Færslur: 2018 Mars

04.03.2018 09:39

507. Valbjörn ÍS 13. LBDH / TFCJ.

Mótorskipið Valbjörn ÍS 13 var smíðaður í Risör í Noregi árið 1928. 41 brl. 90 ha. Ellwe vél, smíðuð hjá Svenska Maskinverken í Stokkhólmi, Svíþjóð. Eigendur voru Jón Kristjánsson, Sölvi Ásgeirsson, Ketill Guðmundsson, Finnur Jónsson og Vilmundur Jónsson á Ísafirði frá desember á sama ári. Ný vél (1943) 120 ha. Ruston díesel vél. Frá 3 nóvember 1943, var Samvinnufélag Ísfirðinga eigandi bátsins. Seldur 6 desember 1951, Mími h/f í Hnífsdal, hét Mímir ÍS 30. Ný vél (1955) 240 ha. GM díesel vél. Seldur 31 október 1959, Gylfa h/f á Ísafirði, hét þá Gylfi ÍS 303. Seldur 28 september 1968, Ólafi V Sverrissyni í Grindavík, báturinn hét Gylfi Örn GK 303. Báturinn sökk út af Höfnum á Reykjanesi 23 ágúst árið 1971. Áhöfnin, 2 menn, bjargaðist um borð í Gullþór KE 85 frá Keflavík.


Valbjörn ÍS 13.                                                                                       (C) Sigurgeir B Halldórsson.

    Bátar Samvinnufélags Ísfirðinga

Mótorskipum Samvinnufjelags Ísfirðinga hafa nýlega verið nöfn gefin. Heita þau Ásbjörn, Ísbjörn, Sæbjörn, Vébjörn og Valbjörn. Ráði félagið yfir 100 skipa flota í framtíðinni, gæti svo farið að það yrði í bjarnarnafnahraki, ef ekki má frá þeim víkja.

Verkamaðurinn. 30 október 1928.

       Bátar Samvinnufélagsmanna

M. s. Sæbjörn, eigandi Ólafur Júlíusson o. fl., kom hingað á aðfaranótt þorláksmessu og hafði verið sjö og hálfan sólarhring frá Risör. M. s. Ísbjörn, eigandi Rögnvaldur Jónsson o. fl., kom hingað að morgni þess 27. M. s. Ásbjörn, eigandi Haraldur Guðmundsson o. fl., var í Vestmannaeyjum í gær. M. s. Vébjörn var í Færeyjum á annan dag jóla, en er nú lagður af stað heimleiðis. M. s. Valbjörn hreppti vont veður og snéri aftur til Noregs, vegna einhverrar bilunar á olíugeymi.
Bátarnir eru allir 44-45 tonn að stærð, með 90 hk. Elwe-vél. Reynst hafa þeir sem komnir eru, hin bestu sjóskip, á þessari löngu og hættulegu ferð.

Vesturland. 29 desember 1928.


507. Valbjörn ÍS 13. Líkan.                                              (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

                  Valbjörn ÍS 13

M.b. Valbjörn kom hingað 16. þ m. Eru nú allir bátar samvinnufélagsmanna komnir

Skutull. 18 janúar 1929.


Valbjörn ÍS 13 með fullfermi síldar á Siglufirði.                                                  (C) Leó Jóhannsson.


507. Gylfi ÍS 303.                                                         (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

            Sökk á leið í slipp eftir bruna

Vélbáturinn Gylfi ÍS 303 frá Grindavik sökk í gær út af Höfnum á Reykjanesi. Tveir menn voru um borð í bátnum og björguðust þeir yfir í Gullþór KE, sem hafði komið til aðstoðar, þegar mikili leki kom að Gylfa. Gylfi ÍS 303 var 47 tonna eikarbátur, smíðaður í Noregi 1928. Skipstjóri og eigandi var Ólafur Sverrisson, Grindavik, Gylfi var á leið í slipp í Njarðvíkum, en á föstudagsmorgun kom upp eldur í lúkar bátsins í Grindavík. Slökkvilið Grindavíkur var kvatt út klukkan 05:45 á föstudagsmorgun og var lúkar Gylfa þá alelda, Slökkvistarf gekk greiðlega, en miklar skemmdir urðu frammi í bátnum. Talið er, að eldurinn hafi kviknað út frá eldavél.
Seinnipartinn í gær lagði svo Gylfi af stað frá Grindavik til Njarðvíkur, þar sem taka átti bátinn í slipp. Sæmilegt veður var, en þegar báturinn var stadduir út af Hafnabergi, kom að honum mikill leki frammi í. Um borð voru skipstjóri og vélstjóri og tókst þeim ekki að stöðva lekann. Vélbáturinn Gullþór KE var staddur skammt frá og kom hann Gylfa til aðstoðar, en þá hafði vél Gylfa stöðvazt. Gullþór tók Gylfa í tog og var haldið áfram vestur fyrir Reykjanes, en eftir um hálfa klukkstund, um klukkan 18:30 var Gylfi orðinn svo siginn í sjó, að tauginni var sleppt og sökk hann skömmu síðar.
Skipverjar á Gylfa voru þá komnir yfir í Gullþór, sem flutti þá til Grindavíkur. Sjópróf fara fram í dag.

Morgunblaðið. 25 ágúst 1971.



03.03.2018 07:58

E. s. Ceres. NKHM.

Gufuskipið Ceres var smíðað hjá Kockums Mekaniska Verkstad í Malmö í Svíþjóð árið 1882 fyrir Sydsvenska Angbots A/B í Malmö í Svíþjóð. 1.166 brl. 800 ha. 2 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 36. Skipið var selt Sameinaða gufuskipafélaginu í Kaupmannahöfn (D.F.D.S), 4 maí 1899. Ceres var í millilanda og strandsiglingum við Ísland í um 20 ára skeið. Margir annálaðir skipstjórar voru þar við stjórn. Má þar nefna, Ryder, Kjær, Da Cunha, Gard, Broberg og Lydersen. Skipinu var sökkt af þýska kafbátnum U-88, um 200 sjómílur norður af Írlandi 13 júlí árið 1917. 2 skipverjar fórust. Aðrir skipverjar og farþegar björguðust um borð í skipsbátana og náðu landi í bænum Barnich á Suðureyjum (Hebrideseyjum), eftir 52 klukkustunda hrakninga.

Strandferðaskipið Ceres á Norðfirði.                                                  Ljósmyndari óþekktur.

              "Ceres" hlekkist á

Eimskipið »Ceres« (Broberg skipstjóri) strandaði við Orkneyjar 23. f. m. Var á leið til Reykjavíkur, en rakst á granda þar við eyjarnar og skemmdist dálítið, en þó ekki svo að farþega (né skipverja) sakaði, er allir voru áfram í skipinu þangað til skipsferð féll og þeir gátu haldið burtu. Björgunarskip var þegar sent til þess að draga »Ceres« aftur á flot og gekk það greiðlega, er »Ceres« nú komin til Leith og  verður þar gert við hana svo hún geti byrjað ferðir sínar sem fyrst aftur. Það »sameinaða« hefir þegar sent annað skip til þess að fara þessa ferð er »Ceres« var nú á.

Gjallarhorn. 6 árg. 3 tbl. 5 mars 1912.


Ceres við bryggju á Seyðisfirði.                                                                 Ljósmyndari óþekktur.

                    Ceres sökkt 

Stjórnarráðið fékk í gærmorgun símskeyti frá Lydersen, skipstjóra á Ceres, þess efnis, að skipi hans hafi verið sökkt af þýzkum kafbáti. Skeytið er sent frá litlum bæ sunnarlega á Hebridueyjum kl. 11.50 í fyrradag. Segir skipstjóri að öllum farþegum og skipverjum hafi verið bjargað, nema tveim, öðrum vélameistara, dönskum manni, Danielsen að nafni, og sænskum kolamokara, sem menn ekki vita nafn né deili á með vissu.
Hvar Ceres hafi verið kafskotin, getur ekki um í skeytinu, en það mun hafa verið einhverstaðar í nánd við Hebridueyjar. Ceres var á hingað leið með salt og síldartunnur, en auk þess mun skipið hafa haft póstflutning og nokkra farþega. Vita menn um, að sendimennirnir til London, þeir feðgar Thor Jensen og Richard Thors voru með skipinu og ungfrú Thora Friðriksson. Ennfremur hyggja menn að skipbrotsmenn þeir, sem hér eiga heima, en höfðu ráðið sig á Escondido, sem Þjóðverjar einnig hafa á samvizkunni, muni hafa verið með Ceres.

Morgunblaðið. 18 júlí 1917.


Strand og millilandaskipið Ceres í Kaupmannahöfn.                               Handel & Söfart museet.dk


Ceres. Lituð ljósmynd.                                                                            Handel & Söfart Museet.dk

            Þegar Ceres var sökkt

Í Glasgow í Skotlandi var skipshöfnin af »Ceres« yfirheyrð og sagði hún þá frá því á þessa leið þegar skipinu var sökt:
»Ceres« fór frá Fleetwood hinn 11. júlí og fékk nákvæm fyrirmæli um það, hvaða Ieið hún ætti að fara. Lydersen skipstjóri og stýrimaður sögðu báðir að þeirri stefnu hefði nákvæmlega verið fylgt. Ferðin gekk vel í tvo daga, en er skipið var komið á 50 gr. n. br. og 12 gr. vesturlengdar, kom á það tundurskeyti frá kafbáti, sem eigi sázt. Varð þegar ógurleg sprenging í skipinu. Vélin stöðvaðist samstundis og þegar reykur og gufa fór að réna, var vélrúmið fullt af vatni. Annar vélstjóri, Danielsen og einn kyndari biðu bana við sprenginguna og bakborðsbátur brotnaði í spón. Það tókst að koma stjórnborðsbát á flot og einnig »jullu« og gekk skipshöfnin þar á, ásamt þremur farþegum. »Ceres« sökk á sjö mínútum. Rétt á eftir kom kafbáturinn í ljós á stjórnborða, en þegar hann sá að skipið var sokkið fór hann í kaf aftur. Bátarnir héldu nú til lands. Skömmu síðar sáu þeir tvö svört reköld skammt frá sér og er þeir komu nær sáu þeir að þetta voru fljótandi tundurdufl. Um miðjan dag hinn 15. júli komust bátarnir báðir til þorpsins Bornich á Suðureyjum, eftir harða útivist. Farþegar á Ceres voru 3, þeir Thor Jensen, Richhard Thors og ungfrú Þóra Friðriksson. Nokkrir Íslenzkir sjómenn voru ráðnir á Ceres hér og komu 3 þeirra hingað í gær á Fálkanum. Vér náðum tali af Bjarna Jónssyni Þórðarsonar hafnsögumanns á Vesturgötu 38. Er Bjarni framúrskarandi dugnaðarlegur að sjá og líklega ekki einkisvirði að hafa með á slíkri útivist og þeir áttu, skipverjarnir og farþegarnir á Ceres, eftir að skipinu var sökt. Bjarni segir látlaust og blátt áfram frá, svo sem góðra sjómanna er siður.
Klukkan var 7,15 árdegis föstudaginn 13. júlí. Ceres var þá á að gizka 200 sjómílur norður af Írlandi. Skyndilega varð óttaleg sprenging, vélin stöðvaðist og annar björgunarbáturinn fór í spón, ásamt mörgu öðru á þilfarinu. Kafbáturinn sást þá hvergi, en hann kom úr kafi litlu síðar hinu megin við skipið, en hvarf aftur þegar hann sá, að skipið var að sökkva. Tveggja manna var þegar saknað og hygg eg að þeir hafi báðir farist í vélarúminu þegar sprengingin varð. Farþegar voru ekki komnir á fætur og voru því fáklæddir mjög. En það var um að gera, að hraða sér sem mest. Þóra Friðriksson komst í kjól, en Thor Jensen og Richard Thors voru vestis- og jakkalausir, er þeir hlupu í bátinn. Skipverjar, sem á verði voru, lánuðu þeim nokkuð af sínum fötum, en veður var kalt, rigning og stormur, svo það gat varla farið vel um þau. Þau báru sig samt vel, en sjóveiki hafði ungfrú Þóra megna. Nú var róið og siglt. Mat höfðum við til þriggja daga og vatn nóg.
Og Cognak, ef einhver skyldi veikjast. Eftir 52 stunda veru í bátunum, »julluna« höfðum við bundið aftan í lífbátinn, komum við að landi í Bornich. Var oss tekið þar mjög vel af Bretum og þegar símað eftir skipi til þess að flytja okkur til Skotlands. Í Glasgow vorum við í 10 daga, en fórum svo frá Newcastle til Noregs. Skipverjar og farþegar misstu allt, sem þeir höfðu meðferðis. En það var hreinasta undur, að ekkí skyldu fleiri menn farast, því kafbáturinn gaf oss engan frest til þess að forða oss.

Morgunblaðið. 17 ágúst 1917.


01.03.2018 18:47

Reykjavíkurhöfn í blíðunni í dag.

Það var fallegt veðrið í höfuðborginni í dag, það besta í nokkrar vikur. Hafði það á tilfinningunni að vorið væri að koma, en það er bara 1 mars, já bjórdagurinn, mætti alveg skála fyrir honum. Nei, það er langt í vorið ennþá, langi mars eftir. Reykjavíkurhöfn er alltaf falleg. Tók þessar myndir þar í blíðunni í dag.


Sól og blíða í Reykjavíkurhöfn í dag.


Grandagarður.


Akurey AK 10 við bryggju í Örfirisey.


Vesturhöfnin.


Helga María AK 16 og Akurey AK 10 við bryggju í Örfirisey.      (C) Þórhallur S Gjöveraa. 1 mars 2018.
Flettingar í dag: 176
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074554
Samtals gestir: 77498
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 14:36:33