saman við það sem upplýstist í sjóréttarhöldum yfir þeim sem björguðust, en þau voru haldin í Neskaupstað, strax og skipbrotsmennirnir komu þangað.
Heimildir; Morgunblaðið. 4 janúar 1957.
Þrautgóðir á raunastund. V bindi.
Togarinn
Goðanes ferst við Færeyjar
Skipstjórinn,
Pétur Hafsteinn Sigurðsson, drukknaði
Í annað sinn á tæpum tveim árum, er Neskaupstaður harmi
lostinn bær vegna stórslysa. Í janúar í hitteðfyrra fórst annar togari
bæjarins, og nú hefur sú ógæfa dunið yfir, að hinn togarinn hefur farizt líka
og með honum ungur efnismaður. Norðfirðingar eiga allir um sárt að binda vegna
þessara stórslysa, en þó engir sem þeir, er misst hafa ástvini sína í þessum
slysum.
Klukkan um 5 á nýársdag lagði togarinn Goðanes úr höfn hér í Neskaupstað og var
förinni heitið til Færeyja í þeim erindagerðum að sækja sjómenn. Með skipinu
voru 24 menn, þar af 7 færeyskir sjómenn. Fyrsti stýrimaður skipsins, Pétur
Hafsteinn Sigurðsson, var skipstjóri í þessari hinstu ferð þess. Um kl. 9 í
fyrrakvöld strandaði Goðanes í minni Skálafjarðar. Veðri var svo háttað, að
stinningskaldi var á, mikill sjór og dimmviðri. Þegar voru send út neyðarskeyti
og komu mörg skip á strandstaðinn, þar á meðal togarinn Austfirðingur. Ekki
verður björgunin rakin hér í einstökum atriðum, en snemma í gærmorgun hafði
tekizt að ná 18 mönnum í björgunarstóli um borð í færeyska skútu. Var þá skipið
mjög tekið að liðast og sýnilegt að það mundi sökkva innan skamms. Bað þá
loftskeytamaðurinn, að reynt yrði að senda litla báta sem næst flakinu. Um
klukkan hálfsjö í gærmorgun brotnaði svo skipið og sökk, en trillubátar, sem
sendir höfðu verið á vettvang, björguðu 5 mönnum, en skipstjórinn, Pétur
Hafsteinn Sigurðsson, fórst með skipinu. Hafði hann til hinztu stundar unnið að
því að hjálpa félögum sínum í björgunarstólinn. Skipbrotsmennirnir munu koma
heim með Austfirðingi væntanlega í kvöld eða nótt. Pétur Sigurðsson var aðeins
24 ára þegar hann fórst. Hann fæddist hér í bænum 10. maí 1932 og voru
foreldrar hans hjónin Guðlaug Jónsdóttir og Sigurður Bjarnason. Pétur var
heitbundinn Elísabetu Kristinsdóttur og áttu þau einn son, Kristinn, tæplega
misserisgamlan. Bróður átti Pétur einn, Birgi, sem lengi hefur verið stýrimaður
á Goðanesi, en er nú ráðinn stýrimaður á nýja togarann. Er þessum ástvinum
Péturs hinn sárasti harmur kveðinn við hið sviplega og óvænta fráfall hans.
Flytur Austurland þeim öllum og öðrum nánustu ættingjum og venzlamönnum Péturs
innilegustu samúðarkveðjur, og þykist þar mæla fyrir munn allra bæjarbúa. Allt
frá því Pétur var kornungur lagði hann stund á sjó. Hann var 2. stýrimaður á
Agli rauða þegar hann fórst. Annar maður, sem í skipreikanum lenti, Axel
Óskarsson, loftskeytamaður, var einnig á Agli rauða. Þó ekki séu glöggar
fréttir fyrir hendi af björgunarstarfinu og aðstöðu til björgunar, verður ekki
annað séð, en að Færeyingar og aðrir, sem að hafa unnið, hafi unnið mikið
björgunarafrek, sambærilegt við ýms glæsilegustu björgunarafrek hér við land.
Sjópróf vegna þessa hörmulega slyss munu fara fram hér í bæ og hefjast líklega
á morgun.
Austurland. 4 janúar 1957.
Skipbrotsmennirnir
af Goðanesi komnir til Neskaupstaðar
Í gærkvöldi kl. 5,30 kom togarinn Austfirðingur með
skipsbrotsmennina af togaranum Goðanesi, sem fórst við Færeyjar. Allir
skipsbrotsmennirnir voru við góða heilsu. Reynt var í gærkvöldi að hafa samband
við skipsbrotsmenn og fá hjá þeim upplýsingar um nánari tildrög slyssins og
nánari frásögn af björguninni, en þeir vörðust allra frétta. Sjópróf munu
hefjast í málinu þar eystra í dag. Togarinn Austfirðingur hélt þegar úr höfn og
beint á veiðar og verður skýrsla tekin af honum seinna er hann kemur í höfn
næst.
Morgunblaðið. 5 janúar 1957.