Færslur: 2022 Febrúar
14.02.2022 09:31
2107. Haukur GK 25. TFIS.
Skuttogarinn Haukur GK 25 var smíðaður hjá Langsten Slip & Baatbyggeri A/S í Tomrefjord í Noregi árið 1984. 479 brl. 225 nettó. 2.033 ha. Wichmann vél, 1.495 Kw. 46,85 x 10,09 x 7,1 m. Smíðanúmer 104. Hét áður Snoddið FD 352 og var gerður út af Partrederi J.I. Ólsen í Tóftum í Færeyjum. Valbjörn hf í Sandgerði keypti togarann í mars árið 1991 og fékk hann þá nafnið Haukur GK 25. Togarinn var seldur til Færeyja og tekinn af skrá 29 desember árið 2000.
2107. Haukur GK 25. Ljósmyndari óþekktur. |
Valbjörn h.f. Sandgerði
Færeyskur togari kominn til landsins
Síðasta sunnudag kom færeyski togarinn Snoddið til hafnar í Njarðvík. Togara þennan hefur Valbjörn h.f. í Sandgerði keypt af Færeyingum. Var togarinn tekinn upp í slipp í Njarðvík á mánudag. Mun Valbjöm h.f. selja í staðinn togara sinn Hauk GK 25. Voru menn alveg eins vongóðir um að hann færi til Færeyja, en með Snoddinu komu auk áhafnar Hauks GK, færeyingar til að skoða Haukinn. Þá kom Jón Erlingsson útgerðarmaður með togaranum heim. Hafa kaupin verið alllengi í bígerð, en ávallt staðið á einhverju ytra. Snoddið hefur legið í höfn í Þórshöfn í tæpt ár, eftir að útgerðin varð gjaldþrota. Togarinn er smíðaður í Noregi árið 1984. Mælist hann svipaður að stærð og Haukur, þó fyrirkomulag sé allt mikið betra og lestarpláss mikið stærra. Er reiknað með að hann fái nafnið Haukur GK. Sama skipshöfn verður á honum og var á eldri Hauki undir skipstjórn Sveins Jónssonar.
Víkurfréttir. 11 tbl. 14 mars 1991.
Haukur GK 25. Fyrirkomulagsteikning. Mynd úr Ægi.
|
07.02.2022 08:50
B.v. Skúli fógeti RE 144. LCHM.
Botnvörpungurinn Skúli fógeti RE 144 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1920 fyrir h/f Alliance í Reykjavík. 348 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 42,70 x 7,66 x 4,36 m. Smíðanúmer 368. Skipið strandaði við Staðarhverfi á Reykjanesi 10 apríl árið 1933 með 37 manna áhöfn. 13 menn fórust en björgunarsveit SVFÍ í Grindavík bjargaði 24 mönnum á land.
B.v. Skúli fógeti RE 144 á toginu. (C) Guðbjartur Ásgeirsson. Mynd úr safni mínu. |
„Skúli fógeti RE 144“
Í morgun kom hingað enn þá einn nýr togari, er heitir „Skúli Fógeti", eign Alliancefélagsins. Skipstjóri er Gísli Þorsteinsson, áður skipstjóri á „Jóni Forseta". Togari þessi er hinn vandaðasti að öllum frágangi og hið fegursta skip á að sjá.
Alþýðublaðið. 12 apríl 1920.
Skúli fógeti RE 144 á strandstað við Staðarhverfi á Reykjanesi.
|
06.02.2022 11:17
155. Jón Kjartansson SU 111. TFQL.
Nóta og togveiðiskipið Jón Kjartansson SU 111 var smíðaður hjá Nobiskrug Werft í Rendsburg í Þýskalandi árið 1960. 890 brl. 1.900 ha. Werkspoor vél. 61,21 x 10,43 x 4,90 m. Hét fyrst Narfi RE 13 og var í eigu Guðmundar Jörundssonar útgerðarmanns í Reykjavík. Árið 1974 var Narfa breytt í skuttogara og einnig var skipið yfirbyggt, var það gert í Hollandi. Skipið var selt í mars 1978, Hraðfrystihúsi Eskifjarðar h.f, fékk þá nafnið Jón Kjartansson SU 111. Var á því ári (1978) breytt í nótaskip. Ný vél (1980) 2.880 ha. Alpha vél. Skipið var endurbyggt, skipt um framhlutann og það lengt hjá Radunia International skipasmíðastöðinni í Gdynia í Póllandi árið 1998. Mældist þá 1.399 bt. og 68,89 m. á lengd. Árið 1999 var skipt um afturhluta skipsins að mestu, hjá Nauta skipasmíðastöðinni í Póllandi. Einnig var sett í skipið 6.690 ha. Wartsiila vél, 4.920 Kw. Frá árinu 2005 hét skipið Guðrún Þorkelsdóttir SU 211. Selt 2007, H.B. Granda hf, hét þá Lundey NS 14. Skipið var selt til Noregs árið 2016 og mun bera nafnið Mokstein þar.
Narfi RE 13 mun hafa verið fyrsta íslenska fiskiskipið sem gat fryst afla sinn um borð. Þegar Narfi var smíðaður í Rendsburg árið 1959-60, vildi Guðmundur Jörundsson útgerðarmaður að hann yrði skuttogari, en fékk þau svör frá "kerfinu" að Íslendingar hefðu "ekki efni á experimentum" og þar við sat.
Nótaskipið Jón Kjartansson SU 111 á landleið með fullfermi. (C) Vilberg Guðnason. Narfi keyptur til Eskifjarðar Guðmundur Jörundsson, útgerðarmaður í Reykjavík hefur nú selt togarann Narfa til Eskifjarðar, nánar tiltekið Hraðfrystihúsi Eskifjarðar hf. Narfi er 18 ára gamall skip, var áður síðutogari, síðar breytt í skuttogara og nú í nótaskip og ber um 1.100 lestir af loðnu, en er einnig útbúið til veiða í botnvörpu. Narfi er seldur Eskfirðingum fyrir 650 millj. kr. með öllum veiðarfærum. Þar á meðal nýrri nót. Skipið verður afhent hinum nýju eigendum 30. apríl og verður þá gefið nafnið Jón Kjartansson, en svo hafa heitið mikil aflaskip í eigu frystihússins. Þessi kaup sýnast mjög vel ráðin, þótt skipið sé nokkuð gamalt. En því mun hafa verið vel við haldið og er nýuppgert. Fyrir fyrirtæki, sem rekur afkastamikla bræðslu, getur skipt sköpum, að það eigi nótaskip, sem orðið getur góð kjölfesta og lengt árlegan reksturstíma bræðslunnar, ekki síst með heimflutning sumarveiddrar loðnu og kolmunnaveiðum. Austurland. 23 mars 1978.
|
- 1