Færslur: 2022 Febrúar

14.02.2022 09:31

2107. Haukur GK 25. TFIS.

Skuttogarinn Haukur GK 25 var smíðaður hjá Langsten Slip & Baatbyggeri A/S í Tomrefjord í Noregi árið 1984. 479 brl. 225 nettó. 2.033 ha. Wichmann vél, 1.495 Kw. 46,85 x 10,09 x 7,1 m. Smíðanúmer 104. Hét áður Snoddið FD 352 og var gerður út af Partrederi J.I. Ólsen í Tóftum í Færeyjum. Valbjörn hf í Sandgerði keypti togarann í mars árið 1991 og fékk hann þá nafnið Haukur GK 25. Togarinn var seldur til Færeyja og tekinn af skrá 29 desember árið 2000.
 

2107. Haukur GK 25.                                  Ljósmyndari óþekktur.



                              Valbjörn h.f. Sandgerði
    Færeyskur togari kominn til landsins

Síðasta sunnudag kom færeyski togarinn Snoddið til hafnar í Njarðvík. Togara þennan hefur Valbjörn h.f. í Sandgerði keypt af Færeyingum. Var togarinn tekinn upp í slipp í Njarðvík á mánudag. Mun Valbjöm h.f. selja í staðinn togara sinn Hauk GK 25. Voru menn alveg eins vongóðir um að hann færi til Færeyja, en með Snoddinu komu auk áhafnar Hauks GK, færeyingar til að skoða Haukinn. Þá kom Jón Erlingsson útgerðarmaður með togaranum heim. Hafa kaupin verið alllengi í bígerð, en ávallt staðið á einhverju ytra. Snoddið hefur legið í höfn í Þórshöfn í tæpt ár, eftir að útgerðin varð gjaldþrota. Togarinn er smíðaður í Noregi árið 1984. Mælist hann svipaður að stærð og Haukur, þó fyrirkomulag sé allt mikið betra og lestarpláss mikið stærra. Er reiknað með að hann fái nafnið Haukur GK. Sama skipshöfn verður á honum og var á eldri Hauki undir skipstjórn Sveins Jónssonar.

Víkurfréttir. 11 tbl. 14 mars 1991.
                                                                      

Haukur GK 25. Fyrirkomulagsteikning.  Mynd úr Ægi.
 

Færeyski togarinn Snoddið FD 352.                               (C)  Jónleif Joensen.
 

2107. Haukur GK 25. Líkan.                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa.



                                          Haukur GK 25

Nýr skuttogari, M/S Haukur GK 25, bættist við fiskiskipaflotann 10. mars s.l., en þann dag kom skipið í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Sandgerðis. Haukur GK er keyptur notaður til landsins, og hét áður Snoddið og var smíðaður fyrir Færeyinga árið 1984, afhentur í mars það ár. Skipið er smíðað hjá Langsten Slip & Baatbyggeri A/S, Tomrefjord í Noregi, og er smíðanúmer 104 hjá stöðinni. Umrædd skipasmíðastöð hefur smíðað mjög marga skuttogara fyrir Færeyinga, en hinn nýi Haukur er þriðja fiskiskipið í íslenska flotanum frá umræddri stöð, öll innflutt. Hinn nýi Haukur GK kemur í stað skuttogara, sem bar sama nafn (sk. skr. nr. 1378) og var smíðaður Noregi árið 1970, en keyptur til landsins árið 1974. Haukur GK er í eigu Valbjarnar h.f., Sandgerði. Skipstjóri á skipinu er Sveinn Jónsson og yfirvélstjóri Jón Rúnar Árnason. Framkvæmdastjóri útgerðar Jón Erlingsson.
Mesta lengd 46.85 m.
Lengd milli lóðlína 39.20 m.
Breidd (mótuð) 10.09 m.
Dýpt að efra þilfari 7.10 m.
Dýpt að neðra þilfari 4.75 m.
Eiginþyngd 772 tonn.
Særými (djúprista 4.75 m) 1170 tonn.
Burðargeta (djúprista 4.75 m) 398 tonn.
Lestarrými 400 m3.
Brennsluolíugeymar(m. daggeymum) 132.9 m3.
Andveltigeymar(brennsluolía) 53.6 m3.
Ferskvatnsgeymar 42.1 m3.
Tonnatala 742 brl.
Rúmlestatala 479 brl.
Skipaskrárnúmer 2107.

Ægir. 9 tbl. 1 september 1991.


 

 

 

07.02.2022 08:50

B.v. Skúli fógeti RE 144. LCHM.

Botnvörpungurinn Skúli fógeti RE 144 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1920 fyrir h/f Alliance í Reykjavík. 348 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 42,70 x 7,66 x 4,36 m. Smíðanúmer 368. Skipið strandaði við Staðarhverfi á Reykjanesi 10 apríl árið 1933 með 37 manna áhöfn. 13 menn fórust en björgunarsveit SVFÍ í Grindavík bjargaði 24 mönnum á land.
 

B.v. Skúli fógeti RE 144 á toginu. (C) Guðbjartur Ásgeirsson. Mynd úr safni mínu.



                  „Skúli fógeti RE 144“

Í morgun kom hingað enn þá einn nýr togari, er heitir „Skúli Fógeti", eign Alliancefélagsins. Skipstjóri er Gísli Þorsteinsson, áður skipstjóri á „Jóni Forseta". Togari þessi er hinn vandaðasti að öllum frágangi og hið fegursta skip á að sjá.

Alþýðublaðið. 12 apríl 1920.
 

Skúli fógeti RE 144 á strandstað við Staðarhverfi á Reykjanesi.
 
Skúli fógeti RE 144 á strandstað 10 apríl árið 1933.
 
Líkan af Alliancetogaranum Skúla fógeta RE 144. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
 
B.v. Skúli fógeti RE 144 á toginu.  (C) Guðbjartur Ásgeirsson. Mynd úr safni mínu.


 

            Skúli fógeti strandar við Grindavík

               Þrettán menn drukkna

 Öðrum skipverjum 24 bjargað í land á línu


Aðfaranótt mánudags laust eftir miðnætti strandaði togarinn Skúli fógeti skamt vestan við Staðarhverfi í Grindavík, rjett austan við vík þá, sem nefnd er Albogi. Veður var dimmt af hríð og suðaustan strekkingur. Skipið var á heimleið frá Selvogsbanka. Skipið fylltist brátt af sjó, seig niður að aftanverðu út af skerinu um 20 mínútum eftir að það strandaði. Þá voru 23 menn af skipshöfninni á hvalbaknum, 12 á stjórnpalli en tveir höfðu klifrað upp í fremri reiðann. Skömmu eftir að togarinn seig niður, fóru ólög yfir stjórnpallinn, svo þeir sem voru í fremri reiðanum sáu, að stýrishúsið fór við og við alveg í kaf. Þrír skipverja komust af stjórnpallinum fram á hvalbakinn. En sjór skolaði hinum brátt út. Slysavarnadeild Grindavíkur kom á strandstaðinn í dögun, eftir nokkra leit að skipinu. Þá voru 22 menn á hvalbaknum, en tveir í fremri reiðanum. Hafið úr flæðarmáli þá um 100 faðma. Með línubyssu tókst brátt að koma taug út á hvalbakinn. Og björgun tókst greiðlega úr því.
Klukkan 40 min. yfir 12 á mánudagsnótt heyrði loftskeytastöðin; hjer neyðarkall frá togaranum Skúla fógeta. Er stöðin hafði fengið samband við togarann fekk hún að vita, að hann væri strandaður í Grindavík, milli Járngerðarstaða og Staðarhverfis Sagt var, að stórt gat væri komið á skipið. Jeljaveður var á, og lofttruflanir miklar. svo erfitt var um það leyti að heyra loftskeyti. En eitthvað hafði dregið úr truflunum rjett í þeim svifum, sem togarinn sendi neyðarkall sitt. Loftskeytastöðin sendi samstundis út skeyti til veiðiskipa á Selvogsbanka um slys þetta, með tilmælum um aðstoð. Það var togarinn Haukanes sem fyrstur varð til svars. Hann var að veiðum á bánkanum. Hann fór þegar áleiðis til strandstaðarins. Loftskeytastöðin gerði Slysavarnafjelaginu þegar aðvart. Reyndi Slysavarnafjelagið síðan að ná talsambandi við Grindavík. En það tókst ekki.
Loftskeytastöðin sendir út talskeyti kl. 1.45 mín. á hverri nóttu um veðurspá Veðurstofunnar. Með veðurskeytunum í þetta sinn sendi Loftskeytastöðin út fregnina um strand Skúla fógeta. Stöðvarstjórinn í Grindavík þurfti, vegna róðra, að vita um veðurspána að þessu sinni. Hann reis því úr rekkju, opnaði útvarp sitt á tilteknum tíma og heyrði fregnina.
Nú er slysavarnadeildin í Grindavík kölluð saman og býr sig til ferðar í skyndi, með björgunartæki sín, línubyssu, björgunarhringi og annað. Formaður slysavarnadeildarinnar þar er Einar Einarsson í Krosshúsum. Tækin tóku þeir með sjer á bíl.
Það mun hafa verið um kl. 3 um, nóttina sem björgunarliðið lagði af stað úr Járngerðarstaðahverfinu.  En sakir dimmviðris og náttmyrkurs tókst ekki að finna togarann fyrri en er fór að birta af degi, eða kl. að ganga sex um morguninn. Þá voru 22 menn á hvalbaknum, en 2 í fremri reiðanum. Var nú skotið úr linubyssu út í hvalbak togarans er upp úr stóð. Hitti skyttan hvalbakinn í öðru skoti. En línan sem draga átti út í skipið festist á steini úti í flæðarmálinu, og tafði það dálítið að björgun gæti byrjað. En eftir að byrjað var að draga mennina á land af hvalbaknum gekk björgunin reiprennandi að kalla. Voru 20 komnir í land kl. 8 um morguninn. Tveir menn voru þá eftir á hvalbaknum. Var staðnæmst með björgunina, því eigi þótt tiltækilegt að koma annari línu úr landi til þeirra sem í reiðanum voru, heldur skyldi freista þess, að þeir kæmust úr reiðanum og fram á hvalbakinn til þeirra sem þar voru. Þetta tókst, þegar nægilega mikið var fallið út. Var þeim fjórum síðan bjargað í land í bjarghring, eins og fjelögum þeirra, og var björgun þeirra lokið kl. 9. Jafnóðum og mennirnir komu í land var þeim komið fyrir að Stað og í Móakoti. Þar beið þeirra hressing og heit rúm. Haukanes kom á vettvang kl. að ganga 5. En enga björgnn var hægt að framkvæma þaðan. Seinna komu þangað togarinn Geir og varðskipið Óðinn, en þá hjelt Haukanes til Hafnarfjarðar.

Þessir drukknuðu.
Þorsteinn Þorsteinsson skipstjóri, til heimilis á Laufásveg 34, 31 árs. Var ekkjumaður. Lætur eftir sig 3 börn.
Jakob Bjarnason 1. vjelstjóri, fæddur 1888. Skólavörðustíg 23. Kvæntur. 5 börn. Elsta barnið, Gunnar, drukknaði þarna með föður sínum. Hann var tvítugur.
Ingvar Guðmundsson 2. vjelstj., Grettisgötu 45. Fæddur 1902. Ókvæntur. Sonur Guðm. Guðmundssonar rennismiðs.
Sigurður Sigurðsson bræðslumaður, Suðurpól 13. Fæddur 1877. Kvæntur. Eitt barn í ómegð.
Eðvarð Helgason háseti, sonur Helga Sigurðsson, Arnargötu 10. Fæddur 1912.. Ókvæntur.
Sigþór Júl. Jóhannsson háseti, Vesturvallagötu 5. Fæddur 1901. Lætur eftir sig konu og 5 börn. Sigurður Engilbert Magnússon háseti, sonur Magnúsar Þórðarsonar, Framnesveg 1 C. Ókvæntur, 20 ára.
Ásgeir Pjetursson háseti, sonur Pjeturs Marteinssonar. Lindargötu 12 A. Fæddur 1906. Ókvæntur. Eðvarð Jónsson (frá Lambhól) matsveinn, Bræðraborgarstíg 55- 30 ára. Lætur eftir sig konu og 2 böm.
Guðmundur Stefánsson 2. matsveinn, Bergþórugötu 6. Fæddur 1915. Móðir hans, Ólína Hróbjartsdóttir, missti mann sinn frá 9 börnum, er Jón forseti strandaði í Höfnum.
Jón Kristjónsson kyndari. Skólavörðustíg 26. sonur Kristjóns Jónssonar trjesmiðs. 20. ára, Ókvæntur. Markús Jónasson loftskeytamaður. Vesturgötu 24. 26 ára ókvæntur.

Þessir björguðust. Stefán Benediktssan 1. stýrim.
Kristinn Stefánsson 2. stýrim.
Jón Magnússon, Njarðarg. 41.
Matthías Jochumsson, Öldug. 17.
Mikkel Guðmundsson Laugav. 27.
Ingólfur Gíslason, Eystri Skála, Eyjafj.
Guðjón Marteinsson, Amtmannsstíg 4.
Guðmundur Sigurðsson, Bókhlöðustíg 6.
Arnór Sigmundsson, Vitastíg 9.
Ásmundur Jónsson, Hverfisg. 58.
Halldór Magnússon, Hringbraut 190.
Ragnar Marteinsson, Meiri-Tungu, Holtum.
Sigursveinn Sveinsson. Fossi, Mýrdal.
Kristján Magnússon, Efri-Hömrum.
Ísleifur Ólafsson, Grettisgötu 22.
Árni Þorsteinsson. Keflavík.
Hallmann Sigurðsson, Lambhúsum, Garðahr.
Hjalti Jónsson. Lokastíg 19.
Ingvar Guðmundsson, Þjóðólfshaga.
Ólafur Marteinsson. Árbæjarhjálegu.
Magnús Þorvarðarson, Bragagötu 22.
Lúðvík Vilhjálmsson, Hverfisgötu 49.
Sólberg Eiríksson, Hverfisg. 99.
Sæmundur Auðunnsson Minni Vatnsleysu.

Togarinn Skúli fógeti var byggður fyrir Alliance í Beverley í Englandi árið 1920. Hann var 348 brúttó tonn, hið vandaðasta skip. Þorsteinn heitinn Þorsteinsson hafði verið skipstjóri á togaranum ein 5 ár, tók við skipstjórn af bróður sínum, Gísla Þorsteinssyni, sem nú er skipstjóri á Skeljung.

Skúli fógeti mun vera 10 eða 11. íslenski togarinn sem farist hefir síðan Leifur heppni fórst í febrúar veðrinu mikla 1925.

Morgunblaðið 11 apríl 1933.

 

06.02.2022 11:17

155. Jón Kjartansson SU 111. TFQL.

Nóta og togveiðiskipið Jón Kjartansson SU 111 var smíðaður hjá Nobiskrug Werft í Rendsburg í Þýskalandi árið 1960. 890 brl. 1.900 ha. Werkspoor vél. 61,21 x 10,43 x 4,90 m. Hét fyrst Narfi RE 13 og var í eigu Guðmundar Jörundssonar útgerðarmanns í Reykjavík. Árið 1974 var Narfa breytt í skuttogara og einnig var skipið yfirbyggt, var það gert í Hollandi. Skipið var selt í mars 1978, Hraðfrystihúsi Eskifjarðar h.f, fékk þá nafnið Jón Kjartansson SU 111. Var á því ári (1978) breytt í nótaskip. Ný vél (1980) 2.880 ha. Alpha vél. Skipið var endurbyggt, skipt um framhlutann og það lengt hjá Radunia International skipasmíðastöðinni í Gdynia í Póllandi árið 1998. Mældist þá 1.399 bt. og 68,89 m. á lengd. Árið 1999 var skipt um afturhluta skipsins að mestu, hjá Nauta skipasmíðastöðinni í Póllandi. Einnig var sett í skipið 6.690 ha. Wartsiila vél, 4.920 Kw. Frá árinu 2005 hét skipið Guðrún Þorkelsdóttir SU 211. Selt 2007, H.B. Granda hf, hét þá Lundey NS 14. Skipið var selt til Noregs árið 2016 og mun bera nafnið Mokstein þar.

Narfi RE 13 mun hafa verið fyrsta íslenska fiskiskipið sem gat fryst afla sinn um borð. Þegar Narfi var smíðaður í Rendsburg árið 1959-60, vildi Guðmundur Jörundsson útgerðarmaður að hann yrði skuttogari, en fékk þau svör frá "kerfinu" að Íslendingar hefðu "ekki efni á experimentum" og þar við sat.


  

Nótaskipið Jón Kjartansson SU 111 á landleið með fullfermi. (C) Vilberg Guðnason.

 

              Narfi keyptur til Eskifjarðar

 

Guðmundur Jörundsson, útgerðarmaður í Reykjavík hefur nú selt togarann Narfa til Eskifjarðar, nánar tiltekið Hraðfrystihúsi Eskifjarðar hf. Narfi er 18 ára gamall skip, var áður síðutogari, síðar breytt í skuttogara og nú í nótaskip og ber um 1.100 lestir af loðnu, en er einnig útbúið til veiða í botnvörpu. Narfi er seldur Eskfirðingum fyrir 650 millj. kr. með öllum veiðarfærum. Þar á meðal nýrri nót. Skipið verður afhent hinum nýju eigendum 30. apríl og verður þá gefið nafnið Jón Kjartansson, en svo hafa heitið mikil aflaskip í eigu frystihússins. Þessi kaup sýnast mjög vel ráðin, þótt skipið sé nokkuð gamalt. En því mun hafa verið vel við haldið og er nýuppgert. Fyrir fyrirtæki, sem rekur afkastamikla bræðslu, getur skipt sköpum, að það eigi nótaskip, sem orðið getur góð kjölfesta og lengt árlegan reksturstíma bræðslunnar, ekki síst með heimflutning sumarveiddrar loðnu og kolmunnaveiðum.

Austurland. 23 mars 1978.

 

Jón Kjartansson SU 111 með fullfermi. (C) Snorri Snorrason.
 
Lundey NS 14 við bryggju í Örfirisey.             (C) Þórhallur S Gjöveraa.
 
Fyrirkomulagsteikning skipsins.                  Mynd úr Ægi frá 2000.
 

B.v. Narfi RE 13 nýsmíðaður.                                  (C) Karl Kristjánsson.


             Narfi glæsilegasti togarinn

Á skírdag kom hinn nýi togari Guðmundar Jörundssonar, Narfi RE 13, hingað til landsins, en hann var, eins og áður hefir verið frá sagt, smíðaður í skipasmíðastöðinni Nobiskrug. G. m. b. H í Rendsburg í  Vestur-Þýzkalandi. Gekk hann í reynsluförinni 16 sjóm. En verður annars „keyrður" með 14 sjóm. hraða, sem gefur bezta nýtingu hvað olíueyðslu og meðferð á vél snertir. Narfi er 890 tonn, 198 fet, bp, 34 feta breiður og 18 feta djúpur. Er hann byggður með það sérstaklega fyrir augum að stunda veiðar á fjarlægum miðum. Til dæmis er tvöföld bandagrind frá brú og fram eftir. Þá er í honum tæki, sem á að geta dælt 70—80° heitum sjó úr fjórum stöðum, ef um ísingu er að ræða. Allar mannaíbúðir eru hinar glæsilegustu og mjög haganlega fyrir komið. Lestarnar eru innréttaðar með aluminium og þar er ekki að finna eina einustu spítu. Eru þær 24 þús. kubikfet og taka 430—440 tonn af fiski. Til samanburðar má geta þess, að eldri togararnir taka yfirleitt frá 280 —320 tonn. Þá er Narfi frábrugðinn öðrum togurum að því leyti, að hann hefir allmikla breidd um miðju. Einnig hefur stefnið svokallað perulag, en við það næst betri gangur.
Aðalaflvélin er Werkspoor díselvél, smíðuð í Hollandi. Er hún 1900 hestöfl og hefir beina tengingu á skrúfu. Þá eru hjálparvélar. Togvinda er t. d. drifin af 550 hestafla vél. Tvær ljósavélar eru í Narfa, önnur 240 hestöfl og hin 90. Einnig er stór rafall tengdur við skrúfuöxul, og á að nota hann á öllum lengri siglingum og þarf þá ekki að „keyra" ljósavélarnar. Í togaranum eru að sjálfsögðu öll nýjustu og fullkomnustu siglingatæki, svo sem tveir Dekka-radarar, giróáttaviti, sjálfstýring, Lorantæki, tvö Atlas-fiskileitartæki og ný gerð af hraðamæli. Á stjórnpalli er mjög fullkomið símakerfi og getur skipstjóri haft samband þaðan við skipsmenn. Inn af stjórnpalli er kortaklefi og loftskeytaherbergi. Eru tæki af Telefunken og Simens-gerð og hin fullkomnustu. Í fáum orðum sagt má segja, að Narfi sé eitt glæsilegasta skip, sem smíðað hefir verið fyrir íslendinga. Er auðséð á öllu að vandað hefir verið mjög til smíði hans og lögð áherzla á að haga þar öllu á sem hagfelldastan hátt. Milligöngumaður um togarakaupin og útvegun lána til þeirra, annaðist dr. Magnús Z. Sigurðsson, sem er umboðsmaður skipasmíðastöðvarinnar, er smíðaði Narfa. Hann kostaði hingað kominn 34 millj. kr. Var kjölurinn lagður 29. sept. í fyrra og af stokkunum hljóp hann 13. jan. sl. Hann er eign Guðmundar Jörundssonar, sem áður átti togarann Jörund, og starfrækti þá útgerð sína á Akureyri. En nú er hann fluttur hingað suður og verður Narfi gerður út frá Reykjavík. Skipstjóri er Þorsteinn Auðunsson, einn hinna þekktu Auðunsbræðra og kunnur aflamaður. 1. vélstjóri er Júlíus Halldórsson, 1. stýrimaður Aron Guðmundsson og Karl Kristjánsson loftskeytamaður. Narfi fór á veiðar laugardaginn fyrir páska.

Morgunblaðið. 20 apríl 1960.






 





 

  • 1
Flettingar í dag: 299
Gestir í dag: 86
Flettingar í gær: 2133
Gestir í gær: 252
Samtals flettingar: 1051482
Samtals gestir: 75999
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:41:02