21.07.2019 09:00

207. Sæfari BA 143. TFGZ.

Vélskipið Sæfari BA 143 var smíðaður í Ernst Thalmann skipasmíðastöðinni í Brandenburg í Austur-Þýskalandi árið 1960 fyrir Hraðfrystihús Tálknafjarðar hf. 101 brl. 400 ha. MWM vél. Skipið fórst um 30 sjómílur út af Kópanesi 10 janúar árið 1970 með allri áhöfn, 6 mönnum. Átakanlegt sjóslys.

Það má geta þess að systurskip Sæfara BA, Svanur ÍS 214 fórst út af Ísafjarðardjúpi 29 janúar árið áður. Áhöfninni, 6 mönnum var bjargað um borð í varðskipið Þór.


207. Sæfari BA 143.                                                      (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

        Nýr 100 lesta vélbátur til                              Tálknafjarðar

Nýr 100 lesta vélbátur, smíðaður í Austur-Þýzkalandi, kom til Tálknafjarðar í fyrradag. Báturinn heitir Sæfari BA 143 og er eigandi Hraðfrystihús Tálknfirðinga h.f. Sæfari er smíðaður í Ernst Thalmann skipasmíðastöðinni í Brandenburg í Austur-Þýzkalandi, búinn öllum nýjustu siglinga- og öryggistækjum og hinn vandaðasti. Í reynsluför gekk báturinn 11 sjómílur. Andrés Finnbogason skipstjóri í Reykjavík sigldi bátnum heim, en skipstjóri í vetur verður Magnús Guðmundsson í Tungu.

Þjóðviljinn. 20 október 1960.

Síld landað úr Sæfara BA 143.                                                                  (C) Sigurður Bergþórsson. 


Sæfari BA 143 á síldveiðum.                                                                    (C) Ragnar Þór Marínósson.

  Sæfari BA týndur með 6 mönnum

Í gærkvöld hafði ekkert spurzt til Sæfara BA-143 frá Tálknafirði þrátt fyrir víðtæka leit úr lofti, á sjó og á fjörum fyrir vestan síðan á hádegi á laugardag. Ekki var hagstætt veður til leitar í gærdag og leituðu 6 bátar á sjó og tvær flugvélar í björtu. SIF, landhelgisflugvélin hóf leit í gærmorgun en hætti henni klukkan 18.30.
Skipstjórinn á Tálknfirðingi hafði síðastur manna samband við þá bátsverja á Sæfara kl. 2.30 á laugardagsnótt. Þá voru þeir að draga línuna um 28 sjómílur norðvestur af Kópanesi í vonzkuveðri. Þungur sjór var á þessum sióðum og 8 vindstig af norðaustri, en ekki var talin ísingarhætta þar úti. Hannes Hafstein hjá Slysavarnafélagi Íslands kvað þá bátsverja hafa átt eftir að draga inn tólf bjóð og gert ráð fyrir að ljúka því verki kl 5 til 6 um morguninn. Að öllu eðlilegu hefði Sæfari átt að koma að landi á hádegi á laugardag á Tálknafirði. Þegar við vorum að athuga spjaldskrár vegna tilkynningaskyldunnar kl. 11.30 á laugardag, þá hafði Sæfari BA-143 ekki látið til sín heyra, sagði Hannes Hafstein í gær. Við höfðum samband við útgerð bátsins og kom þá í ljós að bátsins var einnig saknað þar. Kom þá ennfremur í ljós, að Tálknfirðingur hafði síðastur haft samband við Sæfara, en þessir bátar eru gerðir út af sama útgerðaraðila, það er Hraðfrystihús Tálknafjarðar h.f. Veður fór versnandi og náði veðurhæðin allt að 12 vindstigum á sunnudag og gekk veður ekki niður fyrr en í fyrrinótt. Flugvél af Keflavíkurflugvelli leitaði að bátnum á laugardag, ennfremur leitaði Sif síðdegis á laugardag á heimleið úr sjúkraflugi frá Grænlandi. Leitaði hún vestur af Bjargtöngum við erfiðar aðstæður. Þá hafa mörg skip leitað fyrir mynni Breiðafjarðar og hafði varðskipið Ægir stjórn á þeirri leit á sunnudag. Tóku þátt í þeirri leit íslenzkir og enskir togarar og stórir fiskibátar. Ennfremur leituðu  þessi skip í breiðfylkingu með 2ja til 3ja sjómílna bili á milli á 66 gráðu norðl. br. um 70 mílur frá ströndum, sigldi flotinn á 5 sjómílna hraða á klst. Í gær var leitað úr flugvélum á hafinu, einkum fyrir mynni Breiðafjarðar, en um borð í Sæfara BA-143 voru tveir gúmbátar. Björgunarsveitir úr Slysavarnafélaginu hafa leitað allt frá Barðanum milli Önundarfjarðar og Dýrafjarðar suður um alla firði að Bjargtöngum. Það eru björgunarsveitir af Rauðasandi, Patreksfirði. Bíldudal, Tálknafirði og Þingeyri. Þá leituðu bændur á Lokinhömrum á fjörum hjá sér. Hvorki tangur né tetur hefur ennþá fundizt úr bátnum.
Sæfari BA-143 er 101 rúmlest að stærð stálbátur og smíðaður árið 1960 í Brandenburg í Austur-Þýzkalandi. Það er Hraðfrystihús Tálknafjarðar sem gerir bátinn út.

Þjóðviljinn. 13 janúar 1970.


Sæfari með fullt skip af síld en nóg er eftir í nótinni.                              (C) Hallgrímur Hallgrímsson.

    Vélbáturinn Sæfari BA-143 frá                      Tálknafirði ferst

Svo sem alþjóð er nú kunnugt varð það hörmulega sjóslys aðfaranótt laugardagsins 10. janúar, að vélbáturinn Sæfari BA-143 frá Tálknafirði fórst í fiskiróðri með allri áhöfn, sex ungum og vöskum mönnum. Tekið var að óttast um bátinn á laugardagsmorgun og var þegar hafin víðtæk leit að honum, sem engan árangur bar. Sæfari hafði samband við m.b. Tálknfirðing kl. 2,30 um nóttina og var hann þá að draga línuna um 28 sjómílur í norð-vestur af Kópanesi. Átti hann eftir að draga 12 bjóð og gerði skipstjórinn ráð fyrir að verða í landi um hádegisbilið. Eftir þetta heyrðist ekkert til Sæfara. Sæfari var 100 lestir, byggður í Austur-Þýzkalandi árið 1960. Þeir sem fórust með Sæfara voru:
Hreiðar Árnason, skipstjóri, frá Bíldudal, 24 ára, ókv., en átti 1 barn.
Björn Maron Jónsson, stýrimaður, átti áður heima á Bildudal, en nýlega fluttur til Reykjavíkur með foreldrum sínum. 20 ára, ókv. barnlaus.
Gunnar Einarsson, 1. vélstjóri, frá Bíldudal, 24 ára, kvæntur en barnlaus.
Gunnar Gunnarsson, frá Eyjahólum í Mýrdal 35 ára ókvæntur.
Guðmundur Hjálmtýsson, frá Bíldudal, 18 ára, ókv. og barnlaus.
Erlendur Magnússon, 2. vélstjóri, frá Bíldudal, 20 ára, ókvæntur og barnlaus.

Vesturland. 24 janúar 1970.


Flettingar í dag: 557
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 858
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 698954
Samtals gestir: 52775
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 10:17:42