25.06.2019 19:45

B.v. Freyr RE 1. TFXO.

Togarinn Freyr RE 1 var smíðaður hjá A.G. Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1960 fyrir Ísbjörninn hf. í Reykjavík. 987 brl. 2.300 ha. Werkspoor vél, 1.800 Kw. 67,61 x 10,33 x 4,85 m. Kom togarinn til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur í fyrsta sinn hinn 24 ágúst sama ár. Skipið var selt 2 september 1963, Ross Trawler Ltd í Grimsby, fékk nafnið Ross Revenge GY 718. Togarinn kom nokkuð við sögu í þorskastríðunum á 8 áratugnum og þótti nokkuð skæður. Skipstjóri á honum var lengi vel Johnny Meadows. Skipið var selt í maí 1983, Seamore Company í Liechtenstein (Ernst Kunz), og sama dag skráð í eigu Grothan Steamship Line S.A í Panama sem einnig átti Radio Caroline útvarpsstöðina. Skipið lá lengi í Kentish Knock flóanum út af ánni Times. Þessi útvarpsstöð var starfrækt í skipinu til ársins 1991. Eftir það var togaranum komið fyrir í Tilbury Dock, nærri Essex. Skipið var gert upp þar á árunum 2004-06, vélin, (sama) og vistarverur og annað innandyra tekið í gegn. Ross Revenge liggur nú við múrningu á Blackwater Estuary flóa við Bradwell í Essex á Englandi og er safn um sögu útvarpsstöðvarinnar Radio Caroline.


Togarinn Freyr RE 1 í Reykjavíkurhöfn með 820 tonn af síld sem lestuð var á Seyðisfirði.                                                            (C) Ari Kárason.

Nýr 1000 lesta togari bætist í flotann

"Freyr" RE 1 kom til Reykjavíkur í gær

Í gær bættist nýr 1000 tonna togari við togaraflota okkar. Er það b.v. Freyr RE 1, eign fyrirtækisins Ísbjörninn hf. (Ingvar Vilhjálmsson). Skipið er smíðað hjá A. G. Weser Werk Seebeek í Bremerhaven og var afhent hinn 19. þ.m. Freyr er stærsti togari landsins, sem smíðaður hefir verið til þessa, 987 brúttólestir. Lengdin er 210 fet og breidd 33 fet. Aðalvélin er "Werkspoor" diesel-vél, 2.300 hestöfl við 280 sn. Vélin er tengd við skiptiskrúfu. Í stjórnkassa í stýrishúsi, þar sem mörg stjórntæki hafa verið sambyggð, er hægt að stjórna skiptiskrúfunni og einnig er þaðan hægt að aftengja skrúfuna frá aðalvélinni. Hjálparvélar eru þrjár.
Togarinn er búinn öllum nýjustu mælitækjum, m.a. djúpmælir fyrir togvörpu, sem er alger nýjung hér á landi. Mælir þessi er til þess að sjá hvernig varpan fer í sjónum og hvort fiskur er fyrir framan hana. Það má einnig telja til nýjunga að skipið er ekki með lifrarbræðslu og mun fyrsti togarinn, sem ekki hafir slíkan búnað. Þetta stafar af því að til fellur heldur lítil lifur um borð í togurunum og oft engin, t.d. er þeir eru á karfaveiðum. Sparar þetta lifrarbræðslumann um borð og verður hún unnin í landi. Allur er frágangur skipsins vandaður og fullkominn. Reynsluferð var farin 19. þ. m. og reyndist hraðinn vera 16,1 sjómíla. Skipstjóri á skipinu er Guðni Sigurðsson er var á Ask, stýrimaður Guðmundur Guðlaugsson og 1. vélstjóri Aðalsteinn Jónsson. Samningar að smíði skipsins voru undirritaðir af Ingvari Vilhjálmssyni útgerðarmanni 1. ágúst sl. ár, en eftirlit með verklýsingu og samningum höfðu þeir Hjálmar Bárðarson, skipaskoðunarstjóri og Erlingur Þorkelsson, vélfræðingur.

Morgunblaðið. 25 ágúst 1960.


Togarinn Freyr RE 1 við komuna til landsins 24 ágúst 1960.                            Mynd úr safni mínu.


B.v. Freyr RE 1.                                                                               Úr safni Tryggva Sigurðssonar.


Ross Revenge GY 718 í höfn í Grimsby.                                                               (C) James Cullen.


Ross Revenge sem útvarpsstöðin Radio Caroline.                                  (C) Radio Caroline project.


B.v. Freyr RE 1. Líkan.                                                                              (C) Þórhallur S Gjöveraa.


B.v. Ross Revenge GY 718. Málverk.                                                                  (C) Steve Farrow.

    Freyr á að heita Ross Revenge

Í gærdag var gengið frá kaupum á togaranum Frey. Kaupandinn er Ross-útgerðarfélagið í Grimsby, en forstjóri þess, John Ross, kom hingað til lands þessara erinda. Blaðamaður Morgunblaðsins hitti í gær þá Ingvar Vilhjálmsson, fyrrverandi eiganda Freys, John Ross og dr. Magnús Z. Sigurðsson, sem hafði milligöngu um kaupin, á Ingólfsgarði.
Þetta verður stærsti togari í Bretlandi, af venjulegri gerð, segir Ross. Aðeins skuttogararnir eru stærri. - Hve marga togara á Ross hringurinn? - Þeir eru um 60. Auk þess eru 5 í smíðum, þar af 2 skuttogarar. - Hver er reynsla ykkar af skuttogurum - Skuttogarar eru miklu dýrari en venjulegir togarar. Þeir eru hentugri, þegar um verksmiðjuskip er að ræða, t. d. þegar aflinn er frystur um borð. - Margir ráðlögðu mér að kaupa heldur skuttogara í stað Freys, segir Ingvar. - Freyr er byggður 1959, en um það leyti smíðuðu Þjóðverjar fjölda af skuttogurum. Þeir reyndust illa og eru reknir með tapi. Ástæðan fyrir því að tap hefur orðið á Frey er aðeins skortur á markaði. Ef keyptur hefði verið skuttogari í hans stað, hefði tapið orðið enn meira, eða jafnhátt mismuni á kaupverði.
- Hafið þér séð nokkra togara að veiðum hér? - Já, ég flaug í lítilli flugvél yfir miðin fyrir norðan land. Þar sá ég um 25 togara að veiðum. Fjórir þeirra voru frá okkur. - Hvaða nafn fær Freyr? - Hann hlýtur nafnið Ross Revenge (hefnd). En þið megið ekki halda að það sé táknræn nafngift. Allir stórir togarar í Bretlandi eru skírðir eftir herskipum.
Fyrsta Revenge barðist við spænskar freygátur á 16. öld undir stjórn Collingwood, aðmíráls. - Á hvaða mið mun Ross Revenge sækja? - Grænlandsmið fyrst um sinn. Skipshöfnin kemur til Vestmannaeyja annað kvöld með einum togara okkar. Á fimmtudag mun skipið láta úr höfn og sigla til Grimsby.

Morgunblaðið. 3 september 1963.


Flettingar í dag: 1007
Gestir í dag: 84
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 725539
Samtals gestir: 53820
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 23:02:51