24.01.2016 12:17

Síldveiðiskip Hans Lindahl Falcks Konsúls við Ísland um og eftir 1900.

Síldarsöltun á Akureyri á fyrsta tug 20 aldar. Skip útgerðarfélagsins, Stavanger Havfisk Co í Stavanger í Noregi sem Hans L Falck er í forsvari fyrir, liggja við bryggjuna. Verið er að salta úr Atlas sem var á snurpunótaveiðum. Síldin er flutt í tvíhjóla handvagni og sturtað í stóran kassa eða ramma úr tré. Utan við kassann bogra síldarstúlkurnar við að kverka síldina í stampa. Þeir eru síðan dregnir að tunnunum og síldin söltuð í þær. Á myðri mynd stendur maður og styður sig við skóflu. Hlutverk hans var að lempa síldinni til stúlknanna.

Síldveiðiskip Hans L Falcks Konsúls við bryggju á Akureyri.              (C) Mynd: Minjasafnið á Akureyri.

Það er ekki úr vegi að skoða skip Falcks aðeins betur. Eins og sést á myndinni eru skipin þrjú, það eru Atlas og Albatros en það þriðja gæti verið Bremnæs. Útlendingum var óheimilt að stunda atvinnurekstur í útgerð hér á landi, því þurfti Falck að láta "leppa" fyrir sig útgerðina hér. Mun það hafa verið Torvald L Imsland kaupmaður á Seyðisfirði sem það gerði. Skipin voru svo seinna gerð út á togveiðar við Ísland.

Albatros Falcks. Myndin sennilega tekin á sama tíma og sú hér að ofan. Albatros var smíði númer 611 hjá Edwards Brothers í North Shields á Englandi árið 1899. 138 brl. (97,1 ft) 51 ha. 3 þjöppu gufuvél frá MacColl & Pollock Ltd í Sunderland. Eigandi var Stavanger Havfiske Co í Stavanger í Noregi frá 1899. Skipið var lengt 1904, mældist þá 189 brl.(121,5 ft). Skipið var selt til Rússlands árið 1918. (C) Mynd: Minjasafnið á Akureyri.

Atlas Falcks. Smíði númer 610 hjá Edwards Brothers í North Shields á Englandi árið 1899. 137 brl. (97,1 ft). 51 ha. 3þjöppu gufuvél frá MacColl & Pollock Ltd í Sunderland. Eigandi var Stavanger Havfiske Co í Stavanger í Noregi frá 1899. Skipið var lengt 1905, mældist þá 191 brl. (121 ft). Selt til Rússlands árið 1918.
                                                                                    (C) Mynd: Stavanger Maritime Museum.

Veiðarnar virðast hafa gengið ágætlega hjá Falck miðað við það sem kemur fram í greinunum tveimur hér að neðan.;


Reknetaveiðar Falcks konsúls hér við land. Hr. Falck konsúll í Stavangri, sem tvö síðustu árin hefir gert út gufuskip og seglskip meðfram til reknetaveiða hér við land, hefir bæði árin ritað hr. stórkaupmanni Thor E. Tulinius skýrslu um þetta fyrirtæki. Skýrslan um reknetaveiðarnar 1900 mun hafa verið prentuð í »ísafold«. Nú hefir »Norðurlandi« verið send skýrslan 1901, og er hún dagsett 12. okt. síðastl. í fyrra fekk hr. Falck 536 tunnur af síld í reknet. Síldin var góð, en meðferðinni á henni nokkuð ábótavant. Allgóð vara varð úr henni. Eftir þá reynslu, sem Falck konsúll hafði fengið fyrsta árið, bjó hann skip sín betur úr garði í ár, tvö gufuskip, »Albatros« og »Bremnæs« og tvær seglskútur, »Solo« og »Duo«. Öll þessi skip voru að fiskiveiðum hér við land og seldu fiskinn á Seyðisfirði og ísafirði. Svo var fyrir þau lagt, að þegar dimmt væri á nóttum, skyldu þau fást við síldarveiði í reknet, og seglskúturnar áttu að stunda þær veiðar, þegar tilefni væri til þess, bæði til þess að afla sér beitu og til söltunar. »Albatros« kom með 517 tunnur til Noregs, »Bremnæs« með 309 tunnur. »Solo« og »Duo« komu hvort um sig með 45 tunnur, auk þess, sem þau notuðu til beitu. Þetta verða alls 916 tunnur. Veður var ekki hagstætt og við það bættist það, að síldin kom fyr en hún var vön að koma, og þegar skipin komu á fiskistöðvarnar, var sfldin í allsmáum torfum. Eina nótt lágu »Bremnæs« og »Albatros« rétt hvort hjá öðru; þá nótt fekk »Bremnæs 100 tunnur, en »Albatros« ekki nema eina. Síldin, sem veiddist, var stórsíld, og við aðgreining á henni og söltun reyndust fara um 300 síldir í fulltroðna tunnu (90 kg.) Hún var fyrirtaks-góð, og »því engin furða, þó að eg fengi hátt verð fyrir hana,« segir konsúllinn. »Eftir þessar tilraunir er það ljóst, sem eg gerði mér í hugarlund þegar í fyrra, að við ísland og umhverfis það er fyrirtaks-góð síld, en landsmenn hafa hennar ekki not, af því að þeir eru sér ekki ( útvegum um áhöld til að veiða hana. Reyndar hefir mér veizt sú ánægja, að fleiri hafa nú gert dálitlar tilraunir til að fara sömu leiðina, og ýmsum íslendingum hefi eg veitt aðstoð með kaup á netjum og frætt þá um það, sem þeir hafa æskt eftir, um veiðina og meðferðina á síldinni. Svo mikla athygli hafa tilraunir mínar vakið á íslandi, að eg efast ekki um, að á næsta ári muni margir fleiri útvega sér net.. Þessar veiðar má reka á slúffum, skútum og gufuskipum, í stuttu máli, á hvers konar skipum, sem vera skal. En netin verða' þá að vera löguð eftir því, sem við á. Mér virðist svo, sem þessar veiðar ætti að stunda til muna á íslandi, og að íslendingar ættu að gera það, því að varan hefir þessi tvö ár, og einkum í ár, reynst svo góð, að jafnvel þótt markaðurinn sé offyltur, má búast við að fá gott verð fyrir hana.                                        Norðurland 1 árg. 1901-1902. 6 tbl. 5.11.1901.


 Árið 1899 byrjaði norskt fyrirtæki, sem hét Havfiskecompaniet, reknetaveiðar fyrir Norðurlandi, undir stjórn Hans L. Falks. Tilraunir þessar gáfust vel og einnig voru þær reyndar af öðrum við Austurland og í Faxaflóa. Næstu árin á eftir var þetta algeng veiðiaðferð, sem gaf miklar vonir um góðan árangur. 

Sumarið 1904 komu um 100 norsk skip til Siglufjarðar. Á meðal þeirra voru nokkrir "stórir barkar", sem áttu að vera fljótandi stöðvar, til að salta og geyma síldina í. Þetta ár markar tímamót í síldveiðum við Ísland, vegna nýrrar veiðitækni. Tvö norsk gufuskip, Atlas og Albatros, komu með snurpinót, öðru nafni herpinót, á Íslandsmið og veiddu mjög vel. Þetta nýja veiðarfæri er upphaflega bandarískt. Talið er að sjómenn á Rhode Island hafi fundið herpinótina upp árið 1826 og notað hana til smáfiskaveiða. Norðmenn kynntust nótinni 1876 og munu hafa verið fyrstir Evrópuþjóða til þess að reyna þessa aðferð við síldveiðar. Tilraunir þeirra og Svía um 1880 heppnuðust vel. Það var Hans L. Falk konsúll í Stavanger, sem fyrr er nefndur, sem taldi möguleika á því að nota slíka nót við síldveiðar eins og við aðrar smáfiskaveiðar og sendi því skipin á Íslandsmið. Þann 26. júlí 1904 var fyrstu tvö hundruð tunnunum af herpinótasíld landað á Siglufirði. Þessi tvö skip veiddu mjög vel um sumarið, en reknetaskipunum gekk frekar illa og þau veiddu lítið. Varð þetta til þess að gjörbreyta veiðivenjum og þessi nýja aðferð ruddi sér til rúms. Með þessu hófst nýtt tímabil mikilla umsvifa á Siglufirði. Litla þorpið, sem áður var að mestu óþekkt utanlands og jafnvel innanlands, varð nú frægt fyrir hinar miklu síldveiðar, sem skip frá ýmsum þjóðum stunduðu þaðan. Í annað sinn höfðu norskir menn hafið landnám á Siglufirði, og þannig fetað í spor Þormóðs hins ramma Haraldssonar, þó með allt öðrum hætti væri. 

                                                                   Morgunblaðið 21 des 1997.  /   Siglfirskir söguþættir Ragnar Jónasson.




Flettingar í dag: 329
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 479
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 722994
Samtals gestir: 53659
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 09:12:44