Færslur: 2018 Maí
04.05.2018 18:31
2 m. Kt. Grímsey BA 8. LBTK.
Islandsk
Handels & Fiskeri Kompagni
Um og eftir aldamótin 1900 risu upp tvö stórfyrirtæki á
Eyrum þ.e. Geirseyri og Vatneyri, Island Handels & Fiskeri Kompagni
(I.H.F.) keypti Geirseyrareignir og rak verslun og útgerð þaðan. P.J.
Thorsteinsson & Co. (Milljónafélagið) sem keypti Vatneyrareignir af Pétri
Thorsteinssyni, hafði rekstur sinn þar. Bæði fyrirtækin voru dansk-íslensk og á
vegum þeirra var rekin mikil þilskipaútgerð frá Patreksfirði og saltfiskverkun.
Er þessi félög liðu undir lok tóku við umsvifum tveir einstaklingar sem mörkuðu
merk spor í atvinnusögu staðarins. Pétur A. Ólafsson var verslunarstjóri hjá
I.H.F. á Patreksfirði og keypti eignirnar á Geirseyri af félaginu 1906 og rak
síðan verslun og útgerð á staðnum um 25 ára skeið. Ólafur Jóhannesson var
verslunarstjóri hjá P.J. Thorsteinsson & Co. meðan félagið starfaði á
Patreksfirði og festi hann kaup á Vatneyrarverslun og mannvirkjum öllum og
miklum hluta Vatneyrarlands. Rak hann fyrst öfluga þilskipaútgerð og svo
togaraútgerð sem hófst árið 1925 og stóð að heita óslitið til 1961. Í kringum
togarana risu mörg atvinnufyrirtæki, hraðfrystihús, vélsmiðja,
fiskimjölsverksmiðja og verslun. Eftir 1961 hefur sjávarútvegurinn byggst á
afla vélbáta, smærri og stærri skipa og dagróðrabáta og atvinnustarfsemin að
miklu leyti flust á Vatneyri þar sem höfnin er nú.
Úr atvinnumálastefnu fyrir Vestur Barðastrandasýslu
2004-2008.Stýrimenn útskrifaðir frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík
árið 1904 með hið meira stýrimannapróf. Yzt til hægri í næst efstu röð er Sigurður Jóhannesson frá
Höfða í Eyrarsveit, fæddur 2. Febrúar árið 1880. Sigurður var skipstjóri með kútter
Grímsey, sem var gerður út frá Flatey á Breiðafirði, en sú útgerð hleypti miklu
lífi í athafnalíf í Flatey um skeið upp úr 1910.
Þorpið í Flatey á Breiðafirði. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
Höfnin í Flatey á Breiðafirði. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
Þilskipaútgerð Guðmundar Bergsteinssonar
Þilskipaútgerð Guðmundar Bergsveinssonar jókst nú með hverju
ári svo að aldrei hafði blómlegra atvinnulíf verið í Flatey en á þessu ári
(1915) og næstu árum. Þegar þess er minnst að Guðmundur hóf saltfiskverkun í
Flatey mátti segja að atvinna væri næg fyrir alla, karla, konur og börn og
aldrei mun afkoma Flateyinga hafa verið betri þessa hálfu öld, en þennan annan
tug aldarinnar.
Saga Flateyjarhrepps.
02.05.2018 16:59
Fylkir AK 6. LBCP / TFBH.
Fylkir VE 14
Nýr vjelbátur, sem "Fylkir" heitir, kom hingað í
gærmorgun. Eigendur eru fjórir ungir Vestmannaeyingar, Sigurður Bjarnason,
Sigurjón Jónsson, Gunnar Guðjónsson og Högni Friðriksson. Eru þeir allir á
bátnum. Fylkir er smíðaður í Landskrona í Svíþjóð og er 42 smálestir að stærð,
með 100 hestafla "Scandiavjel." Sigldu þeir fjelagar honum hingað til
lands og komu til Vestmannaeyja 22. desember. Báturinn gengur fyrst um sinn til
veiða frá Sandgerði. Hefir hann þegar farið einn róður og fékk þá um 16 skippund
fiskjar.
Tveir vélbátar hafa farizt, en öllum mönnum var bjargað nema einum
Fimmtíu til sextíu vélbátar úr verstöðvunum hér við Faxaflóa
og nokkrir bátar að auki voru í mesta sjávarháska í fyrrinótt og í gærdag.
Þegar þetta er ritað er vitað um tvo vélbáta, sem farizt hafa, "Ægi" úr
Garði og Björn II sem gekk frá Akranesi, en um sex báta er ekki vitað enn. Einn
úr Sandgerði, tvo úr Keflavík, tvo úr Vestmanneyjum, og einn er á leið hingað
frá Vestmanneyjum. Vitað er, að einn maður hefir farizt: af vélbátnum "Ægi,
Sigurður Bjarnason, ungur maður frá Geirlandi á Miðnesi.
Allir bátar, sem reru frá Akranesi, komust heilu og höldnu heim, nema "Björn
II." Slysavarnafélaginu barst í gær, seinnipartinn, beiðni frá þessum báti
um aðstoð, vegna þess, að leki væri kominn að honum. Vélbáturinn "Fylkir"
frá Akranesi var nærstaddur, og tókst honum að ná öllum mönnunum, en "Björn
II." mun hafa sokkið. Hins vegar maraði hann en í hálfu kafi þegar
"Fylkir" fór frá honum.
Vélbáturinn Fylkir VE 14. Ljósmyndari óþekktur.
Bátar lenda í hrakningum í Hvalfirði
Í hvassviðrinu í gær lentu bátar frá Akranesi í hrakningum á
Hvalfirði. Þorsteinn frá Akranesi missti annan nótabát sinn í ofviðrinu, en
bjargaði hinum og nótinni við illan leik. Fylkir frá Akranesi, sem var með
reknet undan Laxvogi, lenti líka í storminum og gat við illan leik náð netunum
upp og forðað því að reka á land. Er það talið að þakka harðfengi skipstjórans,
Valdimars Kristmundssonar, og skipsmanna hans.
Tíðindamaður blaðsins átti í morgun tal við Valdimar, og sagði hann, að hin
stutta reynsla sín af veðri á Hvalfirði væri sú, að þar gæti hvesst ekki síður
en annars staðar og sjóir gætu orðið þar ærið miklir, eins og t. d. í gær. Mér
virðist, segir Valdimar, að það slái alltaf fyrir í firðinum í hvaða átt sem
er. Auk Þess er mjög misvinda og vont að átta sig á snörpum vindhviðum, sem
koma þegar minnst varir. Vélbáturinn Þorsteinn frá Akranesi lagðist fyrir
akkeri í storminum í gær, en vindur og bára urðu þess valdandi, að hann missti
annan nótabátinn út í veðrið, svo að við ekkert varð ráðið. Hins vegar tókst að
ná mestum hluta nótarinnar, sem þó er nokkuð skemmd. Var hún eins og venjulega
í báðum bátunum, en skipverjum tókst að koma henni að mestu yfir í hinn bátinn,
sem ekki tapaðist. Bátinn, sem týndist, hefir nú rekið á land við Bjarteyjarsand
á Hvalfjarðarströnd. Þorsteinn komst annars heilu og höldnu að landi í gær.
Tíminn. 11 nóvember 1947.
- 1
- 2