07.08.2017 17:27

B. v. Barðinn RE 274. LBJF / TFGC.

Botnvörpungurinn Barðinn RE 274 var smíðaður hjá Smith's Dock Co. Ltd. (South Bank) í Middlesbrough á Englandi árið 1913. 416 brl. 700 ha. 3 þennslu gufuvél. 49,61 x 7,91 x 3,33 m. Smíðanúmer 548. Hét fyrst La Rosita og var smíðaður fyrir Fourny V.-P Altazin Fourny & Cie í Boulogne í Frakklandi. Skipið var selt 1921, Soc. Francaise de Pécheries á Vapeur (Boulogne) í Boulogne í Frakklandi, sama nafn. Selt 1923, Christiaens V. & Bourgain A. í Boulogne í Frakklandi, sama nafn áfram. Skipið var selt 22 júní 1925, h/f Kakala (Proppé bræðrum) á Þingeyri, skipið hét Clementína ÍS 450. Árið 1926 var nafni skipsins breytt, hét þá Barðinn ÍS 450. Skipið var selt 29 október 1927, h/f Heimi í Reykjavík, skipið hét Barðinn RE 274. Togarinn strandaði á skerinu Þjóti út af Akranesi 21 ágúst árið 1931. Áhöfnin, 10 menn, var bjargað um borð í hafnsögubátinn Magna frá Reykjavík. Skipið eyðilagðist á strandstað. Barðinn var einn stærsti togari Íslendinga á þessum tíma og var talið traust og gott sjóskip.

Ég sá það einhverstaðar skrifað að skipið hafi líka borið nafnið Notre Dame de la Mere, en það kemur ekki fram í þeim upplýsingum sem ég hef hjá mér um skipið.
 
B.v Barðinn RE 274.                                                                             (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 
Barðinn RE 274 á siglingu.                                                                            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 
Barðinn RE sokkinn á Þjótnum.                                                            (C) Ljósmyndasafn Akraness.
 
Flak Barðans RE á Þjótnum.                                                             (C) Ljósmyndasafn Akraness.
 
Flak togarans á Þjótnum.                                                                        (C) Ljósmyndasafn Akraness.
 
Clementína ÍS 450.                                                                                    (C) Guðbjartur Ásgeirsson ?
 

Barðinn strandar fram undan Akranesi

Um hádegi í gær, var togarinn "Barðinn " á leið utan úr Flóa og inn á Akranes, til þess að taka þar fiskilóðs. Rjett framan við Akranesvitann, á svonefndum Þjóta, tók togarinn niðri, og komst hvergi. Þetta var laust eftir hádegi. Var það rjett um háflóð. Skipstjóri sendi þegar skeyti til Þórðar Ólafssonar kaupmanns, sem annast afgreiðslu togarans, og segir hvernig komið var. Bað skipstjóri þess, að dráttarbáturinn "Magni " yrði sendur sem fyrst til þess að ná togaranum út af skerinu. Tveim tímum seinna fjekk Þórður skeyti um það frá togaranum, að kominn væri leki að skipinu, og ekki væri hægt að dæla úr því. Um kl. 6 var Magni kominn á vettvang til þess að athuga á hvern hátt togaranum yrði helst náð út með flóðinu um miðnætti.
Togarinn Gyllir fór upp eftir nokkuru seinna, til þess að verða til aðstoðar ef með þyrfti. Kunnugir menn á Akranesi, er Þórður Ólafsson átti símtal við, töldu allar líkur til þess, að Barðinn myndi nást út þarna . Við stefni hans var 7 faðma dýpi, en afturhlutinn lá á klettinum. Togarinn sást vel hjeðan úr Reykjavík, og var auðsjeð hjeðan kl. um 6 í gærkveldi, að hann hallaðist mikið og bar hátt á honum á skerinu. Togarinn er vátryggður hjá Sjóvátryggingarfjelagi Íslands.

Morgunblaðið. 22 ágúst 1931.

    Barðinn, vonlítið að hann náist út

Í blaðinu í gær var frá því skýrt að tvö skip voru í fyrrakvöld komin á vettvang til þess að reyna að bjarga Barðanum af Þjótnum, hafnarbáturinn Magni og togarinn "Gyllir." Er hafnarbáturinn Magni kom að Þjótnum kl. að ganga sjö á föstudagskvöld, voru skipverjar af Barðanum allir í skipsbátunum, og höfðu verið það um hríð, því þá var togarinn farinn að hallast svo mikið á skerinu, og kominn svo mikill sjór í hann, að búast mátti við því, að hann kynni að sökkva skyndilega. Var nú tekið til óspiltra málanna að dæla úr togaranum. Tókst þá að dæla úr lestarrúminu, en Magni hafði ekki við að dæla úr vjelarrúminu. Um miðnætti á laugardagsnótt var gerð tilraun til þess að draga togarann af skerinu.
Var sín dráttartaugin sett í hvort skipið, Magna og Gyllir. En Barðinn bifaðist ekki. Aftari helmingur Barðans var á skerinu, en framendinn stóð fram af því. Er hætt var tilraunum þessum, var haldið áfram að dæla úr skipinu. En nú höfðu dælurnar ekki við, skipið fylltist af sjó, og varð þá svo fram þungt, að klukkan að ganga þrjú um nóttina, stakkst það fram af skerinu, svo stefni þess stendur í botni, en afturendann upp úr sjó. Gyllir snéri nú til Reykjavíkur, en Magni kom ekki fyrr en kl. 8 í gærmorgun, og þá með skipshöfn Barðans, nems skipstjóra og vjelstjóra. Þeir komu síðar með vjelbát. Er skipverjar af Barðanum fóru í bátana, tóku þeir allan farangur sinn með sjer.
En veiðarfæri skipsins voru ekki tekin, sakir þess, að allir bjuggust þá við því, að skipið næðist út. Sker þetta, Þjóturinn, sem Barðinn strandaði á, er, að sögn 3 klettahnjótar, svo sem mótorbátslengd hver. Á skeri þessu brýtur alltaf, nema þegar sjór er ládauður, eins og hann var í þetta sinn. Barðinn var smíðaður í Englandi árið 1913; 416 smálestir að Stærð. Eigendur h.f. Heimir hjer í Reykjavík. Með veiðarfærum og afla var skipið vátrygt fyrir kr. 270.000. Farið hefir verið fram á, að Ægir kæmi á vettvang í dag, til þess að athugað yrði enn hvort nokkur von sje til þess að ná skipinu  út.

Morgunblaðið. 23 ágúst 1931.

Flettingar í dag: 680
Gestir í dag: 56
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 725212
Samtals gestir: 53792
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 15:16:10