08.06.2018 09:59

457. Gissur hvíti SF 55. TFHW.

Vélskipið Gissur hvíti SF 55 var smíðaður í Djupvik í Svíþjóð árið 1958 fyrir Óskar Valdimarsson og Ársæl Guðjónsson útgerðarmenn á Höfn í Hornafirði. Eik. 71 brl. 400 ha. Mannheim díesel vél, 294 Kw. Skipið var selt 15 ágúst 1973, Silfurnesi hf á Höfn Hornafirði, sama nafn og númer. Selt 22 september 1978, Ólafi Sæmundssyni á Ólafsfirði, hét Gissur hvíti ÓF 50. Selt 17 mars 1983, Stefáni Birgissyni, Ólafi Gunnarssyni og Arnþóri Þórssyni á Siglufirði, hét Gissur hvíti SI 55. Skipið rak á land við Brjánslæk á Barðaströnd í ofsaveðri 8 mars árið 1985 og eyðilagðist. Var skipið þá komið í eigu Einars Guðmundssonar bónda og útgerðarmanns á Seftjörn og fleiri manna á Brjánslæk. Skipið stundaði þá skelfiskveiðar á Breiðafirði.


Vélskipið Gissur hvíti SF 55.                                       (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.

        Nýr bátur til Hornafjarðar

Höfn í Hornafirði, 13. febrúar. Í gær kom til Hornafjarðar nýr bátur, er byggður er í Svíþjóð úr eik. Báturinn er 71 smálest brúttó, búinn öllum fullkomnustu siglingartækjum, svo sem radar og asdic-dýptarmæli. Vélin er 400 ha Mannheim-diesel vél og auk þess er 11 ha. ljósavél. Í bátnum er olíudrifið rafmagnsstýri. Báturinn fékk gott veður á leiðinni, og var fjóra sólarhringa frá Skagen til Hornafjarðar. Guðni Jóhannsson skipstjóri, úr Reykjavík, sigldi bátnum upp. Eigendur eru Óskar Valdimarsson og Ársæll Guðjónsson.

Morgunblaðið. 14 febrúar 1958.


Gissur hvíti SF 55 til vinstri að landa síld á Siglufirði.                                 (C) Hannes Baldvinsson.

      Nýr bátur í hörðum árekstri

Hornafirði, 28. febrúar. Það mikla óhapp vildi til á mánudagskvöldið að harður árekstur varð milli tveggja báta og stórskemmdist annar þeirra. Slys varð ekki á skipsmönnum. Árekstur þessi varð í rennunni, sem liggur út frá bryggjunni hér. Vélskipið Gissur hvíti, sem er nýr glæsilegur fiskibátur, var að leggja af stað í róður. Fór hann með hægri ferð út rennuna. Vélskipið Pálmar frá Seyðisfirði var að koma inn í mynni rennunnar þegar áreksturinn varð, en við hann urðu gífurlegar skemmdir á Gissuri hvíta, er stefni Seyðisfjarðarbátsins kom á hann. Gissur hvíti var þó sjófær eftir áreksturinn og strax um nóttina var honum siglt til Neskaupstaðar þar sem bráðabirgðaviðgerð fer fram. Er gert ráð fyrir, að hún taki um það bil vikutíma.

Morgunblaðið. 4 mars 1958.


Gissur hvíti SI 55 á strandstað við Brjánslæk.                                              (C) Tryggvi Sigurðsson.

    Gissur hvíta rak á land í óveðri

Gissur hvíti skelfisksskip Barðstrendinga eyðilagðist í flóði og ofviðri þegar hann slitnaði af legufærum sem hann var festur við og rak í fjöru. Gissur sem er 70 tonna skip var metinn á 10 milljónir króna. Er þetta í þriðja sinn á fáum árum sem Barðstrendingar tapa útgerðarflota sínum í óhappi sem þessu.

NT. 9 mars 1985.


Flettingar í dag: 832
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 418
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 698371
Samtals gestir: 52759
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 23:33:14