05.12.2018 11:13

840. Særún SI 50. TFRL.

Vélbáturinn Særún SI 50 var smíðaður í Hoogezond í Hollandi árið 1895. Eik og fura. 27 brl. 120 ha. June Munktell vél (1934). Hét áður Mary. Eigendur voru Snorri Stefánsson og Vilhjálmur Hjartarson á Siglufirði frá 31 október 1942. Fékk þá nafnið Særún SI 50. Báturinn var endurbyggður, nánast frá grunni og lengdur það ár, mældist þá 51 brl. Einnig var sett 165 ha. Grey díesel vél í hann. Ný vél (1954) 240 ha. Grey díesel vél. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 9 september árið 1966. Báturinn mun hafa verið brenndur stuttu síðar á Siglufirði.

Í Íslensk skip, 3 bindi er Særún sögð smíðuð í Noregi árið 1895. Í Sjómannaalmanaki frá árinu 1952 er báturinn sagður smíðaður í "Hoogezond", mér datt þá í hug að þarna væri átt við Haugasund í Noregi. En aftur á móti er líklegra að átt sé við Hoogezond í Groningen í Hollandi. Í skipaskrám er Særún sögð ýmist umbyggð eða smíðuð á Siglufirði 1942. Það er sjálfsagt einhver sem veit þetta fyrir víst, hugsa að Birgir Þórisson viti þetta.


Vélbáturinn Særún SI 50 með síldarfarm á Siglufirði.                         Ljósmyndari óþekktur.


Særún SI 50.                                                                                          (C) Snorri Snorrason.


Særún SI 50 að landa síld í Rauðku á Siglufirði.                                 Ljósmyndari óþekktur.


Landað úr Særúnu á Siglufirði.                                                Ljósmyndari óþekktur.


840. Særún SI 50. Líkan.                                                       (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

               V.b. Særún SI 50

Nýlega var lokið smíði á vélbát á Siglufirði. Er það v.b. Særún SI 50. Eigendur Snorri Stefánsson verksmiðjustjóri og Vilhjálmur Hjartarson skrifstofustjóri, báðir á Siglufirði. Dráttarbraut Siglufjarðar framkvæmdi smíðina, en yfirsmiður var Gunnar Jósefsson. Eiginlega er báturinn byggður upp úr ca. 27 smálesta vélbát, að nafni "Mary", en hann hefur verið stækkaður og gjörbreytt svo mjög, að frekar er um nýsmíði en endurbyggingu að ræða. Við breytinguna var báturinn lengdur, bolur allur endurbættur og allt undir þilfari endurnýjað. Ennfremur var byggður á bátinn hvalbakur og stýrishús, og sett í hann ný vél, togvinda, legufæri o. fl. Að breytingunni lokinni reyndust aðalmál bátsins: Lengd 19.75 m., breidd 5.15 m., dýpt 2.26 m., stærð brúttó 50.75 smálestir, stærð nettó 21.10 smálestir. " Aðalvél bátsins er 165 hestafla Grey Marine díesel. Snúningshraði 2000, en "niðurgíruð" 1:4.4. Með 1600 snúningum eyðir vélin ca. 600 lítrum af olíu á sólarhring og er þá gangur bátsins ca. 9 sjómílur á vöku. Olíugeymar taka 5 1 /2 smálest. Í aftari hluta bátsins er þilfarið hækkað (hálfdekk) og er þar allstórt sporöskjulagað þilfarshús. Fremst í því er stýrishús og aftur úr því stjórnborðsmegin lítill leiðarreikningsklefi, en bakborðsmegin niðurgangur í vél og íbúð (káetu). Þar fyrir aftan er snoturt eldhús. Reykháfur vélarinnar liggur upp í gegn um stýrishúsið, en aftursiglan er hol og notuð sem reykháfur eldavélar. Undir bakka (hvalsbak) er salerni og nokkrir geymsluskápar, en auk þess er þar geymd varaskrúfa og legufæri, en af þeim hefir báturinn eitt "Patent-akkeri og tvö "stokk"-akkeri. Vistarverur skipshafnar eru undir þilfari að framan og aftan. Fremst er íbúð háseta og gengið þangað niður undir bakka. Eru þar lokrekkjur fyrir 8 manns, auk fataskápa, en hæglega má þó bæta við tveimur rekkjum ef þörf krefur. Að aftan er íbúð yfirmanna með 4 rekkjum. Er þaðan innangengt í vélarúm og upp í stýrishús eða eldhús. Báturinn er allur raflýstur. Báturinn er allur byggður úr eik og fyrirkomulag allt og frágangur sérstaklega snyrtilegt, enda ber allur báturinn þess greinilega merki, að allir aðilar hafa viljað gera hann sem bezt úr garði, og ekkert til hans sparað. 

Sjómannablaðið Víkingur. 3 tbl. 1 mars 1943.



Flettingar í dag: 1928
Gestir í dag: 261
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 740580
Samtals gestir: 55851
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 16:54:30