07.07.2019 12:07

1567. Hólmatindur SU 220. TFAJ.

Skuttogarinn Hólmatindur SU 220 var smíðaður hjá Stocznia im. Komuny Pariskiej, Shipyard í Gdynia í Póllandi árið 1974. 499 brl. 2.002 ha. Crepelle vél, 1.472 Kw. Hét áður Georges Cadoudal LO 244-737 og var í eigu Fransks útgerðarfélags í Loriente í Frakklandi. Smíðanúmer B 423 / 20. Seldur Hraðfrystihúsi Eskifjarðar hf. í september 1980. Togarinn var seldur í september 2001, Seaflower Whitefish í Lutertiz í Namibíu, sama nafn. Ný vél (2003-04) stærð og gerð óþekkt. Sökk í höfninni í Walvis Bay í Namibíu í júlí árið 2008. Held að hann hafi verið talinn ónýtur og endað í brotajárni árið 2010.


1567. Hólmatindur SU 220 á heimleið úr smugunni haustið 1993.      (C) Kristmundur Þorleifsson.

    Nýr Hólmatindur til Eskifjarðar

Skuttogarinn Hólmatindur SU 220 sigldi fánum skreyttur inn Eskifjörð undir kvöld á mánudag og lagðist að bryggju um klukkan 21. Skipið er keypt frá Frakklandi og kemur í stað eldri skuttogara með sama nafni, sem frönsku útgerðarmennirnir tóku upp í við skiptin. Hólmatindur er eign Hraðfrystihúss Eskifjarðar og fer væntanlega á veiðar um miðjan næsta mánuð, en í dag eða á morgun heldur Hólmatindur til Akureyrar þar sem nokkrar breytingar verða gerðar á skipinu, m.a. á lestum þess vegna kassafisks.
Eskfirðingar áttu á tímabili í erfiðleikum með að fá fyrirgreiðslu vegna þessara skipaskipta, en í byrjun júlí veitti Fiskveiðasjóður sérstaka heimild til kaupanna. Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði Aðalsteinn Jónsson, forstjóri Hraðfrystihúss Eskifjarðar, að nú skipti mestu máli að hið glæsilega skip væri komið, en á sínum tíma hefði þetta verið erfitt mál. "Maður vissi aldrei hvar maður var staddur í kerfinu eða hvar maður hafði verið stoppaður í kerfinu," sagði Aðalsteinn. Gamli Hólmatindur er 13 ára gamalt skip og mun minna en nýja skipið eða um 350 lestir.
Nýi Hólmatindur er smíðaður í Gdynia í Póllandi árið 1974 fyrir útgerðarmenn í Loriente í Frakklandi og er rétt innan við 500 lestir. Aðspurður um kaupverð nýja skipsins sagði Aðalsteinn, að það væri um einn milljarður að meðtöldum kostnaði við breytingarnar á Akureyri, en áætlað er að þær kosti um 150 milljónir og taki um mánuð. Gamla skipið var tekið upp í við kaupin og fékkst upp undir helmingur kaupverðsins fyrir gamla Hólmatind, að sögn Aðalsteins Jónssonar. Hólmatindur kom við í Grimsby í Englandi og Bodö í Noregi á leiðinni til Eskifjarðar, en veiðarfæri og kassar voru teknir um borð á þessum stöðum. Skipstjóri á Hólmatindi er Árbjörn Magnússon, Sturlaugur Stefánsson er 1. stýrimaður og Björgólfur Lárusson 1. vélstjóri.
Árbjörn sagði í gær, að sú litla reynsla sem fengizt hefði af skipinu til þessa lofaði góðu um framhaldið. "Þetta er mikið og gott skip og munurinn gífurlegur frá því sem var á gamla Tindinum," sagði Árbjörn. Hólmatindur er skuttogari af minni gerðinni, skipið er 50 metra langt, með 2.000 hestafla aðalvél og búið flestum fullkomnustu og algengustu tækjum, sem eru um borð í slíkum skipum.

Morgunblaðið. 10 september 1980.


Georges Cadoudal LO 244-737. Líkan.                                                           Mynd úr safni mínu.


1567. Hólmatindur SU 220 á sjómannadag á Eskifirði.                                   (C) Bjarni Sveinsson.

            Hólmatindur SU 220

8. september s.l. kom skuttogarinn Hólmatindur SU-220 í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Eskifjarðar. Skuttogari þessi, sem áður hét Georges Cadoudal, er keyptur notaður frá Frakklandi, en er byggður í Gdynia í Póllandi árið 1974 hjá skipasmíðastöðinni Stocznia im. Komuny Paryskiej, Svonefnd B-423 gerð. Þess má geta að umrædd stöð hefur smíðað 10 skuttogara fyrir íslendinga, en auk þess hafa áður verið keyptir fimm skuttograr til landsins notaðir, sem smíðaðir eru hjá umræddri stöð. Er þetta því 16. skuttogarinn í eigu landsmanna frá"Stocznia im. Komuny"í Gdynia. Umrodd skuttogaragerð, B-423, er þekkt í Frakkandi og smíðuðu Pólverjar 23 togara af þeirri gerð fyrir Frakka á árunum 1971-1976.
Eftir að skipið kom til landsins voru gerða rýmsar breytingar á því hjá Slippstöðinni h/f á Akureyri og lauk þeim breytingum í byrju desember s.l. Þessar breytingar voru m.a. á fyrirkomulagi togþilfars fyrirkomulagi og búnaði í lest og á vinnuþilfari, settur í skipið búnaður til svartolíubrennslu, auk hjálparvindu og tækja í brú, o.fl. Skipið moldist áður 582 brl, en er nú mælt 499 brl. Miðað við margfeldi aðalmála er Hólmatindur einn stærsti skuttogarinn í hópi minni skuttogara.
Mesta lengd 54.28 m.
Lengd milli lóðlína 46.20 m.
Breidd 11 m.
Dýpt að efra þilfari 7.00 / 7.80 m.
Dýpt að neðra þilfari 4.70 / 5.20 m.
Eiginþyngd 830 tonn.
Særými (djúprista 4.65 m) 1.236 tonn.
Burðargeta (djúprista 4.65 m) 406 tonn.
Lestarrými 480 m3.
Brennsluolíugeymar 234 m3.
Ferskvatnsgeymar 33 m3.
Sjókjölfestugeymar 68 m3.
Ganghraði 14 sjómílur.
Rúmlestatala 499 brl.
Skipaskrárnúmer 1567.

Ægir. 2 tbl. 1 febrúar 1981.


1567. Hólmatindur SU 220 á siglingu á Reyðarfirði.                   (C) Guðmundur St Valdimarsson.

       Hólmatindur SU til Namibíu

Hólmatindur SU, ísfisktogari Hraðfrystihúss Eskifjarðar hf., sigldi út Eskifjörð í síðasta sinn í gær. Skipið hefur verið selt til Namibíu, en fer í slipp á Akureyri áður en það siglir suður um höf. Hraðfrystihús Eskifjarðar keypti skipið frá Frakklandi 1980, en það var smíðað í Póllandi 1974. Hólmatindur hefur borið um 60 þúsund tonn af bolfiski á land á þessum rúmlega 20 árum sem hann hefur þjónað Eskfirðingum. Tveir skipverjar af upphaflegri áhöfn eru enn um borð, skipstjórinn Árbjörn Magnússon og Björgólfur Lárusson yfirvélstjóri. Áhöfnin á Hólmatindi fer yfir á Hólmanes SU, sem var lagt í nóvember í fyrra. Upphaflega átti að selja Hólmanes en betur gekk að selja Hólmatind og því verður gert út á Hólmanes, nú þegar Hólmatindur er farinn. Blíðskaparveður var á Eskifirði í gær þegar skipið lét úr höfn. Skipsflautur voru þeyttar við brottförina, svona rétt til að kveðja heimabyggðina.

Morgunblaðið. 5 september 2001.


.



Flettingar í dag: 1007
Gestir í dag: 84
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 725539
Samtals gestir: 53820
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 23:02:51