15.11.2017 16:34

511. Gyllir NK 49.

Gyllir NK 49 var smíðaður í Neskaupstað af Pétri Wigelund skipasmið árið 1931. Eik. 25 brl. 62 ha. Alpha vél. 14,57 x 4,33 x 2,01 m. Eigendur voru Guðmundur Sigfússon (Verslun Sigfúsar Sveinssonar) og fl. í Neskaupstað frá árinu 1931. Ný vél (1937) 80 ha. Alpha vél. Seldur haustið 1942, Geir h/f á Patreksfirði, (Andrés Finnbogason og Baldur Guðmundsson), hét Gyllir BA 310. Frá árinu 1944-45 hét báturinn Gyllir GK 310. Ný vél (1945) 115 ha. Caterpillar díesel vél. Árið 1949 var umdæmisstöfum bátsins breytt í KE 31. Seldur 25 janúar 1950, Marselíusi Bernharðssyni á Ísafirði, hét Gyllir ÍS 568. Seldur 27 október 1950, Páli Friðbertssyni, Einari Guðmundssyni og Kristjáni B Magnússyni á Suðureyri í Súgandafirði. 31 desember 1953 var Kristján B Magnússon á Suðureyri einn skráður eigandi. Seldur 5 mars 1972, Kristjáni Jakobssyni, Jóhannesi Þórðarsyni og Jóni Finni Jónssyni í Stykkishólmi, hét Gyllir SH 58. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 13 febrúar árið 1973.

 

Gyllir NK 49 að ferja fólk úr Viðfirði en þaðan lá vegur yfir til Reyðarfjarðar. Þessa leið urðu þeir að fara til þess að komast á Norðfjörð. Vegurinn um Oddskarð var tekinn í notkun árið 1949. Nú hafa Norðfjarðargöng leyst þann erfiða og snjóþunga fjallveg af hólmi sem er í rúmlega 600 m. hæð. Það eru gífurlega miklar samgöngubætur sem Norðfirðingar fagna um þessar mundir.
(C) Gunnar Þorsteinsson.


Gyllir NK 49 og Fylkir NK 46, bátar verslunar Sigfúsar Sveinssonar við bryggju á Norðfirði árið 1940.
(C) Björn Björnsson.


Gyllir GK 310 við bryggju í Reykjavíkurhöfn.                                                              Gamalt póstkort.
 

  Skipasmíðar á Norðfirði 1906 - 1940

Upphaf vélbátasmíða á Norðfirði má rekja aftur til ársins 1906, en það var árið eftir að slíkir bátar komu í eigu Norðfirðinga. Hrólfur Sturlaugsson eða Göngu-Hrólfur eins og hann var venjulega nefndur var einn 4 báta sem Norðfirðingar eignuðust 1905. Líklega hafa menn verið bjartsýnir á útgerð vélbátanna strax í upphafi. Svo mikið er víst að einn eigenda Göngu-Hrólfs, Magnús Hávarðarson á Tröllanesi, hrinti fram skektu og réri ásamt félögum sínum til Viðfjarðar. Erindið var að biðja Svein Bjarnason bónda þar að smíða fyrir sig bát, svipaðan Göngu-Hrólfi. Sveinn bóndi var annálaður smiður og hagleiksmaður og leist strax vel á hugmyndina. Og á vordögum var báturinn, Hrólfur Sturlaugsson SU 352, 6.4 tn. að stærð, tilbúin til veiða. Sá bátur gekk vel, en 1930 ónýttist í honum vélin og hann úreltist upp úr því. Síðan smíðaði Sveinn bóndi í Viðfirði annan bát svipaðan. En eftir það liggja bátasmíðar niðri til ársins 1922 þá smíðaði Sigurður Þorleifsson bát fyrir Steina á Ekru (Þorstein Einarsson). Báturinn var 3 tn. að stærð og nefndist Leifur.
Sigurður Þorleifsson varð síðan helsti skipasmiður Norðfirðinga um langt árabil. Finnur S. Jónsson á Sandbrekku smíðaði lengi báta en oftast smáa. Árið 1930 beitti Sigfús Sveinsson sér fyrir að hingað kæmi færeyskur maður, Pétur Wigelund sem var þekktur skipasmiður. Hann byggði á næstu árum margan góðan bátinn og var ásamt Sigurði Þorleifssyni helsti skipasmiður Norðfirðinga um árabil. Þessir bátar voru, þrátt fyrir að verkfærabúnaður væri einfaldur og fábrotinn, vel gerðir og sterkbyggðir og dugðu þeirra tíðar mönnum vel til sjósóknar. Á þessum árum voru t.d. eftirtaldir bátar smíðaðir:
Fylkir NK 46 - (1930) 20 tn. Yfirsmiður Pétur Wigelund.
Gyllir NK 49 - (1931) 25 tn. Yfirsmiður Pétur Wigelund.
Auðbjörg NK 66 - (1935) 15.2 tn. Yfirsmiður Sigurður Þorleifsson.
Íslendingur NK 58 - (1936) 27.9 tn. Yfirsmiður Sigurður Þorleifsson.

Neskaupstaður.
Úr grein Magna Kristjánssonar.

Ægir. Október 1989. 
Flettingar í dag: 474
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 725006
Samtals gestir: 53772
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 07:50:34