17.06.2017 10:28

B. v. Hafstein ÍS 449. LCKG / TFND.

Hafstein ÍS 449 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi fyrir breska flotann árið 1919. 313 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Hét fyrst Michael McDonald No 4252. Smíðanúmer 895. Var seldur sama ár, Hudson Brothers Ltd í Hull, fær nafnið Kanuck H 123. Togarinn var seldur í ágúst árið 1925, h/f Græði á Flateyri, fær nafnið Hafstein ÍS 449. Árið 1935 er eigandi togarans Gnótt h/f á Flateyri. Skipið var selt 15 mars 1938, Gnótt h/f í Grundarfirði. Seldur 30 desember 1939, h/f Marz ( Ólafi og Tryggva Ófeigssonum, Lofti Bjarnasyni, Þórarni Olgeirssyni og Vilhjálmi Árnasyni ) í Hafnarfirði. Skipið hét Hafstein RE 156. Frá 22 ágúst 1944 hét skipið Hafstein GK 363. Selt 24 apríl 1945, Hlutafélaginu Vestra í Reykjavík. Selt 27 apríl sama ár, Díeselskipi h/f í Reykjavík. Sama dag var skipið selt P/F Selvík (Sören Nielsen) í Saurvogi í Færeyjum, hét Havstein VA 16. Togarinn var seldur í brotajárn til Óðinsvé í Danmörku og rifinn þar árið 1955.


B.v. Hafstein ÍS 449.                                                                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B.v. Havstein ÍS 449.                                                                            Ljósmyndari óþekktur.


Hafstein ÍS 449 í Reykjavíkurhöfn.                                                          Ljósmyndari óþekktur.


Hafstein RE 156.                                                                            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Havstein VA 16 í höfn í Grimsby.                                                               (C) www. vagaskip.dk

           Frækilegt björgunarafrek

            Togarinn Hafstein bjargar 62

         þjóðverjum úr sjávarháska

  Skip þeirra, Bahia Blanca rakst á hafísjaka


Í fyrrinótt sigldi þýskt flutningaskip, Bahia Blanca, 8558 smál., á hafísjaka, er það var statt um í 60 sjómílur norðvestur af Látrabjargi og sökk. Sendi skipið út neyðarmerki, sem Loftskeytastöðin hér heyrði og kom áleiðis til skipa. Náði hún sambandi við bv. Hafstein og Egil Skallagrímsson, en Hafstein var nær slysstaðnum og fór því til bjargar. Tókst að bjarga öllum hinum þýsku skípverjum og hélt Hafstein þá til Hafnarfjarðar og kom þangað í nótt.
Hafstein var í fyrstu veiðiför sinni síðan eigendaskifti urðu á honum. Hinir nýju eigendur eru þeir bræður Ólafur og Tryggvi Ófeigssynir, Loftur Bjarnason, Þórarinn Olgeirsson og Vilhjálmur Árnason. Er Ólafur Ófeigsson jafnframt skipstjóri. Þær upplýsingar, sem hér fara á eftir hefir Vísir fengið hjá Tryggva Ófeigssyni og Halldóri Jónssyni, loftskeytamanni. Klukkan 10.30. á þriðjudagskvöld fékk b.v. Hafstein skeyti frá Loftskeytastöðinni hér um að þýskt skip hefði sent frá sér neyðarmerki. Væri það statt 67 mílur NNV af Látrabjargi og hefði rekist á hafísjaka. Óskaði þýska skipið eftir því, að þvi yrði sent dæluskip og dráttarbátur til hjálpar. Setti Hafstein sig þegar í beint samband við skipið og tók það því vel, að hann kæmi á vettvang til öryggis meðan beðið væri eftir dráttar- og dæluskipinu. Kom Hafstein að skípinu um kl. 3.30. eftir miðnætti. Vindstig voru SV 4, úrhellisrigning og afar mikil alda. Skipið var þá laust við ísinn og hafði getað siglt með 3ja sjómílna hraða um stund, en þegar botnvörpungurinn var kominn á vettvang bauð hann fyrst að draga þýska skipið. En þá var það orðið svo þungt af sjó, að þýski skipstjórinn taldi það ekki mundu geta tekist. Var þvi strax hafist handa um að bjarga skipshöfninni.
Síðasta skeytið, sem kom frá Bahia Blanca var á þá leið, að skipið væri að sökkva, hægt en stöðugt. Þegar síðasti báturinn var kominn frá borði var lúkarinn orðinn fullur af sjó, svo og framlestin og í miðlestina var kominn 6 metra djúpur sjór. Þjóðverjarnir rendu nú einum skipsbátanna í sjóinn, en skipverjar voru augsýnilega óvanir að meðhöndla árarnar, því að þeim gekk erfiðlega að koma bátnum frá skipshliðinni. Varð því Hafstein að sigla mjög nærri bátnum og skipinu og þótt það væri mjög hættulegt, tókst það alveg slysalaust að "elta" bátinn uppi. Hafði verið ætlunin, að einhverjir Íslendinganna færi síðan í þýska bátinn og réri yfir að skipinu, en vegna þess hve björgun fyrsta bátsins tókst giftusamlega, var horfið að því ráði, að nota sömu aðferð við alla bátana. En einn bátanna hvarf út í myrkrið og rigninguna og varð togarinn að fara að leita hans. Hann fannst þó von bráðar. Sjálf björgunin tók ekki nema um klukkustund og kl. 6.30. gat Hafstein lagt af stað heimleiðis. Þýska skipið dældi olíu í sjóinn, þegar bátarnir voru settir á flot, en þegar þeir komu að togaranum, var lýsi notað til að lægja sjóana. Í síðasta bátnum frá skipinu kom skipstjórinn. Allir mennirnir komust ómeiddir um borð og lítið sem ekkert hraktir. Sá, sem var verst staddur, þegar hann kom um borð í togarann, var 14 ára drengur. Var hvergi á honum þurr þráður vegna rigningarinnar. Tók Ólafur skipstjóri hann niður í klefa sinn, lét hann fá þurr föt og hrestist hann þá fljótlega.
En það var ekki fyrri en komið var um borð í Hafstein, að "hrakningar" Þjóðverjanna byrjuðu. Voru þeir alveg óvanir hreyfingum togarans, í samanburði við hreyfingar hins stóra skips, sem þeir höfðu verið á, og urðu sumir sjóveikir. Annars voru þeir allir hinir hressustu og klöppuðu óspart á axlir Íslendinganna, þegar þeir komu um borð í Hafstein. Voru þeir því mjög fegnir því, hversu björgunin tókst greiðlega og slysalaust, en það má þakka snarræði og dugnaði skipstjórans, Ólafs Ófeigssonar, sem  stjórnaði björguninni, og hinum vösku mönnum hans.
Gekk ferðin til Hafnarfjarðar greiðlega, enda þótt nokkur strekkingur væri í fangið. Kom Hafstein þangað í nótt með skipverja.
Bahia Blanca er 8558 smál. eftir Lloyd's Register og var smíðað í Englandi 1919. Það var eign Hapag. Skipið kom frá Rio de Janeiro og hafði ekki verið í landsýn í 34 daga. Farmur þess var 40 þús. sekkir af kaffi og þar að auki járnsvarf. Við Ísland hefir aldrei verið bjargað jafnmörgum mönnum af einu skipi. Mesta björgunarafrek, sem áður hafði verið unnið við Ísland, var fyrir tæpum 24 árum, þegar Guðbjartur Ólafsson, skipstjóri, sem nú er hafnsögumaður hér í Reykjavík, bjargaði 38 mönnum af skipi í Grindavíkursjó. Gerðist þetta 24. mars 1916.

Vísir. 11 janúar 1940.  

         
Flettingar í dag: 890
Gestir í dag: 70
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 725422
Samtals gestir: 53806
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 21:26:34