08.11.2020 06:33

B.v. Belgaum RE 161. LCGR / TFNC.

Botnvörpungurinn Belgaum RE 161 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1916 fyrir Belgaumsfélagið (Þórarinn Olgeirsson og fl.) í Reykjavík. 337 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 42,70 x 7,31 x 4,00 m. Smíðanúmer 649. Skipið var tekið nýsmíðað í þjónustu breska sjóhersins sem tundurduflaslæðari og var ekki afhent eigendum sínum fyrr en í ársbyrjun 1919. Skipið var umskráð til Hafnarfjarðar 30 október 1924 og bar þá skráningarnúmerið GK 161. Selt 25 júlí 1925, hf. Fylki (Aðalsteinn Pálsson skipstjóri og fl.) í Reykjavík, hét þá Belgaum RE 153. Selt 16 nóvember 1951, Höfðaborg hf. Á Skagaströnd, hét Höfðaborg HU 10. Selt í brotajárn og tekið af skrá 23 maí árið 1955.

Nafnið "Belgaum" er sótt til borgar í Bombay héraði á Indlandi.


B.v. Belgaum RE 161 á sundunum. Engey í baksýn.                              (C)  Tóbakseinkasala ríkisins.
 

Botnvörpungurinn Belgaum RE 161

Belgaum, hinn nýi botnvörpungur Jes Zimsen o. fl., kom í gær frá Englandi. Skipstjóri er Þórarinn Olgeirsson, skipshöfnin íslensk. Samkvæmt nýjustu sóttvarnarráðstöfunum var skipið sett í sóttkví til morguns.

Vísir. 8 apríl 1919.


B.v. Belgaum RE 153 á veiðum. Sennilega er það Aðalsteinn Pálsson skipstjóri sem stendur á brúarvængnum. Skipverjar gefa sér tíma til að líta upp frá vinnu sinni.  Ljósmyndari óþekktur.
 

              Nýtt fiskveiðafélag
                Belgaum seldur

Menn mun reka minni til þess, að í vor var botnvörpuskipið Belgaum auglýst til sölu. Mun ýmsa hafa langað til þess að eignast það og nú fyrir fáum dögum var skipið selt. Er það nýtt fiskveiðahlutafélag, sem »Fylkir« nefnist, að keypt hefir skipið, og tekur Aðalsteinn Pálsson, sem áður var skipstjóri á »Kára Sölmundarsyni, við skipstjórn á »Belgaum«. Stjórn þessa nýja félags skipa þeir Páll Bjarnason lögfræðingur (formaður), Páll Ólafsson frá Hjarðarholti (framkvæmdastjóri) og Aðalsteinn Pálsson skipstjóri. Eigi verður breytt um nafn á skipinu og heitir það áfram »Belgaum«. Hlutafélagið »Belgaum« er nú að láta smíða nýtt skip í Englandi, talsvert stærra en »Belgaum«, eða á stærð við »Skallagrím«. Verður Þórarinn Olgeirsson skipstjóri á því skipi.

Dagblað. 28 júlí 1925.


B.v. Belgaum RE 153 á toginu.                                 (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 

                    Á togara

Í janúar 1929 skall á mikið og hart togaraverkfall. Þá var Aðalsteinn Pálsson skipstjóri á togaranum Belgaum, RE 153, sem Kárafélagið gerði út. Þetta skip var smíðað fyrir hinn kunna aflamann og skipstjóra Þórarinn Olgeirsson Í Bretandi 1916, en Englendingar tóku það til afnota í stríðinu, svo að íslenzku eigendurnir fengu það ekki afhent fyrr en í stríðslok. Það var 337 lestir og nefnt eftir borg á Vestur-Indlandi. Það var gömul hjátrú, að happasælt væri að hafa sjö stafi í skipsnafni. Aðalsteinn tók mig á togarann eftir verkfallið, í byrjun vetrarvertíðar 1929. Ég fór þrjár ferðir á Belgaum. Minnisstæðast var, þegar við veiddum í Kolluálnum út af Snæfellsnesi. Við breiddum þá yfir nafn og númer. Þetta var í landheigi. Vökulögin voru gengin í gildi, svo að menn áttu rétt á átta tíma hvíld á sólarhring. Aflinn var mikill, svo að skipstjórinn lét okkur standa, þótt við ættum að vera í koju, lét okkur hafa eina frívakt af hverjum fjórum, en við áttum rétt á einni af hverjum þremur. Aðalsteinn virtist hörkutól. Af brúarvængnum komu stundum ferlegar fléttur langra blótsyrða. Hann var trúlega vænsti maður, en hann var áreiðanlega undir miklu álagi. Fyrst flatti ég, síðan bar ég lifrina í körfum og drakk volgt lýsið hjá bræðslumanninum. Seinast var ég látinn í pondið.

Sjómannablaðið Víkingur. 4 tbl. 1 desember 1996.
Úr bókinni, Benjamín H J Eiríksson. Í stormum sinna tíða.



B.v. Höfðaborg HU 10 á leið inn til Reykhjavíkurhafnar.  (C) Snorri Snorrason.
 

      Belgaum skírður Höfðaborg

Togarinn Belgaum hefir nýlega skipt um eigendur. Hefir hann verið seldur til Skagafjarðar og heitir nú "Höfðaborg". Belgaum er sem stendur í slipp, en fer að aðgerð lokinni til hinna nýju heimkynna sinna á Norðurlandi. Í slipp eru nú auk hans Pólstjarnan og Þyrill.

Vísir. 9 október 1951.

Flettingar í dag: 734
Gestir í dag: 120
Flettingar í gær: 898
Gestir í gær: 185
Samtals flettingar: 754384
Samtals gestir: 57940
Tölur uppfærðar: 18.5.2024 17:07:45