07.07.2017 21:59

Barðsneshorn.

Flestir ef ekki allir sæfarendur þekkja Barðsneshorn sem leið eiga til hafnar í Neskaupstað. Barðsneshorn eða Horn er oftast kallað Norðfjarðarhorn á meðal sjómanna og flestir þekkja það undir því nafni. Ég fór ásamt skipsfélaga mínum á Barða NK, Skúla Aðalsteinssyni fyrir rúmlega 20 árum, í land í Rauðubjörgum sem eru innan við Hornið að vestan verðu og blasa þau við frá bökkunum í Neskaupstað. Gengum við félagarnir sem leið lá út á Barðsneshornið, eins langt og hægt var að fara. Þetta var engin glæfraferð, en vissara að fara varlega því snarbratt er að austanverðu og nánast hengiflug niður í sjó. Mónesið skagar fram í sjó um 3-4 mílum sunnar að austan verðu og er það eina undirlendið sem má kalla á þeim slóðum. Ferðalag okkar félaganna tók daginn, en því miður var engin myndavélin með í för. En nóg er til af myndum af Horninu og Rauðubjörgum og læt ég þær fylgja hér með.

Barðsneshorn. Til vinstri sér í Gerpi, austasta tanga landsins.                         (C) Björn Björnsson.

Barðsneshorn og Norðfjarðarflói. Tók þessa mynd um borð í togaranum Barða NK árið 1994.

Rauðubjörg vestan á Barðsnesi.                                                     (C) Jónína Harpa Njálsdóttir. 

                   Barðsneshorn

Barðsneshorn, stundum kallað Horn, er yzta táin á Barðsnesi, sem er útvörður Norðfjarðarflóa að austan. Hornið er mjög sæbratt og fjallið þar inn af er úr ríólíti en ofan á því eru þykk brotabergs og gjóskulög. Líkt og annars staðar á Austfjörðum hallar berglögunum þar bratt til vesturs og líkur benda til, að þarna séu leifar af stórri eldstöð, sem sjórinn hefur veðrað að mestu.
Ríólítið kemur skírt fram í hinum litríku Rauðubjörgum, vestast á nesinu. Þarna finnast baggalútar, sem eru líka kallaðir hreðjasteinar, grænn biksteinn og niðri við sjó eru uppréttir, kolaðir trjástofnar, allt að einum metra í þvermál. Sumir telja þessa stofna elztu gróðurleifar landsins (15 millj. ára). Á nesinu voru fyrrum fimm bæir, þegar flest var, og útsýni er frábært á góðum degi.

www.nat.is


Flettingar í dag: 499
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 910
Gestir í gær: 153
Samtals flettingar: 755059
Samtals gestir: 58003
Tölur uppfærðar: 19.5.2024 03:59:28