22.11.2020 09:35

Nýsköpunartogarinn Goðanes NK 105 í Færeyingahöfn á Vestur Grænlandi.

Þegar fór að sverfa að íslensku togurunum á heimamiðum vegna aflabrests á árunum eftir 1950, fóru útgerðir þeirra að leita nýrra miða. Gengdarlaus sókn okkar og erlendra þjóða á fiskimiðin við Ísland hafði gengið það nærri fiskistofnunum að jafnvel var talað um ördeyðu. Það var svo árið 1952-53, að Bæjarútgerðartogarinn Jón Þorláksson RE 204, fann ágæt karfamið við suðaustur Grænland, svonefnd "Jónsmið", sem gáfu vel af sér. Það var ekkert nýtt á þessum árum að íslensku togararnir sóttu á fjarlæg mið. Nýsköpunartogarinn Akurey RE 95 fór í ágústmánuði árið 1947 á miðin við v-Grænland og aflaði ágætlega. Mig minnir að togarinn Egill rauði NK 104 hafi farið sína fyrstu veiðiferð í Hvítahaf árið 1947 og eflaust hafa fleiri togarar gert það einnig. Í grein hér að neðan er sagt frá stofnun félags sem íslenskir útgerðarmenn og danir stóðu að árið 1953, það hét Davidsstrait. Hvort það hafi orðið til þess að íslenskir togarar fengu afgreiðslu í Grænlenskri höfn, veit ég ekki. En þetta ár sóttu togararnir stíft á miðin við Grænland hvort sem var veitt í ís eða aflinn var saltaður um borð. Það var auðvitað frumskilyrði að togararnir fengju einhverja afgreiðslu í Grænlandi, sérstaklega þegar veitt var í salt og veiðiferðirnar tóku þá allt að 3 mánuðum, að þeir gætu leitað hafnar til að sækja vatn og vistir, brennsluolíu og fengið viðgerð á því sem bilaði. 
Myndirnar hér að neðan eru úr safni Kjartans Traustasonar á Húsavík og sýna togarann Goðanes NK við bryggju í Færeyingahöfn á Grænlandi.


B.v. Goðanes NK 105 við bryggju í Færeyingahöfn. Veit ekki hvaða skip liggur utan á togaranum, gæti verið norskt selveiðiskip.  Úr safni Kjartans Traustasonar.


Um borð í Goðanesi NK. Hluti áhafnar togarans stillir sér upp í myndatöku fremst á bakka skipsins. Maðurinn lengst til vinstri gæti verið Sveinn Þórðarson frá Skógum í Mjóafirði. hina þekki ég ekki. Tveir öftustu eru sennilega Færeyingar. Úr safni Kjartans Traustasonar.


B.v. Goðanes NK 105 á leið inn til Færeyingahafnar. Úr safni Kjartans Traustasonar.

    Íslenskir togarar munu fá aðstöðu                                 í Grænlandi

Íslenskt-danskt félag stofnað og ætlar að
                koma upp birgðastöð

Öruggt má telja, að nú hafi tekizt að skapa íslenzkum togurum frumskilyrði til að geta stundað veiðar á Grænlandsmiðum. Togaraútgerðarmenn hafa fyrir skömmu stofnað félag ásamt dönskum málaflutningsmanni, en félag þetta mun reisa bækistöð etnhversstaðar á vesturströnd Grænlands.
Hafsteinn Bergþórsson, framkvæmdastjóri Bæjarútgerðar Reykjavíkur átti í samningum um félagsstofnunina fyrir hönd togaraútgerðarmanna og er hann fulltrúi þeirra í stjórn félagsins. Það hlaut nafnið Davidsstrait og málaflutningsmaðurinn danski sem á hlutdeild í félaginu er Nils Arup, sonur prófessors Arups.
í gær átti Mbl. samtal við Hafstein Bergþórsson, framkvæmdastjóra og skýrði hann svo frá, að stjórn hins nýstofnaða félags hefði sótt um leyfi til Grænlandsstjórnarinnar dönsku, um að fá leyfi til að setja upp bækistöð fyrir togarana á vesturströnu Grænlands. Í Færeyingahöfn er starfandi norskt-færeyskt-danskt félag, sem á þar bryggjur og birgðastöð, þar sem skip frá þessum löndum geta fengið salt, veiðarfæri, matvæli og yfirleitt hverskonar nauðsynjar til veiða. Það er hugmyndin að hið nýstofnaða félag okkar starfi á svipaðan hátt, sagði Hafsteinn. Það kostar stórfé að koma slíkri bækistöð upp og öll skilyrði til mannvirkjagerðar eru þar heldur erfið. Í sumar hafa Grænlandsmiðaveiðar ekki verið stundað mikið af íslenskum togurum og veldur þar mestu um, að markaður er mjög lítill fyrir saltaðan smáfisk, en það er einmitt sú fisktegundin, sem veiðist mest á miðunum þar. Þá hefur togurum verið neitað um salt í Færeyingahöfn, nema togurum Bæjarútgerðarinnar og Patreksfjarðartogurum. Hafa aðrir togarar, sem þangað hafa farið til veiða, orðið að taka salt hér heima eftir því sem mögulegt hefur verið, saltað upp úr því og haldið síðan heim með aflann.
Að lokum sagði Hafsteinn Bergþórsson framkvæmdastjóri, að með vori verði væntanlega hægt að hefja byggingaframkvæmdir við birgðastöðina, því ef íslenskir togarar eiga að sækja á Grænlandsmið þá er slík bækistöð frumskilyrði fyrir allri útgerð þar.

Morgunblaðið. 23 ágúst 1953.


Flettingar í dag: 685
Gestir í dag: 103
Flettingar í gær: 898
Gestir í gær: 185
Samtals flettingar: 754335
Samtals gestir: 57923
Tölur uppfærðar: 18.5.2024 15:29:41