06.01.2018 07:08

77. Jón Valgeir ÍS 98. TFCR.

Vélskipið Jón Valgeir ÍS 98 var smíðaður í Djupvik í Svíþjóð árið 1946. Eik 100 brl. 215 ha. Polar diesel vél. Eigandi var Ríkissjóður Íslands frá 15 apríl 1948. Selt 12 október 1952, h/f Vísi í Súðavík. Skipið var í eigu Stofnlánadeildar sjávarútvegsins í Reykjavík 12 október 1955, hét þá Jón Valgeir RE 95. Ný vél (1955) 330 ha. Grenaa díesel vél. Selt 8 desember 1955, Ísbirninum h/f og Þorvaldi Árnasyni í Reykjavík, hét Hafþór RE 95. Ný vél (1960) 390 ha. Lister díesel vél. 16 janúar 1968 er Ísbjörninn h/f einn eigandi skipsins. Skipið var selt 22 janúar 1968, Herði Jónssyni og Jóhanni Halldórssyni í Vestmannaeyjum, hét Andvari VE 100. Skipið var endurmælt í nóvember 1975, mældist þá 91 brl. Selt 15 nóvember 1975, Halldóri Waagfjörð og Ingva G Skarphéðinssyni í Vestmannaeyjum, hét Kári VE 95. Ný vél (1976) 750 ha. Stork Werkspoor díesel vél. Selt 1980, Hafnarbergi h/f í Hafnarfirði, sama nafn og númer. Selt 27 desember 1982, Flangey s/f á Höfn í Hornafirði, sama nafn og númer áfram. Skipið sökk um 2 sjómílur út af Stokkseyri 3 maí árið 1984 eftir árekstur við vélbátinn Hástein ÁR 8 frá Stokkseyri. Áhöfnin, 5 menn, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og þaðan um borð í Hástein heilir á húfi.


77. Jón Valgeir ÍS 98.                                                                            (C) Sigurgeir B Halldórsson.

      Nýr Svíþjóðarbátur til Súðavíkur

Einn Svíþjóðarbátanna kom nýlega til Súðavíkur. Er hann nefndur Jón Valgeir og eign hlutafélagsins Vísis í Súðavík. Báturinn er 103 brúttósmálestir að stærð og er því stærstur Svíþjóðarbátanna, sem hingað eru komnir. 215 hestafla Atlas dieselvél er í bátnum og gekk hann 8,5 sjómílur á heimleiðinni. Lagði hann af stað frá Svíþjóð 26. september og kom til Súðavíkur 1. þ. m.
Skipstjóri var Njáll Guðmundsson.

Þjóðviljinn. 9 október 1946.


Hafþór RE 95 landar síld á Seyðisfirði.                                                           Ljósmyndari óþekktur.


77. Kári VE 95.                                                                               (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.

  Mannbjörg er Kári VE 95 sökk eftir árekstur                  við Hástein ÁR 8 í gærmorgun
     "Furðulegt hversu fljótt báturinn sökk"

    sagði skipstjórinn á Kára, Sævar Sveinsson

Fimm manna áhöfn vélbátsins Kára VE 95 bjargaðist giftusamlega er skipið sökk eftir árekstur við Hástein ÁR 8 um 1,5 sjómílu út af Stokkseyrarhöfn um kl. 6.30 í gærmorgun. Aðeins tveimur mínútum eftir áreksturinn var Kári horfinn í sæ. Óverulegar skemmdir urðu á Hásteini. Veður á þessum slóðum var hið besta í gærmorgun, hægur andvari og bjartviðri.
Þrír skipverjanna á Kára sváfu í kojum sínum er áreksturinn varð. Matsveinninn var kominn á stjá og skipstjórinn stóð í brúnni. Bátsverjum tókst að kasta út gúmbáti og stukku síðan í sjóinn. Þeir komust allir að skammri stundu liðinni í björgunarbátinn og voru litlu síðar teknir um borð í Hástein, sem sigldi rakleiðis til hafnar. Engan úr sjö manna áhöfn Stokkseyrarbátsins sakaði. Hásteinn var á leið út í netaróður frá Stokkseyrarhöfn þegar áreksturinn varð. Kári var hins vegar að koma úr veiðiferð, þar sem hann hafði fengið 65-70 tonn af góðum fiski í trolli í Meðallandsbugt. "Við vorum á leið út héðan en þeir á leið til Þorlákshafnar, þar sem þeir landa aflanum, er áreksturinn varð," sagði Henning Frederiksen, skipstjóri á Hásteini, þegar blaðamaður Mbl. hitti hann að máli við Stokkseyrarhöfn, þar sem verið var að þétta stefni bátsins í gærmorgun. Henning var í brú Hásteins við áreksturinn. "Skyggni var prýðilegt og besta veður, en ég vil ekki tjá mig um atburðarásina að öðru leyti. Hún kemur fram í sjóprófum. Það kom stórt gat á síðuna á Kára við áreksturinn og hann sökk á innan við tveimur mínútum, enda kjaftfullur af fiski."
"Það er óneitanlega neyðarlegt að svona nokkuð skuli hafa gerst eins og allar aðstæður voru," sagði Sævar Sveinsson, skipstjóri á Kára, er blm. ræddi við hann að heimili hans á Eyrarbakka. "Þetta bar svo brátt að, að ekki var um annað að ræða en drífa mennina upp á dekk og síðan frá borði. Við fórum allir í kaldan sjóinn og vissulega var það óhugnanlegt. Við vorum þó ekki lengi í sjónum áður en við komust í björgunarbátinn. Mér finnst það reyndar furðulegt hve fljótt báturinn sökk." Hvorki Henning né Sævar vildu fara nánar út í tildrög slyssins, en í samtölum við skipverja óskuðu þeir eftir því, að fram kæmi að sleppibúnaður var ekki um borð í Kára.
Báðir bátarnir voru úr eik. Hásteinn er 47 tonn að stærð, byggður í Stykkishólmi 1969. Kári var 100 lesta bátur, smíðaður 1949. Hásteinn landaði á Stokkseyri, Kári í Þorlákshöfn, en bæði skipin voru á leigu hjá Hraðfrystihúsi Eyrarbakka og lögðu afla sinn upp þar. Sjópróf í málinu áttu að hefjast hjá sýsiumannsembættinu á Selfossi kl. 17 í gær.

Morgunblaðið. 4 maí 1984.

Flettingar í dag: 130
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 681
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 723476
Samtals gestir: 53687
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 03:37:12