Færslur: 2021 Janúar

31.01.2021 07:24

B.v. Hafstein RE 156 bjargar 62 skipverjum af þýska flutningaskipinu Bahia Blanca.

Þriðjudagskvöldið 9 janúar árið 1940, heyrði loftskeytamaður á Loftskeytastöðinni í Reykjavík neyðarkall frá Bahia Blanca, 8.500 tonna þýsku flutningaskipi, sem rakst á ísjaka um 60 sjómílur út af Látrabjargi og sagði skipstjóri þess, Antonio Sohst að skipið væri að sökkva og skjótrar hjálpar væri þörf. Í áhöfn skipsins voru 62 menn og væru þeir í bráðri hættu. Þetta kvöld voru nokkrir íslenskir togarar að veiðum út af Vestfjörðum og heyrðu 4 þeirra neyðarkallið, þar á meðal togarinn Hafstein RE 156 úr Hafnarfirði. Hafstein var kominn með fullfermi og var um það bil að leggja af stað til Hafnarfjarðar er loftskeytamaður togarans, Halldór Jónsson heyrði neyðarkallið frá Bahia Blanca. Ólafur Ófeigsson skipstjóri á Hafstein og einnig einn eigenda hans var hér í sinni fyrstu veiðiferð eftir eftir að hann ásamt Tryggva Ófeigssyni, bróður hans, Vilhjálmi Árnasyni, Þórarni Olgeirssyni og Lofti Bjarnasyni, keyptu togarann seint á árinu 1939. Ólafur skipstjóri lét þegar setja á fulla ferð að hinu sökkvandi skipi, en togarinn var þá staddur út af Dýrafirði og var næstur af þeim togurum sem voru að veiðum við Vestfirði, eða í um 50 sjómílna fjarðlægð frá Bahia Blanca. Það var komið undir morgun 10 janúar að Hafstein kom að hinu sökkvandi skipi og björgun skipverjanna af Bahia Blanca var þegar  hafin. Áhöfn hins sökkvandi skips komst í nokkra björgunarbáta og var þeim jafnóðum bjargað um borð í togarann þó að aðstæður væru allt annað en góðar, haugasjór og náttmyrkur. En björgunin tókst mjög vel. 62 skipverjum og 2 litlum kettlingum, hafði verið bjargað giftusamlega. Þetta var mesta björgun um borð í íslenskt fiskiskip fram til þessa tíma, en það var svo í júnímánuði þegar togarinn Skallagrímur RE 145 bjargaði 353 mönnum af breska beitiskipinu Andia sem skotið var í kaf suður af landinu.

Bahia Blanca var smíðað hjá Short Brothers Ltd, Pallion Shipyard í Sunderland í Englandi árið 1918 fyrir Prince Line Ltd. í London, hét fyrst Celtic Prince og var í þeirra eigu til 1926. 8.558 brl. 3.250 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 396. Frá 1926 til 1938, er skipið í eigu Deutsche Dampfschifffahrts Gesellschaft Hansa í Bremen. Frá 1938 var eigandi þess Hamburg-Sudamerikanische Dampfschifffahrts Gesellschaft í Hamborg.

Botnvörpungurinn Hafstein ÍS 449 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1919. Hét fyrst Michael Mcdonald og var í eigu breska flotans. 313 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Seldur sama ár Hudson Brothers Ltd í Hull, fær nafnið Kanuck H 123. Togarinn var seldur h/f Græði á Flateyri árið 1925 og fær nafnið Hafstein ÍS 449. Kom til landsins 19 febrúar það ár. Árið 1935 er skráður eigandi Gnótt h/f á Flateyri. Seldur árið 1938 Gnótt h/f á Grundarfirði. Seldur 1939, h/f Mars í Hafnarfirði, fær nafnið Hafstein RE 156. Seldur í júlí 1944, Einari Einarssyni í Grindavík, hét Hafstein GK 363. Í október sama ár er Ólafur E Einarsson h/f í Keflavík eigandi skipsins. Selt h/f Vestra í Reykjavík árið 1945. Selt 1947, Díeselskipi h/f í Reykjavík. Selt 29 maí 1947, Selvik p/f í Saurvogi í Færeyjum, hét Havstein VA 16. Togarinn var seldur í brotajárn til Danmerkur 21 september árið 1955 og rifinn í Odense sama ár.


B.v. Hafstein RE 156 öslar út Hafnarfjörðinn á leið til Englands að selja afla sinn eftir að hafa skilað af sér áhöfninni af Bahia Blanca.            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B.v. Hafstein RE 156 að bjarga áhöfn þýska skipsins. Málari óþekktur.


Flutningaskipið Bahia Blanca.                                Ljósmyndari óþekktur.

            Frækilegt björgunarafrek

 Togarinn Hafstein bjargrar 62 þjóðverjum
                    úr sjávarháska

Í fyrrinótt sigldi þýskt flutningaskip, Bahia Blanca, 8558 smálestir, á hafísjaka, er það var statt um 60 sjómílur norðvestur af Látrabjargi og sökk. Sendi skipið út neyðarmerki, sem Loftskeytastöðin hér heyrði og kom áleiðis til skipa. Náði hún sambandi við bv. Hafstein og Egil Skallagrímsson, en Hafstein var nær slysstaðnum og fór því til bjargar. Tókst að bjarga öllum hinum þýsku skipverjum og hélt Hafstein þá til Hafnarfjarðar og kom þangað í nótt.
Hafstein var í fyrstu veiðiför sinni síðan eigendaskifti urðu á honum. Hinir nýju eigendur eru þeir bræður Ólafur og Tryggvi Ófeigssynir, Loftur Bjarnason, Þórarinn Olgeirsson og Vilhjálmur Árnason. Er Ólafur Ófeigsson jafnframt skipstjóri. Þær upplýsingar, sem hér fara á eftir hefir Vísir fengið hjá Tryggva Ófeigssyni og Halldóri Jónssyni, loftskeytamanni." Klukkan 10.30 á þriðjudagskvöld fékk b.v. Hafstein skeyti frá Loftskeytastöðinni hér um að þýskt skip hefði sent frá sér neyðarmerki. Væri það statt 67 mílur NNV af Látrabjargi og hefði rekist á hafisjaka. Óskaði þýska skipið eftir því, að því yrði sent dæluskip og dráttarbátur til hjálpar. Setti Hafstein sig þegar í beint samband við skipið og tók það því vel, að hann kæmi á vettvang til öryggis meðan beðið væri eftir dráttar- og dæluskipinu. Kom Hafstein að skipinu um kl. 3. 30 eftir miðnætti. Vindstig voru SV 4, úrhellisrigning og afar mikil alda. Skipið var þá laust við ísinn og hafði getað siglt með 3ja sjómílna hraða um stund, en þegar botnvörpungurinn var kominn á vettvang bauð hann fyrst að draga þýska skipið. En þá var það orðið svo þungt af sjó, að þýski skipstjórinn taldi það ekki mundu geta tekist. Var því strax hafist handa um að bjarga skipshöfninni.
Síðasta skeytið, sem kom frá Bahia Blanca var á þá leið, að skipið væri að sökkva, hægt en stöðugt. Þegar síðasti báturinn var kominn frá borði var lúkarinn orðinn fullur af sjó, svo og framlestin og í miðlestina var kominn 6 m. djúpur sjór. Þjóðverjarnir rendu nú einum skipsbátanna í sjóinn, en skipverjar voru augsýnilega óvanir að meðhöndla árarnar, því að þeim gekk erfiðlega að koma bátnum frá skipshliðinni. Varð því Hafstein að sigla mjög nærri bátnum og skipinu og þótt það væri mjög hættulegt, tókst það alveg slysalaust að "elta" bátinn uppi. Hafði verið ætlunin, að einhverjir íslendinganna færi síðan í þýska bátinn og réri yfir að skipinu, en vegna þess hve björgun fyrsta bátsins tókst giftusamlega, var horfið að því ráði, að nota sömu aðferð við alla bátana.
En einn bátanna hvarf út í myrkrið og rigninguna og varð togarinn að fara að leita hans. Hann fannst þó von bráðar. Sjálf björgunin tók ekki nema um klukkustund og kl. 6.30 gat Hafstein lagt af stað heimleiðis. Þýska skipið dældi olíu í sjóinn, þegar bátarnir voru settir á flot, en þegar þeir komu að togaranum, var lýsi notað til að lægja sjóana. Í síðasta bátnum frá skipinu kom skipstjórinn. Allir mennirnir komust ómeiddir um borð og lítið sem ekkert hraktir. Sá, sem var verst staddur, þegar hann kom um borð í togarann, var 14 ára drengur. Var hvergi á honum þurr þráður vegna rigningarinnar. Tók Ólafur skipstjóri hann niður í klefa sinn, lét hann fá þurr föt og hrestist hann þá fljótlega. En það var ekki fyrr en komið var um borð í Hafstein, að "hrakningar" Þjóðverjanna byrjuðu. Voru þeir alveg óvanir hreyfingum togarans, í samanburði við hreyfingar hins stóra skips, sem þeir höfðu verið á, og urðu sumir sjóveikir. Annars voru þeir allir hinir hressustu og klöppuðu óspart á axlir íslendinganna, þegar þeir komu um borð í Hafstein. Voru þeir því mjög fegnir því, hversu björgunin tókst greiðlega og slysalaust, en það má þakka snarræði og dugnaði skipstjórans, Ólafs Ófeigssonar, sem stjórnaði björguninni, og hinum vösku mönnum hans. Gekk ferðin til Hafnarfjarðar greiðlega, enda þótt nokkur strekkingur væri í fangið. Kom Hafstein þangað í nótt með skipverja.
Bahia Blanca er 8558 smálestir eftir Lloyd's Register og var smíðað í Englandi 1919. Það var eign Hapag. Skipið kom frá Rio de Janeiro og hafði ekki verið í landsýn í 34 daga. Farmur þess var 40 þús. sekkir af kaffi og þar að auki járnsvarf. Við Ísland hefir aldrei verið bjargað jafnmörgum mönnum af einu skipi. Mesta björgunarafrek, sem áður hafði verið unnið við Ísland, var fyrir tæpum 24 árum, þegar Guðbjartur Ólafsson, skipstjóri, sem nú er hafnsögumaður hér í Reykjavík, bjargaði 38 mönnum af skipi í Grindavíkursjó. Gerðist þetta 24. mars 1916.

Vísir. 11 janúar 1940.

24.01.2021 10:02

Mission Smack Sophia Wheatly LBDG.

Kútter Sophia Wheatly var smíðuð í Fellows Shipyard and Dry Dock í Southtown, Great Yarmouth í Englandi árið 1887. Eik. 81 brl. Djúprista miðskips var 9,5 ft. Skipið var smíðað fyrir Matildu Tennant Cobb og Charlotte Ann Cobb sem svo gáfu það til The Mission To Deep Sea Fishermen. Sophia var allt í senn, trúboðs, spítala og hjálparskip fyrir úthafsveiðiflota breta á þessum árum. Árið 1902 kaupa þeir Thor Jensen, Guðlaugur Torfason og Jafet Ólafsson skipstjóri í Reykjavík, skipið í Englandi, sama nafn og fékk svo skráningarnúmerið RE 50 árið eftir eða 1904. Jafet var jafnan skipstjóri skipsins. Sophia fórst út af Mýrum í mannskaðaveðrinu mikla 6 eða 7 apríl árið 1906 með allri áhöfn, 24 mönnum. Fannst skutur skipsins og bitar úr þilfari rekin við Knarrarnes. Tvö önnur þilskip fórust einnig í þessu mikla veðri, það voru kútter Emilie, eign Th Thorsteinssonar útgerðarmanns í Reykjavík, fórst með allri áhöfn, 24 mönnum, á svipuðum slóðum og Sophia. Brak úr Emilie fannst rekið á fjörur við Akra á Mýrum. Svo var það kútter Ingvar, eign Duus verslunarinnar í Reykjavík sem strandaði á skerjum við Viðey. Þar fórust 20 menn. Í þessu mikla mannskaðaveðri fórust 68 íslenskir sjómenn.


Kútter Sophia Wheatly RE 50 á siglingu á sundunum við Reykjavík.           Ljósmyndari óþekktur.

                  Þilskipakaup

Þrír skipstjórar héðan, Björn Ólafsson frá Mýrarhúsum, Jafet Ólafsson og Kristján Bjarnason fóru til Englands fyrir skömmu til skipakaupa fyrir sjálfa sig o. fl, sem eru í félagi með þeim. Skip það, er Kristján Bjarnason keypti, heitir »Orient« og er 64 ½  tonn að stærð. Kom hann sjálfur á því hingað 21. þ. m. eptir 12 daga ferð frá Yarmouth á Englandi. Skip Jafets Olafssonar heitir »Sophia Wheatly« 82 tonn að stærð, en skip Björns Ólafssonar »Clulow« er stærst, 99 tonn, og hefur áður verið notað sem spítalaskip í Norðursjónum til að hjúkra veikum fiskimönnum. Ætluðu þeir Björn og Jafet að leggja af stað með skip þessi frá Englandi um 16. þ. m. Öll þessi 3 skip eru einkar vönduð og góð skip, mjög nýleg. En nú kvað naumast vera orðið unnt að fá til kaups á Englandi hæfilega stór skip til fiskiveiða hér, ekki til nema smáskútur, eða þá of stór skip (100-200 tons), er áður hafa verið notuð sem spítalaskip í Norðursjónum, en nú er farið að smíða gufuskip í stað þessara seglskipa, sem óðum er verið að leggja niður, og því engin ný smíðuð.

Þjóðólfur. 43 tbl. 24 október 1902.


Kútter Sophia Wheatly RE 50. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.       (C) Þórhallur S Gjöveraa.

 þriðja stórslysið Enn drukknaðir 24
               þilskipafiskimenn 

Ekki átti hún að rætast, hin mjög svo valta von, er tæptað var á í síðasta blaði, um að þeim kynni að hafa orðið lífs auðið úr aftakavoðanum mikla laugardaginn fyrir pálmasunnudag, Jafet Ólafssyni skipstjóra og þeim félögum á Sophia Wheatly. Sama kvöldið, 14. þ. m., flutti gufubáturinn Reykjavík , er fenginn hafði verið eigendum skipsins skyndiferð upp á Mýrar til frekari njósnar, þá nýju harmafregn, að rekið hefði í Knarrarnesi á pálmasunnudag skut skipsins og stóra spildu úr þilfari með bitunum undir, þar á meðal einum úr skipstjórakáetunni, þar sem á var fest eirspjald með enskri áletrun, nafni skipsins og m. fl. Það hafði Ásgeir amtsráðsmaður í Knarranesi Bjarnason skrúfað frá og sent hingað með bréfi um rekaldið. Hann kom með það einn eigandinn, Guðlaugur Torfason trésmiður, er farið hafði upp eftir á gufubátnum. Ekki var neitt líkið rekið, er síðast fréttist. Fyrnefnd áletrun er um það, að skipið hafi gefið verið nýsmíðað (1887) til heimatrúboðs ferðalags innanum Englandshafsfiskiflotann, og hverjir gefið hafi. Hún er svo látandi:
Mission Smack SOPHIA WHEATLY
Launched = October 12. 1887.
To the Glory of God and in Memory of
SOPHIA WHEATLY, Wife of GEORGE COBB Esq: and of their Daughter
SOPHIA WHEATLY COBB,
This vessel is given to
THE MISSION TO DEEP SEA FISHERMEN
by MatildaTennant Cobb and Charlotte Anne Cobb.
Þann veg víkur því við, að skip þetta mun hafa verið hið allra-vandaðasta í íslenzka fiskiflotanum. Og ekki var síður valið lið á því. Skipstjórinn, Jafet Ólafsson, ættaður úr Njarðvíkum, afbragðsmaður, einkar vel látinnn og frámunalega aðgætinn og ráðdeildarsamur. Skipverjar voru í vertíðarbyrjun 25. Tveir voru Norðmenn, er annar hafði gengið af skipi og verið sendur til Noregs, en hinn lagst hér á sjúkrahús, Það varð þeim til lífs. En í stað þeirra bættist einn vinnupiltur úr Viðey. Þessi er skipshafnarskráin eins og skipshöfnin hefir skilið við: 
Jafet Ólafsson, skipstjóri, 33 ára, Reykjavík.
Eyvindur Eyvindsson, stýrimaður, 27 ára, Reykjavík Vesturgötu 53 A.
Og þessir hásetar:
Arnbjörn Sigurðsson 39 ára, vinnumaður Eyrarbakka.
Gísli Gíslason 21 árs, vinnumaður Höskuldarkoti.
Gísli Hallsson 35 ára, þbm. Reykjavík Hverfisgötu 58 B.
Gísli Steinþórsson 24 ára, vinnumaður Kirkjubólsdal í Dýrafirði.
Guðfinnur Þorvarðsson 56 ára, vinnumaður í Reykjavíkk Vonarstræti 6.
Guðni Einarsson 31 árs, vinnumaður Brandshúsum í Flóa.
 Jón Bjarnason 29 ára Þbm. Klöpp Reykjavík.
Jón Guðmundsson 22 ára vinnumaður Kirkjubólsdal í Dýrafirði.
Jón Hákonarson 21 árs vinnumaður. Haukadal í Dýrafirði.
Jón Sigurðsson 17 ára vinnumaður í Reykjavík, Grettisgötu 50.
Konráð Magnússon 19 ára vinnumaður Reykjavík Klapparstíg 13. 
Kristján Helgason 17 ára vinnumaður. Hvítanesi í Kjós. 
Mattías Sumarliðason 28 ára vinnumaður Grund í Skorradal.
Ólafur Eiríksson 19 ára vinnumaður Hæli í Gnúpverjahreppi.
Sigurður Jónsson 26 ára lm. Krumshólum í Borgarhr.
Sigurður Kristjánsson 22 ára vinnumaður Árgilsstöðum Rangárvöllum. 
Steindór Helgason 36 ára vinnumaður Reykjavík Skólavörðustíg 14.
Steinn Steinason 27 ára vinnumaður Grund í Skorradal.
Þorbergur Eggertsson 21 árs vinnumaður Keldudal í Dýrafirði.
Þorvarður Karelsaon 32 ára þbm. Gíslholti, Reykjavík.
Þorvaldur Gissurarson 19 ára vinnumaður í Viðey.
Þórður Eyvindsson 19 ára vinnumaður Eyrarbakka.
Að meðtöldum stýrimönnum þeim 2, er drukknuðu um sama leyti, er talan þá orðin rétt 70, er þilskipaflotinn héðan hefir mist í sjóinn svona í einni svipan. Og 3 skipin, meðal hinna beztu, farin í mola. Það er hið langmesta áfall, er hann hefir nokkurn tíma orðið fyrir, og hinn mesti mannskaði, er hér hefir orðið heila öld eða lengur. Og hefir Ægir þó oft höggvið tilfinnanlegt skarð í þá fáliðuðu sveit, er við hann háir látlausan hildarleik af hólma vorum. Ekki átti nema rúmur þriðjungur þeirra 70 manna, er druknað hafa í þessari hríð, heima hér í Reykjavík, og var ekki nema rúmur helmingur þeirra kvæntir menn; enda ómegð eftir þá fremur lítil að tiltölu, um 20 börn eða svo, en ærin til þess, að hlaupa verður þar undir bagga til líknar með almennum samskotum, sem vitaskuld er sjálfsagt að nái einnig til munaðarleysingjanna utan Reykjavíkur, sem enn vitum vér ógjörla um, en sjálfsagt eru miklu fleiri þó. Sérstaklega er voðalegt skakkafallið, sem Akranes hefir fyrir orðið. Fjársafn er þegar hafið hér, með tvennu móti, almennum samskotum og tombóluhaldi, sem verða átti upphaflega til björgunaráhalda eingöngu, en er nú snúið upp í munaðarleysingjahjálp að 2/3  hlutum.
Hræddir voru menn eftir manndrápaveðrið um 3 skip úr Hafnarfirði. En þau hafa skilað sér 2, annað á páskadag inn og hitt í gærmorgun. Þetta sem kom á páskadaginn, Gunna, frá August Flygenring, hafði hrakist suður undir Færeyjar, en ekki skemst til muna. Þriðja skipið, frá Sigfúsi Bergmann, kvað hafa sést eftir veðrið. Konsúll D. Thomsen hefir runnið á vaðið með mikla höfðingsgjöf til samskotanna, 500 kr. Þeir G. Zoéga og Th. Thorsteinsson kaupmenn hafa gefið 250 kr. hvor.

Ísafold. 23 tbl. 18 apríl 1906.

17.01.2021 07:08

E.s. Vesta strandar við Hnífsdal.

Það var hinn 17 febrúar árið 1913 að farþega og flutningaskipið Vesta strandaði á svonefndum Vallnaboða sem er grunnt út af Hnífsdal. Var skipið að koma að norðan með viðkomu á Ísafirði. Lagðist Vesta við Edinborgarbryggjuna og losaði vörur sem þangað áttu að fara. Margt farþega voru með skipinu og bættust margir við á Ísafirði sem ætluðu með skipinu til Reykjavíkur. Munu hafa verið um 200 farþegar með Vestu er hún lagði af stað frá Ísafirði. Ekki var langt farið er skipið kenndi grunns og það all harkalega, allt lauslegt kastaðist til og nokkrir farþegar sem voru í lestinni hlutu minni háttar meiðsli. Mikil ringulreið ríkti um borð í skipinu fyrstu mínúturnar eftir strandið og þusti fólk á þilfar, en strax komst þó ró á aftur, enda greinilega ekki yfirvofandi hætta á ferðum. Mikill leki kom að skipinu, sjór fossaði inn í vélarrúmið og í framlestina. Gott veður var en gekk á með dimmum éljum. Skipstjórinn á Vestu gaf strax fyrirmæli um að skipið skildi yfirgefið og voru 4 björgunarbátar sem rúmuðu 20 manns hvor, notaðir til að ferja farþega í land, enda stutt til lands af strandstaðnum. Fljótlega komu vélbátar að strandstað frá Ísafirði sem hjálpuðu við að koma farþegunum til lands. Björgunarskipið Geir var fengið vestur til að reyna að koma Vestu á flot en það gekk brösuglega fyrst í stað. Það var ekki fyrr en búið var að ná að mestum hluta farmsins á land að skipið léttist það mikið að Geir náði að draga það á flot og dró það inn til Ísafjarðar þar sem gert var við skemmdirnar sem urðu á skipinu til bráðabirgða svo hægt yrði að draga það til Reykjavíkur. Mjög miklar skemmdir höfðu orðið á því og var það lengi frá vegna viðgerða.
Vestu var sökkt af þýska kafbátnum U-88 um 60 sjómílur suður af Suðurey í Færeyjum 17 júlí árið 1917 þegar hún var á leið frá Seyðisfirði til Fleetwood með síldar og lýsistunnur. 5 manns fórust en 20 komust í björgunarbát og réru honum áleiðis til Færeyja og náðu landi í Sumba á Suðurey eftir 29 klukkustunda barning í bátnum.
Vesta var smíðuð hjá Palmers Shipbuilding & Iron Co í Jarrow, Newcastle Upon Tyne í Englandi árið 1879. 1.122 brl. 700 ha. 2 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 387. Var fyrst í eigu Fr. Georg Schmidt í Hamborg í Þýskalandi. Selt 1 ágúst 1881, Kirsten Adolf & Co í Hamborg. Selt 1882, Sydsvenska Angbats A/S í Malmö í Svíþjóð. Selt 1894, Skanska Cement A/B í Malmö. Selt 8 júní 1899, Det Forenede Dampskibs Selskap (DFDS) í Kaupmannahöfn og var skipið að mestu í siglingum með vörur og farþega milli Íslands og hafna í Bretlandi og Danmörku.


E.s. Vesta á strandstað út af Hnífsdal í febrúar árið 1913.                       Ljósmynd úr safni mínu.

              "Vesta" strandar
   Rekst á sker út undan Hnífsdal

"Vesta", sem væntanleg var frá útlöndum, norðan og vestan um land, lagði af stað frá Ísafirði 17 þ. m. (febrúar) kl, 4 e. h., og átti að fara beina leið til Reykjavíkur. Kafaldshrið var, allsvört, er skipið hélt út Skutilsfjörðinn, en veður þó hæglátt, og vissu skipverjar eigi fyr af, en skipið rakst á sker, beint út undan Hnífsdal. Gat mun hafa komið á skipið, því sjór kom bæði í lestar- og vélarúmið. Með skipinu kvað hafa verið um 120 farþegar, og komu þeir sér þegar í land, sem og skipverjar allir. Símað var þegar hingað til Reykjavíkur, og brá björgunarskipið "Geir" því tafarlaust við, og lagði af stað vestur þegar sama kvöldið (17. febr.) "Botnía", er lá í Reykjavík, ferðbúin til útlanda, brá sér og vestur daginn eptir (18. febr.), kemur síðan með farþegjana, og póstflutninginn. Mælt er, að sama daginn, sem " Vesta" strandaði, hafi þegar verið byrjað að bjarga einhverju af varningi í land, ef ske kynni, að það kæmist þá fremur aptur á flot. Litlar eru þó líkur þess taldar, er þetta er skrifað, þar sem hásjávað kvað hafa verið, er skipið strandaði. Að öðru leyti verða nánari fregnir að bíða næsta blaðs vors.

Þjóðviljinn-þjóðviljinn ungi. 20 febrúar 1913.


Vesta í Stykkishólmi. Súgandisey í baksýn.                                           Ljósmyndari óþekktur.

              "Vestu" strandið

Vestu"-strandið. Eins og getin var um í síðasta nr. blaðs vora, brá björgunarskipið "Geir" sér vestur til Skutilsfjarðar, jafn skjótt er fregnin barst hingað um það, að "Vesta" hefði strandað út undan Hnífsdal Björgunartilraunirnar höfðu þann árangur, að "Vestu" varð komið á flot (21. þ. m. að morgni), og var síðan farið með hana til Ísafjarðarkaupstaðar. Skemmdirnar þá líklega eigi meiri en svo, að dyttað verður að skipinu, en um það efni brestur oss þó að vísu enn greinilegar fregnir.

Þjóðviljinn + þjóðviljinn ungi. 8 mars 1913.


Vesta að lesta vörur, gæti verið á Stekkeyri í Jökulfjörðum.                     Ljósmynd úr safni mínu.


E.s. Vesta í Íslenskri höfn.                                                                   Ljósmynd úr safni mínu.

          Þegar "Vestu" var sökkt   

Færeyska blaðið »Dimmalætting« flytur fregnir af því, þegar »Vestu« var sökkt, og hefir þær eftir Frandsen skipstjóra. Þar segir svo:
Á Seyðisfirði tók »Vesta« 719 tunnur af síld, 359 tunnur af lýsi og 5 tunnur af görnum. Átti hún síðan að fara til Eskifjarðar og taka þar 155 poka af ull. En vegna þoku komst skipið aldrei þangað og hélt því af stað til Englands. Samkvæmt ráðleggingu brezka konsúlsins í Reykjavík ætlaði skipið að sigla fyrst til Stornoway, en annars var förinni heitið til Fleetwood. Að kvöldi hins 15. júlí fór skipið fram hjá Sumbo-vita og stefndi á norðanverðar Suðureyjar. Var þeirri stefnu haldið þangað til kl. 2,10 um nóttina. Þá kom tundurskeytið á skipið. Österlund stýrimaður var þá á verði. Tundurskeytið hæfði sennilega hið vatnsþétta hólf milli vélarrúms og afturlestar. Var sprengingin svo öflug að stórsigla, afturvinda og allt þakið af reykingasalnum flaug í loft upp. Bátarnir héngu utanborðs í svifvindum og var þeim þegar rent í sjóinn. Skipið sökk óðum. Í bakborðsbát fóru 9 menn, þar á meðal skipstjóri. En er báturinn ætlaði að láta frá borði, kemur Larsen yfirvélstjóri og biður að taka sig í bátinn. Einn af skipverjum náði í hann, en Larsen þorði eigi að sleppa handriði skipsins, því að hann var maður gamall og hjartveikur. Í sama bili brotnaði skilrúmið milli vélarúms og stórlestar. Sökk »Vesta« þá beint niður á endann, en svifvinda kræktist í bátinn og hvolfdi honum. Flestir komust á kjöl, en þriggja var saknað, Larsens vélstjóra, kyndara og háseta. Stjórnborðsbátur komst slysalaust frá borði. Hann bjargaði skipsstúlkunni, sem hann fann fljótandi á rekaldi nokkru. Hún hafði sofið á legubekk hjá fyrsta farrými og hefir sennilega slöngvast upp úr reykingasalnum og út á sjó um leið og sprengingin varð. Hún var nokkuð sködduð. Síðan bjargaði báturinn hinum öðrum og kom þá í ljós að fimm menn af skipshöfninni vantaði, og er ætlað að tveir þeirra hafi beðið bana við sprenginguna, en hinir drukknað. Skipstjóri segir að »Vesta« muni hafa sokkið á svo sem einni mínútu. Þegar skipið var sokkið kom kafbáturinn í ljós og heimtaði skipsskjölin. En þau voru sögð týnd. Þá spurði hann um flutning skipsins, hver hann hefði verið og hve mikill. Var því svarað. Segir skipstjóri að meðan þessu fór fram, hafi skipshöfnin á kafbátnum staðið á þiljum og brosað að skipshöfn »Vestu«, og alltaf hefði fallbyssu kafbátsins verið beint að bátnum. En svo voru kafbátsmenn kallaðir undir þiljur og síðan stakk kafbáturinn sér. Í bát »Vestu« voru 20 menn og var hann því fullhlaðinn. En 60 sjómílur voru til lands. Voru þeir 29 klukkustundir að ná landi og hreptu kalt veður og hvast. Hefði líklega enginn bjargast, ef báturinn hefði eigi haft drifakkeri og olíu. Voru allir aðframkomnir af kulda og þreytu, er þeir náðu landi í Sumbobyggð.

Ægir. 8 tbl. 1 ágúst 1917.


10.01.2021 09:17

E. s. Drangey EA 563. TFGB.

Póstbáturinn Drangey EA 563 var smíðuð í Peterhead í Skotlandi árið 1914. Eik og fura. 83 brl. 180 ha. 2 þennslu gufuvél. Hét áður Golden Ray og var í þjónustu breska sjóhersins í fyrra stríði, m. a. að slægja upp tundurduflagirðingar. Eigendur hér á landi voru Jón Björnsson, Þorbjörn Kasparíusson, Júlíus Hafliðason, Brynjólfur Eiríksson og Gísli Jóhannesson á Akureyri. (Útgerðarfélag póstbátsins). Þeir keyptu skipið árið 1932 og létu breyta því í farþega og flutningaskip. Drangey var í póstferðum við Norðurland milli Sauðárkróks og Þórshafnar á árunum 1933 til 1937 og flutti póst vörur og farþega. Skipið var leigt til síldveiða sumarið 1937. Drangey sökk út af Melrakkasléttu 27 ágúst 1937. Áhöfnin, 18 menn, komust í nótabátanna og réru á þeim til Raufarhafnar.


Póstbáturinn Drangey EA 563.                                                           Ljósmyndari óþekktur.

          Póstbáturinn "Drangey"

Hinn nýkeypti póstbátur á að heita »Drangey«. Hefir verið gefin út áætlun yfir ferðir hans þetta ár, Er nú verið að breyta þessum nýja farkosti og endurbæta farþegarúmið, en til notkunar verður skipið ekki tekið fyr en í næsta mánuði.

Alþýðumaðurinn. 4 tbl. 24 janúar 1933.


Drangey EA 563 að landa síld á Siglufirði.                                           Ljósmyndari óþekktur.

               Drangey sekkur

Við vorum komnir inn á flóann inn undir Raufarhöfn, þegar vélstjórinn kallar að nú sé eins og skipið opnist og sjór flæði inn. Víð héldum samt áfram um stund. Ég sagði mannskapnum að fara í bátana og var nú einn í brúnni. Þegar skipið var orðið svo sigið að sjór var að renna niður í lúkarinn, þá flautaði ég niður til Jóhanns vélstjóra og sagði honum að forða sér upp. Taflið væri sennilega tapað. Við hlupum aftur eftir skipinu og í bátana og slepptum. Við biðum þarna stutta stund, en þá sökk Drangey, stakkst niður á framendann. Þarna sökk skipið sem við ætluðum að kaupa, og sennilega hefur það orðið mér og fleirum til lífs. Hitinn frá gufukatlinum var búinn að þurrka burðarstoðir og byrðinginn að innan þannig að hann bókstaflega sprakk.
Þetta hefði án efa gerst síðar og þá undir öðrum og verri kringumstæðum.
Við rérum nú inn til Raufarhafnar. Koman að landi var heldur önnur en ég hafði hugsað mér, með fullt skip af góðri síld. En mannskapurinn komst allur heilu og höldnu í land. Nokkru eftir að þetta gerðist birtist nafnlaus grein í blaðinu Verkamanninum á Akureyri. Þar sagði að Drangey hefði sokkið vegna ofhleðslu. Mér var legið á hálsi fyrir að hafa ekki sést fyrir og það væri orsök óhappsins. Mér þótti hart að liggja undir svona rógi og kærði blaðið fyrir meiðyrði. Endirinn varð sá, að ábyrgðarmaður Verkamannsins var dæmdur í sekt, en ummælin dauð og ómerk.

Úr bókinni, Brotsjór rís, lífssigling Einars Bjarnasonar skipstjóra. Sveinn Sæmundsson. 1991. Einar var skipstjóri á Drangey þegar skipið sökk. Hann og nokkrir aðrir höfðu tekið skipið á leigu sumarið 1937 til síldveiða.


Póstbáturinn "Drangey" á siglingu.                                          Óþekktur málari. Mynd í minni eigu.

   "Drangey" sökk vegna ofhleðslu 

Mönnum hefir sem von er orðið tíðrætt um þann atburð þegar e. s. »Drangey« sökk skyndilega í besta veðri. Fer hér á eftir orðrétt skýrsla skipstjórans á >Drangey« fyrir sjórétti Akureyrar 30. f. m.: »Föstudaginn 27. ágúst var síldveiðaskipið Drangey E. A. 563 statt ca. 5 sjómílur N.V. af Þórshöfn á Langanesi. Kl. 9 síðdegis var búið að háfa úr nót skipsins og ganga frá öllu til landferðar, en til Siglufjarðar var ferðinni heitið til affermingar. Í skipinu var ca. 800 mál síldar og var skipið nokkuð lestað með þann afla, en skipið gat tekið, að minsta kosti 900 mál, með þeirri lestun, sem tíðkast á síldveiðiskipum. Snurpunótinni hafði verið komið fyrir á bátadekki, eins og venja var til, en bátarnir settir aftan í skipið. Rétt úr kl. 9 var lagt af stað, til Siglufjarðar, og virtist þá allt í besta lagi. Veður var gott, logn en aðeins N.V.-bára. Kl. um 11,30 varð vart við lítilsháttar leka á skipinu og þá snúið af leið og inn til Raufarhafnar, til þess að fá affermingu þar. Eftir ca. 10 mínútur hafði lekinn ágerst svo mikið, að dælur skipsins höfðu hvergi nærri við að lensa skipið og stóðu vélamennirnir í hné á fýrplássinu. Var þá sýnt að hætta var á ferðum og var því allur mannskapur kvaddur í bátana og vantaði klukkuna 10 mínútur í 12 á miðnætti er bátunum var róið frá skipinu. Hættan var svo yfirvofandi, að enginn af skipverjum náði nokkru með sér og enginn hafði úr á sér er lagt var frá skipinu og er því ekki hægt að segja nákvæmlega hvað kl. var, er skipið var sokkið, en tíminn var mjög stuttur. Skipið sökk ca. 5 mílur austur at Raufarhafnarvitanum. Þegar lekinn fór að ágerast í byrjun, var gengið að því að undirbúa að létta skipið og var byrjað á verkinu, en mönnum skipað að hætta, er sýnilegt var að ekki hafðist við að dæla skipið. Um kl. 2,30 var komið til Raufarhafnar að bryggju þar. Skipverjar allir voru ómeiddir og liðan góð eftir atvikum. Eins og áður er sagt, fór allt í sjóinu með skipinu, að mönnum og bátum undanskildu. Náðust því hvorki leiðar skipsins eða vélardagbók«. Yfirlögregluþjónn Jón Benediktsson hefir látið blaðinu í té eftirfarandi upplýsingar um e. s. »Drangey«:
Skipið er byggt 1914 í Skotlandi úr eik og furu, og var keypt hingað til Akureyrar 1931 og var eign Útgerðarfélags póstbátsins. Nú í sumar var »Drangey« leigð fjórum mönnum á Siglufirði til sildveiða. Á s. l. ári var sett ný innsíða í allt skipið og sáust þá hvergi merki fúa eða annara ellimarka. Skipið var vátryggt fyrir 35 þús. kr. hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands. Samkvæmt ofanskráðu þá virðist það sýnilegt að ofhleðsla hafi verið orsök þess að »Drangey« sökk. Mun það ekkert nýnæmi að síldarskip eru oft hlaðin svo að það er komið undir »guði og lukkunni« hvort þau fljóta til áfangastaðarins. Virðist vera full þörf á að setja einhver takmörk fyrir því hvað hlaða má síldveiðiskip, eins og takmörk eru sett fyrir hleðslu annara skipa. 

Verkamaðurinn. 1 september 1937.


06.01.2021 20:55

1868. Haraldur Kristjánsson HF 2. TFDJ.

Frystitogarinn Haraldur Kristjánsson HF 2 var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S í Flekkefjord í Noregi árið 1988 fyrir Sjólastöðina hf. Í Hafnarfirði. 883 brl. 2.989 Ha. Wartsiila vél, 2.200 Kw. Smíðanúmer 141. Skipið var selt árið 1999, Haraldi Böðvarssyni & Co. Hf. Á Akranesi, hét þá Helga María AK 16. Við sameiningu Haraldar Böðvarssonar & Co. Hf. árið 2004 við Granda hf. Í Reykjavík, komst skipið í eigu sameinaðs útgerðarfélag sem hét þá H.B. Grandi hf. Sama nafn og númer. Helgu Maríu var breytt í ísfiskstogara í Alkors skipasmíðastöðinni í Gdansk í Póllandi árið 2013. Á haustmánuðum ársins 2019, yfirtók útgerðarfélagið Brim hf. Allt hlutafé H.B. Granda hf og við það komst Helga María AK 16 í eigu Brims hf. Hét fljótlega eftir það Helga María RE 1 og er gert út frá Reykjavík af Brim hf.


1868. Haraldur Kristjánsson HF 2 að landa afla sínum í Hafnarfirði árið 1993. (C) Jón Kr Gunnarsson.

          Nýr frystitogari bættist í
           fiskiskipaflotann í gær

Í gær kom til landsins nýr frystitogari sem Sjólastöðin í Hafnarfirði á og er þetta systurskip Sjóla HF 1 sem fyrirtækið fékk í fyrra. Nýi togarinn hlaut nafnið Haraldur Kristjánsson HF 2 og er 883 brúttólestir að stærð, 56,86 metra langur og 12,62 metra breiður. Að sögn Guðmundar Jónssonar, skrifstofustjóra Sjólastöðvarinnar, kostar togarinn 376 milljónir króna. Þá á eftir að draga frá ríkisstyrk sem norskar skipasmíðastöðvar fá og greiddur er á 5 árum, þannig að verð togarans til Sjólastöðvarinnar verður rúmar 300 milljónir króna. Guðmundur var spurður hvort hægt væri að láta svo dýrt skip bera sig og sagðist hann telja að svo væri og vitnaði þá til reksturs systurskipsins, Sjóla HF 1, sem hefur gengið mjög vel síðan togarinn kom til landsins í fyrra. Verð hans var það sama og nýja togarans. "Svo eru menn líka bjartsýnir, það dugir ekki annað," sagði Guðmundur.
Haraldur Kristjánsson HF 2 kemur í stað Karlefnis, sem er 22ja ára gamall stór skuttogari og flyst fiskveiðileyfi hans yfir á nýja togarann. Haraldur Kristjánsson HF 2 er mjög vel búið skip og er til þess tekið hve allur aðbúnaður áhafnar er góður í þessum tveimur togurum Sjólastöðvarinnar. Íbúðir eru í skipunum fyrir 28 menn í eins eða tveggja manna klefum sem hver hefur sérsnyrtingu. Þá er gufubað, setustofa og sjónvarpsherbergi í skipunum. Sem fyrr segir kom togarinn til landsins í gær og heldur hann til veiða einhvern næstu daga.

Dagblaðið Vísir. 24 mars 1988.


1868. Haraldur Kristjánsson HF 2 fjær og 1972. Hrafn Sveinbjarnarson GK 255 að landa frystum sjávarafurðum í Hafnarfjarðarhöfn árið 1993. (C) Jón Kr Gunnarsson.


1868. Haraldur Kristjánsson HF 2. Fyrirkomulagsteikning.   Mynd úr Ægi.


1868. Helga María AK 16. í Reykjavíkurhöfn.                                 (C) Þórhallur S Gjöveraa.


1868. Helga María RE 1.                                                                     (C) Þórhallur S Gjöveraa.

      Haraldur Kristjánsson HF 2

Nýr skuttogari, M/S Haraldur Kristjánsson HF 2, bættist við fiskiskipaflotann 23. mars s.l, en þann dag kom skipið í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar. Haraldur Kristjánsson HF er smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S, Flekkefjord í Noregi, smíðanúmer 141 hjá stöðinni, en er hannaður hjá Skipatækni h. f. Í Reykjavík. Haraldur Kristjánsson er systurskip Sjóla HF, sem er í eigu sömu útgerðar og kom til landsins í september á s. I. ári. Skipið er fjórtándi skuttogarinn sem stöðin afhendir íslenskum útgerðaraðilum. Haraldur Kristjánsson HF kemur í stað Karlsefnis RE 24, elsta skuttogara landsins, smíðaður árið 1966 og keyptur til landsins árið 1972. Lítils háttar frávik eru í fyrirkomulagi og búnaði skipsins frá Sjóla. Þar ber helst að nefna að sérstakt frystivélarými er milli vélarúms og lesta, sem þýðir um 98 m3. minni lest, bætt við hjálparvélasamstæðu (báðar í vélarúmi) og vinnslubúnaður umfangsminni, þar sem gulllax-vinnslutækjum er sleppt. Haraldur Kristjánsson HF er í eigu Sjólastöðvarinnar h.f. í Hafnarfirði. Skipstjóri á skipinu er Helgi Kristjánsson og yfirvélstjóri Þorbergur Þórhallsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Haraldur Jónsson.
Mesta lengd 56.86 m.
Lengd milli lóðlína (VL=5.20m) 54.17 m.
Lengd milli lóðlína (kverk) 51.91 m.
Breidd (mótuð) 12.60 m.
Dýpt að efra þilfari 7.70 m.
Dýpt að neðra þilfari 5.20 m.
Djúprista (hönnunar) 5.20 m.
Eiginþyngd (5.20 m.) 1.472 tonn.
Særými (5.20 m.) 2.064 tonn.
Burðargeta 592 tonn.
Lestarými 604 m3.
Meltugeymar 91.5 m3.
Brennsluolíugeymar (svartolía) 181.4 m3.
Brennsluolíugeymar (gasolía) 40.7 m3.
Set- og daggeymar 16.3 m3.
Ferskvatnsgeymar 139.5 m3.
Andveltigeymir 46.2 m3.
Ganghraði um l5 sjómílur.
Rúmlestatala 883 brl.
Skipaskrárnúmer 1868.

Ægir. 5 tbl. 1 maí 1988.





02.01.2021 19:00

B.v. Júní GK 345. TFPD.

Nýsköpunartogarinn Júní GK 345 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1951 fyrir Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. Hét Höfrungur á smíðatíma. 732 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 56,80 x 9,21 x 4,60 m. Smíðanúmer 735. Kom fyrst til heimahafnar, Hafnarfjarðar hinn 13 mars sama ár. Togarinn var seldur í júní árið 1964, Evengelos J. Stathakis & Sons í Piraeus í Grikklandi, hét þá Koutouriaris S. lll. Ný vél (1971) 1.630 ha. Werkspoor díesel vél. Seldur 1984-85, Korali NE Atlantic Fishing Co í Piraeus í Grikklandi, hét þá Nikolaos lll. Skipið var selt 1994, Al. Samali & Co í Conakry í Gíneu. Talið ónýtt og og tekið af skrá árið 2002.


B.v. Júní GK 345 á útleið frá Hafnarfirði.                                                     (C) Snorri Snorrason.
 

        Skipstjóri í tuttugu ár hjá
       Bæjarútgerð Hafnarfjarðar

Þriðjudaginn 13. marz 1951 fögnuðu Hafnfrðingar hinu nýja, fallega og vel útbúna, fiskiskipi, sem þeir hafa eignazt. Það er togarinn Júní GK 345. Bæjarútgerð Hafnarfjarðar hefur bætt við skipastól sinn einu nýju skipi, og fer vel á því að slíkt skyldi ske nú, þar sem bæjarútgerðin hefur nýlega átt 20 ára afmæli. Þess afmælis hefur verið  minnzt í dagblöðum landsins, og mikið hefur verið sagt um  menn þá, er standa að þeirri stofnun og er ekki nema rétt að slíkt sé gert á slíkum degi. En mér finnst einn maður hafa orðið útundan í þeim blaðaummælum, og það er maður sem búinn er að starfa hjá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar í 20 ár.
Þetta er Benedikt Ögmundsson, skipstjórinn, sem færir Hafnfirðingum þriðja skipið í röð. Ég segi fyrir mína parta að það hefði mátt minnast á hann betur en gert var í afmælisgreinum í tilefni af 20 ára afmæli Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Það fer vel á því að góðir menn skipi þau sæti sem eiga að stjórna slíkum fyrirtækjum í landi, en þess er ekki síður þörf að þau séu vel skipuð á hafinu. Bæjarútgerð Hafnarfjarðar hefur átt því láni að fagna að eiga slíkan starfsmann sem skipar gott sæti í þágu útgerðarinnar. Það er Benedikt Ögmundsson skipstjóri, sem er nú þegar orðinn frægur sem aflamaður. En mest er hann frægur fyrir það, hve vel hann fer með þá menn, sem undir stjórn hans eru. Benedikt er búinn þeim kostum, sem einmitt virðist vanta hjá mörgum skipstjórum, og það er aðgæsla á mönnum, þegar þeir eru við vinnu á dekki, jafnvel í hvaða veðri sem er. Við, sem höfum verið undir hans stjórn, finnum það best, þegar við breytum um skipspláss, hvaðan við fórum.
Benedikt Ögmundsson er búinn að færa Hafnfirðingum mikil auðæfi og mikla frægð, því að hann hefur bjargað fjölda mannslífa þann tíma, sem hann hefur verið skipstjóri. Og á meðan Bæjarútgerð Hafnarfjarðar hefur slíka menn innan sinna vébanda, er vel farið.
Að lokum óska ég Bæjarútgerð Hafnarfjarðar allra heilla á komandi tímum, og hafi hún ávallt góðum mönnum á að skipa, hvort heldur er í landi eða á sjó.

Alþýðublaðið. 16 mars 1951.


129. Júní GK 345.                                                                                   Ljósmyndari óþekktur.
 

         Tveir togarar enn fara til
            veiða við Bjarnarey

Íslenzku togararnir, sem eru á karfaveiðum, stunda nú veiðarnar út af Garðskaga, og hafa fengið þar uppgripaafla. Fram að þessu hafa þeir verið á karfamiðunum út af Vesturlandi. Togararnir voru á miðunum út af Garðskaga í lok karfaveiðanna í fyrra og öfluðu vel. Botn er þó mjög slæmur þarna og erfitt að ná fiskinum. Engin breyting til batnaðar hefir orðið að því er verðlag snertir á brezkum markaði. Brezkir togarar afla vel og sömuleiðis þýzkir togarar, sem sigla með afla til Bretlands. Enginn íslenzkur togari fer til Bretlands með ísfiskafla, fyrr en aðstæður breytast að mun til batnaðar frá því sem nú er. Þorsteinn Ingólfsson leggur af stað til Bjarnareyjar í dag, en Júní fór á laugardag. Ingólfur Arnarson, sem fór til Bjarnareyjar fyrir rúmum hálfum mánuði, byrjaði aftur að veiða í gær. Hann skrapp til hafnar í Noregi eftir salti og birgðum.

Vísir. 5 júní 1951.


B.v. Júní GK 345.                                                                        Málverk eftir George Wiesemann.
 

   Sigling Júní til Grikklands verður
            skemmtiferð áhafnar

Togarinn Júní hefir verið seldur frá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar tll Gríkklands, og er skipið nú á förum. Fréttamaður náði sambandi við II. stýrimann, Jón Ólaf Halldórsson úr Reykjavik, og spurði hann frétta af fyrirhugaðri siglingu til Grikklands. Siglt verður beint til Pireus og mun siglingin taka 12-13 daga, ef allt gengur vel, en reiknað er með að hvergi þurfi að koma við á leiðinni. Jón hefir aldrei siglt á þessar slóðir fyrr, en Jóhann Magnússon skipstjóri og Gunnar Magnússon I. stýrimaður sóttu olíubátinn Bláfell til Grikklands fyrir tveimur árum á vegum Esso. Meiningin er að taka sumarfrí í leiðinni og munu flestir halda hópinn og fara til Ítalíu, um París og London og síðan heim, en annars ekki verið gerð nein áætlun.
Ferðirnar sjálfar munu grísku útgerðarmennirnir borga, þar sem ráðningin er miðuð við að áhöfn komist til Íslands aftur. Ekki taldi Jón að neinir íslendingar mundu verða á skipinu úti. Það mundi fara beint til viðgerðar og m. a. ætti að setja dieselvél í það. Áhöfnin er öll íslenzk, skipstjóri Jóhann Magnússon, I. stýrimaður Gunnar Magnússon, II. stýrimaður Jón Ólafur Halldórsson, I. vélstjóri Ingólfur Ólafsson, II. vélstj. Þorlákur Ebenesarson, III. vélstj. Valtýr Gunnarsson, smyrjari Eyjólfur Marteinsson, hásetar Vilhjálmur Kristinsson og Gunnar Zoega. Fjórar konur skipsmanna munu annast matseld á leiðinni, en þær eru: Guðrún Ragnheiður Júlíusdóttir, Margrét Sigurðardóttir, Hebba Herbertsdóttir og Ester Gísladóttir.

Vísir. 9 júní 1964.




  • 1
Flettingar í dag: 299
Gestir í dag: 86
Flettingar í gær: 2133
Gestir í gær: 252
Samtals flettingar: 1051482
Samtals gestir: 75999
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:41:02