11.11.2017 11:37

Helgi VE 333. TFJM.

Vélskipið Helgi VE 333 var smíðaður hjá Dráttarbraut Vestmannaeyja árið 1939 fyrir Helga Benediktsson útgerðarmann í Vestmannaeyjum. Eik. 115 brl. 213 ha. June Munktell vél. Skipið fórst við Faxasker í Vestmannaeyjum 7 janúar árið 1950. 7 manna áhöfn og 3 farþegar fórust með skipinu.


Vélskipið Helgi VE 333.                                                                  (C) Handels & Söfart museets.dk

                  Helgi VE 333

 Stærsta skip, sem smíðað hefir verið hér á landi

Stærsta skip, sem smíðað hefir verið hér á landi, hljóp af stokkunum í Vestmannaeyjum í gær. Að vísu "hljóp" það ekki á sjóinn, því unnið hefir verið að því í fjóra sólarhringa að koma skipinu á flot, en svo langan tíma tók þetta sakir ótrúlegrar meinbægni Gunnars Ólafssonar kaupmanns, félaga Jóhanns Jósefssonar alþingismanns Vestmannaeyja. En skip þetta hefir verið smíðað í kjördæmi Jóhanns og er 130 smálestir að stærð. Meinbægni Gunnars var í því fólgin að hann neitaði um tæki sem Slippur þeirra Eyjaskeggja réði yfir, og orkað hefði því að skipið hefði komizt á sjó þegar á þriðjudagskvöld, en straumur fór minnkandi og þykir það þrekvirki mikið að hafast skyldi að koma þetta stóru skipi á flot með þeim útbúnaði, sem tiltækur var. Hafðist það loks í gærkvöldi, en áður hafði meðal annars verið grafið undan skipinu þar sem það lá þá í sjávarmáli, en dráttartaugum og dráttarblokkum hafði verið hagrætt sem bezt mátti, en síðan hafðir tveir vélbátar til aðstoðar við útdráttinn. Hefði tilraunin misheppnast aftur í gærkvöldi, mundi skipið hafa orðið að bíða næsta stórstraums til þess að komast á flot og á síldveiðar. Þegar skipið komst á flot, laust mannfjöldinn, sem viðstaddur var, upp fagnaðarópi og klappaði lof í lófa, og kannske enn meiri hluttekningu en félaga þingmannsins mun hafa látið vel í eyra.
Er það Helgi Benediktsson útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, sem látið hefir smíða skipið, en hann hefir áður látið smíða þrjá stóra vélbáta í Eyjum á undanförnum árum. Yfirsmiðurinn var Gunnar Karel Jónsson, rómaður skipasmiður. Kvað skipið á allan hátt hið vandaðasta.

Tíminn. 24 júní 1939.

      Vjelbáturinn "Helgi" fórst við                     Vestmannaeyjar í gær

Rak upp á Faxasker -Tveir menn komust á skerið

Vjelbáturinn "HELGI" fórst í gær við Faxasxer í Vestmannaeyjum. Bátinn rak upp í skerið, brotnaði þar og sökk á nær svipstundu. Á honum var sjö manna áhöfn og vitað er með nokkurri vissu, að tveir af henni komust með einhverju móti upp á skerið. En þegar þetta er ritað, var enn ekkert vitað um afdrif þessara manna og fjelaga þeirra, enda þótt tveir Vestmannaeyjabátar hjeldu sig eftir mætti við slysstaðinn og beindu að honum kastljósum sínuum. Reynt var að ná mönnunum tveimur af skerinu, þegar er frjettist um slysið, en allar aðstæður voru geisierfiðar og raunar nær vonlausar, enda mikill sjór, veðurhæð um tólf vindstig og Faxasker sjálft lágt og stórgrýtt og baðað í brimlöðri. En á tólfta tímanum í gærkvöldi var skollin á slydduhríð og veðurofsinn síst minni en um daginn. Þá spáði Veðurstofan áframhaldandi fárviðri Sunnanlands, en suðaustlægri átt í dag, með heldur hægara veðri.
Það var fólk á Oddsstöðum í Vestmannaeyjum og nálægum bæjum, austarlega í kaupstaðnum, sem sá er "Helgi" rak upp í Faxasker. Báturinn var þá að koma frá Reykjavík, hafði lagt af Stað þaðan klukkan hálf sjö í fyrrakvöld og hreppt hvassviðri á leiðinni. Hann mun hafa átt eftir um tíu mínútna siglingu inn á Vestmannaeyjahöfn, þegar sjónarvottar sáu til hans austur í flóa, þar sem líklegt var að hann mundi fara að beygja og taka stefnu inn á höfnina.
Skyndilega stöðvast báturinn, en byrjar svo að hrekja og hrekur hratt í áttina að Faxaskeri. Skiptir nú engum togum, að hann stefnir á skerið, en sjónarvottar fullyrða, að svo hafi verið að sjá, sem vjel hans hafi tvívegis komist í gang, en þó aðeins örskamma stund í hvort skipti. Í síðara skiptið tekst bátsverjum á "Helga" að koma vjelinni af stað þegar hann er að heita má alveg kominn að Faxaskeri, en hún stöðvast aftur og rjett í því tekur sjór bátinn og fleygir honum að skerinu. Þá virðist "Helgi" brotna í tvennt, en sekkur síðan svo til samstundis. Þegar er þess varð vart, að eitthvað mundi vera að hjá "Helga", gerði fólk á Oddstöðum Ársæli Sveinssyni, formanni Björgunarfjelags Vestmannaeyja aðvart. Var brugið við skjótt, en um líkt leyti vildi svo til, að vjelbáturinn "Sjöfn", sem er um 59 tonn, var að leggja af stað með lóðs út í "Herðubreið". Hafði áhöfnin á "Sjöfn" enga hugmynd um slysið og einskis varð hún vör við Faxasker, enda átti þess ekki von. Hinsvegar heyrðist það í þessu í talstöð bátsins, að "Herðubreið" tilkynnti, að "Helgi" mundi strandður við skerið. Fóru Sjafnarmenn þá þegar aftur að skeririnu og töldu sig sjá þar einn mann á lífi, en það var staðfest frá "Herðubreið". "Sjöfn" sneri nú þegar í land eftir linubyssu og öðrum björgunartækjum. Hjelt hún síðan enn út að Faxaskeri, en vjelbáturinn "Gotta" kom nokkru síðar.
Nú sáust tveir menn í skerinu. Var reynt að skjóta til þeirra línu, en veðurofsinn svo mikill, að björgunarmennirnir fengu línuna aftur í fangið á sjer. Þó virtist þeim ein taug ná út í skerið, en ekki urðu þeir þess varir, að mennirnir þar treystu sjer til að ná í hana. Eftir það var þó enn reynt og ljóskastarar notaðir er dimma tók, en særokið var svo mikið, að litið sást. "Sjöfn" kom að bryggju nokkru fyrir klukkan sjö að kvöldi og þá var ekki annað vitað, en mennirnir tveir væru ennþá í Faxaskeri. En um níuleytið mældist 13 stiga vindhraði á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og litlar horfur voru á því, að í nótt yrði hægt að aðhafast nokkuð til hjálpar sjómönnunum. En ráðgert var að hafa tvo vjelbáta á verði við Faxasker í nótt, og á Eiðinu var mannaður björgunarbátur, ef ske kynni að veðrið lægði svo, að hægt yrði að fara norður og austur fyrir Heimaklett og komast á þann hátt að slvsstaðnum.
Eins og áður er getið var sjö manna áhöfn á Helga. Hjer í Reykjavík gengu sögur um það í gærkveldi, að fjöldi farþega mundi hafa verið með bátnum, en það mun vera rangt samkvæmt upplýsingum fengnum hjer í Reykjavík var með honum annaðhvort einn eða enginn farþegi. "Helgi", sem var í eigu Helga Benediktssonar, útgerðarmanns í Vestmannaeyjum, og var 115 tonn og byggður 1939, fór frá Reykjavík áleiðis til Vestmannaeyja skömmu á undan , Herðubreið", og eitthvað mun vera af far- þegum með henni. Seint í gærkvöldi lá "Herðubreið" undir Eiðinu með vjelbátinn "Nönnu" sem ætlað hafði inn á eftir "Helga". en þá bilaði stýrið.
Faxasker, sem þetta hörmulega slys varð við, er lágt, stendur varla meir en tvo til þrjá metra úr sjó undir venjulegum kringumstæðum. Það er norður af Mið og Ystakletti, snarbröttum og háum klettarana austur úr Heimakletti. Milli Faxaskers og klettanna er venjuleg siglingaleið inn á Vestmannaeyjahöfn, þegar komið er úr vesturátt. Sundið er tiltölulega mjótt en mjög djúpt, en þegar veður er vont, er venjulega siglt langt austan við skerið, jafnvel austur undir Bjarnarey, og þá leið fór "Helgi" að þessu sinni. Faxasker má sjá austarlega af Heimaey.

Morgunblaðið. 8 janúar 1950.


Faxasker.                                                                                                          (C) Karl Marteinsson.

 Tíu menn fórust í sjóslysinu við Eyjar

Tíu menn ljetu lífið, er vjelbáturinn Helgi sökk við Faxasker í Vestmannaeyjum á þriðja tímanum síðastliðinn laugardag. Mönnunum tveimur, sem komust á skerið, varð ekki bjargað, þrátt fyrir margar og háskalegar tilraunir. En lík þeirra náðust snemma í gærmorgun, er nokkuð dró úr veðurofsanum og vjelbáturinn Sjöfn gat dregið björgunarbát út að skerinu, en fjórir menn úr honum komust upp í það. Þar fundu þeir Gísla Jónasson stýrimann og Óskar Magnússon háseta, báða örenda, og voru lík þeirra flutt á land á Eiðinu við geymsluskýli björgunarbátsins. Á þeim sáust nokkrir áverkar og er talið ólíklegt, að Gísli og Óskar hafi lifað lengi eftir að þeir voru komnir á Faxasker. En um það leyti er Helgi fórst við skerið, skall á í Vestmannaeyjum eitt versta veður, sem menn muna þar um slóðir og þegar veðurhæðin var mest, mældust þar 15 vindstig á Stórhöfða.
Á Helga, sem var í eigu Helga Benediktssonar útgerðarmanns í Vestmannaeyjum, var sjö manna áhöfn. Að þessu sinni voru þrír farþegar með bátnum frá Reykjavík. Hjer fara á eftir nöfn þeirra, sem fórust:
Áhöfn: Hallgrímur Júlíusson skipstjóri. Hann var 43 ára, fæddur 3. júlí 1906. Giftur og lætur eftir sig tvö börn, 5 og 7 ára, og þrjú stjúpbörn, öll komin yfir fermingu. Hann var dugnaðar sjómaður og var búinn að vera skipstjóri á Helga í 10 ár. Öll stríðsárin sigldi hann skipi sínu í fiskflutningum til Bretlands og nú nýverið var hann heiðraður af borgarstjóranum í Fleetwood, en þá hafði hann siglt skipi sínu 120 sinnum yfir Atlantshafið.
Gísli Jónasson, stýrimaður, frá Siglufirði. Hann var 32 ára, fæddur 27. september 1917. Ógiftur.
Jón Valdemarsson 1. vjelstjóri. Hann var fæddur 25. september 1915, og var því 34 ára. Hann var giftur og lætur eftir sig eitt barn, eins árs.
Gústaf Adolf Runólfsson, 2. vjelstjóri. Hann var 27 ára, fæddur 26. maí 1922. Giftur og lætur eftir sig fjögur ung börn, það elsta sjö ára.
Hálfdán Brynjólfsson matsveinn. Tuttugu og þriggja ára, fæddur 25. desember 1926. Hálfdán var nýgiftur, gifti sig á gamlársdag.
Sigurður Ágúst Gíslason háseti. Hann var 26 ára, fæddur 1. september 1923. Ógiftur en fyrirvinna aldraðrar móður sinnar.
Óskar Magnússon háseti. Var 22ja ára, fæddur 15. ágúst 1927. Hann var ógiftur.
Farþegar:
Arnþór Jóhannsson skipstjóri frá Siglufirði. Hann var þjóðkunnur aflamaður. Var nú síðast skipstjóri á Helga Helgasyni, en með það skip hafði hann verið frá því það byrjaði veiðar. Lengi var Arnþór með m.s. Dagný frá Siglufirði og fór þá af honum mikið frægðarorð sem aflamanni og skipstjóra. Hann lætur eftir sig konu og þrjú börn.
Þórður Bernhardson, unglingspiltur frá Ólafsfirði, Var að fara á vertíð til Vestmannaeyja.
Sjera Halldór Einar Johnson. Hann var 64 ára, fæddur 12. september 1885. Fluttist til Vestmannaeyja í júlí síðastliðnum, eftir að hafa dvalið í Vesturheimi í 40 ár. Hann var orðinn kennari við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum.

Morgunblaðið. 10 janúar 1950.


Flettingar í dag: 583
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 1170
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 720480
Samtals gestir: 53512
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 08:07:26