17.07.2019 11:13

B. v. Garðar GK 25. LBJG / TFCD.

 Botnvörpungurinn Garðar GK 25 var smíðaður hjá Smith´s Dock Co Ltd í South Bank í Middlesbrough á Englandi árið 1930 fyrir Einar Þorgilsson útgerðarmann og syni hans, Ólaf og Þorgils í Hafnarfirði. 462 brl. 860 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 918. Skipstjóri á Garðari var Sigurjón Einarsson sem ætíð var í fremstu röð aflamanna og brautryðjandi ýmissa nýjunga og gætinn skipstjórnarmaður. Garðar var fyrsti togarinn með dýptarmæli sem þá var neistamælir. Örlög Garðars urðu dapurleg. Hann var sigldur niður undan ströndum Skotlands 21 maí árið 1943 þegar hann var á leið til Englands í söluferð. 3 skipverjar fórust en 10 björguðust í skipsbát og var bjargað þaðan um borð í árekstrarskipið sem var Miguel de Larrinaga, 5.400 tonna kaupskip frá Liverpool.


B.v. Garðar GK 25 með fullfermi af síld á Reykjarfirði.                                  (C) Sigurjón Vigfússon.

             B.v. Garðar GK 25

Hinn 24. ágúst þ. á. kom nýr togari til Hafnarfjarðar. Heitir skipið »Garðar« og er eigandi kaupmaður Einar Þorgilsson. Skipið er smíðað af Smiths Dock Co. Ltd í Middlesborough. Það er 450,66 brúttó rúmlestir.
Lengd 155 ensk fet.
Breidd 26 - -
Dýpt 15 - -
Það er stærsti togari á landinu. Hásetaklefi er mjög rúmgóður, bjartur og vel loftræstur; eru í honum 27 hvílur, 16 fataskápar, 3 þvottaskálar fyrir háseta ásamt 2 speglum. Undir hvalbak eru 2 skápar fyrir hlífðarföt háseta. Miðskips er skipstjóraherbergi með baðklefa og salerni. Aftan við stýrishúsið er loftskeytaklefi og miðunarstöð og í stýrishúsinu er dýptarmælir (Echo Sounder). Káeta er aftur í og þar eru hvílur fyrir 4 menn, herbergi fyrsta vélstjóra fyrsta stýrimanns og tveggja kyndara og svo búrið. Í káetu er þvottaskál fyrir þá, sem þar búa, og á skipinu eru þrjú salerni. Borðsalur er á þilfari fyrir aftan eldhúsið. Lifrarbroðsluhúsið er allt úr járni, sambyggt skipinu. Allur útbúnaður á þilfari er ágætur. Vélin er 860 hestöfl, 15 V X 25" X 42"-27". Ketillinn er með yfirhitun og prýðilega frá öllu gengið. Í skipinu eru 2 ljósavélar, 5 og 2,5 K.W. Legufæri eru miklu öflugri en almennt eru á togurum. Þetta er hin helzta lýsing á þessu vandaða skipi. Í blaði hefir þess verið getið, að skipið hafi kostað hátt á 600 þúsund krónur, segjum að það kosti tilbúið á veiðar, 600 þús. kr., er þá verð hverrar brúttó smálestar í því, 1333 kr. Sama hlutfall kemur fram á 24 smálesta nýjum mótorbát, sem kostar 32 þúsund krónur, þar kostar einnig hver smál., 1333 kr.; sýnir það, að eftir því, sem nýsmíðuð skip eru minni, eftir því verður hver brútto smálest dýrari. 

Ægir. 8 tbl. 1 ágúst 1930.


B.v. Garðar GK 25 í reynslusiglingu.                                                             (C) Smith's Dock Co Ltd.


B.v. Garðar GK 25 á veiðum.                                                                     (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B.v. Garðar GK 25.                                                                                 Málverk Ketils B Bjarnasonar.

        Togarinn "Garðar" sekkur
                Þrír menn fórust

Togarinn Garðar frá Hafnarfirði varð fyrir árekstri í þoku við Skotlandsstrendur s.l. föstudag um hádegi og sökk. Þrír menn af 13, sem á skipinu voru, fórust. Þeir sem fórust voru:
Oddur Guðmundsson, Smyrilsveg 22, Reykjavík. Hann var 1. vjelstjóri skipsins. Kvæntur maður.
Alfreð Stefánsson, kyndari, Kirkjuveg 5, Hafnarfirði. Kvæntur og átti 2 börn.
Ármann Óskar Markússon, háseti, frá Þykkvabæ í Rangárvallasýslu. Ókvæntur.
Hinir tíu, sem af komust, eru allir komnir til Aberdeen og líður þeim vel. Ræðismaður Íslands í Edinborg, mun vera kominn til Aberdeen til að aðstoða þá fjelaga. Fregnin um þennan sorglega atburð barst utanríkisráðuneytinu í gærkvöldi frá Pjetri Benediktssyni sendiherra í London. Var sagt í skeytinu að skipið hefði sokkið á 1 og ½ mínútu. Slysið vildi til nálægt Aberdeen.
B.v. Garðar var stærsta og nýjasta skip íslenska togaraflotans. Togarinn Garðar var byggður árið 1930  og því yngsti togarinn í flota okkar.
Garðar var 462 brúttósmálestir að stærð. Eigendur Garðars voru Einar Þorgilsson & Co. í Hafnarfirði. Frá því styrjöldin hófst hafa íslendingar þá misst 6 af togurum sínum,: Reykjaborg, Braga, Sviða, Jón Ólafsson, Gullfoss og nú Garðar.
Árið 1939 áttu Íslendingar 38 togara.

Morgunblaðið. 23 maí 1943.


B.v. Garðar GK 25 á síldveiðum.                                                                (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B.v. Garðar GK 25 með fullfermi af síld á Reykjarfirði á Ströndum.                  (C) Sigurjón Vigfússon.


Ásiglingarskipið Miguel de Larrinaga, 5.400 lesta flutningaskip frá Liverpool.  Ljósmyndari óþekktur.

            Þegar Garðar sökk
   
Frásögn Hauks Erlendssonar                  skipverja á Garðari 

Ferðin yfir hafið hafði gengið að óskum og vorum við komnir að strönd Skotlands, ásamt samfylgdarskipum okkar tveimur. Eins og gengur og gerist var verið að áætla áframhald ferðarinnar, hvenær við yrðum, að öllu forfallalausu, komnir á þennan og þennan staðinn, og þá fyrst og fremst, hvort við mundum geta haldið áfram um nóttina, suðurúr, en tíminn knappur. En svo fór, og munaði þó sáralitlu, að við neyddumst til að nema staðar, leggjast og bíða næsta dags. Um kvöldið var hið fegursta veður, logn og blíða, og þótti okkur súrt í broti, að geta ekki notið slíks til áframhalds ferðarinnar, en um það tjáði ekki að fást, og tókum við því lífinu með ró. Um kvóldið settumst við nokkrir að spilum og spiluðum fram á nótt, en að því loknu fór ég upp í brú og hugðist fara að sofa. En þegar legið er fyrir föstu, í slíkri veðurblíðu og' alger kyrrð ríkir, á maður oft erfitt með að sofna, og svo var í þetta sinn, svo að mér dvaldist hjá þeim sem á verði voru í brúnni, og vorum við að rabba saman um ýms efni, og þau allsundurleit, og mun klukkan hafa verið um fjögur, er ég gekk til hvílu.


Nótinni kastað á síldartorfu.                                                                          (C) Sigurjón Vigfússon.

Ég vaknaði því seint um morguninn, og er ég vaknaði, sem mun hafa verið um kl. 11, þóttist ég þess vís, að svarta þoka mundi vera, þar eð stöðugt voru gefin merki með flautunni, með örstuttum hvíldum, og vélin gekk hægt. Mér duttu í hug bollaleggingar okkar frá deginum áður, um áframhald ferðarinnar, og að við þessar tafir mundi sú áætlun ruglast að meira eða minna leyti, og hugsaði ég nú þungt til þess að við skyldum þurfa að bíða af okkur blíðuna og bjartviðrið um nóttina, og lenda svo í þessum skratta. Lá ég alllengi, hálfvaknaður, við þessar hugsanir, og var jafnframt að hlusta eftir, hvort ekki heyrðist til annara skipa, og heyrði ég hljóðmerkin af og til, misjöfn að tónhæð og styrkleika, sem benti til þess að nokkuð væri hér um skipaferðir, enda slíks von á þessum stað. Var ég að hugsa um að fara fram í brú 1G4 og líta í kringum mig, og viðra mig eftir svefninn. Þá heyri ég gefnar snöggar fyrirskipanir í brúnni, stýrinu er snúið hart í borð, og vélsímanum hringt snöggt. Ég ætlaði að rísa upp af bekknum, sem ég lá á, en í því kvað við ógurlegt brak, skipið rykktist á stjórnborðshliðina, ég fékk högg á höfuð- ið, og yfir mig hrundi spýtnabrak og glerbrot, og tæki, sem fest voru upp á þilin í klefanum, hrundu niður á gólf.


1.600 mála síldarkast hjá Garðari GK árið 1938.                                           (C) Sigurjón Vigfússon.  

Fyrir klefanum var "draghurð", hafði hún skekkst í falsinu, og varð ekki þokað, en engin leið út nema henni væri rutt úr vegi. Sparkaði ég nú sem ég gat, tvisvar eða þrisvar í hurðina og hugðist brjóta hana út, en án árangurs. Heyrði ég að skipstjórinn var frammi í brúnni, og kallaði til hans um að hjálpa mér. Kom hann þegar að hurðinni, tók í hana, en ég sparkaði um leið, með þeim árangri, að hún hrökk út í gang, og mér opnaðist leiðin út. Beið ég því ekki boðanna, hljóp út úr brúnni og aftur að bjargflekanum, sem stóð á rennibraut aftan við reykháfinn. Þar var fyrir II. stýrimaður, ásamt fleiri skipverjum, og unnu þeir að því að losa flekann, og gekk ég í það með þeim. En er við höfðum. losað hann, gátum við ekki rennt honum fyrir borð, vegna hallans á skipinu, sem gerði það að verkum, að rennibrautin varð lárétt. Snerum við því frá flekanum og hlupum aftur á bátadekkið að bátunum. Bátamir stóðu í stólunum, en bátauglur útslegnar, og gengu menn þegar í það, að losa bátana, og settust síðan upp í þá, en þeir flutu upp er skipið sökk, án teljandi tálmana, því að svo heppilega vildi til, að það sökk jafnt, en stakkst ekki á endann.


Nokkrir skipverjar á Garðari stilltu sér upp fyrir myndatöku. Togarinn er þarna greinilega á síldveiðum. Maðurinn 2 frá hægri er Vigfús Sigurjónsson, sonur Sigurjóns skipstjóra. (C) Sigurjón Vigfússon.

Ég bjóst við að skipið mundi stingast á annanhvorn endann, og mundi því vafasamt hvernig bátunum reiddi af, og tók því þann kostinn, að kasta mér í sjóinn og synda sem lengst ég gæti frá sökkvandi skipinu, til að losna við sogið, sem myndast kynni, er það sykki. Synti ég sem mest ég mátti aftur með bóg ásiglingarskipsins, og er ég leit við, var Garðar horfinn í djúpið, en ýmislegt brak flaut á sjónum, og til allrar hamingju hafði bátunum reitt.vel af, og flutu þeir þarna á réttum kili, með fé- laga mína innanborðs. Skipverjar á ásiglingarskipinu, en það var brezkt 5400 smálesta flutningaskip, fleygðu til mín lífbeltum og öðru er ég gæti flotið á, og renndu niður til mín kaðli, til að halda mér í við skipssíðuna. En skipstjóri minn og I. stýrimaður, sem voru í öðrum bátnum, reru til mín og tóku mig upp í bátinn. Er okkur varð litið yfir í hinn bátinn og töldum þá sem í honum voru, sáum við að þrjá félaga okkar vantaði, og sló á okkur óhug. Bar nú að bát frá hinu brezka skipi, og leituðu þeir hinna söknuðu lengi, en því miður án árangurs. Fórum við nú um borð í skipið, og var mjög vel við okkur tekið.


Síld háfuð um borð í Garðar GK 25.                                                             (C) Sigurjón Vigfússon.  

Færðir úr fötum, sem blautir voru, og klæddir öðrum þurrum. Komu sér nú vel föt þau, peysur, sokkar o. fl., sem í bátunum voru, en Bretarnir létu okkur í té það sem á vantaði, en það urðu allmargar flíkur, samankomið. Af samfylgdarskipunum höfðum við misst í þokunni um morguninn, en samferða okkur höfðu verið tveir litlir brezkir togarar. Kom nú annað þessara skipa á vettvang. Höfðu menn þar um borð heyrt gnýinn er áreksturinn varð, en sáu ekki til ferða okkar vegna dimmu. Þóttust þeir vita að um árekstur væri að ræða, og ekki ólíklegt að um okkar skip væri að ræða, þar eð hljóðáttin benti til þess. Fór skipstjóri skipsins, sem á okkur sigldi, þess á leit við skipstjóra togarans, að hann tæki okkur um borð til sín, og flytti okkur til hafnar. Var það auð- sótt mál, og höfðum við síðan. skipaskifti. Var okkur vel tekið af hinum brezku stéttarbræðrum okkar, og skiluðu þeir okkur í skozka höfn, tæpum tuttugu tímum eftir að ásiglingin átti sér stað. Þar tók á móti okkur maður nokkur, Repper að nafni, prúðmenni og prýðilegur í alla staði. Kom hann okkur á gistihús, sá okkur fyrir fatnaði og gerði sér far um að okkur gæti liðið sem bezt.


Það hafa verið nokkrir pokarnir í þessu holi. Skipverjar komnir í flatningu. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.  

Gististaður okkar var að vísu ekki sem skemmtilegastur, sérstaklega þó hvað við vorum dreyfðir um húsið, en við gerðum okkur það að góðu, enda hvergi annarsstaðar heppilegri vistarverur að fá. Daginn eftir kom svo Sigursteinn Magnússon ræðismaður okkar í Edinborg, og kom hann okkur fyrir á öðrum stað, heppilegri. Við eigum, að mínu áliti, og ég býst við að ég megi mæla svo fyrir munn okkar allra, er í þessum hóp vorum, góðan fulltrúa, þar sem Sigursteinn er. Og er ekki ónýtt fyrir okkur, ekki sízt undir slíkum kringumstæðum sem þessum, að eiga slíkan hauk í horni. Ef vera kynni, að þessar línur bærust Sigursteini fyrir augu, þá vil ég hér með færa honum mínar beztu þakkir, og okkar allra, því að ég þykist þess fullviss að í því efni séu félagar mínir mér samhuga, okkar beztu þakkir til hans, fyrir framkomu hans í okkar garð. Og hafi hann samband við Mr. Repper, bið ég hann að skila slíku hinu sama til hans. Þarna dvöldum við svo í viku, nokkuð langa viku að því er okkur fannst, því hugurinn allur var fyrir löngu floginn norður yfir hafið, heim að gamla Fróni, til ástvina og ættingja.


Um borð í Garðari GK 25.                                                                                 (C) Sigurjón Vigfússon.

Við áttum að fara með fyrri samflotsskipum okkar heim, og biðum þeirra með óþreyju. Það var svo um miðnætti, við vorum allir lagstir til hvíldar, og sumir höfðu fest svefn, að okkur er tilkynnt að skipin séu komin, og bíði eftir okkur. Það voru snör handtök hjá piltum er þeir spruttu upp úr bælum og týndu á sig spjarirnar. Og eftir stuttan tíma voru allir komnir um borð, fimm í hvort skip. Þar var okkur tekið opnum örmum, og búið um okkur eftir beztu föngum. Enda leið okkur prýðilega, eftir ástæðum. Dagarnir voru að vísu langir, að okkur fannst, og fegnir vorum við er við stigum á land. Gleðin var að vísu trega blandin, heimkoman eitthvað tómleg og allmiklu öðruvísi en við höfðum hugsað okkur hana. Er við stigum upp á bryggjuna, og litum til baka, söknuðum við hins stóra, trausta og góða skips, sem við lögðum á frá landi, og sem svo oft hafði skilað okkur glöðum og vonbjörtum að landi. Það er sár söknuður að slíku. En sárast var þó, að við vorum aðeins tíu er heim komu, en þrett- án létum við frá landi. Oddur! Óskar! Alli! Ég þakka ykkur fyrir samveruna, góða viðkynningu og margar glað- ar stundir. Þið félluð fyrir föðurlandið, við störf ykkar í þágu alþjóðar. Enn hefir höggvist skarð í fylkingu okkar, þrír mætir félagar fallið. En enginn veit hver næstur fellur Hittumst heihr fyrir handan.

Sjómannablaðið Víkingur. 6-7 tbl. 1 júlí 1943.


Flettingar í dag: 1021
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 858
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 699418
Samtals gestir: 52780
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 15:50:36