15.08.2019 18:40

1579. Gnúpur GK 11. TFAO.

Skuttogarinn Gnúpur GK 11 var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S í Flekkefjord í Noregi árið 1981 sem Guðbjörg ÍS 46 og var í eigu Hrannar hf. á Ísafirði frá 8 júlí sama ár. 484 brl. 3.203 ha. MaK vél, 2.355 Kw. Smíðanúmer 127. Skipið var lengt árið 1988, mældist þá 628 brl. Frá 27 september 1994 hét skipið Guðbjörg ÍS 460. Selt 1 desember 1994, Þorbirni hf. í Grindavík, fékk þá nafnið Gnúpur GK 11 og er gerður út frá Grindavík sem frystitogari. Fallegt skip.


1579. Gnúpur GK 11 við bryggju í Grindavík.                                             (C) Þórhallur S Gjöveraa.


1579. Guðbjörg ÍS 46.                                                                                     (C) Guðni Jónsson.

                 Guðbjörg ÍS-46

Nýr skuttogari, m/s Guðbjörg ÍS-46, bættist við fiskipastól landsmanna 5. júlí s.l, en þann dag kom skipið í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Ísafjarðar. Guðbjörg ÍS er smíðuð hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk í Flekkefjord í Noregi og er smíðanúmer 127 hjá stöðinni. Guðbjörg ÍS er smíðuð eftir teikningu frá Ankerlökken Marine A/S og er ellefti skuttogarinn sem umrædd stöð Smíðar fyrir íslendinga, en auk þess hefur stöðin séð um smíði á einum skuttogaraskrokk fyrir Slippstöðina, sem Slippstöðin lauk við frágang á og afhenti í apríl 1977 (Björgúlfur EA). Skrokkar allra þessara skuttogara eru smíðaðir hjá Kvina verft í Noregi, sem annast hefur þann þátt smíðinnar fyrir Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk.
Guðbjörg ÍS er í eigu Hrannar h/f á Ísafirði, sem átti áður skuttogara með sama nafni, og var hann smíðaður hjá sömu stöð, afhentur í mars 1974. Eldra skipið gekk upp í smíðasamning fyrir nýja skipið, en skipasmíðastöðin seldi það síðan til Reyðarfjarðar og hefur það hlotið nafnið Snæfugl SU 20. Þeir skuttogarar sem stöðin hefur áður smíðað fyrir íslendinga eru: Júlíus Geirmundsson ÍS (nú Bergvík KE), Guðbjartur ÍS, Bessi ÍS, Framnes l ÍS og Björgvin EA, systurskip, mesta lengd 46.56 m. Guðbjörg ÍS (nú Snæfugl SU), Gyllir ÍS, Ásgeir RE og Ásbjörn RE, systurskip, smíðuð eftir sömu frumteikningu, en 3.3 m. lengri en upphaflegu skipin; og Júlíus Geirmundsson ÍS, mesta lengd 53.45 m, smíðaður eftir nýrri teikningu.
Guðbjörg ÍS er í hópi stærstu skuttogara af minni gerð. Borið saman við nýja Júlíus Geirmundsson er skrokkstærð sú sama, en aðalmál önnur; er heldur lengri en hins vegar örlítið mjórri og grynnri. Fyrirkomulag í þessum tveimur skipum er mjög hliðstætt, og eru helztu frávik varðandi fyrirkomulag í hvalbak og legu bobbingarenna. Nefna má að í skipinu er aflmesta aðalvél (3200 hö), sem sett hefur verið í íslenzkt fiskiskip, miðað við nýsmíði, en vél af sömu gerð og stærð er í skuttogaranum Júní GK (eftir vélaskipti) og sama vélarafl er í nótaveiðiskipinu Eldborgu en þar eru tvær aðalvélar. Afl- og stjórnkerfi fyrir togvindur er hliðstætt og í tveimur nýjustu skuttogurunum frá innlendum stöðvum, Kolbeinsey ÞH og Ottó N Þorlákssyni RE, þ.e. jafnstraumsmótorar fyrir togvindur fá afl frá riðstraumskerfi skipsins í gegnum thyristora til afriðunar og vindur búnar átaksjöfnunarbúnaði. Þá má nefna að í skipinu er afgasketill, sem er nýjung í nýjum fiskiskipum hérlendis (er í einum skuttogara sem keyptur var notaður til landsins); lestarfrágangur fyrir kassa með öðrum hætti en tíðkast hefur í skuttogurum; og af búnaði í brú má nefna tvö sjálfstæð netsjártæki með tilheyrandi kapalvindum; þrjár ratsjár, þar af ein með ratsjárskermi á bipodmastri, og stuttbylgjustöð.
Skipstjóri á Guðbjörgu ÍS er Ásgeir Guðbjartsson og 1. vélstjóri Steinþór Steinþórsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Guðmundur Guðmundsson.
Mesta lengd 55.40 m.
Lengd milli lóðlína 49.50 m.
Breidd 10.20 m.
Dýpt að efra þilfari 6.75 m.
Dýpt að neðraþilfari 4.45 m.
Eiginþyngd 898 tonn.
Særými (djúprista 4.40 m) 1328 tonn.
Burðargeta (djúprista 4.40 m) 430 tonn.
Lestarrými 600 m3.
Lifrargeymir 8 m3.
Brennsluolíugeymar (svartolia) 103 m3.
Brennsluolíugeymar (dieselolía) 33 m3.
Daggeymar 8 m3.
Sjókjölfestugeymir (stafnhylki) 30 m3.
Ferskvatnsgeymar 74 m3.
Ganghraði (reynslusigl.-afl 3200 hö) 15.0 sjómílur.
Rúmlestatala 484 brl.
Skipaskrárnúmer 1579.

Ægir. 8 tbl. 1 ágúst 1981.


Fyrirkomulagsteikning af Guðbjörgu ÍS 46 / Gnúp GK 11.  Mynd úr Ægi.


1579. Gnúpur GK 11 í Reykjavíkurhöfn 7 júní 2012 þegar sjómenn mótmæltu skiptahlutfalli á afla. Þennan dag var þröngt á þingi í Reykjavíkurhöfn.       (C) Þórhallur S Gjöveraa.


1579. Gnúpur GK 11 nýmálaður í Hafnarfjarðarhöfn.                       (C) Þórhallur S Gjöveraa.


1579. Gnúpur GK 11 í höfn í Grindavík.                                                    (C) Þórhallur S Gjöveraa.


1579. Guðbjörg ÍS 46. Líkan af skipinu fyrir lengingu.                               (C) Þórhallur S Gjöveraa.

     Gamla Guggan til Grindavíkur 

"Togarinn verður gerður út sem frystitogari og mun veiða það sem hann hefur heimildir til. Við munum stíla á úthafskarfa og síðan rækju. Hann hefur talsverðan rækjukvóta og búið er að kaupa rækjuvinnslulínu í hann," sagði Eiríkur Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar hf. í Grindavík, við DV. Fyrirtækið hefur keypt fiskiskip, sem kom til heimahafnar á dögunum og er stærsta skip sem komið hefur í Grindavíkurhöfn. Hefur það fengið nafnið Gnúpur en var áður Guðbjörg ÍS 46 frá Ísafirði, 594 tonn. Var skipið keypt af skipasmíðastöð í Flekkefjord í Noregi, sett þar upp í nýjustu Gugguna. Þorbjörn hf. setti sinn gamla Gnúp GK 436, sem einnig var áður Guðbjörg ÍS, upp í kaupverðið. Nýi Gnúpur mun halda til veiða strax eftir áramót en nú er verið að setja í hann fyrstitæki fyrir bolfisk, karfa, grálúðu og rækju. Kvótinn er 2100 þorskígildi. Skipið var smíðað 1981 og verða 25 í áhöfn. Þorbjörn á einn frystitogara fyrir, Hrafn Sveinbjarnarson, sem landar í Hafnarfirði en hann kemst ekki inn í Grindavíkurhöfn. Heildarkvóti fyrirtækisins er 3700 þorskígildi.

DV. 16 desember 1994.


 
Flettingar í dag: 627
Gestir í dag: 52
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 725159
Samtals gestir: 53788
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 14:19:46