02.07.2017 07:03

B. v. Njörður RE 36. LCDK.

Botnvörpungurinn Njörður RE 36 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1912 fyrir J. Marr & Sons Ltd í Fleetwood á Englandi, hét fyrst Velia FD 229. 278 brl. 500 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð hjá C.D.Holmes & Co Ltd í Hull. 133,6 x 24 x 13 ensk ft. Smíðanúmer 536. Skipið var sjósett 31 ágúst sama ár. Selt 28 janúar 1914, Togarafélaginu Nirði í Reykjavík (Elías Stefánsson), fékk nafnið Njörður RE 36. Togaranum var sökkt 18 október 1918 af þýska kafbátnum U-122, um 25 sjómílur suðvestur af St. Kilda við Skotlandsstrendur þegar hann var á leið í söluferð til Fleetwood. Áhöfnin, 12 menn, bjargaðist  í björgunarbát og þaðan um borð í breska togarann Lord Lister H 484 frá Hull eftir tæplega 3 sólarhringa hrakninga. Fór togarinn með skipbrotsmennina til Londonderry á Norður Írlandi.

 
Njörður RE 36. Danski fáninn málaður á síður skipsins, enda fyrra stríð í fullum gangi.     (C) G. Á. 
 

                         Njörður

 Nýtt botnvörpuskip komið til Reykjavíkur
 
Hinum Íslenzka botnvörpuskipastól bættist í gær óvanalega gott skip. Hlutafélagið »Njörður«, sem stofnað var hér í bænum fyrir nokkru, eins og vér gátum um í blaði voru, tók á móti hinu fyrsta skipi sínu í gær. Skipstjóri á skipinu, sá sem farið hefir til Bretlands til þess að kaupa og stjórna skipinu hingað, sigldi þvi á tæpum 4 sólarhringum frá Fleetwood á Englandi og hingað. En sá staður liggur á vesturströnd Englands. Njörður, svo kallast skipið, kom hingað í fyrrakvöld seint. En í gær hafði framkvæmdastjóri félagsins, hr. Elías Stefánsson, boðið á skipsfjöl ýmsum heldri borgurum þessa bæjar. Voru í þeirra tölu margir af meðeigendum skipsins, hluthöfum í félaginu Njörður. Var farið í vélbát frá Duusbryggju kl. 1 síðdegis. Í förinni voru meðal annara, Geir kaupmaður Zoéga, Th. Thorsteinsson kaupmaður, Sighvatur Bjarnason bankastjóri, Kristján Jónsson háyfirdómari, O. Forberg símastjóri, Magnús Einarsson dýralæknir, sr. Jóhann Þorsteinsson, Páll Halldórsson skólastjóri, Elías Stefánsson framkvæmdarstjóri, Ellert Schram skipstjóri, Vilhjálmur Finsen ritstjóri, Árni Olason blaðamaður o. fl, Gestunum var undir eins boðið niður í káetuna.
 
Njörður RE 36 við bryggju (í miðið), sennilega á Akureyri. Hinir togararnir eru Víðir GK 450 til h. Og vinstramegin við Njörð er Jón forseti RE 108. Flutningaskip lengst til vinstri.      (C) G. Á.

Guðmundur Guðnason skipstjóri tók á móti þeim á þilfarinu og var nú sezt að drykkju. Sighvatur Bjarnason bankastjóri hóf þá glas sitt og tók til máls. Sagðist ekki ætla að skíra barnið, en vilja þakka, bæði fyrir sig og aðra þá er hér væru, fyrir þá ánægju, sem þeim væri veitt með því að vera boðnir hér á skipsfjöl í fyrsta skipti er skipið varpaði akkerum hér við land. Sagði það ósk sína og allra, að fyrirtæki þessu mætti jafnan fylgja hin mesta gæfa og yrði enginn galli á gjöf Njarðar, að í skut félagsins féllu þau höpp, sem óskir frekast næðu að vona. Var þá full félagsins drukkið af heilum huga, í freyðandi kampavíni, og fylgdi því óblandin árnaðarósk allra gestanna. Síra Jóhann Þorsteinsson stóð þá upp og þakkaði fyrir hönd félagsins öllum þeim er gerst höfðu gestir þess á þessum degi, og þó einkum bankastjórn Íslandsbanka, sem hefði látið sér mjög ant um vöxt félags þessa, þegar í öndverðu, og hjálpað því með ráðum og dáð, og stuðlað mjög að því, að svo væri nú komið að skip þetta lægi nú á Reykjavíkurhöfn í stað þess að sigla undir ensku flaggi í Fleetwood á vesturströnd Bretlands. Hann kvað þegar gerða bráðabirgðaskírn á drengnum og þyrfti hér því ekki langra ummæla. Höfundur nafnsins væri Pálmi kennari Pálsson og sá maður, sem hefði haldið barninu undir skemmri skírn, væri skipstjóri þess, Guðmundur Guðnason. Væri honum margt þakkandi vegna ötulleiks hans og góðra tilþrifa í þágu félagsstjórnar. Sagðist ræðumaður því vilja styðja það, að nafn þetta festist við botnvörpunginn, og taka í sama streng og bankastjóri Sighvatur Bjarnason hefði svo heppilega að orði komist, að enginn galli yrði hér á gjöf Njarðar. Var nú aftur drukkin skál félagsins og skipstjórans.
 
Njörður RE 36 í Reykjavíkurhöfn, sennilega árið 1914. Örfiriseyjargarðurinn í byggingu.       Póstkort.

Th. Thorsteinsson kaupmaður tók þá til máls og þakkaði fyrir góðar viðtökur. Sagði það von sína, að fyrirtæki þessu mundi gæfa fylgja og árnaði því allra heilla. Ræðumaður bað því næst alla viðstadda drekka minni útgerðarstjórans, hr. Elíasar Stefánssonar. Var það og gert af fúsum vilja. Því næst stakk Elias upp á því, að skipið sigldi út fyrir eyjar til þess að gestirnir gætu séð með eigin augum, hve hratt skipið sigldi og fundið hve vel það klyfi sjóinn. Þótti öllum sú uppástunga góð og var þá létt akkerum og haldið til hafs. Knörrinu klauf öldurnar alla leið upp undir Kjalarnes. Stormur var á móti og glettist Ægir lítið eitt við skipið gestum til skemmtunar. Skipið er, að dómi allra þeirra er það skoðuðu, hið traustasta og bezta. Í því eru þrjár lestir fyrir fisk og er þó skipið mun rúmbetra en margur mundi við búast, enda 130 fet á lengd og breidd 23 fet. Vélasalurinn er einkar rúmgóður. Hefir vélin 60 hesta afl og skríður skipið nær 11 mílum á vöku hverri. Í hásetaklefa eru rúm fyrir átta menn, en 24-26 menn er ætlast til að á skipinu verði, er það gengur til fiskjar. En tíu voru þeir, er skipið sóttu til Englands og voru þeir tæpa fjóra sólarhringa frá Fleetwood á Englandi hingað til lands. Má það kalla góða ferð og töfðust þeir þó lítið eitt á leiðinni. Skipstjóri skipsins er hr. Guðmundur Guðnason. Er það fyrsti botnvörpungurinn er Guðmundur stjórnar, en kunnur sjómaður hér við flóann er hann mjög. Hefir hann í mörg ár verið skipstjóri á þilskipum og þótt fiskimaður hinn bezti. Guðmundur býður af sér hinn bezta þokka, er ötull og áreiðanlegur maður og sjómaður hinn bezti. 
 
Njörður RE 36.                                                                                         Teikning eftir H. Á 1918.

Allir skipverjar, er vér áttum tal við, lofuðu skipstjóra mjög fyrir dugnað, og spáum vér því, að skipi þessu verði vel stjórnað af honum. Stýrimaður skipsins er hr. Jón Guðmundsson og hefir hann starfað á botnvörpuskipum í síðastliðin 4 ár. Er hann ungur og röskur maður, en þó eigi nema rúmlega tvítugur. Vélameistari er hr. Ólafur Jónsson, dugnaðarmaður hinn mesti. "Njörður" er 16. botnvörpuskipið, sem fiskveiðar á að stunda héðan úr Faxaflóa. Þótti kunnugum það vera hið vandaðasta skip í alla staði og tiltölulega ódýrt til reksturs. Eyðir það t. d. aðeins um 7 smálestum af kolum á sólarhring, en það þykir mjög lítið. Ókunnugum virðist í fljótu bragði botnvörpufyrirtæki eigi stór. En í þessu sambandi viljum vér bæta þvi við, að útgerð skips, eins og "Njörður", kostar árlega nær 1/4 milljón krónur eða því sem næst. Vér óskum bæði félaginu og skipstjóranum allra heilla á komandi árum. 

Morgunblaðið. 9 febrúar 1914.

Breski togarinn Lord Lister H 484 bjargaði áhöfninni af Nirði eftir hrakningana.            Úr safni mínu.
 

              "Njörður" kafskotinn

Sú fregn barst hingað í gærmorgun að botnvörpungnum Nirði hafi verið sökkt af þýzkum kafbáti, er hann var á leið til Fleetwood, hlaðinn fiski í ís. Skipverjar allir komust af og náðu landi í Londonderry á Írlandi. Skipinu var sökkt á föstudaginn. »Njörður« hefir farið margar ferðir með fisk til Englands á þessu ári, en ætíð verið svo heppinn að komast hjá kafbátunum. Er mjög bagalegt fyrir Njarðarfélagið að hafa misst skipið, sem var hið vandaðasta í alla staði, en beint tjón mun félagið tæplega bíða mikið, því skipið var vel vátryggt.

Morgunblaðið. 24 október 1918.
 

            Þegar "Nirði" var sökkt.

                  Frásögn skipverja

Botnvörpungurinn "Ýmir" kom til Hafnarfjarðar í gærmorgun úr Englandsför. Með honum komu 3 skipverjar af botnvörpungnum "Nirði", sem sökkt var. Náði Morgonblaðið tali af einum þeirra í gor og sagði hann svo frá ferðalaginu:
Við fórum héðan á þriðjudaginn 15. október. Á föstudagsmorgun, um kl. 10, sáum við kafbát. Vorum við þá um 25 sjómílur suðvestur af St.. Kilda. Um kl. 11 skaut kafbáturinn fyrsta skotinu á skipið. Hæfði það þó eigi, en við fórum þegar að týgja okkur til þess að yfirgefa skipið. En áður en við legðum frá borði hafði kafbáturinn skotið 9 skotum en ekkert þeirra kom á skipið. Fyrsta skotið, sem hæfði, kom á aftursigluna og braut hana af. Skaut kafbáturinn nú svo að segja látlaust á skipið þangað til það sökk, en þá mun klukkan hafa verið hálf þrjú. Eftir það hvarf kafbáturinn og höfðum við ekki tal af honum. Veður var hvast á ANA og hvesti þó enn meira um nóttina. Í bátunum höfðum við nógan mat og drykk, en allan farangur sinn misstu menn og póstur fórst þar með skipinu. Við gerðum nú ýmist að sigla eða róa og batnaði veðrið eftir því sem á leið. Klukkan 11 á mánudagsmorgun bjargaði okkur brezkur botnvörpungur, vopnaður. Vorum við þá um 25-30 mílur vestur af Írlandi.
Botnvörpungurinn flutti okkur til Londonderry á Írlandi og komum við þangað á laugardagsmorgun. Þaðan fórum við með járnbrautarlest til Belfast og þaðan til Fleetwood. Þangað komum við á þriðjudag, eða viku eftir að við lögðum á stað að heiman. Botnvörpungurinn "Ýmir" lagði á stað frá Fleetwood á laugardaginn og með honum fóru 3 okkar, 2 koma með "Snorra Goða" og 1 með "Jóni Forseta". Skipstjóri, stýrimenn, fyrsti vélstjóri og tveir hásetar urðu að verða eftir í Englandi vegna sjóprófa. Höfðu þeir farið tvær ferðir til Liverpool, þar sem sjóprófin voru haldin, og bjuggust við því að þurfa að fara þangað eina ferð enn. Er ekki að vita hvenær þeir muni koma heim. Enginn skipverja hlaut nein meiðsl og engum þeirra varð neitt meint af sjóvolkinu í bátunum. Nokkurt tjón hafa þeir allir beðið í missi fata og annara muna, en gleðilegt að æfintýrið hafði ekki verri afleiðingar.

Morgunblaðið. 1 nóvember 1918.

Flettingar í dag: 563
Gestir í dag: 50
Flettingar í gær: 910
Gestir í gær: 153
Samtals flettingar: 755123
Samtals gestir: 58023
Tölur uppfærðar: 19.5.2024 05:38:06