Færslur: 2017 Júní
08.06.2017 21:25
B. v. Karlsefni RE 24. TFKD.
Nýr togari
Karlsefni, hinn nýi togari h.f. Karlsefnis,
útgerðarfyrirtækis Geirs Thorsteinsonar, kom hingað á laugardaginn. Er togarinn
smíðaður í skipasmíðastöð Alexander Hall í Aberdeen í Skotlandi. Fór togarinn á
gamlársdag frá Skotlandi og reyndist mjög vel á heimleiðinni.
Tíminn. 5 janúar 1948.
Togaraverkfallið
1962
Karlsefni
seldi í Cuxhaven
Togarinn Karlsefni seldi afla sinn 185 tonn í Cuxhaven í
nótt. Vísi var enn ekki kunnugt um söluverð, en eftir því sem bezt er vitað var
enginn tilraun gerð til að hindra löndun. Togarinn mun nú verða 2-3 daga í
Cuxhaven meðan verið er að ganga frá sérstökum björgunartækjum í hann, stórum
gúmmíbjörgunarbát sem á að koma í staðinn fyrir venjulegan lífbát. Vísir átti
tal við Ragnar Thorsteinsson forstjóra útgerðarinnar í morgun. Hann kvaðst nú
vera mjög feginn að Karlsefni væri kominn í höfn og þeir því lausir við allt
fjaðrafok í kringum þetta.
En ástæðan til þess að við fórum út í þetta, sagði
Ragnar, var sú að það hafði dregizt að við fengjum afhentan þennan
gúmmbjörgunarbát. Fyrir nokkru brotnuðu björgunarbátar skipsins í brotsjó og
fengum við tvo björgunarbáta að láni, en þurftum að skila þeim fyrir vissan
tíma. Þar sem afhending bátsins dróst og ekki yrði hægt að koma
gúmmíbjörgunarbátnum fyrir nema í Þýzkalandi var þetta eina leiðin sem við sáum
til að tryggja öryggi á skipinu. Hinn nýi gúmmíbjörgunarbátur á að standa
uppblásinn á bátadekki. Verður hægt að renna honum út á hvora hliðina sem er og
festingar á honum miklu sterkari en á litlum bátum. Hann á að geta tekið alla
skipshöfnina og kemur í staðinn fyrir venjulega björgunarbáta. Togarinn verður
auk þess með hinn tilskilda fjölda venjulegra gúmmíbáta. Karlsefni mun nú sigla
heim og verða lagt eins og öðrum togurum ef verkfallið stendur þá enn.
Vísir. 11 apríl 1962.
Togaraverkfallið
1962
Fullkomin
samstaða Karlsefnismanna
Togarinn Karlsefni kom á sumardaginn fyrsta til Reykjavíkur
og lagðist utan á þá mörgu togara, sem lágu fyrir við Faxagarð vegna
verkfallsins. Strax og togarinn var kominn að bryggju gengu út í hann fulltrúar
Sjómannafélags Reykjavíkur, þeir Jón Sigurðsson, formaður, Hilmar Jónsson,
varaformaður og Pétur Sigurðsson ritari og fulltrúar Dagsbrúnar þeir Eðvarð
Sigurðsson og Guðmundur J. Guðmundsson.
Ekki áttu þeir þó miklar viðræður við skipsmenn að sinni aðrar en þær að spyrja
hver vilji eða samstaða hefði verið um að fara í auka söluferðina, sem stjórn
Sjómannafélagsins telur verkfallsbrot. Boðuðu þeir skipsmenn til fundar við sig
á Iaugardaginn í skrifstofu félagsins. Ekki mættu þó margir á þeim fundi. Í dag
ætlaði stjórn Sjómannafélagsins að ræða málið og mun væntanlega verða haldinn
almennur félagsfundur um málið síðar í vikunni.
Vísir átti tal við skipstjórann á Karlsefni, Halldór Ingimarsson,; Öll
skipshöfnin var sammála um að fara í þessa aukasöluferð, sagði Halldór, Ég
talaði við þá alla og enginn mælti á móti því. Í allri ferðinni var fullkomin
samstaða um að halda henni áfram til loka og gott samkomulag. Var skipsmönnum
ljóst, að hér væri um verkfallsbrot að ræða? Þeim var ljóst, að stjórn
sjómannafélagsins myndi líta svo á, en þess ber að gæta, að það er ekkert
óalgengt að togari fari þannig í tvær söluferðir án viðkomu í Reykjavík.
Hvers vegna lokuðuð þið talstöðinni? Það gerðum við nú bara til að hafa frið.
Enda kom í ljós að sífelld ásókn var að ná sambandi við skipið, aðallega frá
blöðunum í Reykjavík og við máttum ekki vera að því að sinna því. Hinsvegar
tókum við á móti skeytum til skipshafnar. Töluðu þeir ekki við þig frá
sjómannafélaginu, þegar þið komuð í höfn? Jú, en það var litið, þeir spurðu
bara hvort ég hefði beðið skipshöfnina um að fara í túrinn og ég svaraði því
játandi. Annars gerðist ekkert sérstakt í túrnum, annað en að við fengum gott
verð fyrir aflann.
Vísir. 24 apríl 1962.
06.06.2017 10:26
Varðskipið Ægir við Skarfabakka í gær.
05.06.2017 16:56
50 ár frá goslokum í Surtsey.
Sjórinn 10
stiga heitur í hálfrar mílu fjarlægð
sem komu á gossvæðið í gærmorgun
Skipverji á m.b. Ísleifi frá Vestmannaeyjum, Ólafur Vestmann,
varð fyrstur manna var við gosið og skýrði hann Morgunblaðinu svo frá í gærdag:
Ég var á baujuvakt og var að svipast eftir baujum, þegar mér varð litið í
austur og sá þar eitthvert þykkni, kolsvart. Þá hefur klukan verið um 7.15 í
morgun. Mér leizt ekki á þetta, hélt helzt að þarna væri skip að brenna. Ræsti
ég skipstjórann, Guðmar Tómasson, og gátum við ekki fundið út hvað þetta var.
Þegar birti sigldum við í áttina að þykkninu og sáum þá hvað um var að vera.
Svæðið var kolmórautt og ólga og straumar í sjónum. Fórum við næst svona 200-
300 metra frá gosinu. Sprengigosin voru lág í fyrstu en hækkuðu stöðugt. Um 10
leytið sáum við 2-3 eldglampa í gufumekkinum. Einnig sáum við 2-3 glóandi
steina hendast upp í loftið. við mældum hitann í sjónum ca. hálfa mílu frá
gosinu og var hann 10 stiga heitur. Þarna er um 65 faðma dýpi. Við sáum ekki
glampa á sjónum og hvergi dauðan fisk. Við erum núna að draga línuna og förum
svo inn til Eyja. Ennþá má sjá að strókurinn stendur hátt til himins. Ég hef
verið á sjónum í 42 ár, en aldrei séð annað eins og þetta. Aldrei nokkurn tíma.
Morgunblaðið náði í gær tali af Sigurði Elíassyni, skipstjóra á
Vestmannaeyjabátnum Jóni Stefánssyni, sem varð var við gosið um kl. 7,30 um
morguninn, er hann var staddur um 5 mílur frá staðnum. Sigurður skipstjóri
sagði: Við sáum strók mikinn stíga til himins og sigldum við þangað til að
athuga hvað þetta væri. Við komum á staðinn um kl. 8,30 og héldum okkur í ca.
hálfrar mílu fjarlægð. Þetta var herjans mikið gos og stóð svartur strókurinn
upp í loftið. Virtist þarna vera mikill eimur eða gufa. Við sáum í sjónauka
stóra steina þeytast upp í loftið og falla í boga í sjóinn. Rauk mikið af þeim og
hafa þeir líklega verið glóandi. Sjórinn nmhverfis gosstaðinn var eins og hann
á að sér að vera, en ólgan var aðeins þar sem gosið brauzt upp. Gosið virtist
vera mest á einum stað, en annað minna, eða minni, á eins konar ræmu út frá
aðalgosinu. Núna erum við staddir um 10 mílur frá staðnum og sést greinilega
móta fyrir stróknum, sem stendur upp í skýin.
Morgunblaðið. 15 nóvember 1963.
50 ár frá goslokum í Surtsey
50 ár eru í dag, 5 júní, liðin frá
því að Surtseyjargosinu lauk. Það hafði þá staðið yfir með hléum í tæp fjögur
ár. Fyrst var vart við gosið 14. nóvember 1963, en talið er að það hafi byrjað
nokkrum dögum fyrr sem neðansjávargos á 130 metra dýpi.
Á vef Umhverfisstofnunar segir að
Surtseyjareldar sé lengsta og best þekkta eldgos í sögu Íslandsbyggðar þar sem
fylgst var náið með gangi gosins frá upphafi. Í eldsumbrotunum mynduðust auk
Surtseyjar, eldfjallaeyjarnar Surtla, Syrtlingur og Jólnir, en eldvirkni í þeim
stóð stutt og þegar henni lauk átti sjórinn auðvelt með að brjóta þær niður.
Surtsey er 1,4 ferkílómetrar og hefur minnkað um helming frá goslokum vegna
rofs sjávar og vinda. Surtsey er um 20 km suðvestur af Heimaey, og hefur
frá upphafi verið náttúruleg rannsóknarstofa í jarðfræði og líffræði. Hún var
friðlýst árið 1965 meðan gos stóð enn yfir. Eftir að Surtsey komst á
heimsminjaskrá UNESCO árið 2008 var friðlandið stækkað verulega og í dag nær
friðlýsingin yfir alla eldstöðina Surtsey, ásamt hafsvæðinu og botninum
umhverfis, samtals 65 ferkílómetra.
Ruv.is 5 júní 2017.
04.06.2017 11:44
Gunnvör SI 81. TFKM.
Flotinn
eykst og batnar
Við Siglufjarðarflotann hafa bæzt tvö myndarleg skip, »Rafn«
(áður Víkingur) sem Jón Hjaltalín keypti og lét gera sem nýjan, »Gunnvör«,
keypt frá útlöndum af Ingvari Guðjónssyni og Barða Barðasyni skipstjóra.
Síldin. 5 ágúst 1939.
M.s. Gunnvör
strandar
Frækileg
björgun
S.l. föstudag heyrði loftskeytastöðin hér neyðarkall frá
m.s. Gunnvöru RE 81, Kvað skipstjórinn skipið vera strandað við Kögur, og þurfa
skjóta hjálp. Loftskeytastöðin sendi út aðstoðarbeiðni til skipa bæði á mæltu
máli og morsi og á íslenzku og ensku. Þetta var um kl. 18. Brátt náðist samband
við b.v. Egil Skallagrímsson, sem var staddur út af Ísafjarðardjúpi, og hélt
hann þegar áleiðis til strandstaðarins. Ennfremur náðist samband við brezka
togarann Gregory, sem mun hafa verið staddur 7-10 sjómílur frá staðnum, og
lagði hann einnig af stað til hjálpar hinu nauðstadda skipi. B.v. Hvalfell fór
ennfremur á staðinn og fleiri skip voru á leiðinni þangað, þar á meðal m.b.
Finnbjörn, sem staddur var á Dýrafirði, þegar fréttist um strandið og m.b.
Hafdís, eign h. f. Njarðar, bar þar einnig að. Meðan skipin voru á leið til
strandstaðarins hafði stöðin hér stöðugt samband við þau og við hið strandaða
skip. Dimmt var í veðri og þungur sjór og aðstaða öll til björgunar af sjó
talin mjög erfið.
B.v. Agli Skallagrímssyni tókst að finna m.s. Gunnvöru með
miðunartækjum sínum og reyndist hún hafa strandað á 66° 22' n. l. og 22° 57'
v.br. Á tímabili var talið að ekki mundi þýða fyrir önnur skip en þau, sem
hefðu radar, að fara nálægt hinu strandaða skipi, en eitthvað mun hafa rofað
til, og komu brezki togarinn og b. v. Egill Skallagrímsson fyrstir á
strandstaðinn. Mun það hafa verið um kl. 20. Taldi þá skipstjórinn á Gunnvöru
að óhætt mundi að koma á björgunarbáti upp að Gunnvöru, og kvað sig hafa misst
lífbát skipsins strax eftir strandið. Varð það úr, að lífbátur var sendur frá
b.v. Agli Skallagrímssyni, undir stjórn stýrimanns, útbúinn með línubyssu o.fl.
tækjum.
Báturinn lagði frá Agli laust fyrir kl. 21 og eftir tæpan hálftíma
tilkynnti skipstjórinn á Gunnvör, að báturinn væri kominn að hlið hennar,
skipsmenn væru að að fara í hann, og hann væri að yfirgefa talstöðina. Um kl.
22 var svo björguninni að fullu lokið og áhöfn Gunnvarar, 7 menn, komnir um
borð í Egil heilu og höldnu. Á leið bátsins milli skipanna aðstoðuðu b.v.
Hvalfell og m.b. Hafdís með því að lýsa upp leiðina með ljóskösturum sínum.
M.b. Hafdís var um kyrrt á staðnum fram undir morgun næsta dags, og segja
skipverjar á henni, að skömmu eftir að björgunin hafði tekizt, hafi aðstaða öll
versnað svo að björgun af sjó hefði verið óhugsandi. Þykir skipshöfn b.v. Egils
Skallagrímssonar hafa unnið þarna mikið afrek. Skipstjóri Egils er Kolbeinn
Sigurðsson, en skipstjóri m. s. Gunnvarar í þessari ferð var Ólafur Stefánsson.
Vegna þess, hversu björgun af sjó var talin tvísýn um tíma, hafði karladeild
Slysavarnafélagsins hér, viðbúnað til að reyna björgun úr landi. Var m.b.
Gunnbjörn fengin til þess að fara héðan með sveit sjálfboðaliða og
björgunartæki. Átti sveit þessi að ganga á land í Fljótavík og freista að komast
með björgunartækin á strandstaðinn. Strandstaðurinn var fyrst talinn vera
austan til við Kögur en reyndist vera vestan til við hann, eða inni á sjálfri
Fljótavík. M.s. Gunnvör hafði ætlað að stunda vetrarsíldveiðar syðra, en var nú
á leið til Siglufjarðar. Hún hafði innanborðs 2 nýjar vetrarsíldarnætur, að
verðmæti um 130 þús. kr., og krossvið fyrir um 10 þús. kr. Þessum verðmætum
hefur verið reynt að bjarga úr skipinu, en ekki tekizt vegna óhagstæðrar
veðráttu. Ólíklegt er að skipinu verði bjargað.
Skutull. 28 janúar 1949.
03.06.2017 07:55
479. Þór NK 32.
Þór var skráður með einkennisstafina SU 496 fyrstu tvö árin. Í sjómannaalmanaki frá 1932 er hann kominn með skráninguna NK 32.
Togari
siglir á fiskibát
Í fyrrakvöld fór
vélbáturinn Þór N.K. 32, skipstjóri Eiríkur Ármannsson, í fiskiróður og lagði
línur sínar um 20 mílur út af Norðfirði. Um kl 3 í fyrrinótt, er báturinn lá
yfir línum sínum, sigldi togari á hann og braut stefnið allmikið og rifnaði
byrðingurinn frá, aftur um háþiljur og kom þegar leki að bátnum, - enda skildu
bátverjar línurnar eftir og héldu þegar til lands. Níðaþoka var á, og
svartnætti svo að eigi mátti greina nafn togarans eða einkennisstafi, en
togarinn sigldi þegar á brott, án þess að láta sig afdrif bátsins nokkru
skifta. Á bátnum var vélamaðurinn einn á verði en aðrir bátverjar sváfu. Ekki
heyrði vélamaðurinn neitt hljóðmerki frá togaranum, en hinsvegar gat hann
dregið nokkuð úr árekstrinum með því að láta vélina taka aftur á bak. Logn var
og gott í sjó, og komst báturinn því heill í höfn.
Þjóðviljinn. 7 september 1938.
02.06.2017 22:55
Trollið tekið á togaranum Júpíter GK 161 árið 1930.
01.06.2017 20:23
2892. Björgúlfur EA 312. TFCR.
Nýr
Björgúlfur EA 312 til Dalvíkur
Það var
mikið um dýrðir á Dalvík í dag þegar nýr ísfisktogari, Björgúlfur EA 312, kom
þar til heimahafnar. Nýja skipið leysir af hólmi 40 ára gamlan skuttogara með
sama nafni.
Björgúlfur EA er í eigu Samherja og er systurskip Kaldbaks EA sem kom til
Akureyrar fyrr í vor. Samherji fær þriðja skip sömu gerðar afhent í
árslok. Skipið er smíðað í Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi og var
sjósett þar í september 2016. Það lagði af stað til Íslands 18. maí, með
viðkomu í Istanbúl þar sem tekið var eldsneyti.
Nýja skipið er 62 metra langt og 13,5 metra
breitt. Áætlað er að það kosti tæplega tvo og hálfan milljarð fullbúið til
veiða. Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja, segir
byrjað að smíða þann vinnslubúnað sem settur verður um borð. Vinna við að gera
skipið klárt til veiða taki næstu 2-3 mánuði.
Dalvíkingar fögnuðu nýjum Björgúlfi sem var til sýnis fyrir almenning eftir að
skipið lagðist að bryggju. "Í gamla daga var hefð fyrir því að flagga þegar ný
skip komu til heimahafnar og eru íbúar hvattir til að viðhalda þeirri gömlu
hefð og flagga fyrir nýjum Björgúlfi," sagði í frétt um skipakomuna á vef
Dalvíkurbyggðar.
Nýr Björgúlfur leysir af hólmi 40 ára gamlan
skuttogara með sam nafni, sem kom nýr til landsins árið 1977. Kristján segir
hann enn á veiðum fyrir Samherja og verði ekki seldur fyrr en nýja skipið er
tilbúið.
Rúv.is 1 júní 2017.
- 1
- 2