Færslur: 2022 Mars

20.03.2022 08:03

183. Sigurður RE 4. TFMR.

Eitt aflasælasta fiskiskip íslenska flotans var án efa Sigurður RE 4. Hann var smíðaður sem síðutogari í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1960. Hann var oft aflahæsti togarinn og þá nokkur ár í röð og eftir að honum var breytt í nótaskip í Noregi árið 1974 að ég held, var Sigurður oft aflahæsta loðnuveiðiskipið. Á ljósmyndinni hér að neðan er Sigurður með nótina á síðunni og eru skipverjar að dæla loðnunni í lestar skipsins. Sigurður var einkar glæsilegt skip, afburða sjóskip eins og þýskbyggðu togararnir voru jafnframt.
Togarinn Sigurður ÍS 33 var smíðaður hjá A/G Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1960 fyrir Ísfell hf (Einar Sigurðsson,"Einar ríki") á Flateyri. 987 brl. 2.300 ha. Werkspoor vél. 72,51 x 10,33 x 7, 41 m. Skipaskrárnúmer 183. Togarinn var aldrei gerður út frá Flateyri. Sigurður var einn af fjórum, 1.000 tonna togurunum sem smíðaðir voru hjá Seebeck skipasmíðastöðinni í Bremerhaven fyrir íslendinga. Hinir voru, Freyr RE 1, Víkingur AK 100 og Maí GK 346. Ísfell hf flytur starfsemi sína til Reykjavíkur í febrúar 1969 og fær þá Sigurður RE 4 skráninguna. Árið 1976 var skipið yfirbyggt hjá Stálvík í Hafnarfirði. Ný vél (1978) 2.400 ha. Nohab Polar vél, 1.765 Kw. Nýtt stýrishús var sett á skipið sennilega árið 1984. Frá 14 mars 1985 er Hraðfrystistöðin í Vestmannaeyjum eigandi skipsins. Við sameiningu Hraðfrystistöðvar Vestmannaeyja og Ísfélags Vestmannaeyja 1 janúar 1992, var skipið gert út af Ísfélagi Vestmannaeyja. Frá 8 maí 1992 hét skipið Sigurður VE 15. Skipinu var lagt árið 2012 en það var svo selt í brotajárn til Esbjerg í Danmörku og rifið þar árið 2013.
Skipstjórar á Sigurði voru m.a. Pétur Jóhannsson, Auðunn Auðunsson, Arinbjörn Sigurðsson, Haraldur Ágústsson, Sigurjón Ingvarsson og Kristbjörn Árnason sem var með skipið frá 1974 til 2010.
 

Sigurður RE 4 með nótina á síðunni. (C) Auður Einarsdóttir. Úr safni Kjartans Traustasonar.

 


             Útgerðin hvarf á einni nóttu

Athafnamaðurinn Einar Sigurðsson, oft nefndur Einar ríki, lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands vorið 1924 og um haustið hóf hann eigin atvinnurekstur. Vestmannaeyjar urðu of litlar fyrir athafnasemi Einars og flutti hann til Reykjavíkur 1950 og var þar með starfsemi í viðbót við reksturinn í Eyjum. Þegar Einar hafði mest umleikis í sjávarútvegi var hann með útgerð og fiskvinnslu í Vestmannaeyjum, Keflavík, Reykjavík á Flateyri og víðar. Allt voru þetta einkafyrirtæki og var Einar oft með milli fimm og sexhundruð manns í vinnu. Það var hins vegar mikið áfall fyrir atvinnulífið á Flateyri þegar Einar ákvað í einni svipan að fara með útgerð togarana Guðmund Júní og Gylli suður og segja má að hann hafi þá skilið eftir sviðna jörð á Flateyri. Heimamönnum var talin trú um að nýr togari, Sigurður sem var smíðaður í Þýskalandi fyrir Ísfell á Flateyri sem var fiskverkunarfyrirtæki í eigu Einars , kæmi til Flateyrar, enda hlaut hann einkennisstafina ÍS-33. Hann var hins vegar aldrei gerður út frá Flateyri heldur frá Reykjavík enda var hann síðar skráður í Reykjavík og hlaut þá einkennisstafina RE- 4. Hann var í eigu Ísfells til 1984. Þá eignast Hraðfrystistöð Vestmannaeyja hann og 1992 verður hann eign Ísfélagsins þegar Hraðfrystistöðin og Ísfélagið sameinast. Þá fær hann einkennisstafina VE- 15. En Einar átti útgerðina, og hvað gátu heimamenn á Flateyri þá gert? Einar gegndi mörgum trúnaðarstörfum og var í forystu á sviði útgerðar og fiskvinnslu. Hann var einn af stofnendum og lengi í forystu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, í stjórn skipafélagsins Jökla, Tryggingamiðstöðvarinnar, Umbúðamiðstöðvarinnar, Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar í Reykjavík og stjórnarformaður Coldwater í Bandaríkjunum.

Aldan. 4 apríl 2015.

 

Sigurður RE 4 á leið til Eyja með fullfermi.                Ljósmynd í minni eigu.
 
Sigurður ÍS 33 nýsmíðaður á Weser fljótinu. (C) Auður Einarsdóttir. Úr safni Kjartans Traustasonar.

 

 

                                              B.v. Sigurður

Nýr togari, Sigurður, ÍS 33, bættist í flotann í september s.l. Togarinn er smíðaður hjá skipasmíðastöðinni A. G. „Weser" Werk Seebeck, Bremerhaven, en samið var um smíðina í ágúst 1959. Smíði skipsins hófst 17. febrúar s.l. og lauk 20. september, og var skipið þá afhent kaupanda, sem er Ísfell h.f. B.v. Sigurður er fimmti togarinn, sem Seebeck werft smíðar fyrir íslendinga síðan 1954. Hinir eru Júpiter áður Gerpir, 804 br. lestir, Þormóður goði, 849 br. lestir, Maí, 982 br. lestir og Freyr, 987 br. lestir. B.v. Sigurður er 987 br. lestir, lengd skipsins er 210 fet. Lestin er 760 rúmmetrar, öll klædd aluminíum og með kælibúnaði, og rúmar 500 lestir af ísfiski. Engin lifrarbræðslutæki eru í skipinu, en hins vegar geymir fyrir 40 lestir af lifur, og er ætlunin að dæla lifrinni í land. Ennfremur er geymir fyrir 50 lestir af slori, sem gert er ráð fyrir að losa á sama hátt. Aðalvélin er Werkspoor-Dieselvél, 2300 hestöfl við 280 snúninga. Vélin er með skiptiskrúfu af „Escher Wyss" gerð, er tengingin svokölluð -Wulkan Kupplung". Skiptiskrúfunni er hægt að stjórna frá stýrishúsi og einnig þaðan er hægt að taka skrúfuna úr sambandi við aðalvélina. Við hana er tengdur stór rafall og þarf ekki að nota hjálparvélar til rafmagnsframleiðslu, hvorki fyrir togvindu né fyrir Ijósnet, þegar verið er á siglingu eða að veiðum. Hjálparvélar eru tvær 200 ha. Deutz með 120 Kw rafal og ein 70 ha. með 30 Kw. rafal. Kælivélar eru tvær af Atlas-gerð.
Stýrisvél er af Atlas-gerð, rafmagnsvökvadrifin með tvöföldu kerfi. Togvindan er af Achgehles-gerð, rafmagnsdrifin, 280 ha., útbúin með lofthemlum og tvöföldu vírastýri. Íbúðir eru allar mjög vandaðar, mest fjögurra manna herbergi, en mörg eins og tveggja manna herbergi, einnig sjúkraherbergi miðskips. Alls eru íbúðir fyrir 48 menn í skipinu. Björgunarbátur er fyrir 48 menn. Stendur hann undir vinduglu og getur einn maður hæglega komið honum fyrir borð. Sex gúmmíbjörgunarbátar eru fyrir 72 menn. Skipið er útbúið með toggálgum beggja megin, eins og venjulega er á íslenzkum togurum, en komið hefur fyrir á þeim sérstökum rúllum til að auðvelda að taka inn bobbingana. Frammastrið er með rörstöngum, en ekki venjulegum vöntum. Afturmastrið er lítið og létt og komið fyrir ofan á stýrishúsinu. Yfirbyggingin er þrjár hæðir. Ofan á stýrishúsinu beggja megin eru smágálgar. Stefni skipsins er framhallandi perlulagað. Allur er frágangur hinn vandaðasti og mjög fullkominn. Í reynsluferð fór Sigurður 16,58 sjómílur. Skipstjóri er Pétur Jóhannsson, stýrimaður Jón Óli M. Gíslason og 1. vélstjóri Sumarliði Mosdal.

Sjómannablaðið Víkingur. 10 tbl. 1 október 1960.
 

Freyr RE 1 og Sigurður ÍS 33 fjær, í smíðum í Bremerhaven. (C) Auður Einarsdóttir. Úr safni Kjartans Traustasonar.
 
Arinbjörn Sigurðsson skipstjóri og útgerðarmaðurinn Einar Sigurðsson með verðlaunagrip sem Sigurður fékk fyrir að vera aflahæsti togarinn. Eitt af mörgum sem Sigurður RE 4 fékk. (C) Auður Einarsdóttir. Úr safni Kjartans Traustasonar.
 
Sigurður VE 15 á miðunum.                               (C) Ólafur Óskar Stefánsson.
 
Sigurður VE 15 á endastöð í Esbjerg í Danmörku haustið 2013. Ljósmyndari óþekktur.
 


     Sigurður VE seldur til Danmerkur í niðurrif


Aflaskipið Sigurður VE 15 hefur verið selt úr landi, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Skipinu verður siglt til Esbjerg í Danmörku þar sem það verður rifið. Kaupendur munu væntanlega sækja Sigurð VE til Vestmannaeyja fljótlega eftir sjómannadag. Sigurður VE hefur borið hátt í milljón tonna afla að landi frá því skipið var smíðað í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1960. Togarinn var smíðaður fyrir Ísfell á Flateyri sem var í eigu Einars Sigurðssonar, Einars ríka. Margir kunnir aflamenn hafa verið með Sigurð, m.a. Kristbjörn Árnason, og sett mörg aflamet. Sigurði var breytt í nótaskip 1973. Hraðfrystistöð Vestmannaeyja eignaðist skipið og fékk það einkennisstafina VE 15. Árið 1992 varð Ísfélag Vestmannaeyja eigandi Sigurðar VE þegar Ísfélagið og Hraðfrystistöðin sameinuðust.

Morgunblaðið. 31 maí 2013.

17.03.2022 07:25

252. Sæberg SU 9 á leið inn Eskifjörð með fullfermi af loðnu.

Á ljósmyndinni hér að neðan er Sæbergið á leið inn Eskifjörð með fullfermi, enda skipið vel hlaðið. Svona hleðsla var algeng hér áður, loðnuveiðiskipin mun minni en nú er og á nýjustu skipunum er varla að það sjáist á þeim þótt þau væru með um 3.000 tonna farm.
Sæberg SU 9 var smíðað hjá Kaarbös Mekanik Verksted A/S í Harstad í Noregi árið 1963. Hét fyrst Jón Kjartansson SU 111 og var í eigu Jóns Kjartanssonar h/f á Eskifirði og Þorsteins Gíslasonar í Reykjavík. 278 brl. 600 ha. Wichmann vél. 33,77 x 7,32 x 3,47 m. 30 júní árið 1971 var nafni skipsins breytt, hét þá Guðrún Þorkelsdóttir SU 211. 8 júlí árið 1971 var skráður eigandi Sæberg h/f á Eskifirði, skipið hét Sæberg SU 9. Skipið var endurmælt í júní 1972, mældist þá 226 brl. Skipið var lengt og yfirbyggt árið 1978, mældist þá 275 brl. 44,54 x 7,32 x 5,87 m. Ný vél (1980) 1.350 ha. Wichmann vél, 993 Kw. Selt 7 júlí 1986, Eskfirðingi h/f á Eskifirði, hét Eskfirðingur SU 9. Skipið sökk út af Héraðsflóa 14 júlí árið 1988. Áhöfnin, 6 manns var bjargað um borð í Hólmaborg SU 11.

252. Sæberg SU 9 á leið inn Eskifjörð með fullfermi. (C) Vilberg Guðnason.



 

                               Jón Kjartansson SU 111

Þann 23. des. sl. kom nýr bátur til Eskifjarðar, m/b „Jón Kjartansson" SU 111. Er hann 278 brúttó rúmlestir og er eign samnefnds hlutafélags og Þorsteins Gíslasonar, sem sigldi bátnum til landsins. Aflvél er 600 hestöfl frá Wichmann. Hjálparvélar eru tvær frá Volvo Penta 60 hestöfl hvor. Við hvora hjálparvél er 35 kw riðstraumsrafall og mun það nýjung í fiskibát hér. Sendir og sjálfstýring er frá Robertson, en miðunarstöð frá Kodan. Tvö sjálfvirk síldarleitartæki eru í bátnum, Simrad sildeasdic og Atlas perifon 4. 48 mílna radar er frá Kelvin Hughes. í bátnum eru íbúðir fyrir 20 menn og geta allir á þorsk og síldveiðum búið aftur í. Þá þykir kostur að í bátnum eru tvær aðskildar lestar sem eiga að geta rúmað um 2800 hl., svo að mesti hluti afla á síldveiðum getur verið undir þilfari. Jón Kjartansson er byggður hjá Kaarbös mek. verksted í Harstad, en það er stærsta skipasmíðastöð í Norður-Noregi. Fyrr á árinu hafði stöðin afgreitt til Íslands m/b Gróttu" og  Árna Magnússon og mun fljótlega á þessu ári afgreiða Höfrung III AK og nýtt skip fyrir eigendur Árna Magnússonar. Allt fyrirkomulag og vinna þykir sérlega vel af hendi leyst. Í reynsluferð fór báturinn 11,5 sjómílur og á heimleið fékk hann vont veður og reyndist prýðilega. Hann stundar nú þorskveiðar frá Eskifirði og skipstjóri í vetur verður Þorsteinn Þórisson.

Ægir. 15 janúar 1964.

 

252. Jón Kjartansson SU 111.                                     (C) Snorri Snorrason.
 
252. Eskfirðingur SU 9.                                        (C) Þorgeir Aðalgeirsson.

 



            Sex manns bjargast af Eskfirðingi SU
   Sáu skipið sökkva er þeir voru á leið um borð í Hólmaborg

Mannbjörg varð þegar 275 tonna bátur, Eskfirðingur SU 9, sökk á Héraðsflóadjúpi um áttaleytið í gærmorgun. Leki hafði komið að skipinu um tveimur klukkustundum áður og kallaði Eskfirðingur þá á aðstoð frá Hólmaborg SU 11, sem var að veiðum þar nærri. Allir skipverjarnir sex fóru síðan um borð í gúmbát þegar Hólmaborg átti skammt eftir að slysstaðnum og sökk Eskfirðingur í þann mund sem skipbrotsmenn voru að stíga um borð í Hólmaborgina. Skýrslutaka fór fram hjá sýslumanninum á Eskifirði í gærdag, en ekki er ljóst hvað olli lekanum og slysinu. Sjópróf fara fram á morgun, laugardag. Eskfirðingur lagði af stað til rækjuveiða í fyrrakvöld og var rétt ókominn á miðin þegar vart varð við lekann. Skipstjórinn, Valdimar Aðalsteinsson, hafði samband við Hólmaborg rétt fyrir klukkan 6 og tilkynnti skipstjóranum þar, Jóhanni Kristjánssyni, um lekann. Hólmaborgin, sem er 950 tonna loðnuskip, áður Eldborg frá Hafnarfírði, var þá að veiðum um sjö mílur norður af Eskfirðingi. Aukadæla var um borð í Hólmaborg og ákvað skipstjórinn að hífa strax og koma Eskfirðingi til aðstoðar.
Stuttu síðar tilkynnti Valdimar Hólmaborg að lekinn hefði minnkað og hættan því ekki jafn mikil, en hann bað skipið samt að koma með dæluna. „Ég held í átt til hans á fullri ferð og stuttu eftir það kallar hann til mín og segir að það sé kominn sjór í vélarrúm," sagði Jóhann Kristjánsson á Hólmaborg. „Þegar ég sé skipið er kominn geysilegur bakborðshalli á það og Valdimar segir við mig að hann ætli að láta mannskapinn fara í flotgalla til öryggis. Eg segi við hann að hann skuli blása út björgunarbát og hafa hann tilbúinn ef skipið skyldi velta alveg. Þegar við eigum eftir mílu á staðinn sé ég hvar þeir yfírgefa skipið og fara í björgunarbátinn. Ég kemst að björgunarbátnum, sem var alveg við skipið, og næ að setja línu í hann og draga hann frá. Síðan þegar þeir eru að fara um borð í Hólmaborg steypist skipið niður að framan og sekkur á örskammri stund."  Jóhann sagði að aðstæður hefðu ekki getað verið betri þegar slysið varð. Það hefði verið bjartviðri og norðvestan 2-3 vindstig. Slysavarnarfélagið fékk tilkynningu frá Eskfirðingi í gegnum Nesradíó um klukkan 7:30 í gærmorgun og lét sveitir félagsins á Vopnafírði og Borgarfírði eystra strax vita. Rétt um það leyti sem menn þaðan voru að leggja af stað á bátum með slökkvidælur var þeim tilkynnt að Eskfirðingur væri þegar sokkinn. Aðalsteinn Valdimarsson, eigandi og útgerðarmaður Eskfirðings, sem er faðir Valdimars skipstjóra, sagði að tryggingarverðmæti skipsins væri í kringum 100 milljónir.
Eskfirðingur SU 9 var 275 brúttólesta skip, smíðað árið 1963, en var stækkað árið 1978. Skipið hét áður Sæberg, en þar áður var það í eigu Aðalsteins Jónssonar á Eskifírði og hét þá Guðrún Þorkelsdóttir. Þess má geta að Guðrún hefði orðið 100 ára í gær, daginn sem báturinn sem eitt sinn bar nafn hennar, sökk.

Morgunblaðið. 15 júlí 1988.

03.03.2022 09:01

Í veiðiferð með togaranum Bjarti NK 121.

Norðfirðingurinn Guðmundur Bjarnason sem lengi var skrifstofumaður hjá Síldarvinnslunni hf í Neskaupstað, fór sem ferðamaður í veiðiferð með skuttogaranum Bjarti NK 121 í júlímánuði árið 1975 og ritaði grein um hana sem birtist í jólablaði Austurlands það ár. Fyrr á því ári (1975), hafði Bjartur fengið upp kapal sem var fastur við annan hlerann og lítið annað að gera en skera hann í sundur. Bjartur var þá að veiðum út af Stokksnesi. Reyndist rafstraumur vera á kaplinum og var álitið að þetta væri njósnakapall frá Bandaríkjaher því skipverjar urðu varir við skip en sáu það ekki vel vegna mikillar þoku sem var á svæðinu, en álitu það vera herskip eða kapalskip á vegum Bandaríkjahers. Á þessu ári var síðasta þorskastríðið við breta í fullum gangi og mikill taugatitringur á miðunum við landið. Yfirgangur bretanna var alger og skipti það engu máli hvort var um að ræða herskip hennar hátignar eða bresku togararnir sem virtu engar siglingarreglur. Grein Guðmundar er skemmtileg og ansi fróðleg og vissulega þess virði að lesa hana.
                                                           

1278. Bjartur NK 121 kemur til löndunar í heimahöfn. (C) Þórarinn G Sveinsson.

 

                   Í veiðiferð með Bjarti NK 121

Í sumar er leið fór undirritaður sem ferðamaður einn túr með Bjarti NK. Í greinarkorni þessu ætla ég mér að segja frá nokkrum atriðum sem ég upplifði í túrnum. Ekki verður veiðiferðin rakin dag fyrir dag heldur aðeins drepið á það helsta, sem mér er minnistætt. Á Bjarti eru 16 menn: Skipstjóri, tveir stýrimenn, tveir vélstjórar, kokkur, bátsmaður og níu hásetar. Allt saman ungir og frískir menn og skipstjórinn, Magni Kristjánsson er aðeins 33 ára að aldri. Aðbúnaður um borð er allur hinn besti. Þægilegir eins og tveggja manna klefar vel einangraðir frá hávaða sem alltaf er til staðar um borð í skipum. Bjartur er 464 brúttórúml. að stærð, smíðaður í Japan 1972 eign Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað. Það var ekki laust við að glímuskjálfti færi um kempuna er lagt var af stað frá Reyðarfirði laust eftir hádegi miðvikudaginn 9. júlí. Er komið var út úr firðinum var stefnan tekin á Hvalbaksslóðir, en á því svæði halda austfirsku togararnir sig mest. Ákveðið var að byrja ekki strax að drepa þann gula, heldur skyldi tilraun gerð til að ná upp trolli (bobbingar og höfuðlína) sem Bjartur hafði tapað í næstu veiðiferð á undan. Einhvern vegin hafði ég það á tilfinningunni að þetta væri hálf vonlaust verk. Sjórinn, þetta víðáttuflæmi, í honum einhvers staðar á 60—90 faðma dýpi lá hluti af trolli á botninum og upp skyldum við ná honum. Tækið sem notað er við að ná trollinu upp er kallað slæða. Minnti það mig einna helst á lítið akkeri. Í slæðuna er lásaður vír og galdurinn fólginn í því að krækja slæðunni í trollið. Það þarf mikla þolinmæði við að slæða upp troll og svo sannarlega var hún til staðar í brúnni á Bjarti.
 

Trollið tekið. Sigurður Önundarson bátsmaður togar litla gilsinn aftur. (C) Guðmundur Bjarnason.


Magni horfði á lóraninn og lórankort, þar sem áætlaður dvalarstaður trollsins var merktur inn á, lét bátsmanninn hífa og slaka eftir þörfum og þannig var smá saman þrengt að bráðinni. Eftir þriggja og hálfrar stundar stanslausar atlögur að trollinu gafst það upp og innan tíðar lá það á dekkinu á Bjarti. Já hún byrjaði ekki dónalega veiðiferðin, verðmæti þess sem upp náðist er sjálfsagt hátt á aðra milljón króna, m. a. vegna þess að höfuðlínumælir skipsins var á höfuðlínunni þegar trollið tapaðist. Um klukkan ellefu um kvöldið vorum við komnir í togaraflotann, fjöldi breskra og íslenskra togara var að veiðum og þar köstuðum við vörpunni. Spenningurinn var mikill hjá mér að vita hvað yrði nú mikið í fyrsta halinu. Ég vissi svo sem að ef lítið fiskaðist mundu kallarnir segja að ég væri djöfuls fiskifæla — hvað kom líka á daginn! Eftir að togað hafði verið í tvær og hálfa klukkustund, tilkynnti kallinn „híf op“ og innan stundar lá trollið á dekkinu. Aflinn um eitt og hálft tonn, sem þykir heldur tregt, en þetta eina og hálfa tonn var þó okkar og ekki hætt á að það lenti í gin breska ljónsins. Það er fljótlegt að taka trollið inn tæma úr því aflann og koma því niður í djúpið á nýjan leik. Ef allt er í lagi tekur þetta um 20 mínútur. Fjórir hásetar eru á dekkinu 2. stýrimaður eða bátsmaður á spilinu og svo skipstjóri eða fyrsti stýrimaður við stjórnvölinn. Allir þrælvanir og gjörþekkja sín hlutverk, þannig að allt gekk eins og í sögu. Mikið hafði ég gaman af að fylgjast með keppninni á dekkinu, hvorir yrðu fljótari að lása í hlerana þeir sem voru bak- eða stjórnborðsmegin. Það voru nú heldur betur snögg handtök og oft mátti ekki á milli sjá hvorir voru á undan. Þetta var ekki jafn spennandi keppni á stýrimannsvaktinni næstu túra á eftir þegar undirritaður var orðinn löggiltur á bakborðshleranum!!! Mig minnir að það hafi verið fyrsta morguninn er við vorum á veiðum að dálítið spaugilegt atvik skeði. Mikill fjöldi togara var á veiðum á takmörkuðu svæði suð-austur úr Hvalbak. Tæplega 40 breskir og 10—15 íslenskir.
 

Pokarnir tæmdir.                                              (C) Guðmundur Bjarnason.


Var eins og gefur að skilja, þröngt á þingi. Birgir 1. stýrimaður var á vakt og við toguðum þarna innan um allan flotann. Upplifði ég þá hvað bretar eru frekir og þurftu íslensku skipstjórnarmennirnir að sýna mikla aðgát til að ekki færi illa. Birgir benti mér fljótiega á enskan togara (með bandarísku forsetanafni), sem togaði þvert á okkur, braut víst allar siglingareglur, hélt sínu striki eins og hann væri einn í heiminum. Ekki var nein hætta á árekstri, en hættan í því fólgin að vörpurnar flæktust saman. Nú, sá breski togaði þarna þvert fyrir okkur, og biðum við spenntir í brúnni hvort þetta mundi ekki sleppa og virtist það hafa gerst, en annað kom þó í ljós er við hífðum skömmu síðar. Þegar hlerarnir komu upp úr vatnsskorpunni kom í ljós að eitthvað var vafið utan um annan hlerann. Er betur var að gáð var þarna um poka að ræða og um eitt tonn af lifandi fiski í honum. Sá breski hafði þá haft þetta upp úr glannaskapnum. Hlerarnir á Bjarti höfðu lent yfir troll bretans og klippt breska pokann á snildarlegan hátt frá belgnum á trollinu. Við þökkuðum náttúrulega pent fyrir og hirtum bæði fisk og poka. En mikið fjandi skemmtum við okkur með að fylgjast með bretanum. Þarna togaði hann fram og aftur hátt á annan tíma með botnlaust trollið. Þau orð sem breski skipstjórinn lét falla þegar hann tók inn trollið eru því miður alls ekki prenthæf, til að svo væri þyrfti að banna þetta blað innan 16 ára.
 

Rafn Einarsson og Helgi Jóhannsson með stórlúðu á milli sín. (C) Guðmundur Bjarnason.


Ég var svo heppinn að hin mesta blíða hélst allan tímann og engin sjóveiki angraði mig. Því var ég mikið á ferli og spurði mikið og fræddist um hina ólíklegustu hluti. Eitt af því merkilegasta að mínum dómi voru nöfnin á þeim bleyðum sem togað er á. Lúlli og Hannibal eru t. d. nöfn á hólum í Lónsdýpinu. Hélt ég náttúrulega að Lúlli væri skýrður í höfuðið hinum eina og sanna Lúðvík og þarna væru mjög gjöful fiskimið, en ekki reyndist það nú rétt. Hóllinn er svo sem 14 mílur frá landi og vegna þess að hann er á fjórtán mílunum fann einn skipstjórinn upp á því að kalla hann Lúlla í höfuðið á hinum mikla sólkonungi frakka Lúðvík 14. Hannibal er aftur á móti skírður í höfuðið á Hannibal Valdimarssyni, þykir hóllinn nokkuð svikull veiðistaður og fékk hann þessa nafngift um svipað leyti og Hannibal brölti sem mest í pólitíkinni. Mörg fleiri eru nöfnin og hægt að skrifa margar síður bara um þau. Sómastaðir, Hestasteinninn, Gaurarnir, og Útvegsbankatröppurnar. Öll eiga þessi örneini sína sögu sem ekki verður rakin hér að sinni. Útvegsbankatröppurnar urðu mér nokkuð kærar, því þangað fórum við um 11 leytið nokkur kvöld og fiskuðum vel ufsa. Það er einkennilegur opnunartími í bönkum þarna niðri því fiskurinn hélt sig aðeins þarna í svo sem 2—3 tíma í senn en alltaf var hann mættur á réttum tíma. Heldur var fiskiríið tregt fyrstu dagana á Hvalbaksslóðum. Færðum við okkur því vestar og veiddum undan Stokksnesinu, á þeim frægu slóðum er Bjartur festi í njósnakapli fyrr á þessu ári og margfrægt er orðið. Alltaf var ég nú að vona að við festum í kaplinum svo ég fengi augum litið þá miklu leyndardóma sem bandarísku verndararnir geyma á okkar gjöfulustu fiskimiðum. Þá hefðum við líka kannski gert þá hugmynd að veruleika sem einum skipverja kom til hugar að gera í bardaganum við kapalinn um vorið. Nefnilega þá, að hleypa straum á kapalinn og sjá hvað myndi fuðra upp. Ekki varð mér nú að ósk minni og aðeins þorskur og ýsa komu upp í trollinu en engin amerísk njósnatæki. Fiskiríið var hvorki gott né slæmt, náttúrulega var ég sökudólgurinn og komu upp ýmsar hugmyndir hvað við mig skyldi gera, en mestum vinsældum náði sú hugmynd að setja mig í land í Hvalbaknum og sækja mig er veiðiferðinni lyki! Eitt af því sem mér kom mest á óvart um borð í Bjarti var hversu ósérhlífnir menn voru þar við vinnu. Allir unnu á fullum krafti, kepptust við að ljúka því sem gera skyldi á sem skemmstum tíma og samhjálpin var mikil.
 

Bjartur NK 121 við bæjarbryggjuna í Neskaupstað í október 1975. (C) Ragnar Sigurðsson.


Raunar komst ég að því svona eftir á að hyggja að slíkir hlutir eru nauðsynlegir til sjós. Sextán manna samfélag fjarri fjölskyldu gengur ekki til lengdar nema allir geri sem þeir geta þannig að engin öfund eða óánægja komi ekki upp innan hópsins. Ýmislegt er sér til gamans gert á frívöktum. Spilað teflt o. s. frv., aðallega er þó sofið enda menn oft hvíldinni fegnir eftir erfiða vakt. Bridge, kani og kasína voru vinsælustu spilin. Bridge var mikið spilaður og hafði ég nóg að gera í spilamennskunni. Eftir miðnætti voru venjulega teknar nokkrar bretur. Spiluðum við Helgi Jóhannss. þá við Rabba og Magna, en eftir hádegi spiluðum við frændur við þá Vigga vélstjóra og Birgi stýrimann. Var oft hart barist. Hinir um borð spiluðu mikið kana, skrítið en skemmtilegt spil sem ég hafði ekki kynnst fyrr en þarna. Oft hefur því verið haldið fram að mikil stéttaskipting væri um borð í togurum, en ekki varð ég var við hana um borð í Bjarti. Enginn hroki yfirmanna gagnvart undirmönnum allir hinir mestu mátar, en öllum þó ljóst hvar völdin liggja. Ekki er auðvelt fyrir menn að leggja af til sjós. Fæði um borð hreint afbragð og lystin eftir því. Binni var kokkur á Bjarti meðan ég var um borð og ber hann sök á því kílói er ég bætti við mig í túrnum.
Túrinn enduðum við á Hvalbaksslóðum og um hádegi þann 17. júlí komurn við til Neskaupstaðar. Aflinn um 100 tonn og voru kallarnir ánægðir með fiskiríið, og fiskifælunafnið farið af mér og allir léttir og ánægðir. Á heimleiðinni er skipið þrifið hátt og lágt og mannskapurinn fer í bað og rakar sig og þótt kætin og léttleikinn hafi verið mikil í túrnum þá var hún þó allra mest á heimleiðinni. Nú hafa nokkrir misvitrir ráðamenn samið við v-þjóðverja og fleiri þjóðir um veiðiheimildir þeim til handa á þeim slóðum sem austfirsku togararnir hafa haldið sig sem mest á. Ekki virðist annað framundan en tortíming þeirra veiðisvæða sem í hlut eiga og varla held ég að betri ósk eigi ég til vina minna á Bjarti og allra annara austfiskra sjómanna en að íslendingum takist að varpa öllum nauðungarsamningum af sér og að fullur sigur vinnist í landhelgismálinu og við nýtum okkar auðlindir einir.

Austurland. (jólablað) 23 desember 1975.
Guðmundur Bjarnason.

 

Skuttogarinn Bjartur NK 121 á heimleið frá Japan í Panamaskurðinum í febrúar 1973. (C) Hólmgeir Hreggviðsson.

 

                        Bandarískur njósnakapall

Þegar skuttogarinn Bjartur NK 121 kom á miðin við Lónsbugt og hóf þar veiðar þriðjudaginn 10. júní, urðu skipverjar varir við torkennilegt skip á miðunum þar. Þoka var á þessum slóðum og sást því skipið ekki vel, en þarna virtist vera um einhvers konar rannsóknarskip eða kapallagningarskip að ræða. Skipið var á sama svæði í um það bil sólarhring og voru nokkur skip á veiðum á þessum slóðum. 14. júní festi Bjartur vörpuna í botni á þeim stað þar sem skipið hafði verið. Staðurinn var nánar tiltekið 12 sjómílur réttvísandi 103° frá Stokksnesi. Samkvæmt upplýsingum Magna Kristjánssomar skipstjóra var trollið mjög fast en við illan leik tókst þó að ná upp hlerunum. Kom þá í Ijós að á öðrum hleranum var fastur einhvers konar kapall, c.a. 6—7 tommur að þvermáli. Ekki tókst að losa kapalinn þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í þá átt. Því reyndist nauðsynlegt, til þess að ná veiðarfærunum, að höggva á kapalinn. Þegar kapallinn fór í sundur kom í ljós að rafstraumur var í honum.
Bjartur kom í land með bút af kaplinum og fóru sjópróf fram hjá bæjarfógetanum í Neskaupstað á miðvikudaginn. Magni tilkynnti Landhelgisgæslunni um þennan atburð og spurðist fyrir um áðurgreint skip. Taldi gæslan að um bandarískt flotaskip hefði verið að ræða. Magni tjáði blaðinu að á þessum stað hefði verið togað í fjölda ára og ekki vitað til þess að nokkurn tíma hefði þar tapast veiðarfæri, þar til fyrir mánuði eða svo að Bjartur tapaði þarna trolli. Nú velta menn því fyrir sér hvort veiðarfæratjónið í það skipti hafi einnig verið af völdum flota ameríska heimsveldisins. „Þessi kapall, sem augijóslega var nýkominn í sjó, er á fiskisælli slóð og hætt við því að hann eigi eftir að valda fleirum tjóni en okkur" sagði Magni. Ef veður hefði ekki verið jafn gott og það var þegar trollið festist, má öruggt telja, að veiðarfærið hefði tapast. útgerð Síldarvinnslunnar hf., sem gerir út Bjart, hefur í hyggju að krefjast rannsóknar á máli þessu.

Austurland 20 júní 1975.

  • 1
Flettingar í dag: 170
Gestir í dag: 60
Flettingar í gær: 2133
Gestir í gær: 252
Samtals flettingar: 1051353
Samtals gestir: 75973
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:19:32