Færslur: 2018 Febrúar

08.02.2018 21:40

Skúli fógeti NK 6.

Vélbáturinn Skúli fógeti NK 6 var smíðaður í Kristiansund í Danmörku árið 1914. Eik. 9 brl. 14 ha. Alpha vél. Eigendur voru Eiríkur Þorleifsson (í Dagsbrún), Sigurður Jónsson og Helgi Bjarnason á Norðfirði frá sama ári. Báturinn bar fyrst skráningarnúmerið SU 366, en þegar Neskaupstaður fær kaupstaðarréttindi árið 1929, fær hann númerið NK 6. Báturinn var seldur 1931, Jóni K Guðmundssyni og fl. í Neskaupstað, hét þá Skúli fógeti NK 6. Ný vél (1931) 20 ha. June Munktell vél. Árið 1932 var sett á bátinn lóðstefni. Seldur 23 des 1938, Óskari Lárussyni útgerðarmanni í Neskaupstað. Ný vél ( 1939) 20 ha. June Munktell vél, samskonar og áður. Seldur 1 desember 1943, Stefáni Ágústssyni og Guðlaugi Ágústssyni á Fáskrúðsfirði, hét Skúli fógeti SU 613. Talinn ónýtur og tekinn af skrá árið 1950.


Skúli fógeti NK 6 á Norðfirði.                                                                         (C) Svanbjörn Stefánsson.

07.02.2018 18:16

334. Björg SU 9. TFON.

Vélbáturinn Björg SU 9 var smíðuð í Svíþjóð árið 1940. Eik. 55 brl. 150 ha. Saffle vél. Eigandi var Björg h/f á Eskifirði frá 20 október 1945. Ný vél (1957) 240 ha. GM díesel vél. Báturinn var endurbyggður í Neskaupstað árið 1960. Seldur 2 júní 1970, Ver h/f í Stykkishólmi, hét Ingibjörg KE 114. Ný vél (1973) 340 ha. GM díesel vél. 4 maí 1976 hét báturinn Ingibjörg SH 142. 21 ágúst 1977 kom upp mikill eldur í bátnum þegar hann var um 10 sjómílur út af Öndverðarnesi á Snæfellsnesi. Áhöfnin bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og var bjargað þaðan um borð í vélskipin Gunnar Bjarnason SH 25 frá Ólafsvík og Þorlák ÁR 5 frá Þorlákshöfn. Báturinn var talinn ónýtur eftir brunann og tekinn af skrá 15 ágúst árið 1979.

Björg SU 9 á leið inn til Vestmannaeyja.                                            (C) Ljósmyndasafn Eskifjarðar.


      Ingibjörg SH stórskemmdist í eldi

 M/b Ingibjörg SH 142 stórskemmdist í eldi á sunnudag, er báturinn var á leið á togveiðar. Ekki verður annað séð en allar innréttingar í stýrishúsi og siglingatæki séu ónýt og einnig eru miklar skemmdir niður um bátinn. M/b Ingibjörg er 50 lestir að stærð og bar lengi það landskunna nafn Björg SU. Eldurinn kom upp um klukkan átta á sunnudag, er báturinn var staddur 8-10 mílur úti af Öndverðarnesi. Eldurinn mun hafa komið upp í vélarrúmi eða káetu og breiddist hann mjög ört upp um stýrishúsið að sögn skipstjórans, Jakobs Daníelssonar.
Jakob var einn staddur aftur á, en aðrir skipverjar þrír talsins, sváfu frammi í. Jakob rétt náði að kalla út eftir aðstoð, en síðan vakti hann mennina og fór áhöfnin í gúmbjörgunarbát, þar sem ekki var vært um borð fyrir hita og vegna sprengihættu. Þorlákur ÁR og Gunnar Bjarnason SH komu fljótt til aðstoðar og Iögðu að Ingibjörgu. Tókst skipverjum að kæfa eldinn og tók Þorlákur Ingibjörgu í tog til lands. Á leiðinni gaus eldurinn aftur upp, en var slökktur. Engin slys urðu á mönnum.

Morgunblaðið. 23 ágúst 1977.



04.02.2018 08:57

740. Sigrún AK 71. TFZQ.

Vélskipið Sigrún AK 71 var smíðuð í Strandby í Danmörku árið 1946 fyrir Sigurð Hallbjarnarson h/f á Akranesi. Eik. 65 brl. 240 ha. Tuxham vél. Ný vél (1957) 280 ha. MWM díesel vél. Seld 7 mars 1962, Keflavík h/f í Keflavík, hét Sigurbjörg KE 98. Seld 31 október 1971, Sigurði H Brynjólfssyni og Andrési Guðmundssyni í Keflavík, hét Sigurbjörg KE 14. Ný vél (1973) 370 ha. Gummins vél. 4 janúar 1977 var Sigurður Brynjólfsson einn eigandi bátsins. Seld 2 júní 1977, Heimi h/f og Högna Felixsyni í Keflavík, sama nafn og númer. Seld 22 október 1981, Svavari Péturssyni á Kópaskeri, hét Sigrún KE 14. Talin ónýt og tekin af skrá 4 nóvember árið 1986.
Sigrún AK var hætt komin í miklu óveðri sem gekk yfir landið í byrjun janúar árið 1952. Fékk skipið á sig marga brotsjói sem ollu miklu tjóni á skipinu, auk þess að einn skipverja tók út í einu brotinu en var bjargað naumlega af skipsfélögum sínum um borð aftur. Í þessu sama veðri fórst vélskipið Valur AK 25 frá Akranesi og með honum áhöfnin, 6 menn.


Sigrún AK 71 að landa síld á Siglufirði.                                                                (C) Bjarni Árnason.


                   M.b. Sigrún AK 71

Bætzt hefur nýr bátur við flotann, mb. Sigrún, ca. 66 tonn að stærð. Báturinn er eign dánarbús Sigurðar Hallbjarnarsonar. Hann var smíðaður í Strandby í Danmörku, og pantaður af Sigurði löngu áður en hann dó. Í bátunm er 240 hk. Tuxham vél. Skipstjóri á bátnum hingað var Árni Riis. Með bátinn verður Guðmundur Jónsson í Laufási, en vélamaður Hafliði Stefánsson. Báturinn reyndist vel og er hinn traustlegasti.

Akranes. 6 árg. 1 janúar 1947.


Sigurbjörg KE 98.                                                                                      (C) Hafsteinn Jóhannsson.


740. Sigrún AK 71. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra í Duus húsi.            (C) Þórhallur S Gjöveraa.

 
      Mesta stórviðri vetrarins gekk hér yfir í                               fyrrinótt og gærdag

Seint í gærkvöldi voru tveir Akranesbátar ókomnir að landi, en þeir fóru í fyrrakvöld í róður á svonefnd Akranesmið. Þetta eru vélskipin Sigrún, skipstjóri Guðmundur Jónsson og Valur, skipstjóri Sigurður Jónsson. Síðast bárust fregnir af bátunum um hádegisbilið.

Morgunblaðið. 6 janúar 1952

Mb. Sigrún lenti í miklum hrakningum í veðrinu

         Þrír brotsjóir riðu á bátinn, brutu hann og                                    skipverjar slösuðust
                          Stýrimanninn tók út

Akranesi, 7 Janúar. Um kl. 8 á sunnudagskvöld kom vélbáturinn Sigrún hingað til Akraness, í fylgd með varðskipinu Þór. Hafði báturinn lent í miklum hrakningum í fárviðrinu og laskazt mjög. Þrisvar riðu brotsjóir yfir bátinn, sem er 65 brúttólestir. Tveir skipverjar höfðu meiðzt. Einn hafði tekið út, en honum tókst að halda sér á sundi í stórsjó unz skipsfélögum hans tókst að bjarga honum. Í dag átti ég samtal við Guðmund Jónsson skipstjóra um þessa hrakninga hans og manna hans. Sigrún fór í róður frá Akranesi um miðnætti aðfaranótt laugardags. Var báturinn kominn á miðin eftir 3 k!st. siglingu og lína lögð. Var vindur þá af suðaustri og fór vaxandi eftir því, sem á nóttina leið. Um morguninn herti veðrið enn. Milli kl. 10 og 10,30 gekk vindur til suðvesturs með roki, Tók þó út yfir, er vindur gekk til vesturs með haugasjó og fádæma veðurofsa. Aðeins tvö bjóð tókst að draga en þá var lagt af stað til lands.


Sigrún AK 71 eftir hrakningana í janúar 1952.                                                 (C) Rafn Sigurðsson.

Um kl. 11,30, þegar þeir eru nýlagðir af stað heim, reið brotsór stjórnborðsmeginn á bátinn, aftan til og færði hann á kaf um stund. Braut ólagið mest allan öldustokkinn. Allir gluggar í stýishúsi brotnuðu og fyllti það af sjó. Guðmundur Jónsson skipstjóri var þar einn inni. Sjór fyllti einnig skipstjóraherbergið, en þar inni var talstöðin og varð hún óvirk eftir það. Fyrr um morguninn hafði ólag brotið léttbátinn og kabyssurörið. Á þilfari voru þeir Gunnar Jörundsson, I. vélstjóri og Trausti Jónsson, háseti. Báðir köstuðust þeir á togvindu bátsins og mörðust nokkuð. Eftir að stóra ólagið hafði riðið yfir, tók Guðmundur skipstjóri þann kostinn að snúa bátnum upp í veðrið og andæfa gegn því. Þannig héJt hann bát sínum upp í veðrið allan laugardaginn og aðfaranótt sunnudagsins, þar til klukkan 8 á sunnudagsmorgun.
Var hann þá kominn suður í Miðnessjó, suður á móts við Sandgerði. Þá slær skipstjóri bát sínum undan veðrinu og heldur djúpt fyrir Garðskaga. Um kl. 1 voru þeir í Garðsskagaröst. Stóð þá stýrimaður, Þórður Sigurðsson uppi á vélahúsinu, framan við stýrishúsið. Hann var að skyggnast til lands. Reið þá enn sjór yfir bátinn og braut þá það litla sem eftir var af bakborðsöldustokknum og skolaði stýrimanni fyrir borð. Þar sem hann stóð, hélt hann sér í handrið á stýrishúsinu, en svo þungur var sjórinn, að Þórður missti takið. Um leið og hann losnaði greip hann sundtökin. Kristján Friðreksen II. vélstjóri, sá, er Þórður fór fyrir borð. Kallaði hann þá til skipstjóra. Guðmundur skipstjóri setti þá undireins á fulla ferð, og snýr bátnum. Þórður hélt sér á sundi og tókst Guðmundi að leggja að manninum við fyrstu atrennu. Voru þá Kristján og Ásgeir Ásgeirsson matsveinn á þilfari með krókstjaka og tókst með snarræði að innbyrða Þórð, um leið og báturinn renndi að honum.


740. Sigrún AK 71. Líkan Gríms Karlssonar í Duus húsi.                         (C) Þórhallur S Gjöveraa.

Er nú ferðinni haldið inn fyrir Garðsskaga. Þá mæta þeir varðskipinu Þór, sem var að leita bátanna sem úti voru. Fylgdi hann bátnum alla leið til Akraness. Var komið hingað heim um kl. 5 á sunnudagskvöldið. Fagnaði mikill mannfjöldi skipverjum á bryggjunni. Allan tímann höfðu þeir ekki getað tekið upp eld vegna þess að rörið brotnaði. Voru þeir blautir orðnir og þrekaðir. Þórður stýrimaður átti þurr föt til að fara í, er honum hafði verið bjargað. Hresstist hann furðu fljótt. Guðmundur skipstjóri sleppti varla stýrinu allan þennan tíma í opnu stýrishúsinu. Leikur ekki á tveim tungum, að hann og skipshöfn hans hafa unnið hið mesta þrekvirki. Vélin stöðvaðist aldrei. Skipstjórinn bað mig að lokum að færa Eiríki Kristóferssyni skipherra og skipshöfninni á Þór, þakkir sínar og manna sinna, fyrir fylgdina heim til Akraness og fyrir örugga leiðsögn upp að hafnarinnsiglingunni.

Morgunblaðið. 8 janúar 1952.

04.02.2018 08:19

2940. Hafborg EA 152. TF..

Hafborg EA 152 var smíðuð í Szczecin í Póllandi og Hvide Sande í Danmörku árið 2017. 283 bt. 653 ha. Yanmar díesel vél, 481 Kw. Skipið er 24,94 m. á lengd, 8 m. á breidd og djúprista þess er 6,3 m. Eigandi skipsins er Hafborg ehf á Akureyri en heimahöfn skipsins er í Grímsey. Óska eigendum, áhöfn og öllum Grímseyingum til hamingju með nýja skipið.
Það var Haukur Sigtryggur Valdimarsson á Dalvík sem sendi mér í fyrrakvöld myndirnar af Hafborginni við komuna til Dalvíkur hinn 31 janúar síðastliðinn. Þakka ég honum enn og aftur fyrir afnotin af myndunum hans.


2940. Hafborg EA 152 leggst við bryggju á Dalvík.                  (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


2940. Hafborg EA 152 í Dalvíkurhöfn.                                    (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


2940. Hafborg EA 152.                                                            (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


2940. Hafborg EA 152.                                                                (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


2940. Hafborg EA 152.                                                             (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


              Ný Haf­borg EA í flot­ann

Haf­borg EA 152, nýr bát­ur út­gerðarfé­lags­ins Haf­borg­ar ehf. í Gríms­ey, kom til hafn­ar á Dal­vík í fyrrakvöld eft­ir sigl­ingu frá Dan­mörku. Skipið leys­ir af hólmi annað með sama nafni en er raun­ar fjórða Haf­borg fyr­ir­tæk­is­ins, sem gert hef­ur út frá Gríms­ey í þrjá ára­tugi.
Dönsk skipa­smíðastöð, í Hvi­de Sand, sá um smíði skips­ins. Dan­irn­ir létu reynd­ar smíða skrokk­inn í Póllandi, eins og þeir eru van­ir. Þar var sett aðal­vél, ljósa­vél og gír í skipið og það síðan dregið til Dan­merk­ur þar sem verk­efnið var klárað. 
Nýja Haf­borg er 284 brútt­ót­onn, 26 metr­ar að lengd og átta metra breið. "Hún er tölu­vert stærri en sú gamla sem var mæld 60 brútt­ót­onn."

Mbl.is 2 febrúar 2018.

03.02.2018 09:53

Sæfell SH 210. TFBY.

Vélskipið Sæfell SH 210 var smíðað í Lubeck Travemunde í V- Þýskalandi árið 1959. Eik. 74 brl. 400 ha. MaK díesel vél. Eigendur voru Guðmundur Jensson útgerðarmaður í Ólafsvík og Kaupfélagið Dagsbrún í Ólafsvík frá desember sama ár. Selt 1964, Hjallanesi h/f á Flateyri, sama nafn og númer. Báturinn fórst 11 október árið 1964 á leið frá Akureyri til Flateyrar og með honum áhöfnin, þrír menn.
Umfangsmikil leit var gerð af Sæfelli næstu daga en hún bar engan árangur.


Vélskipið Sæfell SH 210 á sundunum við Reykjavík.                                        (C) Snorri Snorrason.

                Nýr bátur til Ólafsvíkur

Ólafsvík, 16. Janúar. Ellefti báturinn, sem hóf róðra héðan á þessari vertíð, var nýr bátur, Sæfell SH 210. Hann er byggður í Travemunde í Vestur Þýzkalandi og kom til landsins upp úr áramótunum. Eigendur bátsins eru Guðmundur Jensson skipstjóri og Kaupfélagið Dagsbrún í Ólafsvík. Báturinn er 75 tonn að stærð, búinn 380 ha. vél og öllum fullkomnustu siglinga og fiskileitartækjum og hinn vandaðasti að öllum frágangi. Gunnar Valgeirsson skipstjóri sigldi bátnum til landsins og reyndist báturinn í þeirri ferð hið bezta skip. Guðmundur Jensson verður skipstjóri á Sæfelli. Hann er 48 ára að aldri. Hann hóf sjómennsku á unga aldri, varð fyrst formaður á 10 tonna báti, Hrönn, sem hann átti í félagi með stjúpa sínum, Jóhanni Kristjánssyni. Hann hefur ávallt síðan verið formaður og útgerðarmaður, skipt um farkost og fylgi þeirri þróun, sem orðið hefur í útvegsmálum Ólafsvíkur. Hann hefur í alla staði verið hinn farsælasti maður í sínu starfi.
Ólafsvíkurbúar fagna hinu nýja skipi og óska eigendum þess, skipstjóra og áhöfn til hamingju með það.

Alþýðublaðið. 22 janúar 1960.

     Leitað var að Sæfelli í allan gærdag 

Vélbáturinn Sæfell SH 210 er týndur. Ekkert hefur spurzt til bátsins síðan á miðnætti á laugardag, þegar hann var staddur austur af Hornbjargi á leið frá Akureyri til Flateyrar, þar sem hann er gerður út. Á bátnum eru 3 menn. Mjög víðtæk leit er hafin úr lofti, á sjó og landi, en hún hafði ekki borið árangur seint í kvöld. Leitarskilyrði úr lofti voru afleit í dag, en bátar frá Ísafirði og varðskip hafa leitað á Húnaflóa og út af Hornströndum. Leitarveður hefur verið slæmt og bátarnir orðið að halda sig langt frá landi. Verið er að athuga um möguleika á að leita fjörur á Ströndum, en það er erfitt vegna þess að Strandir eru að mestu í eyði. Vitavörðurinn á Hornbjargi, Jóhann Hjálmarsson verður fenginn til að leita fjörur frá Horni suður á Barðsvík, en fólk á Dröngum, sem er bær norðan Ófeigsfjarðar, fengið til- að leita þaðan í Geirhólm í Reykjafjörð nyrðri, en 6 manna leitarflokkur fari frá Ísafirði og verði kominn um Skorarheiði í Furufjörð á Ströndum á morgun. Þar mun flokkurinn skipta sér í tvennt og annar hópurinn leita norður að Barðsvík og hinn í suður að Geirhólmi. Talið er að birtan nægi til að flokkarnir komist yfir þetta svæði. Eins og fyrr er sagt var leitarveður í lofti og á sjó slæmt í dag, en leitinni verður að sjálfsögðu haldið áfram á morgun. Verði gott skyggni, mun flugvél "kemba" ströndina alls staðar þar sem mögulegt er að bátinn hefði borið að landi.
Sæfell er 74 tonna bátur, smíðaður í Travemunde í Þýzkalandi árið 1959. Hann var fyrst eign kaupfélagsins Dagsbrúnar á Ólafsvík, en var seldur til Flateyrar vorið 1963. Verið var að setja hvalbak á bátinn á Akureyri, en hann áætlaði að vera kominn til Flateyrar í gærmorgun.

Alþýðublaðið. 13 október 1964.


                     Sæfellið talið af

Fullvíst er nú talið að vélbáturinn Sæfell SH 210, hafi farizt og með honum þrír menn. Eins og frá hefur verið skýrt í blaðinu hefur ekkert spurzt til skipsins síðan á miðnætti aðfaranótt sunnudagsins, en þá var það statt um 20-30 mílur austur af Horni á leið frá Akureyri til Flateyrar, en þangað var skipið keypt fyrir stuttu. Umfangsmikilli leit hefur verið haldið uppi á landi og sjó og úr lofti, en ekkert hefur fundizt er gefið gæti til kynna, hver afdrif skipsins hafa orðið.
Síðast í dag leituðu varðskipsmenn það strandsvæði vestan Horns, sem leitað var úr lofti. en árangurslaust. Með Sæfelli voru þrír menn. Þeir voru:
Haraldur Olgeirsson, skipstjóri, Flateyri, lætur eftir sig konu og þrjú börn.
Sævar Sigurjónsson, ættaður frá Hellissandi en nýfluttur til Flateyrar. Lætur eftir sig konu og eitt barn. Ólafur Sturluson, Breiðdal í Önundarfirði, ókvæntur.

Tíminn. 16 október 1964.

Flettingar í dag: 1458
Gestir í dag: 239
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 740110
Samtals gestir: 55829
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 13:55:16