12.04.2018 17:43

Veiga VE 291.

Vélbáturinn Veiga var smíðaður í Risör í Noregi árið 1929. Eik og fura. 24 brl. 64 ha. Ellwe vél. Eigandi var Ólafur Auðunsson frá 17 desember sama ár. Ný vél (1933) 65 ha. Gray vél. Árið 1940 voru eigendur bátsins Ólafur Auðunsson, Sólveig Ólafsdóttir og Kjartan Ólafsson í Vestmannaeyjum. Ný vél (1943) 90 ha. Fairbanks Morse díesel vél. Ný vél (1947) 110 ha. June Munktell vél. Árið 1949 voru Kjartan Ólafsson og fl. eigendur bátsins. Veiga fórst í róðri skammt vestur af Eindrangi við Vestmannaeyjar, 12 apríl árið 1952. 2 menn fórust en 6 menn björguðust í gúmmíbjörgunarbát sem var um borð í Veigu. Mönnunum var bjargað um borð í Frygg VE 316 sem var nærstaddur. Þetta var fyrsta björgun manna sem bjargast í gúmmíbjörgunarbáti hér við land.
Mennirnir sem fórust hétu:
Gestur Jóhannesson vélstjóri. 23 ára og 
Páll Þórormsson háseti 26 ára.


Veiga VE 291 í bóli sínu í Vestmannaeyjahöfn.                           Ljósmyndari óþekktur.

  Tveir menn farast af vélbát við Eyjar

Á laugardaginn fórst vélbáturinn Veiga frá Vestmannaeyjum í róðri og með honum tveir menn, en hinir komust lífs af og var þeim bjargað af öðrum bát.
Vestmannaeyjabátar voru í róðri aðfaranótt laugardagsins og lögðu net sín á venjulegum miðum vestan við Eindrang. Veður var hvasst, en um hádegisbilið á laugardaginn, þegar bátarnir voru í óða önn að draga netin, bráðhvessti og gerði mikinn sjó, enda er heldur grunnt og slæm brot þarna á hraununum. Skipverjar á Veigu voru að draga netin, þegar þau festust í skrúfunni og varð báturinn þá bjargarlaus í vindi og sjó Skipverjum tókst að koma neyðarkalli til vélbátsins Frigg frá Vestmannaeyjum, sem þarna var nærstaddur, og kom hann Veigu til hjálpar. Komu skipverjar taug á milli bátanna og hélt Frigg Veigu upp í vindinn meðan skipverjar losuðu netin úr skrúfunni. Þegar búið var að binda þau upp, var taugin á milli bátanna leyst og lagt af stað til lands, þar sem Veiga var þá í lagi að öðru leyti. En skipstjórinn á Veigu bað Frigg að hlusta eftir kalli frá sér, ef ske kynni, að eitthvað bæri út af. En þess reyndis líka full þörf. Veiga var rétt að leggja af stað heim, er netin fóru aftur í skrúfuna og skipti það nú litlum togum, að brotsjóirnir riðu yfir bátinn.
Einn skipverja, Pál  Þórólfsson frá Fáskrúðsfirði, tók út í sama mund og einn brotsjóanna braut aðra hliðina úr stýrishúsinu. Var þá séð, að mikil hætta var á ferðum. Sjórinn gekk þegar inn yfir bátinn og fyllti hann á skammri stundu, þar sem hann rak stjórnlaust fyrir sjó og vindi. Skipstjórinn á Veigu sýndi framúrskarandi dugnað og snarræði er hann braust niður í hásetaklefa á hinum sökkvandi bát sínum til að senda út neyðarkall, sem sennilega bjargaði lífi þeirra félaga. Vildi svo vel til, að skipverjar á Frigg heyrðu í öðru kalli. Mun það hafa verið vélstjórinn, sem var að hlusta við talstöðvartækið. Skipverjar gátu náð til gúmmíbjörgunarbáts, sem bundinn var uppi á stýrishúsi, blásið hann út og komizt í hann í björgunarbeltum. Einn skipverja, Gestur Jóhannesson, vélstjóri, komst ekki upp úr vélarrúmi bátsins, og Páll Þórólfsson hvarf félögum sínum í hafrótinu, eins og áður er sagt. Lætur hann eftir sig aldraða foreldra á lífi, en Gestur eiginkonu og barn.
Svo vel vildi til, að Frigg var ekki langt frá slysstaðnum og kom fljótt þar að, sem skipverjar af Veigu hröktust á sjónum í gúmmíbátnum og bjargaði þeim. Leit að skipverjunum tveimur reyndist árangurslaus. Skipstjóri á Frigg er Sveinbjörn Hjartarson.

Tíminn. 16 apríl 1952.


Flettingar í dag: 1126
Gestir í dag: 65
Flettingar í gær: 906
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 719853
Samtals gestir: 53472
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 23:16:27