14.07.2018 08:14

B. v. Marz RE 261. TFXC.

Botnvörpungurinn Marz RE 261 var smíðaður hjá John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1948. 684 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 206. Eigandi var Marz hf (Tryggvi Ófeigsson útgerðarmaður) í Reykjavík frá aprílmánuði sama ár. Kom fyrst til heimahafnar, Reykjavíkur hinn 27 apríl árið 1948. Marz og Neptúnus voru systurskip og var þeim nokkuð breytt frá upphaflegri teikningu. Þar má nefna að skipin voru lengd um 8 fet og lunningar hækkaðar aftur fyrir vant. Þær voru svo fljótlega lengdar aftur fyrir svelginn. Marz var mikið afla og happaskip og oft í tölu aflahæstu skipa flotans og gerði mörg sölumetin í höfnum erlendis. Togarinn var seldur til Spánar í brotajárn og tekinn af skrá 20 maí árið 1974.

 
153. Marz RE 261.                                                       (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.
 

   Marz siglir inn á Reykjavíkurhöfn

Hinn glæsilegi nýsköpunartogari, Marz, kom hingað til Reykjavíkur kl. að ganga 3 í gær. Þegar togarinn lagðist að bryggju var þar fjöldi fólks til þess að fanga skipi og skipverjum. Marz er systurskip Neptúnusar. Eru togararnir að öllu leyti eins og því stærstu togarar flotans. Skipstjóri á Marz er Þorsteinn Eyjólfsson, en aðrir yfirmenn eru Einar Jóhannsson 1. stýrimaður, Eðvald Eyjólfsson 2 stýrimaður Ingólfur Ólafsson 1 vjelstjóri, Gunnar Hestnæs 2 vélstjóri og 3 vélstjóri er Jónas Helgason.

Morgunblaðið. 28 apríl 1948.


B.v. Marz RE 261 við komuna til Reykjavíkur 27 apríl 1948.                     (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

    Þakka skipshöfninni hina góðu sölu

      sagði Ásgeir Gíslason, skipstjóri á                         Marz sem setti sölumet 

Eins og kunnugt er af fréttum setti togarinn Marz RE 261 nýtt sölumet á brezka fiskmarkaðinun í síðustu viku. Seldi hann þar 240 tonn. fyrir 23.856 £ eða 2.860 þús. ísl. kr. Skipstjóri þessa aflaskips er ungur maður, Ásgeir Gíslason sem verið hefur á togurum um 20 ára skeið og skipstjóri síðustu 10 árin. Í tilefni af þessari góðu sölu togarans hafði blaðið samband við Ásgeir í gær. "Ég vil aðeins segja það að ég er mjög ánægður með söluna, sagði Ásgeir fyrst. Manni finnst alltaf gaman þegar maður gerir góða trúa á svo gömlu skipi sem Marz er. Í þessu sambandi vil ég þakka skipshöfn minni mjög vel fyrir gott starf í þessari ferð sem öðrum. Hún stóð margar frívaktir, en í túr sem þessum er það sem gildir að koma aflanum sem fyrst í lestina í ís, því að þá skemmist hann lítið sem ekkert" Hverju viltu helzt þakks þessa miklu sölu, Ásgeir? Eins og ég sagði áðan er hún mikið að þakka skipshöfninni, sem stóð margar frívaktir. Annars má segja að margt hafi hjálpazt að til að gera þessa sölu sem hæsta.
Megin uppistaðan í aflanum var flatfiskur (107 tonn) og ýsa og það fæst alltaf gott verð fyrir þessar fisktegundir á brezka fiskmarkaðinum. Við vorum eina skipið með ýsu þennan dag og það hækkaði verð hennar mikið. Hvað eru margir á skipinu? Áhöfnin í þessari ferð var 28 menn, þar af voru 3 Spánverjar og fara 2 þeirra aftur út með togaranum. Ég kann vel við þá. Þeir eru ágætir, duglegir og liprir. Einn þeirra er búinn að fara 4 túra með mér. Annars eru Englendingar nú farnir að ráða mikið af Spánverjum á sína gömlu togara svo að sama mannekla virðist hrjá enska togaraflotann og þann Íslenzka. Hvar voruð þið að veiðum? Við fórum út 16. maí og vorum að veiðum í 11 daga úti fyrir SA-ströndinni. Einn skipverja slasaðist í ferðinni og urðum við að fara með hann inn til Homafjarðar. - Viltu nokkuð segja að lokum Ásgeir? Aðeins að ég vil enn einu sinni ítreka þakkir mínar til skipshafnarinnar, án hennar miklu og góðu vinnu hefði þessi sala aldrei orðið svona há sem raun ber vitni. Það er alltaf gaman að geta sýnt hvað þessir gömlu togarar geta.
Eins og áður segir er Ásgeir um fertugt. Hann er kvæntur Hildi Einarsdóttur Frimann og eiga þau 6 börn. Það yngsta er eins og hálfs árs en það elzta 19 ára. Hann hóf sinn togarasjómannsferil á togaranum Hafsteini, sem Tryggvi Ófeigsson gerði út á striðsárunum og hefur stundað sjóinn síðan. Siðustu 10 árin hefur hann verið skipstjóri, fyrst á togaranum Röðli sem hann tók við er hann var 30 ára. Síðan var hann skipstjóri á Hauk, Frey og nú síðast með Marz. Marz fer nú upp í slipp þar sem botn skipsins verður málaður, en Ásgeir reiknaði með að hann færi út í veiðiferð seinni hluta vikunnar.

Vísir. 8 júní 1966.


B.v. Marz RE 261.                                                                                              (C) Snorri Snorrason.


Nýsköpunartogarinn Marz RE 261 að veiðum.                                        (C) Sigurgeir B Halldórsson.

      Með átta þúsund tonna afla í trollið
   Markús á Marz líklega aflakóngur togveiðanna

Afli nýsköpunartogarans Marz RE 261 árið 1955 var tæp 8 þúsund tonn og telur Þórir Guðmundsson hjá Fiskifélaginu að þetta sé mestur afli togara á einu ári. Að sögn Markúsar Guðmundssonar sem var skipstjóri á Marz frá 1954- 1964 fékkst aflinn að mestu á Íslandsmiðum en fiskgegndin þá var ekki sambærileg við það sem gerist núna, þá var mun meira af fiski.
Alls fór Marz 18 veiðiferðir á árinu 1955 og að meðaltali varð hvert úthald 14 dagar. Mestur varð aflinn í einni veiðiferð tæp 366 tonn. Heildaraflinn á árinu varð 7.895 tonn og var allur fiskur nema karfi slægður en saltfiskur er umreiknaður í heildartölunni eftir stuðlum Fiskifélagsins. Vanalega fór Marz í næsta túr daginn eftir að síðasta túr lauk. Markús, sem hætti sem skipstjóri á Marz 1964 og tók þá við Júpíter og var þar til 1974, sagði að yfirleitt hefðu verið 28 manns í áhöfninni. Hann sagði að það hefði verið gott að fiska á Marz en skipið hefði ekki verið sérstakt sjóskip. Hann segir engin sérstök uppgrip þetta ár því fiskverð hafi verið mjög lágt. "Það var hampur í veiðarfærunum og ekki komin veiðarfæri úr gerviefnum. Hampurinn var þó snöggtum skárri en sísallinn sem var í veiðarfærum upp úr seinna stríði. Það var miklu veikara og lélegra garn en hampurinn. Samt var hampurinn ekki neitt sérstakur. Við fórum með sæmilega gott troll frá Vestur-Grænlandi og heim og lönduðum og til baka aftur og þá var trollið ónýtt. Það voru oft stór hol þarna en það þýddi oft ekkert að láta þetta í sjóinn. Hampurinn fúnaði svo fljótt," sagði Markús. Markús sagði að það væri ekki sama fiskgegnd núna. "Þeir geta alveg fiskað þessir menn og stunda sjóinn stíft margir en það vantar bara fiskinn. Þeir fara meira að segja mun dýpra en við fórum og geta stundað veiðarnar á verri botni en við gerðum," sagði Markús.
Marz var smíðaður í Englandi 1948 og eigandi skipsins var Marz hf. í Reykjavík. Skipið var selt til Spánar til niðurrifs og tekið af skrá í maímánuði 1974.

Morgunblaðið. 12 janúar 1994.


B.v. Marz RE 261 á heimleið í ólgusjó af miðunum við Vestur Grænland.        Ljósmyndari óþekktur.


Landað úr togaranum Marz RE 261.                                              Ljósmyndari óþekktur.
 

Nýsköpunartogararnir seldir í brotajárn

Endurnýjun flotans sem hófst 1972 var enn í fullum gangi 1974 og voru helztu viðburðir þessir: Kaldbaki EA-1 var lagt 14. janúar að lokinni söluferð til Englands, fór svo til Spánar 30. marz með Sléttbak EA-4 í togi þar sem skipin voru seld til niðurrifs. Úranus RE-343 landaði síðast í Reykjavík 7. marz og fór til Spánar hinn 17. apríl með Marz RE-261 í togi þangað sem þeir voru seldir í brotajárn. Svalbaki EA-2 var lagt 25. september, seldur í brotajárn til Spánar, og hélt þangað 8. október. Hjörleifur RE-211 landaði síðast í Þýzkalandi 21. nóvember og var afhentur brotajárnskaupendum á Spáni fimm dögum síðar.

Ægir. 21 tbl. 1 desember 1975.

Flettingar í dag: 1038
Gestir í dag: 85
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 725570
Samtals gestir: 53821
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 23:38:02