Færslur: 2017 Janúar

01.01.2017 09:46

E. s. Reykjavík.

Faxaflóagufubáturinn Reykjavík var smíðaður í Oscarshamn í Svíþjóð árið 1874. Járn. (141 brl ?) 2 cyl compound vél, 16 nhp. Fyrsti eigandi var C.J. Douhan í Gavle í Svíþjóð frá sama ári, skipið hét Löfsta. Selt 1875, Tönsberg & Horten D/S í Tönsberg í Noregi, hét Tönsberg. Selt árið 1897, Firmanu Fredriksen & Co í Mandal í Noregi, fékk nafnið Reykjavík. Skipið var í áætlunarferðum frá Reykjavík til Akraness, Borgarness og einnig til hafna á suðurnesjum með farþega, vörur og póst. Í norðan stórviðri að kvöldi 19 febrúar 1907, slitnaði Norska kolaskipið Mod frá Haugasundi upp á ytri höfninni í Reykjavík og rakst á Reykjavíkinna með þeim afleiðingum að gat kom á skipið og sjór fossaði inn í það. Einnig slitnaði ankerisfesti skipsins. Skipstjóri Reykjavíkurinnar ákvað að renna skipinu upp í urðina neðan við Skansinn (Batteríið) til að forða því að það sykki á höfninni. Skipið eyðilagðist fljótlega þarna í fjörunni.

Það kemur fram í greininni hér að neðan að skipið hafi verið 87 brl. að stærð. Upplýsingarnar um stærðina hér efst (141 brl) eru fengnar frá Englandi, þannig að ég læt þær báðar standa.
 
Flóabáturinn Reykjavík á ytri höfninni. Engey í baksýn.                                Ljósmyndari óþekktur.
 
Reykjavíkin strönduð undir Batteríinu. Skipið fjær gæti verið kolaskipið Mod frá Haugasundi sem rakst á það.                                                                                                 Ljósmyndari óþekktur.
 
 

                Reykjavíkin strönduð 

Faxaflóagufubáturinn Reykjavík sleit upp hér á höfninni í nótt snemma í ofsaroki á norðan með kafaldsbyl, og rak beint upp í Skanzinn (Battaríið). Mannbjörg tókst greiðlega, á kaðli. Slysið var að kenna árekstri af, norsku kolafarms-gufuskipi stóru, Maud (Gautesen, um 400 smál.), er kom fyrir fáum dögum til Edinborgar-verzlunar. Það mun hafa misst frá sér bæði akkerin og bar á gufubátinn, sleit akkeriafesti hans með skrúfunni, er var í gangi til bjargar, klauf stefnið og sprengdi upp þilfarið að framan, svo að inn féll kolblár sjór, og sá skipstjórinn eigi annan kost vænni en að hleypa beint á land til skipbrots. Nú liggur Reykjavikin á klöppunum við Skanzinn, hálffull af sjó, og vonlaust um að gert verði við hana. En Maud rásar um höfnina legufæralaus og kallar á hjálp til að geta lagst aftur, en fær ekki. Reykjavíkin var vátrygð í Faxaflóa ábyrgðarfélaginu fyrir 24,000 kr., en virt á 40,000 kr. Það er voðaskellur fyrir félagið, ef skaðinn lendir á því. En sannist sök á hitt skipið um vítaverða ábyrgð á árekstrinum, hlýtur skaðinn að verða dæmdur á það. Reykjavíkin var búin að vera hér í förum um flóann o. s. frv. 11 ár samfleytt, og þótti vel reynast. En var nú orðin of lítil (87 smál.). Flutningur og ferðalög hafa aukist stórkostlega sÍðustu árin. Skipstjóri var Gundersen síðari árin; Waardahl þar á undan. En afgreiðslu hefir alla tíð haft Björn Guðmundsson kaupmaður. ísafold spurði hann um ráðstafanir fyrir framhaldi Eaxaflóaferðanna. Hann kvað ekkert vera farið um það að hugsa að svo komnu. Póstflutning norður og vestur eða þaðan hefir Faxaflóabáturinn verið látinn undanfarin missiri fara með milli Reykjavíkur og Borgarness. Nú mun taka fyrir það að sinni. Póstar þeir eiga nú að fara héðan á föstudaginn (22.), og kvað engu eiga að hagga um það þrátt fyrir þetta slys.

Ísafold. 20 febrúar. 1907.

 

            Gufubátnum ekki bjargað

Reykjavíkurstrandið. Tekið var í mál að reyna að koma gufubátnum þeim úr urðinni þar sem hann lá við Skanzinn, í því skyni að gera við hann. En meðan á þeim umþenkingum stóð, kom kári til sögunnar  á nýjan leik og muldi hann í spón núna á mánudagsnóttina. Skaðabótamál er höfðað gegn skipstjóranum á gufuskipinu, sem rakst á Reykjavíkina, Mod frá Haugasundi. Sáttafundur á mánudaginn kemur. En hann kvað enga sátt taka i mál.

 

Ísafold. 2 mars 1907.

Flettingar í dag: 2695
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 1266
Gestir í gær: 24
Samtals flettingar: 1094376
Samtals gestir: 79514
Tölur uppfærðar: 14.1.2025 03:05:43