Færslur: 2022 Júní
21.06.2022 17:46
B.v. Elliði SI 1. TFID.
Nýsköpunartogarinn Elliði SI 1 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1947 fyrir Bæjarútgerð Siglufjarðarkaupstaðar. 654 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 54,00 x 9,11 x 4,55 m. Smíðanúmer 1325. Kom til heimahafnar sinnar hinn 19 október sama ár. Togarinn fórst um 25 sjómílur norðvestur af Öndverðarnesi, 10 febrúar árið 1962. 2 skipverjar fórust en 26 var bjargað við illan leik um borð í togarann Júpíter RE 161. Það má geta þess að vélbáturinn Skarðsvík SH 205 frá Rifi sem fann gúmmíbjörgunarbátinn með líkum mannanna 2 sem fórust og kom þeim um borð í varðskipið Óðinn. Hélt hún síðan heim á leið, en stuttu síðar kom mikill leki að bátnum með þeim afleiðingum að hann sökk en áhöfninni var bjargað um borð í Stapafell frá Hellissandi.
Það var talið mjög líklegt að togarinn hafi brotnað við svelginn, en þar voru þau veikust fyrir. Mjög slæmt veður var er Elliði sökk og mikil mildi að Júpíter hafi komist á slysstað og bjargað áhöfninni áður enn Elliði hvarf í djúpið.
Hér fyrir neðan er linkur þar sem fjallað er um sjóréttarhöldin í Sjómannablaðinu Víkingi 3 tbl. 1 mars 1962 vegna Elliðaslyssins.
https://timarit.is/page/4234552?iabr=on#page/n7/mode/2up/search/Elli%C3%B0i%20SI%201
B.v. Elliði SI 1 við Faxagarð í Reykjavíkurhöfn. (C) Snorri Snorrason. |
Virðuleg móttaka Elliða SI 1
Elliði, hinn nýi togari bæjarins, lagðist fánum skreyttur að bryggju á Siglufirði kl. 6 síðd. á sunnudaginn. Íslenzki fáninn heilsaði honum frá hverri flaggstöng bæjarins, og þó rigning væri og kalsi var Hafnarbryggjan þéttskipuð fólki, sem þangað var komið til að fagna togaranum, og bjóða hann velkominn. Giskað er á, að þar hafi verið allmikið á annað þúsund manns. Móttökuathöfnin hófst með því, að karlakórinn Vísir söng heillakvæðið „Velkominn Elliði,“ sem Hannes Jónasson hafði ort í tilefni af komu skipsins, og birt er hér á forsíðu blaðsins. Þá flutti forseti bæjarstjórnar, Gunnar Jóhannsson, ræðu og er hún birt á 3. síðu blaðsins í dag. Á eftir ræðu Gunnars söng karlakórinn: „Siglufjörður“ eftir Bjarna Þorsteinsson. Þá tók bæjarstjórinn, Gunnar Vagnsson til máls. Lýsti hann með nokkrum orðum lífsbaráttu mannsins frá upphafi og þeirri þróun í uppfinningu framleiðslutækja, sem átt hefði sér stað á æfiskeiði mannkynsins. Gerði hann samanburð á hinum fyrstu ófullkomnu verkfærum frummannsins og hinu hugvitssamlega og stórvirka framleiðslutæki, sem bæjarbúar væru nú að veita móttöku. Bauð hann skipið velkomið til Siglufjarðar og óskaði skipstjóra og allri skipshöfn allra heilla í starfinu. Að ræðu hans lokinni söng karlakórinn „Eg vil elska mitt land“, eftir Bjarna Þorsteinsson. Að síðustu hrópaði mannfjöldinn ferfallt húrra fyrir Elliða. Kl. 8,30 um kvöldið hafði bæjarstjórn kaffisamsæti í Sjómannaheimilinu fyrir skipshöfn togarans, togaranefnd, hafnarnefnd, stjórn skipstjórafélagsins, stjórn útvegmasnnafélagsins, stjórn Þróttar, Karlakórinn Vísir, opinbera embættismenn og fl.
Gunnar Vagnsson, bæjarstjóri setti samkomuna og stýrði henni. Bauð hann gesti velkomna og tilkynnti að sú tilhögun yrði á samsætinu, að frjálsar umræður yrðu undir borðum en á milli ræðna óskaði hann að fólk tæki lagið að góðum og gömlum sið. Voru margar ræður fluttar þarna og mikið sungið á milli. Einnig söng karlakórinn Vísir nokkur lög við ágætar undirteiktir. Þessir tóku til máls: Þormóður Eyófsson, Ragnar Jóhannesson, Hannes Jónasson, Eyþór Hallsson, Einar Ólafsson frá Hafnarfirði (afi Vigfúsar skipstjóra), séra Óskar J. Þorláksson, Þórarinn Dúason, Vigfús Sigurjónsson skipstjóri og Gunnar Jóhannsson. Heillaóskaskeyti bárust frá Verkamannafélaginu Þrótti — Kvennadeildinni Vörn, Síldarverksmiðjum ríkisins og Skipstjóra- og stýrimannafél. Ægi. Hannes Jónasson flutti Elliða svohljóðandi árnaðarósk í bundnu máli:
Elliða grandi ei Elli,
ungur sá verði lungur
sævar, um alla æfi,
aflstór í veðratafli.
Horskar og harla röskar
hetjur, sumar og vetur,
stýri þeim stælta knerri,
stafnfríðum, alla jafna.
Afhenti hann bæjarstjóra visuna og skoraði á hina mörgu og snjöllu hagyrðinga bæjarins að gera sína vísuna hver og senda bæjarstjórn. Er ekki að efa að margir munu verða við þessari áskorun og mun Eiliði því eignast með þessu skemmtilegt vísnasafn næstu daga. Einnig las bæjarstjóri aðra heillavísu til Elliða, sem borizt hafði fyrr um daginn. Eyþór Hallsson talaði af hálfu togaranefndar. Sagði hann, að af þeim mönnum, sem á einn eða annan hátt hefðu stuðlað að framgangi togaramálsins, ættu Siglfirðingar Þórarni Olgeirssyni mest að þakka. Samkomunni var slitið kl. 12 Á mánudaginn kl- 1—6 síðd. var togarinn til sýnis fyrir bæjarbúa og skoðaði hann mikill fjöldi manns.
Mjölnir. 39 tbl. 22 október 1947.
B.v. Elliði SI 1 við öldubrjótinn á Siglufirði. (C) Hinrik Andrésson.
|
Skarðsvík sökk á heimleið úr
leitarleiðangrinum
Skarðsvík SH 205, sá báturinn sem fyrstur komi að gúmmíbátnum með hinum látnu mönnum tveim af Elliða, kom ekki aftur úr þeirri leit. Leki kom að bátnum um 15 sjómílur V-NV af Öndverðarnesi um 2 leytið í gær er hann var á leið heim og sökk hann. Áhöfnin, 6 manns, komist á gúmmíbátnum yfir í Stapafellið. Sem dæmi um það hve ört lekinn magnaðist í Skarðsvík má geta þess, að fréttaritari blaðsins á Hallissandi var ásamt fleiri Snæfellingum staddur við Hvítárbrú í áœtlunarbílnum til Reykjavíkur er Skarðsvíkin heyrðist senda frá sér hjálparbeiðni, en bíllinn var ekki kominn lengra en í Hvalfjörðinn er fólkið heyrði gegn um talstöðina að Skarðsvíkin var sokkin. Skipstjórinn á Skarðsvík var hinn kunni aflakóngur þar vestra Sigurður Kristjónsson, enda hafði báturinn skilað þriðjungi hærri afla en næsti bátur í þeim 19 róðrum sem af eru þessari vertíð. Í gær áttum við símtal við Sigurð, sem skýrði frá því sem gerðist;
Um 7 leytið á laugardagskvöldið fór Skarðsvíkin út til að leita að gúmmíbátnum af Elliða ásamt öðrum Snæfellsnesbátum og var við leitina þar til báturinn fannst. Þið komuð fyrstir báta að gúmmíbátnum, Sigurður? Báturinn var á hvolfi og mennirnir lágu á botninum í sjó. Hann var á svipuðum slóðum og togarinn sökk. Vindáttiin hafði breytt sér og hann rekið eitthvað til baka. Við vorum búnir að leita innar en farnir að leita á þessum slóðum. Við létum skipherrann á Óðni vita og hann tók líkin. Við voru rétt lagðir af stað í land, þegar lekans varð vart frammi í og sjórinn flæddi inn. Við vorum nýbúnir að fá okkur að borða þar, og tveir menn voru þarna enn. Hvað heldurðu að hafi komið fyrir. Sló báturinn úr sér? Það tel ég útilokað. Þetta var miklu meiri leki en það. Það var engu líkara en eitthvað mikið hefði opnazt. Hvernig var veðrið þá? Það voru 6—7 vindstig og var að ganga upp í NA ofan í vestan sjó. Við sendum út hjálparbeiðni. Óðinn var í ca. 15 mílna fjarlægð og var kominn eftir 45 mínútur. Hann tók okkur á slef. Það voru 10 mílur í var og hefðum við komist í sléttan sjó, þá gat verið að hægt yrði að koma við dælu og það dygði.
En báturinn fylltist á hálfum öðrum klukkutíma. Þegar við þorðum ekki að vera lengur um borð yfirgáfum við hann. Þá voru komnir til okkar togarinn Þorkell máni og Júpiter, sem var með skipbrotsmennina af Elliða og Stapafellið, sem tók okkur upp. Þess má geta í þessu sambandi að skipstjórinn á Stapafellinu er Guðmundur Kristjánsson, bróðir Sigurðar á Skarðsvíkinni. Voruð þið komnir yfir í Stapafellið, þegar Skarðsvikin sökk? Já, hún sökk 5 mínútum eftir að við vorum farnir frá borði. Okkur gekk vel að komast yfir á gúmmíbátnum. En var ekki orðin slæm aðstaða á Skarðsvíkinni, eftir að hún var farin að síga svona mikið í sjóinn? Það hlýtur að hafa gengið yfir allt skipið. O, o, ekki svo ýkja slæmt. Við vorum að græja okkur. En veðrið fór versnandi.
Skarðsvíkin var nýr bátur, kom til landsins í ársbyrjun 1961. Hann var 87 smál. að stærð og búinn fullkomnustu tækjum. Er það mikið áfall fyrir byggðarlagið á Rifi að missa þetta góða skip undan þessum mikla aflamanni sem Sigurður Kristjánsson er, Áður en hann tók við Skarðsvíkinni var hann með Ármann og síðan Stíganda frá Ólafsfirði og alltaf manna aflahæstur. Áhöfnin á Skarðsvíkinni var öll frá Rifi. Mennirnir voru:
Sigurður Kristjónsson, skipstjóri.
Friðjón Jónsson stýrimaður.
Sigurður Árnason vélstjóri.
Almar Jónsson, matsveinn.
Guðmundur Guðmundsson, háseti.
Sigurjón Illugason, háseti.
Morgunblaðið. 13 febrúar 1962.
18.06.2022 18:51
B.v. Hamranes GK 21 sekkur út af Jökli.
Í dag, 18 júní, er liðin hálf öld síðan Nýsköpunartogarinn Hamranes GK 21 frá Hafnarfirði sökk um 45 sjómílur suðvestur af Jökli, að sunnanverðu við Jökultunguna árið 1972. Togarinn hét áður Egill Skallagrímsson RE 165 og var gerður út af h/f Kveldúlfi í Reykjavík. Það var álitið að skipið hafi siglt á tundurdufl og sokkið af völdum þess. Áhöfnin, 21 skipverji, komust í gúmmíbjörgunarbáta og var stuttu síðar bjargað um borð í togarann Narfa RE 13 frá Reykjavík sem hélt þegar til lands í Keflavík með skipverja Hamranessins. Mikill málarekstur varð af þessum skipsskaða og var álitið að eigendur skipsins hafi sökkt því. Skiptar skoðanir voru á því hvað í rauninni gerðist, en eitt er víst að eigendurnir höfðu lítinn eða engan hag af því að koma skipinu á botninn. Ef togarinn hefði haldið út til mánaðarmóta (1 júlí 1972), gátu eigendur skipsins fengið ríkisstyrk sem var veruleg upphæð í þá daga, og þeim tryggðar greiðslur á öllu kaupi sem ógreitt var til skipverja og þeim sjálfum. Það er því ólíklegt að þeir hafi þar að unnið. Það er kaldhæðni örlaganna að togarinn hafi sokkið sama daginn og hann kom til landsins (18 júní 1947).
Nýsköpunartogarinn Egill Skallagrímsson RE 165 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1947 fyrir hf. Kveldúlf í Reykjavík. 654 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 54,00 x 9,14 x 4,58 m. Smíðanúmer 1323. Skipaskrárnúmer 39. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 18 júní sama ár og var sá fjórði í röðinni sem kom til landsins. Selt 22 september 1971, Jóni Hafdal og Haraldi Jónssyni í Hafnarfirði, sama nafn og númer. Nafnabreyting varð á skipinu snemma árs 1972, hét þá Hamranes GK 21. Flestum er nú kunn örlög þessa skips og oft var talað um „Helför“ Egils Skallagrímssonar og málaferlin vegna þessa skipstapa.
Bátapallur var smíðaður á Egil einhvern tímann eftir 1950 og var það aðallega gert vegna síldveiða skipsins. Einnig var settur bátapallur á svipuðum tíma á þrjá aðra nýsköpunartogara en þeir voru, Elliði SI 1, Ísborg ÍS 250 og Surprise GK 4.
B.v. Hamranes GK 21. Ber sitt fyrra nafn á myndinni. (C) Sæmundur Þórðarson.
|
06.06.2022 08:16
Gamli og nýi Páll Pálsson ÍS 102 í slippnum í Reykjavík.
Nafnarnir að vestan, Páll Pálsson ÍS 102 yngri og sá eldri í slippnum í Reykjavík. Sannarlega falleg og aflasæl skip.
2904. Ísfisktogarinn Páll Pálsson ÍS 102. TFPH, var smíðaður hjá Huanghai Shipbuilding Co Ltd í Rongcheng í Kína árið 2018. 1.223 bt. 2.440 ha. MAN vél, 1.795 Kw. 51,32 x 12,80 x 9,67 m. Er hann systurskip Vestmannaeyjatogarans Breka VE 61 sem smíðaður var á sama stað og tíma. Páll hefur reynst vel síðan hann kom til landsins árið 2018 og borið mikinn afla að landi. Sannarlega glæsilegt skip hinn nýji Páll Pálsson ÍS 102. Tók þessa mynd af honum 22 maí síðastliðinn.
|
- 1