13.11.2017 19:17

818. Sæbjörg. TFPA.

Björgunarskútan Sæbjörg var smíðuð í Frederikssund í Danmörku árið 1937 fyrir Slysavarnarfélag Íslands. Eik og beyki. 64 brl. 180 ha. Bolinder vél. Ný vél (1947) 320 ha. Atlas Imperial díesel vél. Skipið var lengt árið 1948 og mældist þá 98 brl. Skipið var selt 2 september 1969, Sigurði Þorsteinssyni skipstjóra í Kópavogi. Sigurður skráir skipið í Panama í október 1969, fékk nafnið Bonnie. Skipið var selt til Biminieyja árið 1971-72.


Björgunarskútan Sæbjörg við komuna til landsins 20 febrúar 1938.         (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Sæbjörg í Reykjavíkurhöfn. Skipið hefur verið lengt og yfirbyggt.                          Ljósmyndari óþekktur.


Þessa mynd kannast nú flestir við. Mynd þessi er af málverki eftir Eggert Guðmundsson listmálara og sýnir Sæbjörgu koma smábát til aðstoðar.


Bonnie ex Sæbjörg við bryggju á Mallorca.                                                (C) Sigurður Þorsteinsson.

  Björgunarskútan Sæbjörg

Sunnudaginn 20. febrúar safnaðist mikill fjöldi manns saman á hafnargarðinum, til þess að taka á móti björgunarskútunni "Sæbjörgu". Skipin, sem lágu í höfninni, voru skreytt hátíðafánum og þegar "Sæbjörg" sigldi inn höfnina, var blásið í eimpípur allra skipanna, til þess að bjóða björgunarskútuna velkomna. Áður en "Sæbjörg" kom í innri höfnina, fóru stjórn Slysavarnafélagsins, kvennadeildarinnar, hafnarstjóri og ýmsir aðrir gestir um borð í hana. Um kl. 2 lagðist björgunarskútan við Grófarbryggjuna, og voru þá mættir þar ræðismenn erlendra ríkja, vígslubiskup, fulltrúar frá ríkis- og bæjarstjórn og ennfremur konur úr Kvennadeild Slysavarnafélagsins. Forseti Slysavarnafélags Íslands, Þorsteinn Þorsteinsson skipstjóri, hélt stutta ræðu, eftir að skipið var lagst við festar. Sagði hann sögu björgunarskútumálsins í stórum dráttum. Skýrði hann frá tilorðningu björgunarskútusjóðsins og hversu hann hefði aukizt fyrir velvilja og fórnfýsi fjölda manna. Minntist forsetinn sérstaklega á þann mikla skerf, sem konurnar hafa lagt til björgunarskútumálsins. Því næst talaði formaður Kvennadeildar Slysavarnafélagsins í Reykjavík, frú Guðrún Jónasson, og tilkynnti hún í lok ræðu sinnar, að kvennadeildin hefði ákveðið að gefa 25 þús. kr. til starfrækslu björgunarskútunnar og væri það fé handbært nú þegar. Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hélt ræðu Vigfús Einarsson, fulltrúi, en að því loknu sté vígslubiskup sr. Bjarni Jónsson um borð í "Sæbjörgu". Hélt hann vígsluræðu, og var athöfn sú öll hin hátíðlegasta. Síðar um daginn bauð stjórn Slysavarnafélagsins 150 manns til tedrykkju að Hótel Borg.
Björgunarskútan "Sæbjörg" er smíðuð í Frederikssund og er rúmlega 60 smálestir að stærð. Teikningar og skipslýsingu gerði íslenzkur maður, Þorsteinn Daníelsson, skipasmiður. Skipið er smíðað úr eik og beyki og er talið mjög sterkbyggt. Í skipinu er 180 ha. Bolinder vél; seglútbúnaður er ágætur og er gert ráð fyrir, að þau verði mikið notuð. Auk aðalvélarinnar er 20 ha. Diesel vél, sem framleiðir rafmagn, og önnur minni vél til vara, og er hún 2 ha. Skipið er útbúið margskonar tækjum af nýjustu og beztu gerð, svo sem: mælingaráhöldum, útvarpi, talstöð, miðunarstöð o. fl. Öll þess tæki eru í klefa aftan við stýrishúsið. Undir skipinu er 5 smálesta stálkjölur, sem kjölfesta. Fjögur vatnsþétt skilrúm eru í skipinu, og á það ekki að geta sokkið, þó að eitt eða tvö rúm fyllist. Skipið verður útbúið með línubyssu og öllum nútíma björgunartækjum. Skipið kostaði alls 130 þús. kr., en auk véla 74 þús. kr. og var það lægsta tilboð, sem barst í bygginguna. Verkið var boðið út í Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Þýzkalandi, og auk þess komu 5 tilboð héðan. Vélar skipsins eru allar borgaðar og ennfremur 40 % af verði skipsins sjálfs, en 60 % eiga að borgast á 4 árum. "Sæbjörg" á eingöngu að stunda björgun í Faxaflóa, en leyfilegl er að lána hana til mælinga eða rannsókna, ef þörf krefur. Á skipinu er sjö manna áhöfn og er Kristján Kristjánsson skipstjóri, sá er var skipstjóri á "Gottu" í Grænlandsleiðangrinum. "Ægir" óskar sjómannastéttinni og Slysavarnafélaginu til hamingju með björgunarskútuna, og í nafni sjómannanna vill blaðið færa kvenþjóðinni hugheilar þakkir fyrir þær stórgjafir, er hún hefir fært Slysavarnafélaginu til reksturs björgunarskútunnar. Frá kvennadeildinni í Reykjavik hafa borizt 25 þús. kr., kvennadeildinni í Hafnarfirði 10 þús. kr., kvennadeildinni í Keflavík 5 þús. kr., og kvennadeildinni í Garði 1 þús. kr. eða alls 41 þús. kr.

Ægir. 2 tbl. febrúar 1938.

Flettingar í dag: 346
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 724878
Samtals gestir: 53763
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 05:15:02