Færslur: 2018 Desember
04.12.2018 11:19
B. v. Snorri goði RE 141. LBMG.
Botnvörpungurinn Snorri goði RE 141
var smíðaður hjá Smiths Dock Company Ltd í North Shields á Englandi árið 1907
fyrir Great Grimsby Albion Steam Fishing Co Ltd í Grimsby, hét Canadian GY 290.
244 brl, 110 nettó. 425 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 354. 125 x 22,1 x 11,7 ft. Thor Jensen kaupir togarann
ásamt dönskum forstjórum "Milljónafélagsins", þeim Aage og Andreas Möller og
mági þeirra, Zimsen að nafni, og stofna í kjölfarið Hlutafélagið Draupni í
Reykjavík í mars árið 1911. Það félag sameinaðist svo hf. Kveldúlfi í Reykjavík
nokkrum árum síðar. Snorri goði kom til Reykjavíkur hinn 15 mars sama ár og fór
síðan strax á veiðar. Skipstjóri var Björn Ólafsson. Togarinn var seldur H
Smethurst í Grimsby árið 1920. Seldur árið 1927, Pescaderias Confiesas SA, San
Sebastian á Spáni, hét Mercedes. Seldur 1931, J. Arcelus, San Sebastian á
Spáni. Seldur 1933, Fernando Rey Romero í San Sebastian á Spáni. Engar frekari
upplýsingar finnast um togarann né um afdrif hans.
B.v. Snorri goði RE 141 á ytri höfninni. Mynd á gömlu póstkorti.
Nýir
botnvörpungar
Tveir heldur en einn eru nú að bætast í hóp botnvörpunganna
reykvísku. Er þá full tylftin. Thor Jensen kaupmaður keypti fyrir skömmu
botnvörpung í Hull, og kom sá hingað í fyrradag. Skírður er hann Snorri goði,
og mun fengsæll verða ef hann ber nafn með rentu. Hinn nýja botnvörpunginn
kaupa eigendur Jóns forseta. Tylft af botnvörpungum gerð út í höfuðstaðnum, það
er gott fordæmi. Fjármagnið til útgerðar þessarra nýju botnvörpunga, sem og til
hinna eldri, mun fengið hjá Íslandsbanka. Það er gleðilegt, að bankinn hefir
getað teygt sig þetta langt einmitt til þessara fyrirtækja, Því að flestum mun
ljóst, að botnvörpuveiðarnar eru arðvænlegri atvinnuvegur en flest annað hér um
slóðir.
Ísafold. 4 mars 1911.
Annáll
frá togaraöldinni
"Þú ert sterkur íslendingur en skoska viskíið er sterkara"
Það var mikil sókn hjá Íslendingum, þegar fyrstu togararnir
voru að koma til landsins. Þeir voru keyptir fyrir peninga, sem fengust fyrir
skútufiskinn, og þeir vösku sjómenn, sem gerðu garðinn frægan á fyrstu árum
togaraútgerðarnnar eru nú að hverfa einn af öðrum. Við fengum enn gamlan
togarasjómann, er nú býr á Hrafnistu til þess að segja okkur frá fyrstu
togurunum, sem komu til landsins. Hann vill ekki láta nafns síns getð, en
viðtalið heldur vissulega gildi sínu fyrir því. Við hefjum viðtalið á þessa leið:
- Hvenær manst þú fyrst eftir togurunum?
- Fyrst þegar ég man eftir togurum í Reykjavík, þá var ég strákur um fermingu.
Fyrsti togarinn sem ég man eftir að var skrásettur í Reykjavík var númer 105
(RE 105). Hann hét Seagull. Hann var frá Aberdeen, rauður að lit og var almennt
kallaður Fjósa-Rauður. Þetta skip strandaði við Vestmannaeyjar. Þetta er
dálítið frægt skip. Það var t. d. á því skipstjóri, sem.hét Árni Eyjólfsson, er
síðar var kallaður Árni Byron. Hann var staðinn að því að veiða í landhelgi, var
tekinn fastur og fluttur hingað inn til Reykjavíkur. Útgerðarmennirnir, sem
voru Þorvaldur á Þorvaldseyri og fleiri, neituðu að borga sektina og þar með
var Árni dæmdur í fangelsi, því hann var ekki maður til þess að borga. Eftir
því sem ég bezt veit fór Árni sama daginn til Englands með Lauru, og þar með
hefst eiginlega fyrsta togarasaga Íslendinga, því Árni Byron varð skipstjóri í
Englandi og stóð þar manna fremstur af skipstjórum, bæði í Hull og Grimsby. T.
d. var Árni með hinn stóra togara Lord Nelson, sem Íslandsfélagið keypti (hann
varð númer 138) og var þá stærsti togarinn í Grimsby. Þessum togara var sökkt
af litlum Norðursjávarbát, eða Aberdeen-bát í Norðursjónum og varð Gamli Marz,
RE 114, skipstjóri Þórarinn Olgeirsson, til þess að bjarga fólkinu.
Botnvörpungarnir Valur RE 122, til vinstri og Snorri goði RE 141 á Reykjavíkurhöfn árið 1913. (C) M. Ó.
Skipstjóri
á Lord Nelson var þá Hjalti Jónsson, kunnar aflamaður, eða Eldeyjar-Hjalti. Ég
man eftir því er fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir íslendinga kom hingað
1907. Það var Jón forseti. Á honum var, skipstjóri Halldór okkar Þorsteinsson,
frá Háteigi og fleiri. Þar á meðal Jón Sigurðsson heitinn Blómsturvalla, Gísli
Þorsteinsson og Guðmundur Markússon, sem nú er lifandi. Hann byrjaði skipstjórn
á honum, að ég held, árið 1919. Hann var mikill aflamaður og nú á hann son,
Markús Guðmundsson, sem er okkar toppmaður í fiskiríi, en hann er skipstjóri á
togaranum Marz frá Reykjavík, sem er nú númer 261. Síðan kom togari til Reykjavíkur,
keyptur af hlutafélaginu Ísland. Hann hét Seagull líka, en hann var skírður upp
og skírður Marz. Hann var númer 114, eins og ég gat um áðan. Á honum var
skipstjóri Hjalti Jónsson, til að byrja með, svo Þorsteinn Þorsteinsson,
kenndur við Bakkabúð, síðar í Þórshamri, en þetta voru mikir dugnaðar- og
aflamenn. Þessi togari hélt áfram veiðum hér við land, fiskaði mikið fyrir bæinn
í fyrra stríðinu, en strandaði á Gerðhólma. Þar endaði hann sína ævi. Svo komu
hérna tveir litlir togarar, sem merktir voru frá Reykjavík, Íslendingurinn.
Hann var nr. 120. Á honum voru margir skipstjórar. Ingólfur Lárusson, Guðmundur
Sigurðsson, Kristinn Brynjólfsson, Pétur Bjarnason. Þetta voru allt saman
skipstjórar á honum. Það er nú gaman að geta þess, að hann var númer 120. Nei,
hann var númer 73. Þá var nú Guðmundur okkar Jónsson, sem var kallaður
Guðmundur á Skalla eða Gvendur á Skalla. Hann endaði nú sína skipstjórnartíð á
gamla Íslendingnum, sem kallaður var á sjómannamáli Slandrarinn.
Svo kom Valurinn. Hann var númer 122. Eg man nú ekki vel hverjir voru með hann,
nema ég man að Guðmundur Kr. var skipstjóri á honum einhvern tíma. Svo fóru þeir
nú að bætast við margir myndartogarar. Næstur kom Skúli fógeti, en hann sprakk
á tundurdufli einhvers staðar norður af Flauborrow head við England og fórust
þar fjórir menn.
B.v. Snorri goði og þýska farþegaskipið Kaiser Wilhelm á ytri höfninni í Reykjavík. Myndin er sennilega tekin fyrir stríðið mikla árið 1914. (C) Magnús Ólafsson.
Á honum var skipstjóri þá Kristján Kristjánsson, síðar
fornbókasali í Reykjavík. Eg held ég fari með það rétt. Já, svo komu Baldur og
Bragi. Þeir voru eign Thorsteinson og þess félags. Þar voru skipstjórar
Kolbeinn Þorsteinsson, með Baldur, sem var númer 146 og Jóhann Jóhannsson á
Braga RE 147. Þeir eru báðir nýlátnir. Síðan kom togarinn Apríl. Það var 1912.
Á honum var skipstjóri Hjalti Jónsson. Þetta var fallegt skip. Eg tel hann vera
eitt fallegasta skip, sem smíðað hefur verið fyrir Íslendinga. Hann var 293
tonn. Baldur og Bragi voru hins vegar 291 tonn. Apríl var almennt talinn
fallegasta skipið. Á honum var Þorsteinn Þorsteinsson skipstjóri í 3 ár og
fiskaði mikið og vel. Og á þeim togara var ég með Þorsteini. Síðan kom togari,
sem hét Ingólfur
Arnarson. Hann var númer 153. Á honum var skipstjóri Pétur Bjarnason. Hann var
eins og ég gat um áðan, með Íslendinginn. Hann var frá Hauksfélaginu. Síðan kom
annar togari hjá sama félagi. Hann hét Ingólfur Amarson líka. Þeir voru seldir
í stríðinu 1917 til Frakklands. Hann var númer 1. Svo fóru þeir að koma hver af
öðrum. Það er nú rétt að geta þess, að þetta voru skip, sem smíðuð voru fyrlr
íslendinga. Eg hljóp yfir Skallagrím. Eg man nú ekki hvað hann hét áður, en
skipstjóri á honum var fyrst Jóel Jónsson. Þegar maður tekur skip, sem keypt
voru inn, þá var keyptur Snorri gamli Sturluson. Milljónafélagið átti hann. Á
honum var skipstjóri Björn Ólafsson frá Mýrarhúsum, og fiskaði mikið. Svo var
Snorri goði. Á honum var Björn líka. Þá tók Páll Matthíasson, Snorra Sturluson.
Hann var alltaf kallaður Snorri gamli. Svo tók Páll Matthíasson Snorra goða,
þegar Björn tók Eggert Ólafsson. Hann var frá Patreksfirði, en þeir áttu hann
Ragnar Ólafsson og fleiri, og þegar hann hætti, varð hann skipstjóri á
glæsilegum, nýjum togara, sem Íslandsfélagið átti. Hann hét Maí og var númer
155. Þetta er nú svona það fyrsta.
Gamall togari að toga nánast upp í fjöru. Þetta gæti verið Coot GK 310. (C) Freyja Bjarnadóttir.
- Ætlarðu að taka fleiri? - Ja, auðvitað er hægt að halda áfram, en til þess
vantar mig bókina mína. Það er maður með að láni, og hefur ekki skilað henni
ennþá. Eg er ómöglegur án þess að hafa bók. Það verður bara tóm vitleysa. ef
maður hefur ekki bókina. Gáðu að því að maður er varla læs. Hvað heldurðu að
maður muni þá. Svo fórum við að tala um fæðingarborg íslenzkrar togaraútgerðar,
Grimsby. - Það skeði nú margt þar og oft var gott að koma þar. Eg man eftir
ýmsu þaðan, en það er ekki þar með sagt að ég vilji segja þér frá því öllu.
Fyrst þú endilega vilt skal ég segja þér eina sögu frá Grimsby. Við vorum hvort
eð er að tala um Árna Byron áðan. Hann var kvæntur íslenzkri konu, sem hét
Ingibjörg Stefánsdóttir. Sá Stefán Pálsson og hann var líklega með glæsilegri
mönnum, sem við höfum átt. Hann var, lengi skipstjóri á Matthildi og svo var
hann skipstjóri á NorðurIjósinu. Hann fór einu sinni til Englands til þess að
hitta tengdason sinn og dóttur. Lenti í Grimsby á dálitlu drykkiríi, svona eins
og gengur. Varð hann eitthvað ósáttur við einn mann og þar kom að lögregla var
kvödd til að skakka leikinn - og mér er sagt, að það hafi verið 5 fílefldir
lögregluþjónar í Grimsby, sem áttu við Stefán, en höfðu ekki við honum. En þó
fór það svo að einhvern veginn tókst að koma honum í járn og svo mætti hann
fyrir rétti daginn eftir. Þá komu í blöðunum ítarlegar frásagnir og var Stefán
þar nefndur hinn Íslenzki Herkúles. Stefán var sektaður um 3 pund, sem Árni
heitinn Magnússon borgaði af fúsum vilja, en dómarinn sagði þessi frægu orð:
"Þú ert sterkur, Íslendingur, en mundu alltaf eftir því, að skozka wiskýið er
sterkara".
Tíminn. 124 tbl. 4 júní 1961.
Sjómannadagurinn.
Viðtal við gamlan sjómann á Hrafnistu.
03.12.2018 08:50
Jón Garðar GK 510. TFEZ.
Jón Garðar GK 510 Nýr og glæsilegur stálbátur til Sandgerðis
Sandgerðingum hefur bætzt nýr bátur. Jón Garðar heitir hann,
120 lesta og úr stáli. Eigandi er Guðmundur Jónsson, útgerðarmaður á
Rafnkelsstöðum. Báturinn ber nafn sonar Guðmundar, hins kunna og fengsæla
skipstjóra, er fórst í janúar sl. með áhöfn sinni á vb. Rafnkeli. Jón Garðar er
smíðaður í Zanndan í Hollandi og kom til Sandgerðis aðfaranótt sunnudags.
Eggert Gíslason var skipstjóri á leiðinni heim. í bátnum er 500 hesta Kromhout
vél. Hann er búinn öllum fullkomnustu öryggis og siglingatækjum, m.a. Decea
radar og tveimur Simrad-dýptarmælum. Japönsk miðunarstöð af fullkomnustu gerð
verður og sett í bátinn á næstunni. Heimferðin tók 5 sólarhringa og var
ganghraði 10-11 mílur. Létu skipsmenn mjög vel af bátnum og töldu hann einn
hinn glæsilegasta, sem landsmenn hefðu eignazt á undanförnum árum. Báturinn fer
til hringnótaveiða innan skamms og veiður Sigurður Bjarnason, Sandgerði,
skipstjóri.
Morgunblaðið. 6 desember 1960.
Áhöfnin á Jóni Garðari um borð í Hamravík KE 75 í Vestmannaeyjahöfn. (C) Morgunblaðið.
Vélskipið Hamravík KE 75 í Vestmannaeyjahöfn. (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.
Þriðja
síldveiðiskipið sekkur
Mannbjörg
Jón Garðar
lagðist á hliðina á siglingu og sökk á 7-10 mínútum
Vélskipið Jón Garðar úr Garði sökk um kl. 5 í gærmorgun er
það var á siglingu 16 mílur SA af Hjörleifshöfða með síldarfarm áleiðis til
Vestmannaeyja. Mannbjörg varð, en skipið sökk á 7-10 mínútum. Skipið var með
fullar lestar síldar og um 100 tunnur á dekki. Vélskipið Hamravík var nærstatt
og bjargaði áhöfninni af Jóni Garðari, 10 manns, og kom með hana til
Vestmannaeyja í gær um kl. 12 á hádegi. Áhöfnin kom svo hingað til Reykjavíkur
um kl. 3 síðdegis og hélt suður í Garð. Suðvestan bræla var, 5-6 vindstig, og
fékk skipið á sig vindkviku, er lagði það á hliðina, svo það náði ekki að rétta
sig við. Fréttaritari blaðsins í Vestmannaeyjum, Björn Guðmundsson, náði tali
af skipsmönnum þar, ennfremur átti blaðamaður Mbl. stutt viðtal við
skipstjórann á Jóni Garðari, Sigurð Brynjólfsson, er hann kom með áhöfn sinni
hingað til Reykjavíkur. Nánari atvik slyssins eru sem hér segir:
Vélskipið Jón Garðar var að veiðum austur í Meðallandsbugt og hafði fengið gott
kast, um 1.700 tunnur, að sögn skipstjóra. Úr því var háfað í fulla lest, sem
tekur 900-950 tunnur og síðan var háfað um 100 tunnum á dekk. Afgangnum úr
kastinu var hent. Lokið var að háfa og ganga frá um kl. 1.20 eftir miðnætti.
Hélt þá skipið af stað áleiðis til Vestmannaeyja. Upp úr miðnættinu tók að
vinda af suðvestri. Nokkur undiralda var. Allt gekk vel þar til klukkan laust
fyrir 5 um nóttina að vindkvika lagði skipið á hliðina. Vindur stóð á
bakborðsbóg skipsins. Jón Garðar var þá staddur um 16 mílur SA af Hjör
leifshöfða. Þá var skipstjórinn, vélstjóri og einn háseti á vakt. Aðrir voru í
hvílum. Sýnilegt var að skipinu myndi ekki takast að rétta sig við og sendi
skipstjóri því út neyðarkall. Vélskipið Hamravík frá Keflavík var statt um tvær
mílur frá, lítið eitt á undan, og höfðu skipstjórarnir haft samband sín á milli
fyrr um nóttina.
Hamravík hafði orðið fyrir því óláni að hengilrífa nót sína,
en hafði litla sem enga síld innanborðs. Áhöfnin á Jóni Garðari náði lausum
báðum gúmmíbjörgunarbátum skipsins og blésust þeir upp þegar í stað. Komust
skipsmenn allir í annan björgunarbátinn, flestir þó létt klæddir, matsveinninn
á nærklæðum einum saman. Skipsmönnum ber saman um að ekki hafi liðið nema 7-10
mínútur frá því skipið lagðist á hliðina og þar til það var sokkið. Er skipið
hallaðist kveiktu Þeir öll ljós og sáu þeir á Hamravíkinni því greinilega hvar
Jón Garðar fór niður. Komu þeir á vettvang eftir að skipbrotsmenn höfðu verið
nálega 10 mínútur í gúmmíbátnum. Náðu þeir á Hamravík skipbrotsmönnum skjótlega
um borð og ennfremur náðu þeir báðum gúmmbátunum. Magnús Bergmann skipstjóri á
Hamravík segist hafa heyrt neyðarkallið þegar í stað og greiðlega hefði gengið
að finna skipbrotsmennina og ná þeim um borð. Sigurður Bryjólfsson skipstjóri á
Jóni Garðari bað blaðið færa áhöfn Hamravíkur alúðarþakkir fyrir björgunina og
góðan viðurgerning.
Sigurður Brynjólfsson hefir verið skipstjóri á Jóni Garðari
frá því í haust, en áður hafði hann verið með mörg skip, næst áður Freyfaxa .
Jón Garðar er stálbátur byggður í Hollandi 1960, 128 tonn að stærð . Talið var
skipið hið liðlegasta veiðiskip og kvaðst Guðmundur Jónsson útgerðarmaður á
Rafnkelsstöðum hafa keypt samskonar skip, jafn gamalt og eins að öllu leyti,
vegna þess hve reynslan hefði verið góð á Jóni Garðari. Það skip ber nú nafnið
Kristján Garðar, áður Gjafar frá Vestmannaeyjum. Jón Garðar hafði gefið góða
raun á sumarsíldveiðum, aflaði s.l. sumar 22 þúsund tunnur og varð 5. skipið í
flotanum. Sumarið áður fékk það 27 þúsund tunnur. Það hefir stundað vetrar
síldveiðar allt frá því er það kom til landsins. Sigurður lét vel af Jóni
Garðari sem sjóskipi. Aðspurður sagði hann skipið ekki hafa verið valt. Það
hafði um 15 tonna blágrýtisballest í lest. Skipið hefði nú oltið undan krappri
báru . Sjór hefði ekki verið verri en oft gerðist á þessum tíma á þessari
sjóleið. Að vísu væri Þessi staður slæmur. Vindur hefði ekki verið nema 5-6
vindstig. Ekki gátu þeir skipsmenn gert sér neina grein fyrir hvað raunverulega
orsakaði slysið, urðu ekki varir við að neitt bilaði, eða neinu hefði verið
ábótavant. Skipið tók ekki sjó inn á dekk er aldan skall á því. Sjópróf munu
hefjast út af máli þessu hjá sýslumanni Gullbringusýslu í dag. Í gær átti
blaðið tal við skipstjórann á Rifsnesinu, Angantý Guðmundsson . Skip hans hafði
orðið fyrir áfalli, fengið á sig sjóhnút og lagzt á hliðina og við það hafði
nótina tekið út af bátapalli. Þetta skeði um kl. 6 í gærmorgun , eða um
klukkustund eftir að Jón Garðar sökk. Rifsnesið var aðeins með litla síld
innanborðs eða um 70 tunnur. Það var væntanlegt til Reykjavíkur í gærkvöldi.
Mörg skip fengu stór köst í fyrrinótt, en sum urðu fyrir áföllum og rifu nætur
sínar. Jón Garðar er þriðja síldveiðiskipið sem ferst á nokkrum dögum.
Morgunblaðið. 23 janúar 1964.
02.12.2018 10:40
Alpha BA 128.
Í fiskiskýrslum frá árinu 1911 er Alpha skráð ÍS 156.
Mótorbáturinn Alpha BA 128. Myndin gæti verið tekin eftir endurbygginguna sem gerð var á honum árið 1926 og þá nýlega orðinn mótorbátur. (C) Pétur A Ólafsson ?
Sökk við að
draga annan bát til hafnar
Skömmu eftir miðnætti í fyrrinótt var vélbáturinn Vísir frá
Grindavík staddur nokkuð út af Grindavík með vélbátinn Hilmi frá Keflavík í
togi. Hafði Hilmir fengið kaðal í skrúfuna og var ósjálfbjarga. Nokkur sjór var
og fékk Vísir á sig þrjá sjói ,allstóra og reyndi of mikið á sig við dráttinn.
Kom svo mikill leki að honum að skipverjar urðu að yfirgefa hann. Óðinn kom von
bráðar á vettvang og tók skipverja af Visi um borð, og Hilmi í tog og fór með
hvort tveggja til Reykjavíkur. Kom hann þangað í gærkveldi.
Vísir var gamall bátur, smíðaður 1882, 13 smálestir að stærð.
Slysavarnarfélagið varaði skip og báta er eiga leið um þessar slóðir við því,
ef flakið af Vísi kynni enn að mara í sjávarborði.
Tíminn. 19 janúar 1951.
01.12.2018 17:02
Aldan VE 250. LBMW.
Mótorbáturinn Aldan VE með hákarl á síðunni. (C) Ljósmyndasafnið á Ísafirði.
Mótorskipið
Aldan strandar við Arnarstapa
Undanfarið hefir mótorskipið Aldan úr Vestmannaeyjum, verið
að herpinótaveiðum hjer fyrir vestan land Aðfaranótt miðvikudags var skipið
statt norðvestur af Snæfellsnesi. Skall þá á norðan veður, svo skipið varð að
halda undan veðrinu. Er það var statt undan Svörtuloftum, urðu skipverjar þess
varir, að leki var kominn að skipinu. Jókst hann brátt svo mikið, að skipstjóri
sá, að helsta ráðið væri að sigla skipinu á land. Ætlaði hann að sigla skipinu
upp í sandfjöru í vík einni hjá Hellnum við Arnarstapa. Er komið var nálægt
landi þar, ætluðu skipverjar að draga það að landi á skipsbátunum. En þetta
mistókst, og rak skipið upp í kletta. Veður var þá dágott. Skipið er vátryggt
hjá Sjóvátryggingarfjelagi Íslands. Sagði skipstjóri fjelaginu frá þessu í síma
í gær, en Morgunblaðið hefir fengið frásögn þessa hjá forstjóra fjelagsins.
Ætlaði skipstjóri að losa afla allan úr skipinu og reyna síðan að losa það úr
stórgrýtinu og koma því upp í sandfjöruna. Skipstjóri er Þorvaldur Guðnason,
alkunnur sjógarpur, en eigandi skipsins er Gísli Magnússon útgerðarmaður í
Vestmannaeyjum. Skipið er 30-40 tonn netto, og er af þýskum uppruna. Það er
byggt 1921 úr eik.
Segir forstjóri Sjóvátryggingafjelagsins, að víst væri um það, að ef hjer hefði
verið björgunarskip, hefði Aldan komist hingað heilu og höldnu í dag.
Morgunblaðið. 25 nóvember 1927.
- 1
- 2