08.07.2018 09:45

232. Ögri GK 42. TFQG.

Ögri GK 42 var smíðaður hjá Bolsönes Verft A/S í Molde í Noregi árið 1963 fyrir Ögra hf í Hafnarfirði. 198 brl. 510 ha. Caterpillar díesel vél. 14 október 1964 var skipið skráð í Reykjavík, hét Ögri RE 42. Sömu eigendur. Skipið var selt Ocean Fishing Co Ltd í Walvis Bay í Suðvestur-Afríku í nóvember árið 1969. Var síðan tekið af Íslenskri skipaskrá í janúar árið 1970. Skipin voru seld til Chile árið 1985. Þau héldu alla tíð nöfnum sínum, Ögri og Vigri. Skipin voru rifin í brotajárn í Valdivia í Chile fyrr á þessu ári.


232. Ögri GK 42.                                                         (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.

            Nýtt skip til Hafnarfjarðar
                      Ögri GK 42

Í dag kom nýtt skip til Hafnarfjarðar. Heitir það Ögri, en aðaleigendur þess eru Þórður Hermansson, skipstjóri, og Halldór Þorbergsson, vélstjóri, báðir búsettir í Reykjavík. Skipið er 198 smálestir og ganghraði þess er 11 sjómílur. Það var smíðað í Noregi, en mun hefja síldveiðar fyrir Suðvesturlandi eftir tvo daga. Ögri er systurskip Vigra, og eru báðir heitnir eftir örnefnum við Ísafjarðardjúp, annar eftir eyjunni Vigur, en hinn sögustaðnum Ögri. Ögri var smíðaður hjá Bolsönes Verft í Molde, Noregi, en það fyrirtæki hefur smíðað 7 aðra báta fyrir íslendinga, sem hafa þótt reynast vel. Í Ögra er 515 ha. Caterpillar-vél, sem lítið fer fyrir, þannig, að mjög gott lestarrúm er í skipinu, en í Ögra er svefnpláss fyrir 16 menn. Um mánaðamótin janúar-febrúar er væntanlegt nýtt skip frá þessari skipasmíðastöð, Eldborg hin nýja, sem smíðuð er fyrir Gunnar Hermannsson, bróður skipstjóranna á Ögra og Vigra. Hún verður ca. 240 tonn, en Gunnar var skipstjóri og eigandi Eldborgar, sem gerð hefur verið út frá Hafnarfirði sl. rúm þrjú ár. Eins og fyrr segir, er skipstjóri á Ögra Þórður Hermannsson, en stýrimaður Sigurður Bjarnason. 

Alþýðublaðið. 6 desember 1963.


Ögri RE 42 að landa síld um borð í síldarflutningaskipið Síldina, sennilega við Jan Mayen árið 1966. Skipið fjær er Jón Garðar GK 475.        (C) Ingi Rúnar Árnason.

           Ekki eru allar ferðir til fjár
     Sat fastur í kýrauganu í átta tíma

Þegar Jósep Kristinsson, vélstjóri á Ögra RE 42, kom um borð í bátinn í gærmorgunn, heyrði hann ákaft kallað á hjálp. Brá Jósep við hart, því honum datt helzt í hug, að maður hefði fallið í sjóinn. Svo reyndist þó ekki vera, því engan mann sá Jósep, en hins vegar héldu köllin áfram og heyrði Jósep nú ekki betur en að sá, sem kallaði ,væri einhvers staðar um borð í bátnum. Hóf hann þá að leita og þegar hann kemur inn í ganginn bakborðsmeginn, sér hann hvar maður situr fastur í kýrauganu og hrópar á hjálp. Varð Jósep að vonum hálf hissa á þessum fundum, en maðurinn í kýrauganu greinilega feginn. þvi hann sagði: Ég hélt, að það kæmi enginn um borð í þennan bát fyrr en ég héngi dauður hérna í kýrauganu. Hjálpaðu mér nú burt, elsku vinur. Hvern þremilinn ertu að gera þarna? spyr Jósep. Það er nú saga, að segja frá því, svaraði sá í kýrauganu, en hjálpaðu mér nú fyrst. Hóf Jósep þá björgunaraðgerðirnar og reyndi fyrst að ýta manninum úr kýrauganu en ekkert gekk. Greip Jósep þá tii þess ráðs að skrúfa kýraugsrammann lausan og fór síðan með manninn inn í borðsal, þar sem tekið var til óspilltra málanna við að saga rammann sundur. Tók það einn og hálfan tíma og á meðan sagði maðurinm sögu sína.
Kvaðst hann hafa átt leið um Grandagarð um miðnotti kvöldið áður, þegar mikill þorsti hefði allt í einu gripið sig. Brá hann sér þá um borð í Ögra, fór upp á bátadekk og niður á hekk. Sé hann þá inn um kýraugað bakborðsmeginn, hvar mjólkurkassi stóð í ganginum. Freistingin varð of mikil og ákvað hann að reyna nálgast þennan mjólkurkassa en til þess sá hann aðeins eina leið, að skríða gegnum kýraugað. Gekk allt vel í fyrstu og kom hann höfði og herðum í gegn. Gladdist hann nú heldur betur í huganum, en einmitt þegar bezt lét festist hann í kýrauganu og gat sig hvergi hreift. Þrátt fyrir örvæntingarfullar tilraunir tókst honum ekki að losa sig og fór svo, að þarna hékk hann eins og mús í gildru, þar til Jósep kom um áttaleytið. En af hverju fórst þú ekki gegnum dyrnar? maður spurði Jósep, þær voru opnar. Kom nú skrýtinn svipur á kauða en enga skýringu gaf hann aðra en þá, að sér hefði bara ekki hugkvæmzt að nota dyrnar. Þetta var hræðileg nótt, sagði þessi óheppni maður. Mér tókst að losa mjólkurbrúsa úr festingunni í horninu og fram á hann gat ég lagzt. Þannig tókst mér að blunda öðru hvoru milli þess, sem ég æpti á hjálp. En enga fann ég mjólkina. Það var heldur ekki von, sagði Jósep, því kassinn og brúsinn voru tómir. En ég held, að ég hefði nú reynt dyrnar fyrst í þínum sporum. Þegar loks hafði tekizt að losa manntetrið við fjötrana, þakkaði hann björgunarmönnunum fyrir og hafði sig á brott. Eflaust hefur hann lært af þessari reynslu að "hin leiðin" er allt annað en happadrjúg.

Morgunblaðið. 18 júlí 1967.

       Nýtízku skuttogari byggður fyrir
              andvirði Vigra og Ögra

           Kaupandi í Suður-Afríku býðst til                              að greiða skipin út í hönd 
   Leyfi háð því að féð verði lagt í skuttogara


Forráðamenn útgerðarfélaganna Vigra h.f. og Ögra h.f. hafa mikinn áhuga á því að kaupa eða láta smíða nýtízku skuttogara. Ekki hefur verið ákveðið, hver stærðin verður, en til mála kemur að smíða skuttogarann innanlands. Til þess að af þessu geti orðið þurfa félögin að selja bæði skip sín, Vigra RE 341 og Ögra RE 42, sem eru 200 tonn að stærð, byggð fyrir 6 árum. Félögunum hefur borizt tilboð í bæði skipin frá Suður-Afríku , gegnum enskt umboðsfyrirtæki. Tilboðið er mjög freistandi, þar sem kaupandinn hefur boðizt til að greiða skipin út í hönd og greiða ennfremur kostnaðinn af siglingu skipanna til Suður-Afrílku, en sigling þangað tekur nærri mánuð. Endanlegir samningar hafa ekki verið gerðir ennþá, en viðskiptamálaráðuneytið hefur veitt útflutningsleyfi fyrir skipunum, en leyfisveitingin er háð því skilyrði, að söluverðið verði notað til smíði eða kaupa á skuttogara, sem gerður yrði út frá Reykjavík. Náist endanlegir samningar munu íslenzkar áhafnir sigla skipunum til Suður-Afríku.
Ögri er nú á leið til Grimsby í söluferð og mun fara þar í skoðun. Vigri er í Grimsby og hefur skoðun þegar farið fram á skipinu. Verði af sölunni munu skipin verða samflota á leiðinni suður og leggja upp frá Grimsby eftir 10-14 daga.

Morgunblaðið. 1 nóvember 1969.


Ögri og Vigri í Valdivia í Chile. Sennilega komnir á endastöð.            (C) Óskar Franz Óskarsson.

            Vigri RE og Ögri RE:
         Sigldu í gær til SV-Afríku

Vigri RE 341 og Ögri RE 42 héldu í gær frá Grimsby áleiðis til Walvis Bay í Suðvestur-Afríku, en fyrirtækið Ocean Fishing Co. Ltd. þar hefur keypt bæði skipin. Siglingin suður tekur rúmar þrjár vikur og sigla íslenzkar áhafnir skipunum. Á leiðinni verður komið við í Las Palmas á Kanaríeyjum og Takoradi í Ghana. Skipstjóri á Vigra er Sigurður Þ. Guðmundsson frá Reykjavík, en skipstjóri á Ögra er Guðmundur Ársæll Guðmundsson frá Hafnarfirði. Áhafnir skipanna eru væntanlegar heim fyrir jólin, nema 1. vélstjórar, þeir Pétur Gunnarsson á Vigra og Halldór Þorbergsson á Ögra. Hinn nýi eigandi skipanna hefur óskað eftir því, að þeir starfi hjá þeim áfram og munu báðir vélstjórarnir hafa fallizt á að dvelja þar syðra í tvo mánuði. Ætlunin er að skipin stundi nótaveiðar og veiði feitfisk til bræðslu í bræðslustöðvum skipaeigenda. Hafa þeir farið fram á að skipin fái að halda áfram hinum íslenzku nöfnum og hafa fyrri eigendur fallizt á það fyrir sitt leyti, en þeir hafa eignarétt á nöfnunum hér heima.
Eins og getið hefur verið áður í Morgunblaðinu greiða hinir nýju eigendur bæði skipin út í hönd og kosta siglingu þeirra til Walvis Bay. Íslenzk yfirvöld veittu útflutningsleyfi fyrir skipunum með því skilyrði, að andvirðið yrði notað til kaupa eða smíði á nýtízku skuttogara, sem gerður yrði út frá Reykjavík, Það mál er nú í athugun og undirbúningi af hálfu fyrri eigenda Vigra og Ögra.

Morgunblaðið. 26 nóvember 1969.


Flettingar í dag: 604
Gestir í dag: 49
Flettingar í gær: 681
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 723950
Samtals gestir: 53722
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 16:13:07