08.11.2017 08:10

478. Enok NK 17.

Enok NK 17 var smíðaður hjá Dráttarbrautinni h/f í Neskaupstað árið 1958. Eik. 25 brl. 150 ha. GM díesel vél. Smíðanúmer 7. Eigendur voru bræðurnir Hörður og Flosi Bjarnasynir útgerðarmenn í Neskaupstað frá 8 febrúar 1958. Seldur 24 maí 1960, Guðmundi Guðmundssyni, Garðari Guðmundssyni og Halldóri Guðmundssyni á Ólafsfirði, hét Guðmundur Ólafsson ÓF 40. Ný vél (1972) 174 ha. GM díesel vél. 29 nóvember 1974 var Guðmundur Ólafsson h/f á Ólafsfirði skráður eigandi bátsins. Báturinn fórst í mynni Héðinsfjarðar 19 febrúar árið 1979. 1 skipverji fórst en 5 skipverjar björguðust í gúmmíbjörgunarbát og þaðan um borð í vélbátinn Arnar ÓF 3 frá Ólafsfirði. 
Maðurinn sem fórst hét Þórir Guðlaugsson. Það má geta þess að hann var skipverji á Stíganda ÓF 25 þegar hann sökk á síldarmiðunum norður af Jan Mayen í ágúst 1967.

 
Enok NK 17 í prufusiglingu á Norðfirði.          (C) Jakob Hermannsson. Úr safni Þórðar Flosasonar.
 

                  Enok NK 17

Síðasta dag janúarmánaðar hljóp af stokkunum í skipasmíðastöð Dráttarbrautarinnar hf., nýr 25 lesta fiskibátur. Hlaut hann nafnið Enok og einkennisstafina NK 17. Eigendur bátsins eru bræðurnir Flosi og Hörður Bjarnasynir. Bátinn teiknaði yfirsmiður Dráttarbrautarinnar, Sverrir Gunnarsson. Í bátnum er 160 ha. GM vél. Hann er ágætlega búinn siglingar og öryggistækjum, þar á meðal asdictæki. Austurland óskar eigendum til hamingju með þessa fríðu fleytu.
Enok er sjöundi báturinn, sem skipasmíðastöð Dráttarbrautarinnar smíðar. Áttundi báturinn um 70 lesta stór, er í smíðum.

Austurland. 7 febrúar 1958.


Enok NK 17 í bóli sínu á Norðfirði.                                                              (C) Gunnar Þorsteinsson.

      Fimm björguðust en einn maður                  drukknaði er 25 lesta bátur                            frá Ólafsfirði fórst

Vélbáturinn Guðmundur Ólafsson ÓF 40 frá Ólafsfirði fórst í gær um klukkan 13.45 og með honum einn maður. Á bátnum voru sex menn, og komust fimm af. Ekki er unnt að skýra frá nafni mannsins sem drukknaði að svo stöddu. Báturinn sem fórst var 25 lestir að stærð, smíðaður í Neskaupstað árið 1958. Báturinn var staddur rétt úti af Héðinsfirði og voru skipverjar að leggja síðustu netin. Báturinn sökk er skipverjar urðu að stansa vegna þess að netin festust í rennunni, og fékk hann á sig brotsjó er hann tók af stað á ný. Aðalbjörgunarbáturinn náðist ekki, og urðu skipverjar að notast við varabjörgunarbát sem var ætlaður fyrir fjóra. Komust mennirnir þar á, en voru þó meira og minna í kafi allan tímann, og sumir þeirra hangandi utan á bátnum. Mennirnir höfðu verið að velkjast um í sjónum í um það bil klukkustund er bát bar að, var það Arnar ÓF 3, en skipstjóri á Arnari er Hrafn Ragnarsson. Tókst skipverjum á Arnari að ná skipbrotsmönnunum um borð, og einnig fundu þeir lík þess skipverja er drukknaði. Var siglt með skipbrotsmennina inn til Ólafsfjarðar þar sem þeir fengu bestu aðhlynningu, og var líðan þeirra eftir atvikum góð í gærkvöldi er Morgunblaðið fór í prentun.

 

Morgunblaðið. 20 febrúar 1979.


Guðmundur Ólafsson ÓF 40 við bryggju á Ólafsfirði.                                  Ljósmyndari óþekktur.
 

 Sigldum fram á gúmbátinn af tilviljun

segir Hrafn Ragnarsson skipstjóri á Arnari       ÓF 3 sem bjargaði mönnunum fimm af                    Guðmundi Ólafssyni 

Það var skipstjórinn á Arnari ÓF 3, Hrafn Ragnarsson, ásamt áhöfn sinni, sem kom að mönnunum á Guðmundi Ólafssyni og bjargaði þeim, en fréttaritari Morgunblaðsins á Akureyri hitti hann að máli í gærkvöldi. Hrafn sagði:
"Við vorum staddir 3 til 4 mílur norðaustur af Héðinsfirði á heimleið úr róðri er við rákumst af tilviljun á gúmbátinn með mönnunum fimm. Veður var suðaustan sjö vindstig og þá er kvikan oft kröpp á þessum slóðum þegar vindur stendur út Eyjafjörðinn. Þegar við fundum bátinn var klukkan um 15.15. Við vissum ekkert um bátstapann fyrr en við fundum gúmbátinn en við höfðum þó fundið nokkra netabelgi merkta Guðmundi Ólafssyni og þótti okkur það grunsamlegt. Það gekk ágætlega að ná mönnunum um borð til okkar en þeir voru mjög þrekaðir sumir. Þeir gátu ekki komist um borð til okkar hjálparlaust, voru rennandi blautir og höfðu setið í sjó í gúmbátnum sem er mjög lítill, aðeins fjögurra manna. Við seildumst í þá og kipptum þeim inn fyrir borðstokkinn. Þeir giskuðu á að þeir hefðu verið í sjó og um borð í gúmbátnum í um það bil klukkustund. Ég ákvað að halda strax heim til Ólafsfjarðar á fullri ferð vegna þess hve mennirnir voru þrekaðir. Eftir tíu til fimmtán mínútna ferð fundum við lík sjötta skipverjans á reki í sjónum og gátum við náð því um borð. Við klæddum mennina úr blautum fötunum, rauðkyntum eldavélina og gáfum þeim heitt kaffi að drekka og hlynntum að þeim eftir bestu föngum.
Slysavarnadeild kvenna á Ólafsfirði gaf fyrir nokkrum árum prjónanærföt úr íslenskri ull handa öllum sjómönnum á bátum frá Ólafsfirði til notkunar í neyðartilvikum. Nú komu þessi nærföt að góðu gagni og sönnuðu gildi sitt. Mönnunum fór brátt að líða betur en annars var mikill skjálfti í þeim, líka eftir að komið var að bryggju en það var um klukkan 16.30. Við höfðum beðið Siglufjarðarradíó fyrir skilaboð til lögreglumanna og læknis á Ólafsfirði, um það hvernig komið var. Biðu þeir á bryggjunni þegar við komum, tóku við skipbrotsmönnunum og veittu þeim alla hugsanlega aðhlynningu á læknisstofunni í læknisbústaðnum.

Morgunblaðið. 20 febrúar 1979.
 

          "Sátum í sjó upp í mitti"

Fréttaritarar Morgunblaðsins hittu einn þeirra er komst lífs af er Guðmundur Ólafsson fórst, Ágúst Sigurlaugsson vélstjóra:
"Við vorum að leggja síðasta netið í síðustu trossunni um klukkan 13.45, þá kom dálítil kvika svo að netateinarnir fóru inn fyrir rennuna og við urðum að stoppa á meðan", sagði Ágúst. Um leið og báturinn tók af stað kom kvika þvert á hann og lagði hann flatan á stjórnborðshliðina. Ég var aftur í ganginum en hinir á framdekki, nema skipstjórinn sem var í stýrishúsinu og bjargaði hann sér naumlega út um glugga af því að báturinn lagðist á þá hlið sem dyrnar voru á. Ég kallaði strax í þá sem voru frammí og bað þá að losa bátinn sem þar var og það tókst þeim. Þetta var 4ra manna lausabátur sem hafður var á framdekkinu, en aðalbáturinn var á síðunni. Skipstjórinn náði að taka lokið af trékistunni sem sá bátur var í en báturinn flaut aldrei upp. Þá stukkum við allir í sjóinn og þurftum að synda að björgunarbátnum. Það tókst okkur öllum nema einum, sem hvarf sjónum okkar. Fjórir komust strax í gúmbátinn en ég komst þangað ekki, enda var báturinn yfirhlaðinn, maraði í kafi og var fullur af sjó. Ég vildi því ekki þyngja hann frekar með því að fara upp í hann. Eftir á að giska hálftíma tókst mér að komast upp í með hjálp hinna, og þá leið mér enn ekkert mjög illa nema hvað kuldi sótti á hendurnar. Ég hafði fljótlega náð bjarghring og það hjálpaði mér að halda mér á floti. Nú kom ólag, bátnum hvolfdi og við fórum allir í sjóinn. Við vorum nokkuð lengi að snúa honum við aftur vegna ills sjólags og að brot gengu yfir bátinn. Þrír okkar fóru fyrst upp í aftur en tveir nokkru síðar. Þrengsli voru mikil og sátum við nærri því hver ofan á öðrum.
Nú fórum við fyrst að dasast af kulda og vosbúð.
Eftir alllanga stund gátum við þó dregið skýlið yfir okkur og þá fór okkur að hlýna svolítið aftur þó að við værum hálf tilfinningalausir í fótunum af því að við sátum í sjá upp í mitti. Ef bátnum hefði hvolft aftur held ég að við hefðum ekki haft þrek til að snúa honum við hvað þá að komast upp í hann. Ég hugsaði um það allan tímann að vera nógu rólegur og að eyða ekki orkunni til ónýtis. Ég var alltaf vongóður um björgun; bæði var ég búinn á sjá tvo ágæta sjónvarpsþætti, annan um notkun gúmbjörgunarbáta og hinn um áhrif kulda á mannslíkamann og það gaf mér kjark. Einnig vissum við af öðrum bátum í grennd við okkur og að þeir áttu eftir að sigla í Iand og hlytu að koma auga á gúmbátinn okkar. Nú komu Múli og Arnar siglandi. Múli náði okkur ekki í fyrstu atrennu en Arnari tókst að ná okkur um borð. Það er einkennilegt að geta ekki staðið í fæturna, þeir voru svo dofnir af kulda, maður bara lak niður. Viðtökurnar um borð voru skínandi góðar. Þeir á Arnari nudduðu þá okkar sem með þurftu, hituðu ofan í okkur kaffi og klæddu okkur í prjónafötin góðu sem Slysavarnadeild kvenna gaf í alla báta á Ólafsfirði. Eftir að í land kom vorum við fluttir til læknisins, Hilmis Jóhannssonar, og nutum við þar hinnar bestu læknishjálpar og aðhlynningar. Kona hans, Guðrún Erlendsdóttir, gaf okkur kaffi og stjanaði við okkur því að sumir okkar voru orðnir afar þjakaðir. Mig langar að senda innilegt þakklæti mitt til allra sem unnu að björgun okkar og veittu okkur aðhlynningu í þessu volki. Einnig vil ég senda félögum mínum bestu þakkir fyrir drengileg samskipti og vandamönnum hins látna sendi ég innilegar samúðarkveðjur."

Morgunblaðið. 20 febrúar 1979.


Flettingar í dag: 1007
Gestir í dag: 84
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 725539
Samtals gestir: 53820
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 23:02:51