27.08.2017 13:54

2 m. kt. Anna Breiðfjörð. LBVH.

Kútter Anna Breiðfjörð var smíðuð hjá William Gaisley í Howden Dyke (Goole) á Englandi árið 1887. Eik. 91 brl. Hét áður Iris og var gerð út frá Yarmouth. Eigandi var Valgarður Ó Breiðfjörð í Reykjavík frá marsmánuði 1901. Anna komst svo síðar (1904 ?) í eigu Ólafs Péturssonar og Runólfs Ólafssonar í Mýrarhúsum á Seltjarnarnesi. Selt í febrúar 1909, Firmanu J.P.T. Bryde í Reykjavík, fékk nafnið Valtýr RE 98. Selt 4 október 1910, Herluf Ingjald Bryde í Kaupmannahöfn. Selt 28 september 1917, Firmanu H. P. Duus í Reykjavík. Skipið fórst, að því er talið var, 28 febrúar árið 1920, með allri áhöfn, 30 mönnum. Getgátur voru uppi um að Valtýr og færeyski kútterinn Kristine hefðu rekist saman á Selvogsbanka, því hvorugt skipið hefur sést eftir þennan dag. Þegar þau sáust síðast þóttu þau ískyggilega nálægt hvort öðru. Slæmt veður var og gekk á með dimmum éljum á veiðislóð skipanna. 
Þegar ljóst var hver afdrif Valtýs höfðu orðið, rifjuðust upp nokkrar sögur, sem þóttu benda til að ýmsir höfðu orðið þess varir að áhöfn skipsins væri feig, eða þá að skipið myndi farast. Ein slík frásögn birtist í bókinni Heiðurskarlar í frásöguþætti Guðmundar Árnasonar sem Jónas Árnason rithöfundur hefur skráð og er hún á þessa leið;
Maður er nefndur Sölvi Bjarnason, Vestfirðingur, og bjó að mig minnir búi sínu einhvers staðar í grennd við Bíldudal, en var jafnan á skútum á vertíðum, afburða færamaður og eftirsóttur í skipsrúm. Hann hafði verið nokkrar vertíðir með Pétri Mikkel á Valtý, en þessa vertíð var hann í landi. Næstu vertíð, 1921, kom hann svo til okkar á Sigríði (RE 22), og þegar við spurðum hann af hverju hann hefði ekki farið aftur á Valtý, þá svaraði Sölvi;
Kerlingin mín bannaði mér það. Hana dreymdi svoleiðis. En það er af Valtý að segja að hann fórst með allri áhöfn í umræddu veðri 28 febrúar 1920, svo að það hefur sjálfsagt ekki verið neitt gott sem konu Sölva dreymdi. Og við áttum reyndar eftir að kynnast því enn betur síðar, að það var mark að draumum þeirrar konu.


Kútter Valtýr RE 98 á árum fyrra stríðs.                                                         Ljósmyndari óþekktur.

   Seglatogarinn Anna Breiðfjörð

Fyrst eftir að menn hófu fiskveiðar með botnvörpu, voru eingöngu notuð seglskip til veiðanna. Englendingar voru brautryðjendur á þessu sviði og komu sér upp á síðari hluta 19. aldar allstórum flota botnvörpuskipa. Flest voru þetta kútterar, 50 -100 smálestir að stærð, en þó voru til minni skip, sem fiskuðu með botnvörpu á grunnu vatni. Þegar kom fram um 1880 var tekið að nota gufuskip til botnvörpuveiða. Reyndust þau hafa margvíslega yfirburði fram yfir seglskipin, sem ekki höfðu annað afl en vindinn til að fleyta sér á miðin, urðu að nota hann við drátt botnvörpunnar og máttu einnig sæta öllum duttlungum hans, þá er heim skyldi halda. Um aldamót var svo komið, að gufutogarar höfðu ,,nálega útrýmt seglatogurunum, og fáum árum síðar voru hinir síðarnefndu alveg horfnir úr sögunni. Íslenzkar' botnvörpuveiðar hefjast um það leyti, sem saga brezku seglatogaranna er á enda kljáð. En þessir gömlu, vélalausu togarar eru þó í ríkum mæli tengdir íslenzkri sjávarútvegssögu. Um aldamótin, þegar þeir höfðu lokið hlutverki sínu í Bretlandi, voru þeir seldir úr landi hópum saman fyrir tiltölulega hagstætt verð.; Þetta var um það leyti, sem þilskipaútgerð íslendinga var í hvað örustum vexti, enda keyptu íslenzkir útgerðarmenn allmarga brezka kúttera, sem verið höfðu seglatogarar, og gerðu þá hér út til handfæraveiða. Eina tilraun gerði íslenzkur maður til að reka botnvörpuveiðar með seglskipi. Sú tilraun var gerð árin 1901 -1902. Hér á eftir verður nú sögð saga þeirrar tilraunar og skips þess, sem keypt var í því skyni.


Valgarður Ó Breiðfjörð og kona hans, Anna Breiðfjörð. Seglatogarinn hét í höfuðið á henni.

Sá maður, sem frumkvæðið átti að tilraun þessari, var Valgarður Ó. Breiðfjörð, kaupmaður í Reykjavík. Var hann merkilegur maður fyrir margra hluta sakir. Valgarður var Snæfellingur að ætt, sonur Ólafs bónda Brynjólfssonar á Virki í Rifi og Ingibjargar Jónsdóttur Ásgrímssonar Hellnaprests. Rúmlega tvítugur að aldri fluttist Valgarður til Reykjavikur og lærði þar trésmíði. Stundaði hann þá iðn til ársins 1885, er hann tók að reka verzlun. Fékkst hann síðan við margháttuð viðskipti og brauzt í mörgu. Hann var kappsmaður mikill og hugkvæmur. Meðal annars hafði hann áhuga á leikstarfsemi. Kom hann upp leikflokki og leikhúsi í Reykjavik. Hann gaf einnig út blaðið "Reykvíking" um 12 ára skeið og ritaði þar nálega hvert orð sjálfur. Fjallaði "Reykvíkingur " nær eingöngu um bæjarmál, en lét sig almenn landsmál minna skipta og hafði um það algera sérstöðu meðal reykvískra blaða. Kona Valgarðs var Anna , dóttir Einars Hákonarsonar hattara . Þau voru barnlaus. Valgarður Ó. Breiðfjörð andaðist 16. apríl 1904. Skál nú vikið að útgerðartilraun þeirri, sem vera skyldi aðalefni þessarar frásögu.
Svo vel vill til, að maður hefur frá hendi Valgarðs sjálfs greinilega frásögn af þessari tilraun hans, allt frá því er hugmyndin fæddist og þar til yfir lauk. Er þá frásögn að finna í blaðinu "Reykvíkingi", einkum októberblaði  1901 og júlíblaði 1902. Breiðfjörð skýrir svo frá, " að sér hafi lengi leikið hugur á að fást við útgerð. Hins vegar hafi sér jafnan þótt handfæraveiðar frumstæð veiðiaðferð og gamaldags, sem ekki gæti átt mikla framtíð fyrri höndum. Botnvörpuskipin hefðu aftur á móti haft verulegt aðdráttarafl fyrir sig og hefði hann talið rétt, að íslendingar gerðu tilraunir með þá veiðiaðferð. Breiðfjörð segir: "Það var því um ársbyrjun 1901, að ég afréð með sjálfum mér að kaupa seglskip með botnvörpuútbúnaði, og þá í liðnum febrúarmánuði réð ég skipstjóra á það og annan mann til að fara til Englands að velja skipið og kynna sér aðferð við botnvörpuveiðar.


Seglatogari með vörpuna úti. Þessi botnvarpa hefur sennilega fiskað eitthvað meira en Breiðfjörðsvarpan gerði, hefur þó ekki þurft mikið til eins og sagan segir frá. Mynd úr Togaraöldinni. 

Skip, sem þeir skyldu velja mér, átti að vera gallalaust, sterkt, upprunalega byggt til botnvörpuveiða og ekki undir 90 tonnum að stærð, allt samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég áður hafði aflað mér hjá útlendum fagmönnum þar að lútandi. Ferðuðust þeir svo um flesta fiskibæi á Englandi, þangað til seinast í marzmánuði, að þeir fundu það skip, sem ég samþykkti að kaupa, ef það reyndist gallalaust, þó það væri með botnvörpuútbúnaðinum helmingi dýrara en búizt var við, og hefði ég þá staðið illa að vígi, ef vinur minn í Höfn hefði ekki hlaupið undir bagga með mér. Síðan var æfður fagmaður frá London látinn skoða skipið í þurri skipakví, og reyndist það að öllu leyti gallalaust." Þá skýrir Breiðfjörð frá ferð sinni til Englands snemma vors 1901 er hann hugðist gera út um kaupin. Gekk  skrikkjótt að ljúka þeim viðskiptum, því enska stjórnin lagði hald á skipið, eftir að kaupsamningur hafði verið gerður Segir; Valgarður, að það hafi stafað "af einhverju klúðri frá hinu svonefnda "Garðarsfélagi", sem festi skip þetta til kaups í fyrra, en borgaði það ekki." Gekk í hinu mesta þrasi um hríð, en svo fór, að stjórnin lét skipið laust hinn 30. apríl. "Lagði það þá af stað heim," segir Breiðfjörð, "og fékk allgóða ferð, því að það er ágætur siglari". Breiðfjörð hafði ráðið enskan fiskiskipstjóra til að sjá um veiðarnar, og kom hann upp með skipinu. Kom það til Reykjavíkur um miðjan maímánuð, og var þegar tekið að búa það út til veiða. Skipið hlaut nafnið Anna Breiðfjörð og var það í höfuðið á konu eigandans.


Fyrsta gerð Seglatogara. Þessi mun vera enskur.                                      Mynd úr Togaraöldinni.  

Togari Breiðfjörðs lagði út til veiða 23. maí. Þrjár vikur var verið úti í fyrstu veiðiför, en ekkert kom í vörpuna nema lítið eitt af kola. Þó var þetta á sama tíma og enskir botnvörpungar fylltu sig í Faxaflóa. Aftur hélt seglatogari þessi út í flóann, en allt fór á sömu leið. í vörpuna kom eitthvað lítilræði af kola, en enginn þorskur. Tók nú að koma upp kurr meðal skipverja og vildu þeir margir hætta . Kvað íslenski skipstjórinn það sýnt orðið, að eitthvað væri við botnvörpuna að athuga, og það meira en lítið. Lagði hann til, að Breiðfjjörð rifi gufuvélina, gufuketilinn og allt tilheyrandi botnvörpunni úr skipinu, hætti þessari tilraun og gerði það út á handfæraveiðar. Ekki vildi Breiðfjörð sinna þessu. Stímdi hann skipinu nú suður fyrir land til að vita, hvort þar gengi betur en í Faxafia. Leið nú á fjórðu viku, og fréttist ekkert af útgerðinni. Komu þeir Breiðfjörðsmenn þá inn fisklausir að heita mátti, en höfðu týnt skipsbátnum á heimleiðinni.
Breiðfjörð fannst þetta ekki einleikið og ákvað að fara sjálfur út í næstu veiðiför til að sjá með eigin augum, hvernig vinnubrögðin væru. Tóku menn nú að hafa útgerð þessa í flimtingum, eins og oft vill verða, þegar tilraunir mistakast. Komst eitt Reykjavíkurblaðið þannig að orði, er það sagði frá þessum tíðindum:. "Fyrir nokkrum dögum kom inn segl-,,trawlari " Breiðfjörðs með fáeina skarkola og grallara. Breiðfjörð þótti skömm til koma og fór út með honum aftur til að heilsa upp á þorskinn í eigin persónu." Ekki breyttit mikið til batnaðar um aflabrögðin, þótt Breiðfjörð færi með sjálfur til að taka á móti veiðinni. Var reynt víða, en allt bar að sama brunni: afli var nær enginn. Sinnaðist Breiðfjörð við veiðiskipstjórann enska, er hann taldi gagnslausan, dreif hann um borð í brezkan togara, er var á leið til Englands, og bað hann aldrei aftur koma. Enn voru farnar nokkrar smáferðir út í flóann, en árangurinn varð enginn. Þegar þetta basl hafði varað í hálfan þriðja mánuð, án þess að nokkur ljósglæta sæist í svartnætti hinnar einstæðu útgerðar, vildi svo til, að þaulvanur enskur togaraskipstjóri kom inn á Reykjavíkurhöfn og sá útgerð Breiðfjörðs. Var hann fenginn til að athuga vörpuna og leizt honum ekki á gripinn. Sagði hann, að varpa þessi væri með öllu ónothæf og kvað jafnmikla fiskvon í slíkt veiðarfæri, hvort heldur það væri dregið eftir Skildingarnesmelum eða  beztu veiðislóðum. Nú var illt í efni. Í fyrsta lagi vantaði allt sem til þess þurfti að bæta vörpuna og breyta henni. Valgarður hófst þó handa og safnaði saman ýmsu vörpudóti frammi á Seltjarnarnesi og Álftanesi og suður í Hafnarfirði. Voru það leifar frá Vídalínsútgerðinni sálugu.


Kútter Sigríður RE 22.                                                                                 Ljósmyndari óþekktur.

Ekki var allt fengið með þessu. Hvergi í Reykjavík eða nágrenni var til maður, sem kunni hið minnsta til breytinga og lögunar á botnvörpu, sízt af öllu stórviðgerðar. Datt Valgarði helzt í hug að fara út í Faxaflóa og reyna að fá menn hjá botnvörpungunum ensku til að endurbæta vörpuna. Þegar hér var komið, frétti Valgarður, að enskur togaraskipstjóri, sem hafði brennt sig inni í Laugum, lægi í sárum á Landakoti, en þó á batavegi. Fór Valgarður þegar á fund mannsins, og lofaði hann að gera við vörpuna, strax og heilsan leyfði. Nokkrum dögum síðar var vörpunni ekið á blett á Landakotstúni. Staulaðist skipstjóri þangað dag hvern á hækjum sínum og tók að breyta vörpunni og bæta hana. Þegar verkinu var lokið, hafði skipstjóri náð allgóðri heilsu. Féllst hann á að fara út með skipinu í fyrstu veiðiförina og vera til leiðbeiningar nokkra daga. Svo illa tókst til, að brunasárin tóku sig upp við þessa áreynslu, og varð skipstjóri að fara í land aftur að einum degi liðnum. Þó var það sýnt, að varpan hafði stórbatnað. Loks kom í hana fiskur. Nú var fenginn til enskur maður, sem kunnugur var botnvörpuveiðum og gat bætt net. Ekki var hann skipstjórnarlærður. Var síðan haldið út enn einu sinni. Þá brá svo við, að varpan fylltist á skammri stundu af fiski. En þegar átti að innbyrða aflann, sem loksins var kominn að borði eftir meira en þriggja mánaða ördeyðu, var kunnáttan og lagnin ekki meiri en svo, að varpan rifnaði í hengla við borðstokkinn, og náðust aðeins fáeinar þorskkindur. Var haldið til hafnar við svo búið, til að láta gera við skemmdirnar á botnvörpunni. Nú hafði Jóhann skipstjóri fengið nóg af útgerðinni, og Valgarður þóttist hafa fengið nóg af skipstjóranum. Skildu þeir því að skiptum, og varð fátt um kveðjur. Réð Valgarður þá Þorlák skipstjóra Teitsson til að fara út með skipið og gera nýja tilraun. 


Kútterar á Reykjavíkurhöfn í byrjun 20 aldar.                                  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Var afli þá tekinn mjög að þverra í Faxaflóa og flest skip að hætta , en þó fékkst dágóður reitingur í vörpuna. Ekki var veiðin svo mikil, að Valgarður teldi borga sig að halda henni áfram, en ákvað að bíða vors og láta þá til skarar skríða um útgerðartilraun þessa. Voru menn því afskráðir og skipinu lagt inni á sundum. Þótt Valgarður hefði þegar beðið stórtjón á útgerð sinni, var hann engan veginn af baki dottinn né vonlaus um það, að tilraunin gæti tekizt. Í desembermánuði fór Breiðfjörð til útlanda, Danmerkur og Englands, en því var hann vanur á hverjum vetri, og gerði þá jafnan innkaup til verzlunar sinnar. Þegar til Englands kom, reyndi Breiðfjörð allt hvað hann gat að fá æfðan botnvörpuveiðimann í þjónustu sína, en það gekk erfiðlega, því fáir voru þeir orðnir, sem  kunnu fyllilega til verka á seglskipum með botnvörpuútbúnaði. Breiðfjörð hefur sjálfur lýst því allátakanlega, hversu illa þetta gekk og hvernig honum var innanbrjósts um þessar mundir. Breiðfjörð segir: "Þegar ég kom út úr þessari verksmiðju, (fiskimjölsverksmiðju, sem Breiðfjörð var mjög hrifinn af), kom mað ur til mín, sem var fáanlegur til að fara með mér heim til aðgerða á botnvörpum mínum. En þó ég væri varla mönnum sinnandi af áhyggjum yfir því, að ég engan manm myndi geta fengið, því ég er viss um, að enga stúlku hefur nokkurn tíma langað eins mikið til að fá sér mann eins og mig þá langaði til að geta fengið mér mann, til að sjá um og stjórna botnvörpuveiðinni hér heima, þá var mér ómögulegt að þiggja þennan mann, því hann var svo hræðilega ljótur og illilegur. Viðstaddir kunningjar mínir brostu að þessu, er ég kom til þeirra, og ég brosti að því sjálfur, þó ekki væri mér þá hlátur í huga. Síðan, frétti ég, að maður þessi var fyllislarkari og slagsmálaseggur og hafði ýmislegt til að bera, sem slíku er samfara, og þakkaði ég þá skiparanum að vera laus við hann. 


Kútter Egill RE 17.                                                                                          Ljósmyndari óþekktur.  

Útgerð seglatogara var þá að heita mátti alveg úr sögunni í Englandi. Þó tókst fyrir milligöngu velviljaðra Englendinga að ráða mann til starfans, nákunnugan botnvörpuveiðum. Kom hann hingað til lands með Breiðfjörð í janúarmánuði 1902. Hófst hann þegar handa við að endurbæta botnvörpuútbúnaðinn. Englendingur þessi skýrði Breiðfjörð svo frá, að botnvörpuútbúnaður hans hafi í upphafi verið svo langt fyrir neðan allar hellur, að engu tali tók. Viðgerð enska skipstjórans var að vísu spor í rétta átt, en þó hvergi nærri fullnægjandi, enda óvinnandi fyrir einn mann að gera þar á skömmum tíma þær stórbreytingar, sem þurfti. Hinn enski maður, sem Breiðfjörð hafði ráðið í þjónustu sína, breytti nú gerð botnvörpunnar og útbúnaði öllum í smáu og stóru. Sparaði Breiðfjörð ekkert til verksins og lagði enn fram allmikla fjárupphæð í þeirri von, að betri árangur næðist en hið fyrra árið.
Snemma vors var undir búningi lokið, skipverjar ráðnir og lagt af stað til veiða. Englendingurinn skyldi vera fiskiskipstjóri og hafa yfirumsjón með vinnu allri á þilfari. Daginn eftir að veiðin hófst, lenti skipið í ágætum fiski og fékk á skammri stund drjúga veiði, engu minni en enskir botnungar, sem voru í Faxaflóa á sama tíma. Næst var haldið suður fyrir land, en sú för bar lítinn árangur. Enski skipstjórinn reyndist óþolinmóður og hyskinn við veiðarnar. Lá hann mikið inni á höfnum, og þó hann renndi fyrir fisk, aflaðist lítið. Mun brátt hafa komið upp kurr nokkur milli skipstjórans enska og íslendinganna, sem með honum voru. Stillur voru miklar um þetta leyti og því oft ókleyft að toga á seglskipi, sem þurfti fráskan vind. Var skipið nær tvo mánuði að flækjast um Faxaflóa og úti fyrir suðurströndinni, en fiskaði nær ekkert í vörpuna, þá sjaldan henni var kastað. Seinasta hálfa mánuðinn, sem skipið átti að heita á veiðum, höfðu hásetar það sér til dundurs að draga þorsk á færi. Í síðustu veiðiför skipsins var frískur vindur og gott togveður, en áður höfðu hægviðrin valdið miklum töfum og erfiðleikum. Kvaðst Breiðfjörð nú hafa gert sér beztu vonir um, að úr rættist og skipið kæmi loks inn með góðan afla. En það brást. Lýsir Breiðfjörð vertíðarlokum hjá togara sínum með þessum orðum: "Seint um kvöld var það, sem skip mitt kom úr þessari ferð, og vakti ég því alla nóttina að hugsa um mál það. Á endanum komst ég að þeirri niðurstöðu, að óráð væri að spyrna lengur á móti broddunum, og afréð ég þá að fá mér menn, undir eins og lýsti af degi, til þess að rífa burt úr skipi mínu allt smátt og stórt tilheyrandi botnvörpuútgerðinni og  flytja það á land, og vann ég einnig sjálfur að því nótt og dag, þangað til það var búið. En gramt var mér þá í geði. Þar með er þá botnvörpuveiðatilraunin hér dauð og grafin um lengri tíma.


Seglskip að veiðum í Faxaflóa.                                                               (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Þess má geta, að skip Valgarðs, Anna Breiðfjörð, var gert út til handfæraveiða, eftir að botnvörputækin höfðu verið sett í land. Reyndist það hin bezta fleyta og var oft aflasælt. Breiðfjörð gerði það sjálfur út fyrstu vertíðina. Síðar komst það í eign Ólafs Péturssonar og Runólfs Ólafssonar í Mýrarhúsum, en þeir seldu Brydesverzlun skipið. Var það þá skírt upp og nefnt Valtýr. Skipstjóri á Valtý gerðist Pétur Mikael Sigurðsson, dugnaðarmaður mikill og einhver mesti aflamaður þilskipaflotans. Fiskaði hann með ágætum á Valtý, enda var skipið stórt og burðarmikið. Var Valtý haldið út til handfæraveiða fram til ársins 1920, er skipið fórst með allri áhöfn. Árið 1919 hafði Pétur Mikael verið með Valtý að vanda. Hafði honum löngum gengið vel að fiska, en að þessu sinni bar þó af. Varð Valtýr langhæstur allra handfæraskipa þetta ár, og var sem honum brygðist aldrei fiskur. Í vertíðarbyrjun 1920 lagði Pétur Mikael út á skipi sínu og hafði 30 manna áhöfn. Voru það að langmestu hinir sömu menn og verið höfðu með honum áður. Þar var valinn maður í hverju rúmi, svo að naumast hafði nokkur skúta samhentari og ötulli skipshöfn.

            Hinsta sjóferð Valtýs

Í febrúarmánuði, þá er flest skip voru úti í fyrsta túrnum, voru veður með afbrigðum óstöðug og geisuðu stormar svo miklir, að þeir ollu hrakningum og tjóni á skipum. Einna verst veður gerði um mánaðamótin febrúar og marz. Er talið, að Valtýr hafi farizt í því veðri. Hann hafði lagt út til veiða hinn 21. febrúar, en önnur skip urðu hans síðast vör 28 febrúar. Var þá að skella á versta veður, stormur og kafaldshríð. Sá bylur stóð í tvo sólarhringa. Öll íslenzku fiskiskipin skiluðu sér heilu og höldnu eftir veðrið, önnur en Valtýr. Hann kom aldrei fram. Ýmsir trúðu því, að ásigling en ekki ofviðri hefði orðið honum að grandi. Gengu um það sögur, að enskur togari hefði skýrt svo frá síðar, að hann hefði í byrjun garðsins séð Valtý og færeyskan kútter, sem Kristine hét, nálægt hvorum öðrum. Dembdi þá yfir svörtu éli, svo að bæði skipin huldust sýn, en þegar upp birti nokkru síðar, var hvorttveggja horfið. Kom hvorugt þeirra fram síðan, enda höfðu flestir það fyrir satt, að þau hefðu rekizt á í élinu, barizt saman, brotnað af sjóganginum og sokkið. Einkennilegt var það, að svo

sem Valtýr hafði fiskað langbezt íslenzkra þilskipa árið áður, hafði Kristine verið stórum aflahæst í flota Færeyinga á þeirri vertíð. Var það af sumum kallaður feigðarafli síðan. Aldrei rak neitt úr Valtý, og ekkert upplýstist frekar um afdrif hans.

Frjáls þjóð. 11 júní 1960.
Gils Guðmundsson.



Flettingar í dag: 698
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 725230
Samtals gestir: 53793
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 15:39:35