29.11.2020 10:09

B.v. Egill Skallagrímsson RE 165. TFAC.

Nýsköpunartogarinn Egill Skallagrímsson RE 165 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1947 fyrir hf. Kveldúlf í Reykjavík. 654 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 18 júní sama ár og var sá fjórði í röðinni sem kom til landsins. Seldur í desember 1970, Jóni Hafdal og Haraldi Jónssyni í Hafnarfirði, sama nafn og númer. Nafnabreyting varð á skipinu snemma árs 1972, hét þá Hamranes GK 21. Flestum er nú kunn örlög þessa skips og oft var talað um "Helför" Egils Skallagrímssonar og málaferlin sem fylgdu í kjölfarið vegna þessa skipstapa, en þau verða tekin fyrir síðar.

Bátapallur var smíðaður á Egil einhvern tímann eftir 1950 og var það aðallega gert vegna síldveiða skipsins. Einnig var settur bátapallur á svipuðum tíma á þrjá aðra nýsköpunartogara en þeir voru, Elliði SI 1, Ísborg ÍS 250 og Surprise GK 4.


Nýsköpunartogarinn Egill Skallagrímsson RE 165.                                           (C) Gísli Bjarnason.

  "Egill Skallagrímsson" kom í gær

Fjórði nýsköpunartogarinn sem byggður er í Bretlandi sigldi fánum skreyttur inn á ytri höfn milli klukkan sex og sjö í gærkveldi. Þessi togari heitir Egill Skallagrímsson RE 165 og er eign h.f. Kveldúlfur. Egill Skallagrímsson er byggður eftir sömu teikningu og hinir fyrri nýsköpunartogarar sem komnir eru. Innrjetting skipsins er þó nokkuð öðruvísi en hinna togaranna m. a. er neðri lúkarinn þrefaldur í stað þess að vera einfaldur. Hvílur eru fyrir 42 skipverja. Egill Skallagrímsson lagði af stað frá Hull s. l. laugardag en kom við í Shields til þess að taka olíu, en þaðan var hann 84 klst. til Reykjavíkur. Skipstjóri á Agli Skallagrímssyni verður hinn þjóðkunni sjósóknarmaður Kolbeinn Sigurðsson. Hann hefir verið skipstjóri á Kveldúlfstogaranum Þórólfur frá því að fjelagið keypti skipið. Fyrsti stýrimaður verður Eyjólfur Ólafsson og fyrsti vjelstjóri Jóhann Jónsson.

Morgunblaðið. 19 júní 1947.


Egill Skallagrímsson RE 165 nýsmíðaður á Humberfljóti.              (C) Cochrane & Sons Ltd í Selby.

           Giftusamleg björgun

Föstudaginn 21. janúar s.l. strandaði vélskipið Gunnvör frá Siglufirði á Kögrinum vestra. Var það um kl. 18 að kvöldi. Heyrði loftskeytastöðin á Ísafirði, svo og ýmsir togarar á Halamiðum og þar í grennd, neyðarkall skipsins. Brátt náðist samband við b.v. Egil Skallagrímsson, sem var staddur út af Ísafjarðardjúpi, og hélt hann þegar áleiðis til strandstaðarins. Ennfremur náðist samband við brezka togarann Gregory, sem mun hafa verið staddur 7-10 sjómílur frá staðnum, og lagði hann einnig af stað til hjálpar hinu nauðstadda skipi. B.v. Hvalfell fór enn fremur á staðinn og fleiri skip voru á leiðinni þangað, þar á meðal m.b. Finnbjörn, sem staddur var á Dýrafirði, þegar fréttist um strandið, og m.b. Hafdísi frá Ísafirði bar þar einnig að. Dimmt var í veðri og þungur sjór og aðstaða öll til björgunar af sjó talin mjög erfið. B.v. Agli Skallagrímssyni tókst að finna m.s. Gunnvöru með miðunartækjum sínum og reyndist hún hafa strandað á 66° 22' n. l. og 22° 57' v. br. Á tímabili var talið að ekki mundi þýða fyrir önnur skip en þau, sem hefðu ratsjá, að fara nálægt hinu strandaða skipi, en eitthvað mun hafa rofað til, og komu brezki togarinn og b.v. Egill Skallagrímsson fyrstir á strandstaðinn. Mun það hafa verið um kl. 20. Taldi þá skipstjórinn á Gunnvöru, að fært mundi að koma björgunarbáti upp að Gunnvöru, og kvað sig hafa misst lífbát skipsins strax eftir strandið. Varð það úr, að lífbátur var sendur frá b.v. Agli Skallagrímssyni, undir stjórn stýrimanns, útbúinn með línubyssu o. fl. tækjum.
Báturinn lagði frá Agli laust fyrir kl. 21 og eftir tæpan hálftíma tilkynnti skipstjórinn á Gunnvöru, að báturinn væri kominn að hlið hennar, skipsmenn væru að fara í hann, og hann væri að yfirgefa talstöðina. Um kl. 22 var svo björguninni að fullu lokið og áhöfn Gunnvarar, 7 menn, komnir um borð í Egil heilu og höldnu.
Á leið bátsins milli skipanna, aðstoðuðu b.v. Hvalfell og m.b. Hafdís með því að lýsa upp leiðina með ljóskösturum sínum. M.b. Hafdís var um kyrrt á staðnum fram undir morgun næsta dags, og segja skipverjar á henni, að skömmu eftir að björgunin hafði tekizt, hafi aðstaða öll versnað svo, að björgun af sjó hefði verið óhugsandi. Þykir skipshöfn b.v. Egils Skallagrímssonar hafa unnið þarna mikið afrek. Skipstjóri Egils er Kolbeinn Sigurðsson, en skipstjóri m.s. Gunnvarar í þessari ferð var Ólafur Stefánsson. Vegna þess, hversu björgun af sjó var talin tvísýn um tíma, hafði karladeild Slysavarnafélagsins á Ísafirði viðbúnað til að reyna björgun úr landi. Var m.b. Gunnbjörn fenginn til þess að fara þaðan með sveit sjálfboðaliða og björgunartæki. Átti sveit þessi að ganga á land í Fljótavík og freista að komast með björgunartækin á strandstaðinn. Strandstaðurinn var fyrst talinn vera austan til við Kögur, en reyndist vera vestan til við hann, eða inni á sjálfri Fljótavík. M.s. Gunnvör hafði ætlað að stunda vetrarsíldveiðar syðra, en var nú á leið til Siglufjarðar. Hún hafði innanborðs 2 nýjar vetrarsíldarnætur, að verðmæti um 130 þús. kr., og krossvið fyrir um 10 þús. kr. Þessum verðmætum var reynt að bjarga úr skipinu, en tókst ekki vegna óhagstæðrar veðráttu. Skipið er ónýtt.

Sjómannablaðið Víkingur. 3 tbl. 1 mars 1949.


B.v. Egill Skallagrímsson RE 165 á veiðislóð.                                   (C) Sigurgeir B Halldórsson.


B.v. Egill Skallagrímsson RE 165 við bryggju á Ísafirði.               (C) Sigurgeir B Halldórsson.


B.v. Egill Skallagrímsson RE 165 í erlendri höfn, sennilega Grimsby.              Mynd úr safni mínu.

         Togarinn Egill Skallagrímsson
              seldur til Hafnarfjarðar
 

  Útgerðarmenn Haukaness kaupa togarann

Tveir útgerðarmenn í Hafnarfirði, þeir Haraldur Jónsson og Jón Hafdal, hafa fest kaup á togaranum Agli Skallagrímssyni, sem nýlega var auglýstur til sölu, en seljandi er skilanefnd Kveldúlfs hf. Hinir hafnfirzku kaupendur hafa gert út togarann Haukanes og vélskipið Margréti. Verður Egill Skallagrímsson nú gerður út frá Hafnarfirði og fer á veiðar í dag eða á morgun. Togarinn Egill Skallagrímsson er 23 ára gamalt skip og hefur hann jafnan verið gerður út frá Reykjavík. Hann er einn af nýsköpunartogurunum gömlu, systurskip Ingólfs Arnarsonar, sem Bæjarútgerð Reykjavíkur gerir út. Skipstjóri á Agli Skallagrímssyni verður Þorsteinn Auðunsson, sem undanfarið hefur verið með vélskipið Margréti.

Morgunblaðið. 18 desember 1970.

Flettingar í dag: 685
Gestir í dag: 103
Flettingar í gær: 898
Gestir í gær: 185
Samtals flettingar: 754335
Samtals gestir: 57923
Tölur uppfærðar: 18.5.2024 15:29:41