26.02.2018 10:09

758. Sjóli RE 135. TFVQ.

Vélskipið Sjóli RE 135 var smíðaður í Ekenas í Svíþjóð árið 1946 fyrir útgerðarfélagið Hafstein h/f á Dalvík. Hét fyrst Hannes Hafstein EA 375. Eik. 51 brl. 170 ha. Polar díesel vél. Ný vél (1954) 240 ha. G.M. díesel vél. Seldur 27 júní 1963, Jóni Guðmundssyni og Haraldi Kristjánssyni í Reykjavík, skipið hét Sjóli RE 135. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 25 júlí árið 1973.


758. Sjóli RE 135.                                                         (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.


758. Hannes Hafstein EA 475.                                               (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

               Metafli á þurrafúabát
 Skakbátur veiðir fyrir tvær milljónir á 2 mánuðum

Óvenjumörg skip hafa stundað handfæraveiðar í sumar, enda var á tímabili uppgripa afli, einkum ufsi og eru skipverjar á mörgum bátanna komnir með góðan hlut. Fimmtíu tonna eikarbátur, sem nú er kominn upp í slipp vegna þurrafúa hefur komið með meiri verðmæti að landi en sum 300 lesta síldarskipanna í sumar.
Það er vélbáturinn Sjóli RE 135 en hann er hæstur Reykjavíkurbátanna á skakinu með 400 tonn í tvo og hálfan mánuð. Verðmæti aflans losar tvær milljónir og hásetahluturinn er á 2. hundrað þúsund. Vísir spjallaði í morgun við skipstjórann á Sjóla, Harald Kristjánsson og sagðist hann alveg eins búast við að báturinn færi ekkert á sjó meira, fyrst þeir væru búnir að finna í honum þurrafúann. Við byrjuðum strax og við hættum á netunum í vor, sagði Haraldur og hættum fyrir nokkru. Það hafa óvenjumargir bátar stundað þessar veiðar í sumar, alls staðar að, allt upp í hundrað tonna bátar. Veiðin hefur verið með meira móti og mjög góð á tímabili. Ég held að það sé í og með vegna þess að við höfum leitað á nýjar slóðir, lengra út en áður og svo er sjálfsagt óvenjumikil ufsagengd á miðunum í sumar. Ufsagöngur hafa ekkert verið rannsakaðar? Mjög lítið, held ég. Þjóðverjar hafa eitthvað verið að athuga þetta. Þetta er víst sami ufsinn og heldur sig við Grænland, Færeyjar og Noreg. Hann hringlar svona á milli eins og síldin. Þessi ufsi, sem við erum að drepa er svona hálfvaxinn, meðalstór og er þarna í botnæti. Við héldum okkur mest út af Eldeyjarboðanum. Það er ekki einu sinni til kort yfir þetta svæði. Það nær ekki lengra en rétt út fyrir boðann.
Ef Sjóli kemst á flot á næstunni, sagðist Haraldur hafa í hyggju að fara austur á "Rauðatorg" seinna í sumar, þegar síldin kemur þangað, en þetta alræmda torg er djúpt úti af Austfjörðum og ufsinn eltir síldina gjarna, þegar hún kemur þangað á sumrin, ef hún kemur þá nokkuð að þessu sinni.

Vísir. 18 ágúst 1967.


Flettingar í dag: 393
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 1170
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 720290
Samtals gestir: 53505
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 04:48:35