14.04.2017 10:28

B. v. Rán GK 507. LCDR / TFRD.

Rán GK 507 var smíðaður hjá Schiffsbau Gesellschafts Unterweser í Lehe (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1915 fyrir Fiskiveiðahlutafélagið Ægir í Reykjavík, hét fyrst Rán RE 54 og kom til landsins 20 mars sama ár. 263 brl. 400 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 109. Skipið var leigt Kanadastjórn árið 1918 og stundaði veiðar við strendur Kanada um eins árs skeið. Skipið var selt árið 1919, Ásgeiri Péturssyni útgerðarmanni á Akureyri, hét hjá honum Rán EA 386. Skipið var selt 23 janúar 1924, Fiskiveiðahlutafélaginu Höfrungi í Hafnarfirði, hét þar Rán GK 507. Selt í febrúar sama ár, h/f Rán í Hafnarfirði, sama nafn og númer. Skipið var selt árið 1935, Rán h/f í Reykjavík. Selt 23 júní 1939, Hlutafélaginu Djúpavík í Djúpavík, Strandasýslu, hét Rán ST 50. Skipið var selt 26 febrúar 1946, Kongshafnar Trolarafélag (J.E. Simonsen), hét þar Urd FD 440. Togarinn var seldur í brotajárn til Englands og rifinn þar árið 1952.


Rán GK 507.                                                                                           (C) Óttar Guðmundsson.


Rán RE 54 ystur í Reykjavíkurhöfn um 1920. Menja GK 2 í miðjunni og Snorri Sturluson RE 134 innstur við bryggjuna. Kútter ber í Örfiriseyjargrandann.                                 (C) Magnús Ólafsson.


Rán ST 50.                                                                                         (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Síld söltuð úr Rán GK 507 á Akureyri á 3 áratugnum.                                 Ljósmyndari óþekktur.


Rán GK 507.                                                                                        Sígarettumynd frá 1931.


Urd FD 440.          Ljósmyndari óþekktur. Úr safni Regin Torkilssonar.

      Botnvörpungurinn Rán RE 54

Hinn 20. þ. m. að kveldi, hafnaði sig hjer hið nýja botnvörpuskip Ægisfjelagsins. Skipið heitir »Rán«. Skip þetta er smíðað í Þýskalandi og er hið vandaðasta í alla staði, er raflýst, hefir yfirhitunartæki, sem eflaust munu reynast betur hjer, þar eð vjelin er til þess gjörð, heldur en þar sem þau eru sett í skip löngu eftir að þau eru smíðuð.
Miklar framfarir má það kalla, að á skipinu eru lifrarbræðslutæki. Tveir stórir járngeymarar eru í klefa á þilfarinu fyrir ofan vjelina, lifrin látin í þá og brædd þar við gufu og síðan látið renna á tunnur. Þetta er hið fyrsta íslenska botnvörpuskip, sem smíðað hefir verið í Þýskalandi, og mun eitt af beztu skipum, sem hingað hafa komið. Framkvæmdarsljóri »Ægisfjelagsins« er hr. M. Th. Blöndahl í Reykjavik.

Ægir. 3 tbl. 1915.

             Togarinn "Rán" G. K. 507
                 er til sölu nú þegar

Skipinu fylgja nót og bátar til síldveiða. Skipið með tilheyrandi veiðarfærum selst í því ástandi, sem það nú er í á Hafnarfjarðarhöfn. Tilboð með tilgreindu kaupverði og greiðsluskilmálum sendist undirrituðum eða Útvegsbanka Íslands fyrir kl, 12 á hádegi þriðjudag 16. þ. m. Nánari upplýsingar gefa undirritaðir.
Hafnarfirði 12. maí 1939 í skilanefnd H.f. Rán
Björn Jóhannesson. Þorleifur Jónsson. Júlíus Sigurðsson.

Morgunblaðið. 13 maí 1939.

Flettingar í dag: 685
Gestir í dag: 103
Flettingar í gær: 898
Gestir í gær: 185
Samtals flettingar: 754335
Samtals gestir: 57923
Tölur uppfærðar: 18.5.2024 15:29:41