30.12.2015 08:41

Rannsóknarskipið Thor.

Árið 1902 keypti danska landbúnaðarráðuneytið togarann Thor af dansk- íslenska verslunar og fiskveiðifélaginu á Geirseyri við Patreksfjörð. Skip þetta var smíðað í North Shields á Englandi árið 1899 og var gert út í eitt til tvö ár,en útgerðinni síðan hætt þar sem hún bar sig ekki. Thor kom mjög við sögu í fiskirannsóknum við Ísland fyrsta áratug síðustu aldar og á sér afar merkilega sögu. Hann var 115 ft á lengd,breiddin 21 ft og djúpristan var 14 ft. Ganghraði skipsins var að jafnaði um 8 sjómílur á klukkustund og kolaeyðsla um 6 tonn á sólarhring. Hægt var að koma fyrir um borð 70 tonnum af kolum. Fyrsti leiðangur skipsins var til rannsókna á miðunum umhverfis Danmörku í lok febrúar árið 1903 undir stjórn A.C. Johansen,en í apríllok sama ár hélt skipið til Færeyja og Íslands undir stjórn Johs. Schmidts. Árið 1913 kom til tals að selja skipið,en fyrri heimstyrjöldin kom í veg fyrir það,og var Thor þá notaður í þágu danska flotamálaráðuneytisins. Árið 1920 keypti svo Björgunarfélag Vestmannaeyja skipið og var nafn þess þá íslenskað í Þór. Fleiri upplýsingar um skipið er að finna hér á síðunni frá 20 nóvember síðast liðinn. Endalok þessa merka skips urðu þau að það strandaði á Sölvabakkaskerjum á austanverðum Húnaflóa,21 desember 1929. Togarinn Hannes ráðherra RE 268 bjargaði allri áhöfn Þórs giftusamlega.


Rannsóknarskipið Thor á Seyðisfirði árið 1903.                                     Ljósm: Winge og Vedel Taning.
Flettingar í dag: 883
Gestir í dag: 70
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 725415
Samtals gestir: 53806
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 21:04:29